11. mars 2005 | Tónlist | 437 orð | 1 mynd

Fjöllista-flamengó

Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is

Uppákomur Von Magnet þykja mikið sjónarspil.
Uppákomur Von Magnet þykja mikið sjónarspil.
Það er erfitt að skilgreina listahópinn Von Magnet, sem leiddur er af Phil Von (Philippe Fontez ), en hópurinn treður upp á NASA á morgun.
Það er erfitt að skilgreina listahópinn Von Magnet, sem leiddur er af Phil Von (Philippe Fontez ), en hópurinn treður upp á NASA á morgun. Einhvers konar gotnesk-industrial-sirkus-raftónlistar-dans-flamengó-vídeólist hefur verið stunduð í hópnum í tuttugu ár, plöturnar eru orðnar tíu og sýningarnar yfir 400. Hópurinn nýtur "költ"-stöðu víða um heim, eins og fram kom í spjalli við nefndan Von, en hópurinn var stofnsettur í London árið 1985 og varð þegar virkur í menningarlífi borgarinnar. Frá upphafi var lagt upp með sérstæðan samslátt raftónlistar og flamengótónlistar en fyrstu plötu hópsins, El Sexo Sur-Realista sem út kom 1987, upptökustýrði Ken Thomas, sem unnið hefur með Sigur Rós, Wire, Sykurmolunum, 23 Skidoo og Psychic TV.

Von segir frá því að söngkona sveitarinnar, Flore Magnet, hafi verið nýkomin frá Spánarhéraðinu Andalúsíu þegar hópurinn var stofnsettur og hafi hún komið með flamengoáhersluna inn í samstarfið. Á sama tíma var hann sjálfur að læra flamengódansinn. Tónlistarlegi áhuginn lá hins vegar í tölvutónlist á borð við það sem Kraftwerk var að gera en einnig industrial-tónlist að hætti Front 242 og fleiri sveita.

"Þetta hljómar auðvitað skringilega," segir Von. "Þetta er blanda af jaðarleikhúsi, flamengó og raftónlist og við höfum alla tíð notið hylli ólíkra hópa, höfum verið aufúsugestir hjá leikhúsfólki og tónlistaráhugafólki t.d. Þetta byrjaði einfaldlega sem samstarf á milli vina, okkur langaði til að gera eitthvað saman og því hrærðum við þessum ólíku áhrifum saman."

Von segir að það hafi jafnan verið erfitt að finna Von Magnet farveg, þau hafi alltaf verið á milli þilja einhvern veginn. Sýningarferðalög eru þó regluleg og segir Von að þau sjái algerlega um allt sjálf.

"Það hafa komið aðilar að máli við okkur í gegnum tíðina og lagt að okkur að verða markaðsvænni. En allar tilraunir okkar til þess hafa misfarist gjörsamlega! Það hefur kennt okkur að það borgar sig alltaf á endanum að fylgja eigin sannfæringu."

Von lýsir inntaki sýninganna sem frekar dramatísku, það sé ákveðið myrkur og ákveðin sorg sem liggi undir öllu sem þau gera.

"Þess vegna hafa "gothic"-áhugamenn alltaf verið mjög hrifnir af okkur. En við tengjumst þeim geira samt ekki neitt, ekki frekar en öðrum."

Von Magnet-hópurinn verður skipaður fimm manns í þessari Íslandsför en hingað koma Phil Von (dans, trommur, tölvur, rödd), Flore Magnet (söngvar, vídeó, sviðslist, leiklist), Yana Maizel (dans), Sabine Van Den Oever (flamengógítar) og Nikho Def (hljóð). Tilgangur fararinnar er m.a. að kynna tíundu plötu hópsins, De l'aimant, og segir Von að þau sem hópinn skipa ætli að reyna eitthvað glænýtt í þessari fyrstu heimsókn sinni til Íslands.

Von Magnet kemur fram á NASA klukkan 17.00 og er aðgangur ókeypis. Ítarlegri upplýsingar má nálgast á www.vonmag.net og af.ismennt.is.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.