Dr. Ulf Stridbeck
Dr. Ulf Stridbeck
Dr. Ulf Stridbeck prófessor fjallar um reglurnar um kaup á kynlífi: "Hlutverk nefndarinnar var að kanna reynsluna af sænsku lögunum um kaup á kynlífsþjónustu og benda á kosti og galla þeirra reglna sem gilda um vændi í Svíþjóð."

Í DESEMBER síðastliðnum tók norska ríkisstjórnin þá ákvörðun að ekki verði sett lagaákvæði um refsingu fyrir kaup á kynlífi í Noregi. Svíar eru eina þjóðin í heiminum sem refsar aðeins kaupendum kynlífs og nú er ljóst, að sænska leiðin nær ekki fram að ganga í Noregi. Norrænu dóminóáhrifin láta á sér standa. Því verður áhugavert að fylgjast með framvindu mála á Íslandi.

Ákvörðun norsku ríkisstjórnarinnar byggist á skýrslu nefndar sem kannaði lagareglur um kaup á kynlífsþjónustu í Svíþjóð og Hollandi. ("Sexkjøp i Sverige og Nederland", JD Rapport 2004 - www.jd.dep.no. Skýrslan er einnig til á ensku, "Purchasing Sexual Services in Sweden and the Netherlands".) Hlutverk nefndarinnar var að kanna reynsluna af sænsku lögunum um kaup á kynlífsþjónustu og benda á kosti og galla þeirra reglna sem gilda um vændi í Svíþjóð.

Við vitum ýmislegt um nauðarvændi á götunum, en eiginlega ekkert um hið dulda innanhússvændi eða eins og sænsk félagsmálayfirvöld segja: "Því fínna sem vændið er, því minna er um það vitað." Það hefur því ekki verið auðvelt að sýna fram á áhrif laganna um kaup á kynlífi á allan vændismarkaðinn. Hvorki félagsmálayfirvöld í Svíþjóð né starfshópur um vændi á vegum sænsku lögreglunnar hefur beint sjónum að innanhússmarkaðinum. Því er ekki vitað hve margir starfa á þeim markaði.

Það kemur skýrt fram í þeim upplýsingum sem við höfum að óttinn við ofbeldi á götum úti hefur aukist. Það er raunar mjög rökrétt að lögin um kaup á kynlífi hafi almenn varnaðaráhrif á venjulega, "fínni" viðskiptavini. Þeir vilja ekki láta standa sig að verki. Þeir sem verða eftir á götunum eru því "ófínni" viðskiptavinir. Rannsókn okkar sýnir einnig að kröfur um óvarið kynlíf hafa aukist, meiri hætta er á kynsjúkdómum, melludólgum sem ekki kemst upp um hefur fjölgað og eftirlit félagsmála- og heilbrigðisyfirvalda er vandkvæðum bundið. Sænska leiðin er því ekki rétta leiðin til þess að bæta aðstæður þeirra sem stunda götuvændi.

Hvað með mansal? Eftir að lögin um kaup á kynlífi voru sett fær lögregla ekki kærur eða vitnisburði um nauðung og mansal frá kaupendum kynlífs. Haft er eftir sænska ríkislögreglustjóranum, að eftir áramótin 1998/1999 hafi verið erfitt að fá viðskiptavini vændiskvenna til að bera vitni um hugsanlega melludólga eða aðra skipuleggjendur. Ástæða þess getur verið hræðsla við að vera kærður fyrir brot gegn lögunum um kaup á kynlífi. Í þessu samhengi verka sænsku lögin gegn því markmiði að berjast gegn mansali.

Eitt atriði sem flækir opin skoðanaskipti við fylgjendur sænsku leiðarinnar er breytt málnotkun þeirra í umræðu um kaup á kynlífi. Í fyrsta lagi er farið að nota hugtakið "verslun með kynlíf" í staðinn fyrir "kaup á kynlífi". Verslun með kynlíf þýðir venjulega verslun með konur og börn til að stunda vændi eða í öðrum kynferðislegum tilgangi, þ.e. mansal. Þegar Svíar tala um verslun með kynlíf eiga þeir við götuvændi.

Í öðru lagi er farið að nota hugtakið "ofbeldi" í annarri merkingu en þeirri sem telst til almennrar málvenju og hefðbundinnar lögfræðilegrar merkingar. Þegar fullorðnir menn og konur stunda kynlíf af fúsum og frjálsum vilja gegn greiðslu eða án hennar er mjög undarlegt að tala um að það sé ofbeldi af hálfu karlmanna.

Í þriðja lagi er litið á vændi sem nauðung en líklega eru margar ástæður fyrir því að fólk stundar vændi. Bandarískur prófessor í lögum og siðfræði, Martha Nussbaum, færir rök fyrir því að konur sem selja kynlíf vegna fjárskorts upplifi án efa brot á sjálfsákvörðunarrétti sínum, en að fátækt sem slík takmarki mjög möguleika kvenna til að stjórna eigin lífi. Þess vegna telur Nussbaum að við verðum að virða og viðurkenna val þeirra. Niðurstaða Nussbaum er sú að það sé hin félagslega og menningarlega stimplun af vændinu sem veldur alvarlegustum skaða fyrir einstaklingana á vændismarkaðinum.

Í sænskri rannsókn hefur verið sýnt fram á að 81% almennings er jákvætt gagnvart lögunum. Sem táknræn löggjöf hafa lögin um kaup á kynlífi ásamt viðhorfsherferðum líklega haft einhver áhrif. En þessi táknræna pólitík og mikill skortur á framtíðarsýn hefur því miður sínar neikvæðu hliðar og fyrir það gjalda vændiskonurnar.

Norska ríkisstjórnin ákvað í desember 2004 að kaup á kynlífsþjónustu skuli ekki vera refsiverð umfram það sem þegar leiðir af gildandi lögum. Í Noregi er nú refsivert að kaupa kynlífsþjónustu af unglingum undir 18 ára aldri. Það er einnig ólöglegt að stuðla að því að aðrir stundi vændi og mansal er refsivert. Þá er í gildi aðgerðaáætlun gegn mansali með konur og börn. Nokkuð sem ekki er til í Svíþjóð. Niðurstaða norska dómsmálaráðherrans, Dørum, var eftirfarandi: Það verður að koma í veg fyrir að konur séu til sölu, en við leysum ekki félagsleg vandamál með refsingum heldur félagslegum úrræðum.

Hvaða áhrif munu norska skýrslan og ákvörðun norsku ríkisstjórnarinnar hafa á afstöðu Íslendinga til þessa máls?

Dr. Ulf Stridbeck prófessor fjallar um reglurnar um kaup á kynlífi