Bjarni Össurarson
Bjarni Össurarson
Bjarni Össurarson fjallar um vímuefnadeild Landspítalans: "Þessi flutningur gerbreytir allri aðstöðu og opnar um leið möguleika á að bæta þá þjónustu sem í boði er."

TEIGUR, dagdeild vímuefnameðferðar við Landspítalann, flytur í dag í nýuppgert húsnæði í geðdeildarbyggingunni við Hringbraut. Þessi flutningur gerbreytir allri aðstöðu og opnar um leið möguleika á að bæta þá þjónustu sem í boði er.

Meðferð fíkniefnavandamála á Landspítala

Margar ástæður eru fyrir því að öflug vímuefnadeild er rekin á geðdeild Landspítalans. Misnotkun áfengis og annarra vímuefna heyra undir geðlæknisfræði og flokkast undir geðraskanir samkvæmt alþjóðlegum greiningarkerfum. Eins og í öðrum geðröskunum virðast ákveðnir erfðafræðilegir, sálrænir og félagslegir þættir auka áhættu á fíkniröskunum. Fólk sem er fast í vítahring fíknar er oft mjög illa haldið, bæði andlega og líkamlega. Meðferð eins og lyfjagjöf, hjúkrun og sálfræðimeðferð er sérhæfð og aðeins á færi heilbrigðisstétta. Að lokum hefur lengi verið ljóst að mikil skörun er á milli fíknivandamála og annarra geðraskana. Bæði eykur fíknivandi líkur á geðröskunum eins og þunglyndi og kvíða en einnig getur neysla hafist eða aukist vegna geðrænna einkenna. Almenna reglan er sú að fyrst verði að ná tökum á neysluvanda áður en hægt er að vinna bug á öðrum geðrænum vandamálum.

Á vímuefnadeildinni hafa verið starfræktar þrjár einingar, göngudeild (32E), sérhæfð geðdeild til innlagna (33A) og dagmeðferðardeild (Teigur). Á þessum deildum vinna læknar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar, ráðgjafar og annað starfsfólk. Starfsfólk vímuefnadeildar leitast við að stuðla að bættu heilbrigði og líðan þeirra sem eiga við fíknivanda að stríða og hefur sérstökum skyldum að gegna gagnvart fólki sem greinst hefur með aðrar geðraskanir samfara fíknivandamálum.

Breyttar áherslur í meðferð

Talsverðar breytingar hafa átt sér stað á hópmeðferð við vímuefnadeildina undanfarið og er nú kjarni hennar á sálfræðilegum grunni. Annars vegar er notuð s.k. áhugahvetjandi viðtalstækni ("Motivational interviewing") þar sem einstaklingnum er hjálpað að skilgreina og meta eigin vanda og stöðu. Hins vegar er notuð s.k. hugræn atferlismeðferð ("Cognitive behavioural therapy") sem er sálfræðileg nálgun sem hefur verið í örum vexti og útbreiðslu síðasta aldarfjórðunginn. Hugræn atferlismeðferð byggist á því grundvallaratriði að hugsun okkar hefur mikil áhrif hvernig okkur líður og hvernig við hegðum okkur.

Þessi nálgun við meðferð vímuefnavanda er ný á Íslandi. Á bak við aðferðirnar liggja fjöldi jákvæðra árangursrannsókna og eru þær á engan hátt í hugmyndafræðilegri andstöðu við önnur meðferðarúrræði sem í boði eru. Aðferðirnar hafa reynst vel í meðferð hjá fólki með alvarlegar geðraskanir samfara fíknivanda eins og geðklofa. Að lokum skal getið að undanfarið hefur verið boðið upp á hugræna atferlismeðferð vegna þunglyndis og kvíðaraskana á ferli- og bráðadeild geðsviðs. Þessi meðferðarúrræði geta einnig nýst þeim sjúklingum vímuefnadeildanna sem glíma við þunglyndi eða kvíða og er mikill kostur að nálgast vandamálin á sama eða svipaðan hátt.

Breytt starfsfyrirkomulag

Samhljóða stefnu Landspítalans er stefnt að eflingu göngu- og dagdeildarstarfsemi á vímuefnadeild. Flutningur Teigs í geðdeildarbygginguna gerir mögulegan aukinn samrekstur þessara deilda og um leið opnast möguleikar á samnýtingu meðferðarúrræða og aukinni einstaklingsmiðun í meðferð. Það hefur sýnt sig að fólk í neysluvanda, rétt eins og annað fólk, er hvert öðru ólíkt og vandi og þarfir einstaklingsbundnar. Því er mikilvægt að geta boðið upp á breiða meðferðarnálgun þar sem val á meðferð fer eftir mati meðferðaraðila og óskum sjúklings.

Hér eftir sem áður mun greining og ýmiss meðferð eins og afeitrun, lyfjaeftirlit og stuðningshópmeðferð fara fram á göngudeildinni. Dagdeildin Teigur verður svo nokkurs konar meðferðarmiðstöð þar sem sjúklingar geta sótt mismunandi meðferðarúrræði eftir þörfum (hugræna atferlismeðferð, fræðslu, kynjaskipta hópa eða þematengda ráðgjafahópa).

Móttakan

Á vímuefnadeild Landspítalans vinnur fær hópur starfsfólks. Framundan eru spennandi tímar og um leið og ég óska starfsfólki og sjúklingum vímuefnadeildar til hamingju með nýju aðstöðuna, minni ég á að þeir sem telja sig eiga við áfengis- eða vímuefnavanda að stríða geta leitað á göngudeildina okkar sem er opin fyrir hádegi alla virka daga.

Bjarni Össurarson fjallar um vímuefnadeild Landspítalans