Aslan Maskhadov. Ekki trúa allir opinberu sögunni um dauða hans.
Aslan Maskhadov. Ekki trúa allir opinberu sögunni um dauða hans.
RÚSSNESKA stjórnin skýrði frá því í gær, að það fé, sem sett hefði verið til höfuðs Aslan Maskhadov, leiðtoga tétsenskra skæruliða, um 600 millj. ísl. kr., hefði gert henni kleift að finna hann og drepa.

RÚSSNESKA stjórnin skýrði frá því í gær, að það fé, sem sett hefði verið til höfuðs Aslan Maskhadov, leiðtoga tétsenskra skæruliða, um 600 millj. ísl. kr., hefði gert henni kleift að finna hann og drepa.

"Eftir að þessum verðlaunum var heitið í september á síðasta hausti höfðu óbreyttir borgarar samband við okkur og gáfu okkur nauðsynlegar upplýsingar," sagði talsmaður rússnesku leyniþjónustunnar. "Þetta fólk fékk féð greitt."

Maskhadov, sem var löglega kjörinn forseti Tétsníu, var felldur 8. þessa mánaðar í bænum Tolstoi-Yurt, nokkuð fyrir norðan Grozní.

Talsmaðurinn gaf í skyn, að þeir, sem hefðu sagt til Maskhadovs, væru íbúar á þessum slóðum. Þar er mikið um fjandskap milli ætta og fjölskyldna þótt tilefni hans sé jafnvel margra alda gamalt.

Maskhadov var eini frammámaður skæruliða, sem vildi ljúka Tétsníu-deilunni með samningum, og neitaði harðlega að hafa komið nálægt hryðjuverkinu í skólanum í Beslan og í leikhúsi í Moskvu. Þeir eru líka ófáir, sem efast um frásögn rússneskra yfirvalda af dauða hans.

Banvænt byrgi?

Moskvublaðið Moskovskí Komsomolets sagði til dæmis í gær, að útilokað væri, að Maskhadov hefði hafst við í byrginu, þar sem hann á að hafa fallið, í fjóra mánuði. Því er þó haldið fram en fréttamaður blaðsins, sem skoðaði byrgið, segir, að í því hafi ekki verið nein loftræsting og bani búinn hverjum sem þar hefði dvalist í stutta stund. Rússar hafa nú sprengt byrgið í loft upp.

Í Rússlandi, þar sem alls kyns hviksögur eru á kreiki, halda sumir því fram, að Maskhadov hafi verið drepinn vegna þess, að hann hafði hert á kröfum sínum um samningaviðræður. Rússar hafi verið búnir að stimpla hann "hryðjuverkamann" og vilji sigur án nokkurra samninga.

Moskvu. AFP.

Moskvu. AFP.