Vala Ásgeirsdóttir Thoroddsen fæddist í Laufási í Reykjavík 8. júní 1921. Hún lést á Landspítala - háskólasjúkrahúsi í Fossvogi 15. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Ásgeir Ásgeirsson forseti Íslands, f. 13. maí 1894, d. 15. september 1972 og kona hans Dóra Þórhallsdóttir, f. 23. febrúar 1893, d. 10. september 1964. Systkini Völu eru Þórhallur, f. 1. janúar 1919 og Björg, f. 22. febrúar 1925, d. 7. ágúst 1996.

Vala giftist 4. apríl 1941 Gunnari Thoroddsen, prófessor, alþingismanni, borgarstjóra, hæstaréttardómara og ráðherra, f. 29. desember 1910, d. 25. september 1983. Börn þeirra eru: 1) Ásgeir, f. 1942, kvæntur Sigríði Halldóru Svanbjörnsdóttur, þau eiga fjögur börn: a) Svanbjörn, kvæntur Gunnhildi Sveinsdóttur, synir þeirra eru Ásgeir Skorri og Tryggvi, b) Gunnar, kvæntur Auði Stefánsdóttur, börn þeirra eru Gunnar Ágúst, Hildur Vala og Arna, c) Ásgeir, kvæntur Þórdísi Þorsteinsdóttur, börn þeirra eru Tómas Jökull og Ingibjörg, og d) Fríða. 2) Sigurður, f. 1944, kvæntur Sigríði Karlsdóttur, börn þeirra eru: a) Karl, kvæntur Kristínu Völu Erlendsdóttur, börn þeirra eru Kristín Ósk og Gunnar Karl, b) Vala, gift Skúla Bruce Barker, börn þeirra eru Daníel Sigurður, Sigríður Ruth og Hanna Rakel, og c) Gunnar. 3) Dóra, f. 1948, dóttir hennar er Vala Jóhannesdóttir, gift Guðjóni Svanssyni, synir þeirra eru Viktor Gauti, Arnór og Patrekur Orri. 4) María Kristín, f. 1954, gift Guðmundi B. Hólmsteinssyni, börn þeirra eru Gunnar Hólmsteinn og Þorgerður Vala.

Útför Völu fer fram frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Mig langar til að minnast ömmu minnar, sem ég á svo margt að þakka. Ég er skírð í höfuðið á henni og hún hefur verið mjög stór hluti af mínu lífi. Mun stærri en ég í raun hef gert mér grein fyrir hingað til, en þannig er það víst oft. Umhyggjan sem hún bar fyrir mér var svo einlæg og það var henni svo eðlilegt að láta mér líða eins og ég væri mikilvægasta manneskjan í öllum heiminum. Hún hafði áhuga á öllu sem ég sagði frá og hún gaf sér alltaf tíma til að hlusta. Það var líka einn af hennar mörgu sérstöku hæfileikum, að hún gat talað við hvern sem var. Hvort sem viðmælandinn var ráðherra, fiskvinnslukona, hæstaréttardómari, sjómaður laskaður eftir slagsmál, bréfberi blautur eftir storm eða afgreiðslufólkið í búðinni, hún bar ætíð virðingu fyrir viðmælandanum og sýndi að hún hafði áhuga á manneskjunni á bak við.

Ég, Gaui og guttarnir mínir, langömmubörnin hennar, grátum hana, en brosum í gegnum tárin vegna óteljandi og yndislegra minninga. Eins og þegar Viktor Gauti 7 ára ákvað allt í einu að athuga hversu þung langamma væri, greip bara utan um hana og upp þaut auðvitað þessi granna, glæsilega kona og mörgum hefði brugðið allhressilega. Amma Vala fór bara að hlæja, sagði svo rólega: Almáttugur ... jæja, láttu ömmu nú niður. Hún var ótrúleg, gaf okkur svo mikið og við erum þakklát fyrir það. Hún var algerlega einstök.

Vala.

Ég hef augu mín til fjallanna:

Hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni,

skapara himins og jarðar.

(Sálmur 121.)

Við þökkum Guði fyrir allar stundirnar sem amma var með okkur. Hún var nálæg öll okkar uppvaxtarár og börn okkar fengu að kynnast yndislegri langömmu.

Við eigum ótal minningar og allar góðar um ömmu Völu. Við vorum litlir angar í bústað ömmu og afa á Þingvöllum, lékum okkur í skóginum, busluðum í fjörunni og komum blaut og þreytt inn til þeirra, sem umvöfðu okkur kærleika og hlýju. Það var aldrei neinn hávaði eða vesen hjá ömmu og afa þótt við hefðum eflaust oft gefið fulla ástæða til.

Amma Vala naut þess að vera í návist ættingja sinna, því fleiri sem í kringum hana voru, því betra. Hún lagði alltaf ríka áherslu á mikilvægi þess að eiga sterk og góð fjölskyldubönd, það væri eitt það mikilvægasta í lífinu. Í hjörð afkomenda sinna leið henni vel, og minningar okkar um ömmu Völu hlæjandi, umkringda skríkjandi og hoppandi langömmubörnum sínum, munu alltaf fylgja okkur.

Að heimsækja ömmu hvort sem var í Efstaleiti eða á Víðimel var fyrir okkur barnabörnin eins og ferðast inn í ævintýraheim. Þar var alltaf stærra jólatré en annarstaðar, með nammi á greinunum. Þar voru bækur og plötur allstaðar að úr heiminum og myndir af mönnum sem stóðu við hliðina á ömmu og afa með skrítna hatta og fullt af heiðursmerkjum. Fyrir litla krakka var þetta eins og að ferðast til framandi landa, og ef lítil augu horfðu of lengi á stóra litríka bók eða litlar hendur leituðu að sælgætismolum í einhverjum skrautvasanum þá brást ekki að amma Vala stóð fyrir aftan og sagði brosandi: "Taktu þetta bara með þér heim".

Nú mun amma ekki lengur koma á móti okkur í ganginum í Efstaleiti hlý og brosandi og bíðandi eftir að við segðum henni hvernig við hefðum það og hvernig allt umstangið gengi. En við viljum bara þakka fyrir öll þau ár sem hún var með okkur.

Karl, Vala og Gunnar.

Elsku amma mín, elsku vinkona mín.

Sárt er að kveðja þig og sárt er að sakna þín. Að fara í heimsókn til þín var alltaf svo yndislegt, þá fengum við okkur kaffi og ræddum um allt og ekkert. Í þinni návist ríkti einlægni og friður og þurfti ekkert að fela fyrir þér sem var svo gott fyrir sálina. Ég ber bjölluna sem þú gafst mér, hún er lukkunæla þegar lífið verður flókið. Núna, ef hún týnist get ég bara beðið þig um að standa við hlið mér. Það sem þú gafst mér mun lifa að eilífu í hjarta mínu og minningin um þig veitir mér styrk. Þú verður alltaf í mínum huga eina konan fyrr og síðar sem gast stöðvað tímann.

Takk fyrir allt, elsku þú.

Fríða Thoroddsen.

Í dag kveðjum við yndislega móðursystur okkar Völu Ásgeirsdóttur Thoroddsen. Vala frænka var ein af styrku stoðunum í æsku okkar, vinur og hjálparhella alla tíð, sönn ættmóðir.

Vala var einstaklega falleg og glæsileg kona. Allt til hinsta dags hélt hún reisn sinni. Hún var einnig ákaflega góð og skemmtileg manneskja með geislandi persónutöfra. Við reyndum styrk hennar oft og ekki síst í veikindum og síðar við andlát mömmu okkar Bjargar. Við erum Völu frænku ákaflega þakklát fyrir allan þann stuðning og hjálp sem hún veitti okkur og fjölskyldunni á þeim erfiðu tímum.

Börn afa Ásgeirs og ömmu Dóru voru þrjú. Þórhallur, Vala og Björg mamma okkar sem lést árið 1996. Þórhallur lifir báðar systur sínar. Þau systkinin ólust upp á kærleiksheimili í Laufási við Laufásveg. Uppeldið sem þau systkinin nutu einkenndi þau alla tíð. Einn sterkasti þátturinn, hin mikla samheldni þeirra, hefur verið okkur afkomendum þeirra styrkur og góð fyrirmynd. Við vorum alltaf velkomin bæði til lengri og skemmri dvalar á heimili Völu og Gunnars, Þórhalls og Lillýar.

Hvert tilefni sem gafst var nýtt til að kalla fjölskylduna saman og minnumst við sérstaklega fjörugra og fjölmennra gamlárskvölda heima hjá Völu og Gunnari. Jólaboðin þar sem fjölskyldan fór í leiki og gæddi sér á fallega fram bornum kræsingum Völu við ljúft píanóspil Gunnars eru minningar greyptar í gull. Þeim þótti vænt um sitt fólk og sýndu það á svo margan hátt.

Vala og Gunnar voru einstaklega samhent hjón og var missir hennar mikill þegar hann dó. Eftir lát Gunnars flutti Vala í sama hús og foreldrar okkar í Efstaleiti. Vala og mamma voru ekki bara systur heldur einnig miklar vinkonur. Þær stóðu þétt saman og við hlið eiginmanna sinna í störfum þeirra auk þess að vera sífellt vakandi yfir velferð barna, tengdabarna og síðar barnabarna sinna. Þessi umhyggja náði til alls ættbogans og fjölmargra annarra.

Faðir okkar Páll Ásgeir Tryggvason og við systkinin sendum Ásgeiri, Sigurði, Dóru, Maríu Kristínu og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin um góða, glæsilega og fágaða frænku okkar Völu lifir.

Dóra, Tryggvi, Herdís,

Ásgeir, Sólveig og fjölskyldur.

Elskuleg föðursystir okkar Vala er látin. Eftir skilur hún hjá okkur, "krökkunum á Einimel" og fjölskyldum okkar, hlýjar og góðar minningar.

Samverustundirnar voru margar og ánægjulegar hjá Völu og Gunnari, allt frá gamlárskvöldum á Oddagötu, síðar Víðimel, sumardögum í bústaðnum í Barmahlíð, aðfangadagskvöldum á Bessastöðum og seinna á fjölskylduhátíðum í Breiðabliki og á öðrum góðum stundum.

Vala hlúði vel að öllu sem hún kom nærri, heimili og vinum og lagði sig fram um að viðhalda fjölskylduhefðum. Samheldni systkinanna Þórhalls, Völu og Bjargar var mikil og nutum við góðs af.

Á kveðjustund þökkum við Völu þá elsku, umhyggju og ræktarsemi sem hún sýndi fjölskyldum okkar og þá góðu fyrirmynd sem hún var.

Blessuð sé minning Völu frænku.

Sverrir, Dóra, Ragna og

Sólveig Þórhallsbörn.

Vala Ásgeirsdóttir Thoroddsen var glæsileg kona, háttvís og aðlaðandi. Þessi mynd blasti við hverjum manni sem hana leit. Hún gegndi flestum virðulegustu húsmóðurstörfum í sinni tíð, bæði við hlið forsetans, föður síns og borgarstjórans, sendiherrans og ráðherrans, eiginmanns síns. Fór henni þetta hlutverk svo úr hendi að flestum þótti sem ekki yrði betur gert. Þegar til þessa er horft í sjónhendingu mætti álykta að hún hafi jafnan verið í eftirsóknarverðri stöðu og lífið leikið við hana. Og víst var hún gæfumanneskja. En hún var ekki alltaf í logninu, í skjóli fyrir stormunum. Fjarri því. Hún stóð lengi við innsta hring íslenskra stjórnmála. Faðir hennar varð forseti við óvenjulegar aðstæður. Tveir langvaldamestu menn þjóðarinnar vildu alls ekki Ásgeir Ásgeirsson í það embætti og flokkar þeirra höfðu slíka yfirburðastöðu í þjóðfélaginu á þeirri tíð, að flestir töldu að afstaða Hermanns Jónassonar og Ólafs Thors hlyti að ráða úrslitum. Átök urðu hörð og sveið lengi í sárum, þótt leik væri lokið, ekki síst í Sjálfstæðisflokknum, þar sem sjálfur borgarstjórinn í Reykjavík, tengdasonur Ásgeirs, hafði brotið gegn boðum flokksins. Eftir þessi átök hafa stjórnmálaflokkar forðast að láta bendla sig við forsetakosningar.

Enn urðu harðar deilur og mikil særindi, þegar Gunnar Thoroddsen myndaði stjórn í landinu 1980, þá varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fór þá gegn formanni flokksins og öllum ályktunum stofnana hans. Sjálfur taldi Gunnar að allir aðrir kostir hefðu verið fullreyndir og virðing og heiður þingsins í húfi. Aldarfjórðungur er frá þessum atburðum og senn kemur að því að hægt verði að fjalla um þá af ró og yfirvegun.

Framangreindir sögumolar eru nefndir við þetta tækifæri, því þeir lýsa stóratburðum, og þeir, sem næstir stóðu Völu Thoroddsen, voru þar sem eldurinn brann heitastur. Ekki er vafi á, að þeir atburðir og átök hafi haft mikil áhrif á hana. Aldrei hallaði þó nokkur, svo ég heyrði, orði að henni, þótt hún stæði þétt með sínum. Hún naut víða aðdáunar og virðingar og náði þannig inn í raðir, sem á ýmsum tímum stóðu öðrum lokaðar. Sjálfstæðisflokkurinn er fyrir löngu orðinn alheill eftir þessi átök. Tók Gunnar sjálfur stórt skref í þá áttina er hann studdi Sjálfstæðisflokkinn af heilindum og afli við borgarstjórnarkosningarnar 1982, en kjördaginn þann stóðum við Ástríður drjúga stund með þeim Völu í Melaskólaportinu. Fann ég glöggt hvað þeim hjónum var mikið í mun að úrslitin yrðu hagfelld flokknum okkar í lok þess dags.

Þær Vala og Erna Finnsdóttir, ekkja Geirs Hallgrímssonar forsætisráðherra, komu gjarnan og fóru saman frá hátíðarsamkomum á vegum Sjálfstæðisflokksins og ég vona að þær hafi vitað, hve sú sýn gladdi gamla flokksmenn mikið.

Vala sýndi mér alla tíð mikla vinsemd og hlýju og mér þótti afar notalegt og gott að hitta hana. Fylgdist hún vel með og hafði ákveðnar skoðanir á þróun þjóðmála og framgöngu einstaka stjórnmálamanna, þótt alkunn fágun og kurteisi einkenndi alla þá umræðu af hennar hálfu.

Fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins færi ég Völu hugheilar þakkir að leiðarlokum og persónulega vil ég að fram komi, hversu mjög við Ástríður kunnum að meta Völu Thoroddsen og vináttu hennar, og gleðjumst yfir margvíslegum minningum frá samverustundum á liðnum árum.

Davíð Oddsson.

Kynni okkar Völu hófust á Túngötunni í Reykjavík sumarið 1936. Ég var í heimsókn hjá foreldrum hennar. "Segðu henni frá sundmótinu" kallaði mamma hennar, þegar ég gekk niður tröppurnar, en ég var komin frá Akureyri vegna sundmóts á Álafossi. Síðar vissi ég, að foreldrar Völu stunduðu sjálf sund.

Ég man enn, hve falleg mér þótti Vala, þegar við hittumst. Hún var með fallegt rautt hár og í mosagrænni kápu, sem hún lét flaksa í golunni.

Við urðum fljótt vinkonur og sú vinátta hélst þótt stundum hafi verið vík milli vina, eins og sagt er. Vala var greind, glaðlynd og skemmtileg. Hún talaði um það, sem henni fannst fallegt og gott og það, sem henni líkaði miður, ræddi hún ekki.

Ég hafði séð foreldra hennar, þegar ég var smástelpa vestur á Flateyri. Faðir Völu og faðir minn urðu miklir vinir ævilangt og fyrsta bókin, sem ég eignaðist, var frá honum, - sagan um Negrastrákana eftir Mugg.

Eldri bræður mínir höfðu verið í heimsókn hjá foreldrum Völu í Reykjavík og nú vildi ég fá hana til Akureyrar. Vala kom og dvaldi hjá okkur um tíma. Við nutum þess að vera saman, fórum með mjólkurbílnum inn í Eyjafjörð, stönsuðum hjá Árna frænda mínum á Þverá. Þar var okkur vel tekið, fengum hesta til að geta séð sem mest og riðum inn fjörðinn í glaða sólskini. Þetta var yndislegur dagur og við fengum að gista næstu nótt.

Oft minnti Vala mig á, hve fínir okkur þóttu svæflarnir. Þegar við fórum að hátta sáum við, að þeir voru bróderaðir og þar gaf að líta SOFÐU VEL og GÓÐA NÓTT. Aðra ferð fórum við með verslunarfólki í Mývatnssveit og lentum í mikilli rigningu. Allur hópurinn svaf í hlöðu. Á heimleið var heilsað upp á Goðafoss.

Oft minntust við Vala, okkur til skemmtunar, þegar við puntuðum okkur og fórum inn á Hótel Akureyri, settumst við borð og pöntuðum 2 glös og einn Vallas! Einn daginn vorum við beðnar að koma inn í Gróðrarstöðina á Akureyri til myndatöku. Við vorum sumarklæddar og settar undir hæsta tré garðsins.

Vala eignaðist glæsilegan mann, Gunnar Thoroddsen og enn hélst vináttan og þegar fyrstu börnin voru komin var ég í Reykjavík og stöku sinnum heima í húsinu við Tjörnina og leit eftir drengjunum.

Aldrei fékk ég fullþakkað þá vináttu og þann hlýhug, sem þau Vala og Gunnar sýndu mér, þegar móðir mín lést langt um aldur fram. Skömmu eftir andlát mömmu hringdu þau til Akureyrar og buðu mér að koma í heimsókn, ég yrði sótt á flugvöllinn. Þetta góða boð þáði ég og var hjá þeim í nokkurn tíma og kynntist þá húsbóndanum og Völu sem móður og húsmóður. Þau voru þá komin á Oddagötuna þar sem þau bjuggu glæsilega. Húsbóndinn lék stundum á píanóið fyrir okkur Völu. Þetta var ógleymanlegur tími.

Eins og allir, sem Völu þekktu, minnist ég hennar sem einnar bestu konu, sem ég hefi kynnst á langri ævi.

Blessuð sé minning hennar.

Anna Snorradóttir.

Okkur leiguliðana í kjallaranum á Víðimel 27 langar til að þakka með nokkrum orðum fyrir sambúðina nú við fráfall Völu Ásgeirsdóttur Thoroddsen. Á árabilinu 1980 - 1983 vorum við svo lánsöm að setja saman og búa okkar fyrsta búi í kjallaraíbúð í því húsi. Eigendurnir og íbúar á hæðinni fyrir ofan voru Vala og maður hennar, þáverandi forsætisráðherra Gunnar Thoroddsen. Samskipti okkar voru af eðlilegum ástæðum meiri við Völu, einkum framanaf, og er fljótt frá því að segja. Hún var einstök að mannkostum og í allri viðkynningu. Glæsileg svo af bar, hlý, hjálpsöm og vingjarnleg í öllum samskiptum.

Okkur var dvölin hjá þeim góðu hjónum Völu og Gunnari gæfurík og við minnumst þeirra beggja með þakklæti og virðingu. Ekki síst var það aðdáunarvert að verða vitni að þeirri ást og umhyggju sem Vala umvafði mann sinn í veikindunum síðasta æviárið og mánuðina. Kynnin af öðlingskonunni Völu áttu sinn þátt í því að einum og hálfum áratug síðar völdum við dóttur okkar sama fallega nafn.

Bergný Marvinsdóttir,

Steingrímur J. Sigfússon.