Nýkjörinn varaforseti EWLA, Herdís Þorgeirsdóttir, prófessor á Bifröst, segir mikilvægt að vekja konur til vitundar um rétt sinn.
Nýkjörinn varaforseti EWLA, Herdís Þorgeirsdóttir, prófessor á Bifröst, segir mikilvægt að vekja konur til vitundar um rétt sinn. — Morgunblaðið/ÞÖK
DR.

DR. HERDÍS Þorgeirsdóttir, prófessor við lagadeild Viðskiptaháskólans á Bifröst, var kjörin varaforseti Evrópusamtaka kvenlögfræðinga (European Women Lawyers' Association) á árlegu þingi samtakanna sem haldið var í höfuðstöðvum Evrópuráðsins í Strassborg í síðustu viku.

Spurð hvernig það hafi komið til að hún gaf kost á sér í þetta embætti segist Herdís hafa fengið hvatningu til þess, m.a. frá Sofiu Spiliotopoulos, fráfarandi varaforseta EWLA og lögmanns í Aþenu. "Ég hef unnið með Sofiu Spiliotopoulos í sérstökum sérfræðingahópi fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, en Spiliotopoulos er án efa einn fremsti og virtasti sérfræðingur á sviði jafnréttislöggjafar í Evrópu. Hún veit að sérsvið mitt eru mannréttindi og hafði orð á því að framtíð lögfræðinnar væri í æ ríkari mæli á því sviði og því fengur fyrir EWLA ef ég gæfi kost á mér í þetta embætti til að nýta þá þekkingu á vettvangi samtakanna. En jafnréttismál og mannréttindi verða ekki sundur skilin."

Spurð um í hverju starf hennar sem varaforseti verði fólgið segist Herdís gera ráð fyrir að eiga frumkvæði að álitum sem samtökin sendi frá sér um þróun á sviði jafnréttislöggjafar og mannréttinda. "Eitt af stærri málum á dagskrá núna er samræming fjölskyldu- og atvinnulífs í tengslum við yfirstandandi breytingar á jafnréttislöggjöf Evrópusambandsins. Á nýafstöðnu þingi EWLA í Strassborg töluðu meðal annars varaforseti Mannréttindadómstóls Evrópu og Umboðsmaður Evrópusambandsins og þar kom fram að EWLA hefur haft heilmikil áhrif með ýmsum hætti á þessa þróun. Samtökin sendu m.a. frá sér ályktun núna vegna uppkastsins að samningi Evrópuráðsins gegn mansali."

Stuðla að jafnrétti með lögum

Herdís segist aðspurð fyrst hafa komist í kynni við EWLA í tengslum við starf sitt með fyrrnefndum sérfræðingahóp. "Fyrir tveimur árum bættust sérfræðingar frá aðildarríkjum EES-samningsins inn í samstarfshóp lögfræðinga sem vinna fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Ann Numhauser-Henning, prófessor við lagadeildina í Lundi, þar sem ég var við doktorsnám, bað mig að koma í þetta samstarf," segir Herdís og bendir á að verkefni hópsins felist í því að fylgjast með framkvæmd jafnréttislöggjafar Evrópusambandsins í aðildarríkjunum og jafnvel koma að undirbúningi löggjafar með óbeinum hætti. "Á grundvelli þessa samstarfs, sem ég hef tekið virkan þátt í um nokkurt skeið, hef ég sótt fundi og ráðstefnur erlendis og þannig kynnst starfsemi EWLA og stofnanda samtakanna Elisabeth Müller."

EWLA-samtökin voru formlega stofnuð fyrir fimm árum og eru með aðsetur í Brussel. Að sögn Herdísar er höfuðmarkmið EWLA að fylgjast með og hafa áhrif á löggjöf og stefnumótun á sviði jafnréttismála. Það er gert með því að stefna saman kvenlögfræðingum innan aðildarríkjanna og efla tengsl við fagfélög þeirra og lagadeildir háskóla. "Langtímamarkmið EWLA er að mynda yfirþjóðlegan félagsskap kvenlögfræðinga og vera þrýstihópur sem stuðlar að jafnrétti með lögum. Það verður gert með starfi í vinnuhópum og með sérfræðiálitum, lobbýisma, tillögum og jafnvel uppköstum að tilskipunum Evrópusambandsins á sviði jafnréttismála og með því að ýta undir að prófmál fari fyrir Evrópudómstólinn, EFTA-dómstólinn eða Mannréttindadómstólinn í Strassborg og með því að vekja konur til vitundar um rétt sinn hvar og hverjar sem þær eru."

Vonar að íslenskir kvenlögfræðingar gerist félagar

Í framhaldinu liggur beint við að spyrja hvaða þýðingu kosning Herdísar í varaforsetasembættið hafi fyrir Ísland. Herdís bendir á að hérlendis sé starfandi Félag kvenna í lögmennsku, sem Sif Konráðsdóttir hæstaréttarlögmaður hafði forystu um að stofna fyrir rúmu ári. "Ég geri ráð fyrir að þau samtök gerist aðili að EWLA og/eða einstaklingar innan félagsins, en bæði félagasamtök og einstaklingar geta sótt um inngöngu í EWLA. Samtökin eru öllum opin sem hafa lagamenntun frá aðildarríkjum Evrópusambandsins og nú einnig aðildarríkjum EES. Laganemar geta einnig orðið félagar og greiða þá aðeins fjórðung af árgjaldinu. Ég vona að sem flestir íslenskir kvenlögfræðingar gerist félagar í EWLA, einnig þær sem standa utan Félags kvenna í lögmennsku," segir Herdís og bendir á að í EWLA séu félagar með mjög ólíkan bakgrunn. Þannig hafi sumar sérhæft sig í sifjarétti, aðrar eru lögfræðingar innan fyrirtækja og nefna má að nýkjörinn formaður er aðstoðarframkvæmdastjóri finnska verslunarráðsins.

"Þó að samtökin hafi upphaflega verið stofnuð af starfandi lögmönnum, þ.á m. Cherie Blair enda þótt hlutur Elisabeth Müller sé langstærstur í stofnun og starfi EWLA, þá eru nú innan vébanda EWLA einnig konur úr akademíu, í stjórnsýslu sem og stofnunum utan stjórnkerfis. Í nýkjörinni stjórn EWLA eru þrír prófessorar, þ.e. frá Frakklandi, Sviss og Íslandi, og það eru fleiri lagaprófessorar félagar í samtökunum," segir Herdís. Þess má að lokum geta að næsta ársþing EWLA verður haldið vorið 2006 í Búdapest.