Margrét Indriðadóttir
Margrét Indriðadóttir
MÉR vitanlega hefur aldrei fyrr verið staðið ófaglega að ráðningu fréttastjóra útvarpsins. Þegar Jón Magnússon féll skyndilega frá í ársbyrjun 1968 sóttum við Ívar Guðmundsson um starfið.
MÉR vitanlega hefur aldrei fyrr verið staðið ófaglega að ráðningu fréttastjóra útvarpsins. Þegar Jón Magnússon féll skyndilega frá í ársbyrjun 1968 sóttum við Ívar Guðmundsson um starfið. Fyrst var Ívar ráðinn og þegar hann gekk svo frá starfinu var ég ráðin. Við vorum bæði fagmenn. Hann eldri og reyndari, hafði starfað sem blaðamaður og blaðafulltrúi árum saman. Ég hafði starfað fyrst sem blaðamaður í tæp fimm ár, síðan sem fréttamaður útvarps í átján ár og var varafréttastjóri þegar Jón féll frá. Þegar ég hætti störfum um áramótin '86-'87 var þáverandi varafréttastjóri, Kári Jónasson, ráðinn fréttastjóri. Fyrir hálfu ári hætti hann í því starfi. Þá tók við Friðrik Páll Jónsson sem hafði verið varafréttastjóri í 18 ár en starfað á fréttastofunni í 28 ár. Við erum öll fagmenn.

Í mínum huga felst fagmennska í menntun, reynslu og þekkingu í tilteknu fagi.

Faðir minn kenndi mörgum iðn rafvirkja. Ungir menn komu sem sveinar til hans að læra iðn, fag, verklegt og bóklegt í nokkur ár. Svo urðu þeir meistarar, fagmenn. Faðir minn hefði aldrei ruglað saman lærisveini og meistara. Hvernig hefði hann þá getað rekið traust og virðulegt fyrirtæki áratugum saman?

Hálfu ári eftir að Kári Jónasson hætti var starf fréttastjóra auglýst. Tíu manns sækja um starfið. Sá lakasti þeirra er talinn bestur og ráðinn í starfið. Í fyrsta sinn er ráðning í starf fréttastjóra útvarps ófagleg. Ég varð því andaktug þegar ég heyrði menntamálaráðherra segja í sjónvarpi að þessi ráðning hefði verið fagleg. Við skiljum orðið ekki sama skilningi.

Þessi ráðning er fjarstæðukennd. Fyrst er lögð ærin vinna og fyrirhöfn í að meta hæfni umsækjenda. Þeir teljast allir hæfir. Svo eru sumir hæfari og fimm hæfastir. Útvarpsstjóri lætur eins og hann heyri ekki þessa niðurstöðu. Fólkið sem vann alla þessa vinnu er haft að fíflum. Tveir fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna, menntamálaráðherra og fulltrúi Framsóknarflokksins í útvarpsráði hafa keppst við að lýsa útvarpsráð úrelt, enda eru vinnubrögð þess öllum kunn. Útvarpsstjóri segir þetta ráð hins vegar marktækast af öllu.

Fréttastofan er lífakkeri útvarpsins. Atlaga Framsóknarflokksins að sjálfstæði hennar og þar með því hlutverki að flytja hlustendum faglega unnar fréttir og fréttaskýringar, ómengaðar af öllum annarlegum sjónarmiðum, ber ekki vott um mikið siðvit. Vill flokkurinn ekki stuðla að lýðræðislegum umræðum í samfélaginu? Hvernig ber að skilja að flokkurinn reynir að niðurlægja og lítilsvirða frábæra starfsmenn fréttastofunnar? Hvaðan kemur þeim sem ráða hér ferð Framsóknarflokksins vald til þess að gera slíka atlögu? Frá kjósendum? Er þetta stefna sem sómakærir framsóknarkjósendur vilja að sé mörkuð gagnvart útvarpinu? Öðruvísi mér áður brá. Það var ráðherra flokksins, Vilhjálmur Hjálmarsson, sem tók af skarið og tók fyrstu skóflustunguna að fyrsta og eina útvarpshúsi Íslendinga. Hvernig má það vera að þessi sami flokkur telji nú lakasta umsækjandann um fréttastjórastarfið fullgóðan í lýðinn? Er það stefna flokksins að hafa skuli að engu reynslu, menntun, trúmennsku og fagmennsku þegar ráðið er í ábyrgðarstöður? Er það stefna flokksins að þegar menn hafa öðlast fagmennsku með áratuga starfi séu þeir orðnir gamlir og úreltir? Skýtur það ekki skökku við þar sem flokkurinn hefur núna fengið forsætisráðherra sem vissulega og óumdeilanlega er fagmaður í pólitík með umfangsmikla reynslu, að vísu orðinn fimmtugur, en fjarri því að vera gamall eða úreltur?

Fylgdi útvarpsstjóri kannski ekki neinni stefnu þegar hann sagði að mál væri að yngja upp á fréttastofunni? Fréttastofan næði svo illa til unga fólksins. Hver skilur þetta?

Auglýst er eftir fréttastjóra, ritstjóra frétta. Síðan kemur útvarpsstjóri og segir að fréttastjóri eigi fremur að stjórna fjármálum og rekstri en fréttum. Þegar ráðinn var á sínum tíma viðbótaryfirmaður á fréttadeild, Bogi Ágústsson sem líka er fagmaður í fréttum, var það meðal annars til sjá um rekstur og fjármál, svo að fréttastjórarnir gætu einbeitt sér að sínu fréttastjórastarfi. Hvað á sölu- og markaðsstjóri að gera í stól fréttastjóra? Er verið að gera bakara að smið?

Mér vitanlega hefur útvarpsstjóri aldrei fyrr snúist opinberlega gegn starfsfólki og gert lítið úr störfum þess. Aldrei fyrr hafa 93% á um 200 manna fundi starfsmanna samþykkt vantraust á útvarpsstjóra - sem jafngildir nokkurs konar pereati. Fjarri fer því að ekki hafi heyrst bæði hósti og stuna í þessari stofnun, hún hefur ekki verið staður friðsældar, enda lifandi allan sólarhringinn. Aldrei fyrr mér vitanlega hefur hins vegar stjórnandinn, útvarpsstjórinn, staðið einn á skeri andspænis starfsfólkinu. Hver kom honum á einmanalegt skerið?

Þegar skjólstæðingur stjórnmálaflokks er ráðinn í starf fréttastjóra almannaútvarps er hann tortryggilegur í starfi í augum kjósenda annarra flokka og líka í augum okkar munaðarleysingjanna í íslenskri flokkapólitík. Það skiptir auðvitað engu máli hvort skjólstæðingurinn er flokksbundinn eður ei - hann er ráðinn í skjóli flokks. Hvernig er þá hægt að treysta því að viðkomandi standi fast á sjálfstæði og frelsi fréttastofunnar, sé ekki handbendi eða þý flokksins sem veitti honum skjólið? Er ekki sá sem er ráðinn fyrir tilstuðlan flokks óhjákvæmilega ánetjaður honum? Flokkamálgögnin dóu. Hver vill flokka-fréttastofu?

Útvarpið er merk og mikilvæg stofnun sem væntanlega lifir af í tilfallandi og tímabundnum valdastríðum. Útvarpið gegnir hlutverki sem engin önnur stofnun rækir, það er þjónustustofnun fyrir almenning, húsbændur eru hlustendur alls staðar þar sem menn geta hlustað á íslensku. Þau miklu viðbrögð og umræður sem hafa orðið um hina fjarstæðukenndu fréttastjóraráðningu hljóta að vera uppörvun fyrir starfsfólkið, sýna því að það starfar ekki í tómarúmi fyrir daufum eyrum, heldur heyrandi hlustendur.

Höfundur er fyrrverandi fréttastjóri útvarpsins.