4. apríl 2005 | Minningargreinar | 9015 orð | 1 mynd

EINAR BRAGI

Einar Bragi fæddist á Eskifirði 7. apríl 1921. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 26. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Borghildur Einarsdóttir húsmóðir, f. 28. apríl 1898, d. 26. janúar 1981, og Sigurður Jóhannsson skipstjóri, f. 23. desember 1891, d. 5. nóvember 1946. Systkini Einars Braga eru Alfons, f. 1916, Sigrún, f. 1919, og Anna, f. 1927.

Hinn 10. maí 1945 kvæntist Einar Bragi Kristínu Jónsdóttur, f. 19. janúar 1920, d. 1. nóvember 2004. Börn þeirra eru: 1) Borghildur, geðlæknir við Landspítalann, f. 24. febrúar 1946; fyrri maður hennar Viðar Strand, svæfingalæknir í Svíþjóð; skildu; dætur þeirra: a) Una, f. 19. febrúar 1971, kennari við háskólann í Durham í Englandi; sambýlismaður Paul Jeffrey, safnvörður. b) Æsa, f. 20. október 1972, bókavörður við Menntaskólann í Reykjavík; eiginmaður Jóhannes Skúlason kennari; börn þeirra: ba) Eygló, f. 4. maí 2000; bb) Bragi, f. 11. desember 2003. Seinni maður Borghildar er Rudolf Rafn Adolfsson geðhjúkrunarfræðingur; dóttir þeirra: c) Diljá, f. 28. febrúar 1988, menntaskólanemi. Stjúpbörn Borghildar af fyrra hjónabandi Rudolfs: I) Örvar, f. 25. janúar 1975, sölumaður, kvæntur Kötlu Stefánsdóttur skrifstofukonu; dóttir þeirra: Ia) Sunna Dís, f. 30. júlí 2001. II) Hildur, f. 13. ágúst 1981, háskólanemi. 2) Jón Arnarr, f. 12. febrúar 1949, húsgagna- og innanhússhönnuður á Selfossi; fyrri kona hans er Sigrún Guðmundsdóttir, lektor við Kennaraháskóla Íslands; skildu; synir þeirra: a) Orri, f. 5. nóvember 1970, ljósmyndari og tónlistarmaður; eiginkona Þórdís Valdimarsdóttir kennari; börn þeirra: aa) Eyja, f. 11. desember 1995, og ab) Kári, f. 13. desember 1997. b) Arnarr Þorri, f. 12. mars 1975, d. 2. júní 2001; dóttir hans og Svanhvítar Tryggvadóttur: ba) Salka, f. 21. júlí 1998. Dóttir Jóns Arnarr og Ingunnar Ásdísardóttur: c) Ásdís Gríma, f. 7. desember 1979, við nám í Danmörku. Seinni kona Jóns Arnarr: Elma Hrafnsdóttir, húsmóðir; dóttir þeirra: d) Kristín Birta, f. 6. júní 1982, stúdent; dóttir hennar og Sigurðar Samik Davidsen: da) Sesselja Sól, f. 19. janúar 1999.

Einar Bragi lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1944. Hann stundaði nám í bókmenntum, listasögu og leikhússögu við háskólana í Lundi og Stokkhólmi. Jafnframt ritstörfum vann Einar Bragi sem kennari á unglingastigi um árabil.

Ljóðabækur hans eru: Eitt kvöld í júní 1950; Svanur á Báru 1952; Gestaboð um nótt 1953; Regn í maí 1957; Hreintjarnir 1960; Í ljósmálinu 1970; Ljóð 1983 (úrval) og Ljós í augum dagsins 2000. Þýðingar á ljóðum hans hafa birst á mörgum tungumálum. Hann skrifaði nokkrar bækur um sagnfræðileg efni og ber þar hæst Eskju, sögurit Eskfirðinga sem út kom í fimm bindum á árunum 1971-1986.

Einar Bragi var mikilvirkur þýðandi. Má þar nefna Dittu mannsbarn eftir Martin Andersen Nexø 1948-1949; Leikrit III eftir August Strindberg 1992, Leikrit III eftir Henrik Ibsen 1995 og sex ljóðabækur eftir samísk skáld á árunum 2001-2003. Leikritin og samísku ljóðin gaf hann út á eigin vegum.

Hann stofnaði tímaritið Birting 1953 og var ábyrgðarmaður bókmennta- og listatímaritsins Birtings (yngra) 1955-1968 og ritstjóri ásamt Jóni Óskari, Herði Ágústssyni og Thor Vilhjálmssyni.

Einar Bragi gegndi fjölmörgum félags- og trúnaðarstörfum og var meðal annars í stjórn Rithöfundasambands Íslands og formaður þess 1968-1970.

Hann hlaut margs kyns viðurkenningar fyrir ritstörf sín, til dæmis þýðingarverðlaun Sænsku akademíunnar og sænsk-íslensku menningarverðlaunin.

Hann var kjörinn heiðursborgari Eskifjarðar 1986.

Útför Einars Braga verður gerð frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Það er skrýtið hvernig við mennirnir teljum okkur sífellt trú um að við höfum meiri tíma. Meiri tíma til að mennta okkur og skemmta, meiri tíma til að verða betri menn og konur, meiri tíma til að skoða heiminn en umfram allt annað teljum við okkur trú um að við fáum meiri tíma með fólkinu sem okkur er kærast. Það er þó sjaldnast raunin.

Það eru svo margar minningar sem koma í huga mér þar sem ég sit hér og reyni að koma orðum mínum á blað. Það fyrsta sem kemur þó í huga minn þegar ég hugsa til afa Braga og ömmu Stínu eru allar stundirnar sem við áttum saman í Suðurgötunni. Þar sem þú sast við skriftir á meðan amma töfraði fram eitthvað gott með kaffinu. Með aldrinum tók ég að setjast með þér við skriftirnar og hafa ófá ljóðin sprottið þar fram. Ég man að við geymdum þau undir trékettinum í hillunni þinni, á vísum stað, svo þau myndu aldrei glatast. Ég man líka að það var þrautin þyngri að fá þig til að láta þau af hendi þegar ég gerði tilkall til þeirra á unglingsaldri. Ég skildi það ekki þá, í mínum augum voru þetta bara orð á blaði. Þegar ég hélt að þessi ljóð væru mér glötuð skildi ég þó að þau eru sorg mín og gleði, ást mín og hatur, þessi orð á blaði eru fjársjóður lífs míns.

Nú þegar hjartsláttur lífsins heldur ekki lengur fyrir þér vöku, elsku afi minn, kveð ég þig. Á þann eina hátt sem ég kann, þann háttinn sem þú kenndir mér, minnug orðanna sem þú sagðir við okkur pabba þegar ég kvaddi þig í síðasta sinn.

Æskunni skaltu hlífa

við lífsins harmi,

leyf henni að

gleðjast, um sinn

Lát hana ei líta

sorg vora og þján,

snögglega þerraðu

tárvota kinn

Því hún mun síðar

fella tár af hvarmi,

leyf henni að

gleðjast, um sinn

Svo lát hana ei vita

lát hana ei sjá

hve hjarta þitt brestur

sonur minn

(Birta.)

Hve sárt er nú að kveðja, afi minn, hinsta sinn.

Þín

Birta.

Það fólk sem nær háum aldri þarf að sætta sig við það að æ fleira af samferðafólkinu hverfi af sjónarsviðinu.

Einar Bragi, mágur minn, er látinn. Við ólumst upp í sama sjávarþorpinu þar sem allir þekktust. Þar voru börnin frjáls við ýmsa leiki en byrjuðu einnig snemma að taka þátt í störfum með fullorðna fólkinu.

Við kynntumst þó ekki að neinu ráði fyrr en haustið 1944 þegar við Sigrún systir hans gengum í hjónaband. Vorið eftir giftust þau Einar Bragi og Kristín Jónsdóttir í Eskifjarðarkirkju. Óhætt er að segja að þau hafi verið einna fremst í hópi okkar bestu vina þau sextíu ár sem síðan eru liðin. Með þeim fórum við oft í ferðalög bæði innan lands og utan. Einnig gistum við oft hjá þeim fyrr á árum þegar við komum í heimsókn til Reykjavíkur. Eitt eftirminnilegasta ferðalag sem við fórum í með þeim Stínu og Braga, eins og þau voru jafnan nefnd af kunningjunum, var vorið 1981 þegar við lögðum upp akandi frá Lundi í Svíþjóð allt til nyrstu byggða í Noregi. Dvöldum við um tíma í byggðum sama þar sem Einar Bragi átti marga góðvini. Hann hafði mikinn áhuga á samískum fræðum og þýddi meðal annars ljóð eftir sama. Ferðalaginu lukum við í Finnlandi þar sem við bjuggum í stóru einbýlishúsi sem vinir þeirra hjóna buðu þeim afnot af.

Sumarið 1966 í júní komu þau Stína og Bragi í heimsókn til okkar á Eskifjörð. Eitt kvöldið að afloknu dagsverki fór Bragi með mér út á fjörðinn að draga kolanet. Veðrið var eins gott og það getur best orðið á austfirsku vorkvöldi, heiðskírt, blíðalogn og fjöllin spegluðust í sjónum. Þegar við litum til lands fórum við að hugleiða hvað margt hafði breyst frá því að við vorum börn, mörg hús horfin og atvinnuhættir ólíkir því sem áður var. Bragi spurði mig þá hvort ekki stæði til að skrá sögu Eskifjarðar. Ég sagði honum sem var að leitað hefði verið að manni til að vinna það verk en hann hefði ekki fundist ennþá. Þegar Bragi kom suður fór hann að kanna á söfnum ýmsar heimildir um sögu Eskifjarðar, sem seinna leiddi svo til þess að hreppsnefnd Eskifjarðar réð hann til að skrá söguna. Árið 1968 var kosin Byggðarsögunefnd Eskifjarðar og henni falið meðal annars að vera höfundi sögunnar til aðstoðar við að safna myndum og heimildum. Ennfremur átti hún að safna gömlum minjum og sjá um varðveislu gamalla húsa. Samstarfið við Einar Braga var alltaf einstaklega gott. Byggðarsagan átti upphaflega að verða tvö bindi en þau urðu fimm, Eskja I -V. Það fyrsta kom út 1971 en það síðasta 1986 á 200 ára verslunarafmæli Eskifjarðar. Við það tækifæri var Einar Bragi gerður að heiðursborgara Eskifjarðar. Auk Eskju skrifaði Bragi tvær bækur sem snertu sögu byggðarlagsins: Pöntunarfélag Eskifjarðar 40 ára og Af mönnum ertu kominn, sem eru bernsku- og æskuminningar hans.

Tryggð hans við æskustöðvarnar og gjafmildi hefur verið með eindæmum. Hann hefur gefið ættingjum og vinum stórgjafir við öll möguleg tækifæri. Í safni Byggðarsögunefndar eru nú fimm hundruð bækur sem að stærstum hluta eru gjafir frá Einari Braga og snerta flestar Eskifjörð og Austurland á einn og annan hátt. Þá hefur hann einnig gefið Grunnskóla Eskifjarðar safn af málverkum sem prýða veggi skólans.

Einar Bragi var mikilvirkur rithöfundur og þýðandi. Þeim þætti verða gerð skil á öðrum vettvangi.

Síðustu æviárin hafa verið þeim Stínu og Braga erfið. Þau veiktust bæði af illvígum sjúkdómum fyrir nokkrum árum. Stína var fyrst heima og annaðist Bragi hana eftir bestu getu. Undir það síðasta dvaldist hún á Sóltúni þar sem hún lést 1. nóvember síðastliðinn. Eftir það fór þróttur Braga smádvínandi uns hann dó á laugardag fyrir páska.

Að leiðarlokum viljum við Sigrún þakka þeim einlæga vináttu og góðvild á liðnum árum.

Við sendum börnum þeirra og fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur.

Hilmar Bjarnason.

Mikil eftirsjá er mér að Braga frænda mínum. Aldrei aftur á ég eftir að hlýða á hlýjan og sérkennilega raddaðan hljóm orða hans fylla andartakið mergjuðu og kraftmiklu tungutaki, hvert orð valið af nákvæmni og fagurfræði til að fylgja sem best eftir skoðunum þess sem setur réttlætiskennd sína öllu ofar og baráttuna fyrir góðum málstað, en var þó miklu tamara að tala um skáldskap og listir eða greina menn og athafnir þeirra af sálfræðilegu innsæi hins þroskaða rithöfundar og listamanns og kunni líka að meta af þekkingu og þakklæti fegurð lífs og verka, eins og aðeins sannir lífsfagurkerar gera. Bragi, nafnið eitt ljær ljóma minningu hans, hinn ágætasti maður.

Eins og einherjar Valhallar, sem fyrra nafn hans er kennt við, tók hann sérhvern slag sem þurfti sannfæringu til fylgis, og hverjar sem málalyktir urðu reis hann hugdjarfur og ósár til næstu baráttu, ef þörf var á liðsinni og málefnið mikilvægt.

Skyldu samar hafa átt í nokkrum manni annarrar þjóðar annan eins vin og jafn ötulan talsmann menningar og réttinda frumþjóðar Norðurlanda?

Slaginn við krabbameinið tók hann líka óhikað en hafði ekki þrek til að rísa af fullum krafti gegn því, og fylgir Stínu ástvinu sinni yfir í hulda heima aðeins fimm mánuðum eftir að hún kvaddi okkur.

Einar Bragi var skírður á kvenréttindadaginn 19. júní "enda alla ævi litið á það sem kjarna skírnarsáttmálans að styðja jafnrétti allra manna" eins og hann segir í endurminningum sínum. Hann var alla tíð hliðhollur baráttumálum kvenna og hvatti allar konur sér tengdar, jafnt og ótengdar, til náms og til annarra dáða. Hann er líklega sá eini sem hefur á opinberum vettvangi reynt að kveða niður hið hvimleiða öfugmælaorðtak um að konur séu konum verstar. Það þekkti hann ekki í reynd.

Allt lífsstarf Einars Braga var af þeim toga að þjóna skáldskapnum og menningunni og fræða þjóð sína um skáld og listamenn samtímans, ekki bara okkar lands og þjóðar heldur ekki síður annarra landa og þjóða. Útgáfa Birtings, hins merka menningartímarits sem ekki hefur átt sér neina sporgöngu hingað til, var að hans frumkvæði en einmitt nú um þessar mundir eru liðin 50 ár frá upphafi útgáfu Birtings hins yngra. Í samstarfi við nokkra af merkustu samtímalistamönnum þess tíma var það gefið út í 15 ár samfleytt og í því fjallað um samtímamenningu í ungu þjóðfélagi sem var á mótunarárum í menningarlegu tilliti og eins kynntir merkustu listamenn erlendir. Ef flett er í gegnum eintök Birtings birtast þar eitt af öðru nöfn allra helstu listamanna þjóðarinnar á seinni hluta 20. aldar, auk nafna fjölmargra erlendra listamanna, hvers verk voru þar þýdd á íslensku eða um þau fjallað, iðulega í fyrsta sinn hér á landi, þ.ám. Pasternak, Garcia Lorca, Neruda, Kafka og Camus. Þar má einnig líta þýðingu Braga á Draugasónötu Strindbergs, en síðar átti hann eftir að þýða fjölda leikverka hans á íslensku, og Henrik Ibsens líka, og gefa út á eigin kostnað. Árið 1957 á hann svo merkt samstarf við listamanninn Dieter Roth og er það efni í lengra mál, en sýnir kannski fyrst og fremst áræði Braga og hrifningu á því sem óvenjulegt var og frumlegt.

Einar Bragi var ekki skáld sem lagði áherslu á magn, heldur á gæði og kaus að fægja og slípa ljóð sín þar til þau skinu við augum tær og hnituð og bað hann lesendur að hirða aðeins um sína síðustu ljóðabók og reyna að týna hinum fyrri.

Seinasta ljóðabók Braga kom út árið 2000, ásamt geisladisk með upplestri hans og myndskreytingum eftir Tryggva Ólafsson. Þar hefur hann safnað saman þeim ljóðum sínum sem hann taldi að ekki ættu skilið að týnast. Í fagurblárri kápu merktri útgáfu hans Ljóðbylgju, tónar þessi síðasta ljóðabók hans við himin og haf og ber vitni um djúp tengsl hans við náttúruna og "trú á eilífð jarðargróðans, trú á lífið og fegurstu blómstur þess listina og ástina öllum guðum æðri".

Í eintaki því sem Bragi gaf móður minni af fyrstu ljóðabók sinni Eitt kvöld í júní, útg. í Stokkhólmi 1950, hefur hann handskrifað ljóð í tveimur erindum, sem ég tel að ekki hafi birst á prenti, og átti kannski að týnast samkvæmt ofansögðu, en mér þótti fengur að því að finna það. Fyrra erindið hljóðar svo:

Það er náttgalasöngur í grænum skóg,

geisli sem dansar í lygnum sjó

og brotnar í djúpsins bárum,

skýið sem hverfur í skyndi hjá

og skilur mig eftir með bundna þrá,

gripinn söknuði sárum.

Já, söknuður sár hefur gripið hjartastrenginn, það er sjónarsviptir að manni sem óhræddur fylgdi sannfæringu sinni, hvort sem var í listrænum efnum eða pólitískum, og varði málfrelsi sitt um þau málefni, jafnvel gegn hótunum um fangelsisvist. Slíkir baráttumenn eru betur til þess fallnir að verja land og þjóð en þeir sem gerast málaliðar undirlægju og ósjálfstæðis sem á að falla í geð þeim sem telja sig herra þjóða (og jafnvel annarra þjóða en sinna eigin). "Stoltur frelsisunnandi með réttlætiskennd og enginn veifiskati" voru orðin sem hann notaði til að lýsa samíska kollega sínum Nils-Aslak Valkeapää, og eiga þau ekki síður við um hann sjálfan. Hafi ég einhvern lærdóm numið af frænda mínum, er það að láta rödd réttlætiskenndar minnar aldrei þagna.

Ég votta Borghildi og Jóni Arnari, og þeirra börnum og barnabörnum, samúð mína, og eins systkinum Braga. Lengi mun lifa minning um hinn ágætasta mann og sú mikla arfleifð sem Bragi lét eftir sig í ljóðum, ritum og skrifum um ætt sína og heimabyggð, er fjársjóður sem við í fjölskyldunni eigum ávallt eftir að leita í og mun án vafa vera öðrum góður fengur líka að kasta færi í.

Blessuð sé minning þín, kæri frændi.

Harpa Björnsdóttir.

Enginn var örlátari á ljóð en Bragi frændi minn - enda var það sannfæring hans að ljóðlaus væri maðurinn sem blóðlaus. Vinum og vandamönnum barst reglulega glaðningur frá Ljóðbylgjunni hans - ef það voru ekki hans eigin ljóð þá voru þau frá skáldbræðrum og systrum af slóðum frumbyggja í vestri og austri. Síðustu árin helgaði hann sig ljóðaþýðingum úr Samalandi og náði að þýða verk allra samískra skálda sem gefið hafa út ljóðabók og má það heita afrek. Þetta var honum hugsjón og ástríða eins og flest sem hann tók sér fyrir hendur um ævina - enda sagði móðir hans og amma mín jafnan að til lítils væri að lifa ef maður ætti sér ekki hugsjón. Þær eru orðnar nokkuð margar bækurnar sem hann gaf út sjálfur og dreifði til ljóðavina - áritaðar með vináttu- og vorkveðjum. Sól er á lofti í Samalandi! skrifaði hann inn í bókina Víðernin í brjósti mér með ljóðunum hans Nils-Aslaks Valkeapää, sem kom út um þetta leyti fyrir tveimur árum. Og ljóðelska var Braga nægt endurgjald, vitneskjan um að verk hans þyrftu engan darraðardans kaupmennskunnar til að rata til sinna.

Bragi var mér alla tíð lifandi sönnun þess að víðáttur hins skapandi hugar eru óendanlegar. Í barnshuganum var skrifborðið hans á Bjarnarstígnum og gamla ritvélin mikill helgidómur - þar urðu fallegustu ljóðin hans til og þar var barist með orðum fyrir betra og réttlátara heimi. Þar voru heimsbókmenntirnar þýddar og Birtingi ritstýrt, þarna var Frjáls þjóð og Eskja og þarna háði hann líka náttúru- og minjaverndarbaráttu.

Heitar tilfinningar voru alltaf fullgild rök í tilverunni. Og við skrifborðið á Bjarnarstíg og síðar á Suðurgötu var alla tíð unnið af elju, nákvæmni og mikilli vandvirkni. Það mikla og fallega ævistarf fyllir mann þakklæti og stolti.

Fyrir nokkrum vikum sat ég hjá honum í eldhúsinu á Suðurgötunni og hann sagði mér sögur af Einari Pálssyni móðurafa sínum sem honum þótti afar vænt um.

"Ætli maður sé ekki búinn að vitleysast nóg í veröldinni," sagði víst þessi lágvaxni Öræfingur daginn áður en hann lést.

"Hann hefur líklega fundið feigðina fara að sér," sagði Bragi, "en verið keikur og kímileitur eins og jafnan þegar á móti blés." Með þessari sögu var Bragi líka að kveðja, tengja saman fortíð og nútíð og gefa mér meira í sjóð.

Ég dái runna

sem roðna undir haust

og standa réttir

þótt stormana herði

uns tími er kominn

að láta laust

lauf sitt og fella

höfuð að sverði.

(EB)

Vertu kært kvaddur, frændi, og takk fyrir öll ljóðin.

Sigrún Björnsdóttir.

Kveðja frá Rithöfundasambandi Íslands

Einar Bragi, mætur félagi, skáld og baráttumaður fyrir bættum kjörum rithöfunda, er fallinn frá. Einstakur heiðursmaður og einn síðasti fulltrúi sinnar kynslóðar á skáldabekk. Sístarfandi og vann það afrek á efri árum að færa okkur heim drjúgan fjársjóð samískra bókmennta. Stefnufastur og þrautseigur. Ég sá hann fyrst tilsýndar fyrir mörgum árum á gangi í miðbæ Reykjavíkur, skáld í ljósum sumarfrakka, og vissi hver hann var. Atómskáldið sem orti svo fallega um konuna, ástina og ljósin í kirkjunni. Í glugga fornbókabúðar þrjár af eldri ljóðabókunum hans; Svanur á báru, Gestaboð um nótt og Regn í maí. Rómantíska skáldið Einar Bragi.

Seinna sit ég hjá honum í stílhreinni stofunni á Suðurgötu 8. Norrænn andi svífur þar yfir. Við ræðum um ljóðaþýðingar, menningu sama og Grænlendinga og gömul og ný hagsmunamál rithöfunda sem eru honum jafnan hugleikin.

Einar Bragi gegndi mörgum trúnaðarstörfum í þágu rithöfunda og var um tíma formaður Rithöfundafélags Íslands og Rithöfundasambandsins eldra. Hann átti líka þátt í að móta starfsemi Norræna þýðingarsjóðsins, sem skilað hefur ómældum ávinningi, og þegar Launasjóður rithöfunda var í burðarliðnum lagði Einar Bragi gjörva hönd á plóg. Rithöfundar eiga honum því margt að þakka. Hann var líka merkisberi hins sjálfstæða rithöfundar, sótti oft á brattann og gaf út á eigin vegum mikilvæg verk sem enginn stórútgefandi hafði dug til að sinna. Sannkallaður máttarstólpi íslenskra bókmennta.

Einar Bragi var kjörinn heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands vorið 2001.

Félagar í Rithöfundasambandinu kveðja hann með kærri þökk fyrir samfylgdina. Börnum hans og fjölskyldum þeirra sendum við samúðarkveðjur.

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson.

Einar Bragi er fallinn frá. Á landsvísu var Einar fyrst og fremst þekktur sem skáld, rithöfundur og þýðandi en á Austurlandi var hann ekki síður þekktur sem Eskfirðingur sem tengdist heimbyggðinni óvenju sterkum böndum.

Einar fæddist í húsinu Skálholti á Eskifirði og ólst þar upp á alþýðuheimili. Einkar athyglisvert er að lesa æskuminningar hans í bókinni Af mönnum ertu kominn sem út kom á árinu 1985. Í bókinni dregur hann upp eftirminnilega mynd af Eskifirði æskuáranna og fjallar um íbúa byggðarlagsins með lifandi frásögnum sem einkennast bæði af hlýju og kímni. Allir sem lesa þessa bók gera sér grein fyrir þeim djúpu tilfinningum í garð heimabyggðarinnar sem blunduðu í brjósti Einars Braga.

Fullyrða má að Einar hafi verið eitt af þekktustu skáldum þjóðarinnar undanfarna áratugi. Fyrsta ljóðabók hans kom út árið 1950 og þá þegar varð ljóst að Einar hafði fáheyrða hæfileika til að setja fram viðhorf og lýsingar í hinu knappa formi ljóðsins. Hann var eitt af fyrstu íslensku skáldunum sem hófu að yrkja óhefðbundin ljóð og var umtalaður fyrir vikið. Eftir Einar kom út fjöldi ljóðabóka en eins liggja eftir hann skáldsögur, endurminningar og ritgerðasöfn auk þess sem hann var ötull þýðandi ljóða og prósaverka. Þá ber að nefna að Einar var frumkvöðull að útgáfu bókmenntatímaritsins Birtings og sat í ritstjórn þess á árunum 1953-1968 eða allan þann tíma sem ritið var gefið út. Ljóð Einars Braga hafa verið þýdd á önnur mál og einstök ljóð hafa birst í fjölda erlendra safnrita.

Alla tíð var Einar virkur í félagsstarfi rithöfunda og sat meðal annars í stjórn Rithöfundasambandsins og Rithöfundasjóðsins. Hann var vel látinn af stéttarsystkinum sínum enda ákveðinn og staðfastur að eðlisfari með róttækar þjóðfélagsskoðanir.

Einar hlaut margvíslegar viðurkenningar á skáldferlinum og ávallt þegar þær voru veittar fylltust Eskfirðingar og aðrir Austfirðingar stolti. Austfirðingar litu í ríkum mæli á hann sem sinn mann á vettvangi skáldskaparins.

Einn er sá þáttur í störfum Einars Braga sem Eskfirðingum er sérstaklega hugleikinn en það er ritun byggðarsöguritsins Eskju. Fyrsta bindi Eskju kom út árið 1971 en alls urðu bindin fimm talsins. Hið síðasta sá dagsins ljós árið 1986. Einar sinnti ritun sögu heimabyggðarinnar af mikilli elju og áhuga. Hann leitaði víða heimilda vegna söguritunarinnar og var einkar duglegur að draga fram í dagsljósið heimildir sem lágu á erlendum söfnum. Skipulagið við ritun Eskju var að ýmsu leyti óvenjulegt ef miðað er við önnur byggðarsögurit; ákveðinn þáttur mannlífsins var tekinn fyrir og honum gerð skil í einni bók í stað þess að fjalla um marga þætti á tilteknu tímabili. Þetta gerði það að verkum að hverjum þætti sem fjallað var um voru gerð einstaklega ítarleg skil og heimildir látnar tala í ríkum mæli. Ritun byggðarsögu Eskifjarðar er ekki lokið en Einar Bragi lagði traustan hornstein að sögurituninni með því verki sem hann innti af hendi.

Áhugi Einars á eskfirskum málefnum og mannlífi birtist einnig með ýmsu öðru móti. Hann hafði frumkvæði að því að koma á fót safni grafíkverka sem varðveitt hefur verið í Grunnskólanum á Eskifirði. Gaf hann fjölmargar myndir til safnsins og óskaði þess heitast að sem flestir fengju að njóta listarinnar. Þá minnti hann oft á tímamót í sögu Eskifjarðar og hvatti gjarnan til þess að þeirra væri minnst með einhverjum hætti. Síðast hafði hann frumkvæði að því að haldið var upp á þau tímamót að 200 ár voru liðin frá því að fyrsti íslenski kaupmaðurinn hóf verslunarumsvif á Eskifirði. Þetta verslunarafmæli var haldið hátíðlegt árið 2002 og þá afhjúpaði Einar minnisvarða um þennan fyrsta íslenska kaupmann en minnisvarðanum var valinn staður utan við Framkaupstað.

Í tengslum við ritun byggðarsögunnar var komið á fót eskfirsku ljósmyndasafni og sýndi Einar því alla tíð mikinn áhuga. Sendi hann safninu fjölmargar myndir sem rak á fjörur hans. Í tengslum við myndasafnið var komið á fót bókasafni um eskfirsk og austfirsk málefni og gaf Einar bókasafninu rúmlega 500 bækur á alllöngum tíma.

Þegar Eskfirðingar minntust þess árið 1986 að 200 ár voru liðin frá því að Eskifjörður fékk fyrst kaupstaðarréttindi samþykkti bæjarstjórnin að gera Einar Braga að heiðursborgara. Þessi ákvörðun bæjarstjórnarinnar var óumdeild og þótti Einari vænt um þennan heiður. Þegar Eskifjarðarkaupstaður sameinaðist Reyðarfjarðarhreppi og Neskaupstað árið 1998 og Fjarðabyggð leysti sveitarfélögin þrjú af hólmi varð Einar heiðursborgari hins nýja sveitarfélags.

Fyrir hönd bæjarstjórnar Fjarðabyggðar vill undirritaður þakka Einari Braga öll hans störf í þágu Eskifjarðar. Þá ber einnig að þakka þá tryggð sem hann sýndi ávallt heimabyggðinni. Fyrir hönd bæjarstjórnarinnar vil ég votta öllum aðstandendum Einars innilega samúð vegna fráfalls hans. Á þessari stundu er vert að hafa í huga minninguna um gott skáld og góðan Eskfirðing.

Smári Geirsson,

forseti bæjarstjórnar

Fjarðabyggðar.

Til minningar um vin samanna Einar Braga

Davvi geassi

akta

èuovga jándor

dálvviid gaskkan

Eallim

èalbmeravkaleapmi

gaskal riegádeami

ja jápmima

Geassi

dego eallim

álo

ilá otatni

nieguide

Sumar á norðurslóð

albjart nótt sem dag

milli vetra

ein andrá

milli fæðingar

og dauða

sumarið

eins og lífið

alltaf

of stutt

fyrir drauma

Hver þýðir nú ljóðin okkar úr samísku yfir á tungu fornsagnanna?

Hver dregur nú samíska fánann að húni á Íslandi hinn 6. febrúar?

Einar sendiherra okkar á Íslandi.

Takk fyrir að binda vináttubönd milli Sama og Íslendinga.

Hinsta kveðja frá Sápmi.

Hvíl í friði.

Rose-Marie Huuva.

Hann var kyndilberi nýrrar dögunar í ljóðagerð, hann var frjór í hugsun. Hugsjónamaður sem kom sífellt á óvart með frumlegum uppátækjum.

Einar Bragi var ein af hetjum bernsku minnar. Ég kynntist honum fyrir rúmum fimmtíu árum þegar við Gobba dóttir hans urðum vinkonur. Fjölskyldan bjó þá á Smiðjustíg í húsi Helga Pjeturs. Þar var hlýtt og frjótt andrúmsloft. Stína og Bragi voru samhent hjón, bæði einstaklega barngóð og gáfu sér alltaf tíma til að spjalla. Maður var alltaf velkominn.

Vandamálið hans Braga þótti mér það að hann þurfti að vera atómskáld, og þetta olli okkur vinkonunum oft vandræðum. Við háðum marga hildi við hrekkjusvín hverfisins vegna þessa sérkennilega yrkisháttar pabbans. Sum ónefnd hrekkjusvín gerðu sig breið með því að góla á Gobbu að pabbi hennar væri atómskáld og fara svo með eitthvert ótrúlegt bull. Svona var þetta þá, upp á hverju skyldu hrekkjusvínin á Grettisgötunni taka í dag? Varla eru þau svona menningarleg?

Heima hjá mér var aðallega lesinn Einar Ben, en hann Bragi kenndi mér að meta ljóðin sín og þá um leið ljóð annarra ungra skálda sem maður hitti oft daglega á heimili hans. Mér þóttu og þykja enn ástarljóðin hans Braga allra ljóða fegurst.

Maður vissi það svo sem að hann Bragi gat líka ort eins og gömlu þjóðskáldin, og mér þótti dálítið furðulegt að hann skyldi bara ekki gera það í stað þess að standa í þessum barningi í stöðugum skömmum frá fólki. Ekki kom maður heldur að tómum kofunum ef mann vantaði ferskeytlur. Hann bjó til margar ferskeytlur fyrir okkur Gobbu, ég man sérstaklega eftir því að hann bjó til nokkrar fyrir mig sem byrjuðu á Æ, en slíkar vísur eru vandfundnar og sérstakur fjársjóður þegar kveðist er á. Sjórinn stóð Braga nærri hjarta og var þá t.d. gripið til Ægisdætra og ort dýrt um þær.

Útgáfustarfsemi fylgdi Einari Braga alla tíð. Hann gaf bækur sínar oft út sjálfur, og þær voru ekki fáar, fór fjölgandi með árunum. Hann var ritstjóri Birtings, þess merka bókmenntatímarits, það var undirbúið og prófarkalesið á eldhúsborði þeirra Stínu og við krakkarnir bárum gjarnan út blaðið og rukkuðum stundum. Ég veit ekki betur en Birtingur hafi alla tíð haft sama heimilisfang og fjölskyldan.

En hann Bragi var ekki bara kyndilberi í skáldskapnum. Hann var málsvari menningar, friðar og menntunar, fylgdi sinni sannfæringu og lét heyrast í sér. Hann var tilfinningasamur en þrjóskur baráttumaður og gaf sig ekki. Kommahjartað var alltaf á sínum stað og Sissa mamma mín var býsna ánægð með það þegar ég fór á barnsaldri að fylgja Braga og fjölskyldu í alls konar mótmælastöður og kröfugöngur. Ég man nú ekki nákvæmlega hverju við mótmæltum hverju sinni, í minningunni var þetta oftast í norðangarra eða suðvestan roki og rigningu, en málstaðurinn var alltaf góður.

Það verður sjónarsviptir að Einari Braga, við sjáum hann ekki lengur hvatstígan og skarpan á götum miðbæjarins og fáum ekki fleiri faðmlög frá honum, faðmlög sem sannfærðu okkur um að við værum akkúrat þau sem hann langaði mest að hitta.

Með þessum orðum kveð ég minn vin og ber innilegar samúðarkveðjur til Gobbu og Jóns Arnars frá krökkunum mínum, þeim Birnu, Tryggva, Höllu og Kristbirni svo og ömmu Sissu.

Kyndilberinn vaski hefur skilað sínu.

Sigríður Sigurðardóttir.

Síðasta atómskáldið er nú fallið frá: Einar Bragi. Þau Einar Bragi og Kristín, kona hans, sem jafnan var kölluð Stína, voru í hópi helstu heimilisvinanna á uppvaxtarárum mínum. Faðir minn, Jón Óskar, sem sjálfur var rithöfundur, átti að sjálfsögðu allmarga vini í þeirri stétt, en þrír voru nánastir frá því að ég man eftir: Jón úr Vör, Ólafur Jóhann Sigurðsson og Einar Bragi. Þeir eru nú allir horfnir og faðir minn líka.

Það var engin furða þótt faðir minn og Einar Bragi væru miklir vinir því á 6. og 7. áratugnum gáfu þeir út lista- og bókmenntatímaritið Birting, en með þeim í ritstjórn voru Thor Vilhjálmsson og Hörður Ágústsson. Þótt þeir legðu allir drjúgan skerf til ritsins er óhætt að segja að Einar Bragi hafi verið aðal-driffjöðrin og hafði hann líka átt hugmyndina að heitinu Birtingur. Var heimili þeirra Stínu sannkölluð miðstöð útgáfunnar. Birtingur tók á mörgum málum, þar birtust nútímaleg ljóð og greinar um list og menningu, en þar birtust líka greinar um stjórnmál því Birtingsmenn voru miklir hugsjóna- og baráttumenn. Það átti ekki síst við um Einar Braga, enda var hann á 8. áratugnum dæmdur fyrir meiðyrði vegna orða sem hann hafði látið falla í grein um undirskriftasöfnunina "Varið land", en raunar var fráleitt að þau orð vörðuðu við lög, þó hvöss væru. Undir eins í fyrstu ljóðabók sinni, Kvöld í júní, 1950, hafði Einar Bragi birt harðorð ádeiluljóð um herstöðvarsamninginn við Bandaríkjamenn og fleira. Í næstu ljóðabók hans, Svanur á báru, 1952, birtust fleiri ádeiluljóð, meðal annars ljóðið "Gamalla augna gleði" um Kóreustríðið. Heiti ljóðsins vísaði til þess að Mac Arthur hershöfðingi hafði sagt þegar hann sá borg í Kóreu brenna til ösku: "Þetta er mínum gömlu augum gleðisýn." Og í ljóðinu segir Einar Bragi:

Liggur yfir landi

lykt af brunnu holdi

(...)

ræningjanum ríka

renna gleðitár.

Verðbréfin í Wall Street

verða dýr í ár.

En Einar Bragi var líka skáld lífsins og fegurðarinnar, enda hefur hann sem mottó fyrir þessari sömu bók:

Það er sorg mín og hamingja

að hjartsláttur lífsins

heldur fyrir mér vöku.

Og 1957 kom út fjórða ljóðabók hans, Regn í maí. Titilljóð þeirrar bókar endar þannig:

Og söngurinn um eilífð jarðargróðans steig upp úr moldinni fyrir munn okkar beggja, hærra og hærra uns himnarnir opnuðust og milt frjóregnið blessaði okkur öll.

Í framkomu var Einar Bragi hæglátur og glaðlegur, en hann gat reiðst illa, og þar sem faðir minn var einnig skapstór var á tímabili svo mikið ósætti milli þeirra að þeir töluðust ekki við. En sem betur fór jafnaði það sig fljótt og vinátta þeirra varð jafnvel enn traustari eftir. Núna þegar Einar Bragi er allur er okkur mæðgum efst í huga minning um góðan vin og gott skáld. Umhyggja hans fyrir Stínu konu sinni, sem var mikið veik síðustu árin, er okkur líka hugstæð. Aðeins eru fáeinir mánuðir síðan Stína lést, svo það var ekki langt á milli þeirra hjóna. Þó að Einar Bragi væri sjálfur orðinn sjúkur bar hann sig alltaf vel og ekki er nema rúmur mánuður síðan við hjónin hittum hann í Kolaportinu, hressilegan og glaðlegan. Hann var þá að kaupa sér bækur og var mjög ánægður. Ekki naut hann þeirra bóka lengi, en það voru samt góð kaup. Jafnvel þótt ekki hafi verið nema ánægjan af því að kaupa bækurnar var það þess virði.

Ef líf er eftir þetta líf er Einar Bragi nú kominn á annað land þar sem hann og faðir minn geta ef til vill stofnað nýjan Birting. Svo mikið er víst að Stína er þar hjá honum, og bráðum fer að vora og það verður regn í maí.

Una Margrét Jónsdóttir.

Um páskana sem nú eru rétt að baki dvaldi ég austur á Síðu í mínu gamla prestakalli. Á laugardaginn fyrir páska skrapp ég í ökuferð austur á Skeiðarársand til að horfa á flugið í vötnunum stríðu sem steyptust þar fram á sandinn í hlýindunum. Þegar ég í bakaleiðinni ók yfir hraunið austan Orrustuhóls hringdi síminn. Það var vinur okkar beggja Einars Braga og mín. Hann hafði daprar fréttir að færa - sagði að Einar væri allur, hefði látist þennan dag, 26. mars.

Þessi frétt kom mér í sjálfu sér ekki óvænt vegna þess að um all langt skeið hafði hann glímt við skæðan sjúkdóm sem nú hafði lagt hann að velli. En þrátt fyrir það var fregnin reiðarslag - og markaði þáttaskil.

Góða stund sat ég grafkyrr í bílnum og horfði á skrúðgrænt hraunið sem forfaðir hans lét breyta stefnu í Eldmessunni 20. júlí 1783 - "Jón frændi", eins og Einari Braga var tamt að tala um séra Jón Steingrímsson. Svo hélt ég áfram ferð dapur í sinni. Ég var dapur af því hér var fallinn einn úr hópi minna bestu og nánustu vina - maður sem ég hafði þekkt í meira en hálfa öld, eða frá því að hann kom heim frá námi í Svíþjóð sumarið 1953.

Þótt ég væri þá enn hálfgerður útkjálkastrákur þóttist ég reyna að fylgjast með því sem var að gerast í íslensku menningarlífi og öldurótinu sem nýjar stefnur ollu. "Hið hefðbundna ljóðform er nú loksins dautt," hafði Steinn Steinarr sagt í blaðaviðtali í október 1950 (Líf og list).

Þegar ég kynntist Einari Braga var hann þegar orðinn einn höfuðboðberi módernismans á landi hér og hafði nýlega stofnað tímaritið Birting sem hann gaf út á árunum 1953-1968 ásamt nokkrum öðrum framúrstefnumönnum. Birtingur olli straumhvörfum í íslensku menningarlífi. Ritið veitti nýjum viðhorfum inn í kyrrstætt og hálfgert sveitamannasamfélag sem oft á tíðum botnaði ekkert í boðskap hans.

Og Birtingur lét ekki aðeins að sér kveða um skáldskap og myndlist. Á dögum kalda stríðsins hjó hann á báða bóga í þjóðfélagsmálum og breytti þá engu hvort fyrir höggi urðu undirlægjumenn erlendrar hersetu eða afstöðuleysi róttækra samtaka við risann í austri sem á 6. áratugnum staðfesti svik sín við hugsjón sósíalismans.

Þegar samtök hernámsandstæðinga voru stofnuð árið 1960 var Einar Bragi þar í forystusveit. Minnisstæð er mér ræðan sem hann flutti við hlið herstöðvarinnar á Miðnesheiði áður en lagt var upp í fyrstu Keflavíkurgönguna 1960. Þar deildi hann hart á þá menn sem "hneppa vildu þjóðina til framtíðar í fjötra amerískrar herstöðvar," eins og hann komst að orði.

Sumarið 1960 eyddum við Einar Bragi oft hverri stund í þessum samtökum en bundumst jafnframt vináttuböndum -og fyrr en varði urðu þau hjónin, hann og Kristín, heimilisvinir sem ljúft var að heilsa á hlaði og bjóða í bæ.

Þótt við Jóna flyttumst austur að Kirkjubæjarklaustri um jólin 1963 og vík yrði milli vina komu þau Kristín samt í heimsókn a. m. k. einu sinni á ári og hlökkuðum við ætíð mikið til þeirra heimsókna, sem var menningarsprauta í fásinninu.

Í fyrsta skipti komu þau í heimsókn í ágúst 1964. Höfðu þá í farteski sínu skáldið Stefán Hörð sem ég hafði ekkert þekkt áður. Daginn eftir messaði ég á Núpsstað í fyrsta skipti. Kristín og skáldin komu með mér til kirkjunnar og varð fagnafundur með þeim frændum Einari Braga og Hannesi landpósti sem stóð undir bænhúsveggnum uppábúinn í Gefjunarfötum og tuggði strá þar til tekið var til. Um kvöldið skrifuðu þau í gestabókina: "Þökk fyrir messuna á Núpsstað og annað gott."

Einar Bragi er ákaflega minnisstæður maður. Hann var hlaðheitur, traustur og vinfastur. Þótt hann væri alla daga önnum kafinn hafði hann alltaf tíma til að sinna gestum, sem bókstaflega snjóaði inn á heimili þeirra hjóna. Hann var margslunginn hæfileikamaður, skáld gott, frábærlega ritfær eins og hinar fjölmörgu þýðingar hans votta. Þótt skáldskapurinn og ritstörfin ættu hug hans allan gaf hann sér einnig tíma til að skrifa fimm binda verk um heimabyggð sína Eskifjörð. Hann eyddi heilu sumri í heimildasöfnun á Ríkisskjalasafninu danska og Konunglegu bókhlöðunni þar sem við vorum samtíma þetta sumar, hið fræga sumar 1968 - og grúfðum okkur því fastar ofan í skræðurnar sem æskulýðurinn varð háværari á götum úti. Hann var fylginn sér í þjóðmálabaráttunni og stundum harðskeyttur svo að undan sveið og má ef til vill rekja til þess þá lágkúru úthlutunarnefnda listamannalauna að honum skyldi ekki fyrir löngu hafa verið skipað þar í efsta flokk því að líklega er hann sá menningar- og formbyltingarmaður sem á síðari hluta 20. aldar skilur eftir sig dýpri röst í bókmenntum og menningu þjóðarinnar en flestir aðrir.

Það var ætíð jafn gaman að hitta Einar Braga. Breytti þá engu hvort það var á heimili hans þar sem Kristín töfraði fram krásir eða í ferðalögum utan lands og innan.

Ég minnist ferðar sem við fjölskylda mín fórum með þeim hjónum frá París norður til Paimpol á slóðir frönsku fiskimannanna, Íslendinganna eins og þeir voru stundum nefndir í heimkynnum sínum. Austfirðingurinn Einar var auðvitað handgenginn sögu þeirra hér við land og kunni margt að segja Tonton Yves Íslandssjómanni sem við hittum í þessari ferð, en hann var aðeins 16 ára gamall þegar skútan hans, Aurora, strandaði á Sandfellsfjöru og Öræfabændur, margir frændur Einars Braga, björguðu honum ásamt fleiri mönnum.

Ógleymanleg er ferðin sem ég fór með þeim Einari og Thor Vilhjálmssyni um Vestfirði árið 1982 þegar Einar á Seftjörn á Barðaströnd fór með okkur á trillu sinni út í Hergilsey og "við sátum í grasinu og Einar (þ. e. Einar á Seftjörn) jók okkur skilning á sérstæðu mannlífi í eyjunum, lífsháttum þarna og hvernig stæltist kjarkur í sókn eftir lífsbjörg sem var nóg af ef menn báru sig eftir henni og höfðu útsjón. En nú vil ég að þið farið með kvæði eftir ykkur sjálfa og ég skal þá fara með eitthvað líka, sagði hann. Ég vísaði málinu til skáldbróður míns Einars Braga sem fór með ljóð eftir sig sem ég hef aldrei fyrr heyrt né lesið. Síðan tók Einar á Seftjörn við og fór með ljóð eftir sig. Þetta var góð stund," segir Thor í lýsingu á ferðalaginu (Eldur í laufi, R. 1991, bls. 25).

Fyrir nokkrum árum stóðum við félagar, ég, Einar Bragi og Jón Hjartarson, lengi skólastjóri á Kirkjubæjarklaustri, ásamt þeim Áslaugu konu Jóns og hjónunum Svandísi og Val í Úthlíð í Skaftártungu, við minnismerkið um Skaftfellingana sem úti urðu á Mælifellssandi á Fjallabaksleið syðri haustið 1868, en fundust fyrst tíu árum síðar undir einmana klapparþúst í sandauðninni. Það var eftirminnileg stund að hugsa til örlaga þessara manna þarna í auðninni sem skáldið dýpkaði með frjóu tungutaki.

Og þannig væri hægt að rekja samveru og samferð með þessu góða skáldi. Ég er þakklátur fyrir að hafa notið samferðar hans í meira en hálfa öld, en við fráfall hans skynjar maður að allt er í heiminum hverfult því fyrr en varir þeysir sá sem bleika hestinum stýrir upp að reiðskjóta vina manns og grípur um taum:

Mínir vinir fara fjöld,

feigðin þessa heimtar köld.

Ég kem eftir, kannske í kvöld,

með klofinn hjálm og rofinn skjöld,

brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld.

(Bólu Hjálmar.)

Ég votta aðstandendum Einars Braga mína dýpstu samúð.

Sigurjón Einarsson.

Ég hverf,

en hvítar örvar

annarlegra ljósa

sem loga í augum dagsins

falla á veg minn,

lýsa spor mín

í gráum sandinum

þegar náttar.

(Einar Bragi.)

Það er með hlýju, sorg og mikilli eftirsjá sem við kveðjum Einar Braga, svo stuttu eftir að Kristín kona hans var öll. Hugurinn geymir ljósmyndina af þeim ungum. Hann hlédrægur í virðulegum frakka og með stúdentshúfu á höfði. Hún björt yfirlitum, brosandi með kápuna fráhneppta. Hann stoltur af henni. Hún glöð. Kristín og Einar. Bragi og Stína. Ekki hægt að tala um hann nema að minnast hennar. Alltaf eins og nýtrúlofuð. Og endurtóku trúlofun sína með nýjum hring handa Kristínu þegar hún fagnaði áttræðisafmælisdegi sínum.

Bók er lokað. Heilt tímabil er liðið. Það er erfitt að ímynda sér að ekki verði lengur hægt að líta inn á Suðurgötuna. Njóta návistar, frásagna og hlýju. Heyra sögur af fáránleika hversdagsins. Veltast um af hlátri í sófanum.

Einar Bragi var skáld, rithöfundur, þýðandi og útgefandi. Allt í kringum hann var ljóðrænt, fallegt og hugsað. Engar tilviljanir. Engin aukaatriði. Vinnusemi og hógværð. Ljóð hans eru fáguð en beitt. Þau minna á ljósmyndir Roberts Franks frá sjötta áratug liðinnar aldar. Hjá báðum er að finna melankólískan húmanisma eftirstríðsáranna. Návist lífs og dauða. Ástina á kvenleikanum. Tilfinninguna fyrir því stóra í því smáa.

Aðrir munu hæfari til að fjalla um viðamikil ritstörf Einars Braga. Hvernig tókst honum að koma öllu í verk? Þýðingar á leikritum Strindbergs og Ibsens. Saga Eskifjarðar, hans heimabyggðar. Ljóðaþýðingar. Eigin ljóð. Tímaritið Birtingur (1955-1968), stórvirki íslenskrar menningarsögu, sem Einar ritstýrði ásamt þeim Herði Ágústssyni, Thor Vilhjálmssyni og Jóni Óskar, þegar menn höfðu enga styrki, engin listamannalaun og orðið sponsor ekki til. Hann safnaði efni. Allt framsækið. Nýjustu evrópsku og bandarísku rithöfundarnir. Myndlist. Ljóð. Byggingarsaga. Lét gera kápur. Engin eins. Allar spennandi. Prófarkalesa. Hvaðan kom pappírinn?

Ég gríp heftið umtalaða 1957, þegar Einar fékk Dieter Roth til að brjóta um. Þegar því er flett núna er erfitt að skilja af hverju það olli fjaðrafoki. Ísland var svo fámennt og veggirnir svo þröngir. Ekkert útsýni, þótt það væri bjart til fjalla.

Einar Bragi hafði einstaklega næmt auga fyrir myndlist og skildi strax ný tjáningarform, sem stríðið fæddi af sér, hvort sem það var skáldskapur, leiklist, ljósmyndun eða prent. Hann unni prentlistinni og stofnaði, í félagi við Dieter, sérkennilega skemmtilegt félag, ED hét það og var upphafið að magnaðri útgáfustarfsemi þeirra beggja.

Það var hátíð að opna umslögin frá Einari Braga. Því alltaf bárust okkur, til Parísar og New York, nýjar bækur. Síðustu árin voru það ljóðaþýðingar hans eftir fjarlæg norræn skáld. Bækur sem gott er að handleika, fletta, taka með sér og grípa í hér og þar. Áritaðar sumar- eða jólakveðjum með hans listafallegu rithönd. Litdjúpar bókakápur, rautt, blátt, gult og grænt, sem minna þegar allt kemur til alls svo óendanlega sterkt á hann.

Hvíl í friði. Með Stínu. Þið saman. Alltaf.

Æsa Sigurjónsdóttir, París, Gréta Ólafsdóttir, New York,

og fjölskyldur þeirra.

Einar Bragi er farinn úr tímanum. Þá er horfið eitt af fremstu skáldum Íslands og Norðurlandanna.

Ég hef misst þá manneskju sem gaf mér ævarandi ást mína á Íslandi, ekki aðeins skáldskapnum en einnig ástina á landinu og þjóðinni.

Við kynntumst þegar ég kom í fyrstu heimsókn mína til Íslands 1971 og strax varð vinátta okkar svo sterk að ég heimsótti landið á hverju ári upp frá því. Oftast bjó ég heima hjá Stínu og Braga á Bjarnarstígnum og naut þar gamaldags íslenskrar gestrisni og örlætis. Það má einnig segja að þessi vinátta hafi leitt til þess að ég síðar fann ást mína hér á landi og settist hér að.

Það var einkum á áttunda og níunda áratugnum sem við unnum saman að margvíslegum verkefnum. Fagurkerinn Einar Bragi var eldhugi sem bjó yfir ósveigjanlegum vilja til að berjast gegn öllu óréttlæti: Hann var staðfastur talsmaður þeirra sem minna mega sín og búa við kúgun og ofbeldi, og hann skynjaði skýr tengsl milli skáldskapar og pólitískrar baráttu fyrir frelsi. Hann hafði takmarkalausa trú á að ljóðið, sem tjáir dýpt mennskunnar og hinar fíngerðustu tilfinningar, geti fengið okkur til að koma auga á systur og bróður í ólíkustu menningarsamfélögum. Þannig búi ljóðið yfir gífurlegum krafti til að vekja samstöðu og samábyrgð.

Í þessu ljósi sé ég mjög glöggt hið mikla verk hans sem þýðanda erlendra ljóða: Ekki síst er vinna hans að þýðingum og útgáfu á samískum skáldskap eins konar yfirlýsing um samstöðu og stuðning. Estetísk gæði sem hann birti okkur í ljóðunum benda ætíð á manneskjuna og rétt hennar til frelsis og jafnréttis hvar sem er í heiminum. Hvergi er gefið út jafn mikið af þýðingum á samískum bókmenntum og hér á Íslandi. Og allt er það Einari Braga að þakka.

Við fórum saman í ýmsar ævintýraferðir bæði úti í Skandinavíu, um Færeyjar og hér á Íslandi. Minningin um bílferðirnar á Íslandi er sveipuð ljóma ævintýrisins - við lásum ljóð og fluttum músík ásamt trúbadúrnum Ása í Bæ og við heimsóttum Guðmund Hagalín sem dansaði. Og meðal þessara björtu minninga er heimsókn þeirra Einars Braga og vinar okkar, færeyska skáldsins Karsten Hoydal, til heimabæjar míns, Molde í Noregi. Þá efndum við til ljóðlistarkvölda og þá varð hátíð í bæ.

Einar Bragi kynnti mig fyrir mörgum af fremstu rithöfundum Íslands. Einkum varð vinátta og samvinna okkar Einars Braga og Thors Vilhjálmssonar traust og sterk. Það leiddi til þess að við stofnuðum Bókmenntahátíðina í Reykjavík 1985 og þar fengum við í lið með okkur unga rithöfunda og bókmenntafræðinga sem síðar tóku við stjórn hátíðarinnar.

Einar Bragi kynnti mig líka fyrst fyrir íslenskum lesendum með meistaralegri þýðingu sinni á ljóðabók minni, Hljómleikar í hvítu húsi. Einnig fyrir það á hann ómælda þökk mína. Ég er glaður yfir að ég fékk tækifæri til að kynna hann á norsku með ljóðasafninu Regn í maí. Það var strax litið á hann sem athyglisvert ljóðskáld í Noregi. Við Norðmenn eigum einnig Einari Braga að þakka stórvirkið mikla að þýða og gefa út leikrit Ibsens í tveggja binda glæsiútgáfu.

Einar Bragi var vinur vina sinna. Og hann var einn hinna fáu sönnu skálda. Hann trúði einlæglega á kraft skáldskaparins og að orðið sé sterkara en sverðið.

Hann hrópaði ekki hátt en rödd hans heyrðist. Hann skrifaði ekki þykkar bækur en orðin sem hann skrifaði munu standa um ókomna tíð. Þau munu halda áfram að hreyfa við nýjum og nýjum kynslóðum.

Knut Ødegård.

"Það er barist um það, hvort hið eina sem er ungt og vaxandi í íslenskri ljóðlist í dag á að fá að lifa og þroskast eða ekki. Ég bið um að fá að vera í hópi hinna ungu í þeirri baráttu."

Þetta skrifaði Einar Bragi í blaðagrein árið 1952 þegar hæst stóð orrahríðin um réttmæti nýjunga í íslenskri ljóðagerð. Hann var ekki einungis eitt af ungskáldunum sem brutu nýjungum braut um þær mundir, hann var líka skeleggasti málsvari ungra skálda og skýrði markmið þeirra og metnað fyrir hönd skáldskaparins.

Miklum ritverkum skilaði Einar Bragi af sér á langri ævi. Hann var eitt af öndvegisskáldum tuttugustu aldar. Ljóð hans eru einstaklega fágaður og tilfinningasterkur skáldskapur og gildir einu hvort hann yrkir þjóðfélagsádeilu, náttúruljóð eða um örlög, ástir, lífsgleði og dauða. Listsköpunin sjálf var honum sífellt umhugsunarefni eins og fram kemur í "Nafnlausu ljóði" hans:

Ég sem orðum ann

nefndi einatt í auðmýkt

konu, mann

líf mold vatn,

á vörum brann

veikasta sögnin

að elska

Vandvirkni Einars Braga var einstök; hann var sífellt að skyggna eigin ljóð og endurskapa þau og sagði raunar að ljóð væri seint fullort. Ljóðaþýðingar hans eru miklar og vandaðar, allt frá því að Erlend nútímaljóð komu út 1958 og til hinsta dags. Meðal slíkra verka frá síðustu árum eru þýðingar hans og kynning á ljóðum skálda á jaðarsvæðum, þ.e. grænlensk og samísk ljóð.

Mörg önnur ritverk lét Einar Bragi eftir sig. Bókmenntalegt stórvirki eru þýðingar hans á leikritum Ibsens og Strindbergs. Einnig ritaði hann viðamikil verk í óbundnu máli, m.a. bernskuminningar, sagnaþætti, skáldsögu og Eskju I-IV (sögu Eskifjarðar). Hann var lífið og sálin í einu merkasta menningartímariti tuttugustu aldar, Birtingi, sem var kynningar- og baráttumálgagn íslenskra módernista.

Ljóð Einars Braga eru fagur og traustur minnisvarði um þetta hjartahlýja skáld og þann ágæta drengskaparmann sem hann var. Hann ákvað ungur að taka þátt í menningarbaráttunni og það gerði hann svikalaust alla tíð. Hann var eldhugi í baráttunni fyrir hugðarefnum sínum og jafnan í fremstu víglínu.

Með Einari Braga hvarf af sjónarsviðinu síðasta atómskáldið af þeim sem hlutu þá nafngift um miðja síðustu öld. Við munum ætíð minnast hans með þakklæti og gleðjast af verkum hans. Það var ómetanleg gæfa að fá að kynnast Einari Braga og ganga með honum á ljóðvegum í hálfa öld.

Eysteinn Þorvaldsson.

Við andlát Einars Braga skálds og rithöfundar leita á hugann myndir frá löngu liðnum dögum.

Kosningadagurinn 28. júní 1953. Inn á kosningamiðstöð Sósíalistaflokksins í Hafnarstræti ... á Akureyri snarast ungur og glaðbeittur maður, grannur og kvikur í hreyfingum, heimsmannslegur en ekki hár í loftinu og býður fram krafta sína við störf dagsins. Þetta var Einar Bragi og þarna bar fundum okkar saman í fyrsta sinn. Hann var þá alveg nýkominn heim frá Svíþjóð, hafði stundað þar háskólanám í bókmenntum og listasögu í fimm ár og einnig gefið út sínar tvær fyrstu ljóðabækur. Árið 1953 kom sú þriðja, Gestaboð um nótt, og hafði m.a. að geyma kvæðið Haustljóð á vori 1951 - sem lýsir trega fjölmargra þegna okkar unga lýðveldis þegar landið var á ný gert að bandarískri herstöð á þeim vordögum, þrátt fyrir alla svardaga sem gefnir höfðu verið. Þetta kvæði lærðum við mörg:

Ein flýgur sönglaust til suðurs,

þótt sumarið nálgist,

lóan frá litverpu túni

og lyngmóa fölum,

þytlausum vængjum fer vindur

um víðirunn gráan.

Hvað veldur sorg þeirri sáru,

svanur á báru?

Baðstofa iðnaðarmanna síðari hluta vetrar 1954. Sósíalistaflokkurinn er að halda ráðstefnu um menningarmál. Margt mætra manna er þar saman komið en ýmsir í þeim hópi lítt gefnir fyrir nýjungar í skáldskap og öðrum listum og litu svo á að listin ætti fyrst og fremst að þjóna málstaðnum á líðandi stund. Einar Bragi kveður sér hljóðs og heldur af einurð og kappi uppi kröfunni um fullt frelsi til listsköpunar, minnir á að aldrei megi hvika frá ströngustu gæðakröfum eigi listaverk að hafa nokkurt gildi og að enginn málstaður sé svo góður að hann eigi réttmætt tilkall til þess að ríkja yfir sköpunarstarfi listamanna. Við sem þá vorum ung og hlýddum á mál hans gleymum seint þeirri stund og hún hjálpaði okkur til að varast fallgryfjur dólgamarxismans.

Janúar 1956. Við Einar Bragi sitjum á tali við Guðrúnu Önnu, fyrrum heitkonu alþýðuskáldsins Magnúsar Hjaltasonar, þess sem varð undanfari Ólafs Kárasonar Ljósvíkings. Hún býr í litlu súðarherbergi á gamla Hjálpræðishernum í Hafnarfirði og þar erum við í heimsókn. Magnús var þá látinn fyrir nær 40 árum en nú fagnar hún nýju skáldi. Þau horfast í augu og ljóma bæði. Með okkur var Guðgeir Magnússon, vinur okkar. Hann skráði sumt af því sem spjallað var og þau orð er að finna í fyrsta hefti Birtings frá árinu 1956.

Unuhús á árunum kringum 1960. Þau Einar Bragi og Kristín, kona hans, bjuggu þá í þessu frægðarinnar húsi við Garðastræti með börnin sín tvö. Heimilið var þá stundum eins og járnbrautarstöð, slíkur var fjöldi þeirra sem knúðu dyra. Ungu skáldin og aðrir listamenn voru þar tíðir gestir, líka þeir sem vildu verða skáld svo og nauðleitarmenn og fólk úr breytilegum áttum. Aldrei haggaðist Kristín, var ætíð hýr á brá og þolinmæði hennar virtist óendanleg. Dag nokkurn rakst ég á einn af fastagestunum á göngu um Austurstræti. Hann var í annarlegu ástandi og augljóslega tæpt staddur, þreif til mín og bað: "Farðu með mig til gömlu kommúnistanna, farðu með mig til gömlu kommúnistanna." Ég sá að hér varð að bregðast við og leiddi hann upp í Unuhús. Þau Kristín og Bragi sáu síðan um aðhlynninguna og tryggðu vistun á sjúkrahúsi.

Einar Bragi var svo sannarlega einn af gömlu kommúnistunum og fyrirvarð sig ekki fyrir það. Móðir hans var í Kommúnistaflokknum á Eskifirði á kreppuárunum, þegar hann var ungur drengur, og hún hafði Þyrna, ljóðabók Þorsteins Erlingssonar fyrir húspostillu. Skáldið, sonur hennar, yfirgaf hins vegar Sósíalistaflokkinn árið 1956 þegar beiðni þess um opnar umræður, byggðar á hreinskilni, um ástandið í Sovétríkjunum var ekki sinnt.

Samstarf okkar Einars Braga var mjög náið á árunum 1960-1962 og þá í starfi Samtaka hernámsandstæðinga. Skrifstofa samtakanna var í húsinu Vinaminni, Mjóstræti 3, örskammt frá Unuhúsi. Við undirbúning fyrstu Keflavíkurgöngunnar vorið 1960 voru þeir Einar Bragi og Jónas Árnasynir mínir nánustu samverkamenn, ásamt Ragnari Arnalds, sem þá var kornungur, en miklu máli skipti líka gott trúnaðarsamband við Magnús Kjartansson. Meirihlutinn í framkvæmdanefnd Sósíalistaflokksins hafði hins vegar ekki trú á ráðagerð okkar og var henni því andvígur. Svo vel tókst þó til að við náðum að halda, ár eftir ár, við lok hinnar löngu göngu frá Keflavíkurflugvelli tíu þúsund manna útifund gegn hernáminu í miðbæ Reykjavíkur, bæði 1960 og 1961.

Þeir Einar Bragi og Jónas Árnason voru ólíkir menn en höfðu báðir yfirgefið Sósíalistaflokkinn á árunum skömmu fyrir 1960. Mér urðu þeir dýmætir vinir sem ég á stóra þökk að gjalda.

Um skáldskap Einars Braga, ritstörf hans og útgáfu tímaritsins Birtings á árunum 1953 til 1968 segi ég fátt að sinni. Sá sem við kveðjum nú var eitt besta skáld okkar Íslendinga á öldinni sem leið og auk þess félagslegur leiðtogi módernistanna í íslenskri ljóðagerð. Án hans hefði Birtingur aldrei komið út. Í deilum um módernismann var hann réttlínumaður og stundum heitt í hamsi, líka á efri árum. Við sem teljum skáldin eiga fjölbreyttari kosta völ, þó að enginn komist undan brennimarki sinnar eigin samtíðar, fengum þá annað veifið óblíðar kveðjur.

Einar Bragi var að eðlisfari bjartsýnismaður og kvaðst fyrir tuttugu árum líta svo á að í stjórnmálum væri hvort tveggja nauðsynlegt "að missa ekki sjónar á sólinni og hafa þó fyllstu gát á rosabaugnum".

Hann tapaði aldrei voninni um manninn, voninni um betra líf og sáttfúsari hendur til handa alþýðu heimsins. Fyrir okkur sem búum við myrkari heimssýn gátu samræður við hann verið upplífgandi og alltaf voru þær skemmtilegar.

Ég og Gíslrún, kona mín, þökkum langa vináttu nú við leiðarlok og vottum öllum vandamönnum hins góða drengs sem er genginn okkar dýpstu samúð.

Kjartan Ólafsson.

Með Einari Braga er fallinn frá einn af stólpunum í menningar- og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á öldinni sem leið. Hann var í hópi þeirra ungu manna sem reistu merki um miðja 20. öldina með tímaritinu Birtingi. Einar var útgefandi þess fyrstu árin og síðan meðritstjóri. Tímarit þetta færði ferska vinda inn í umræðu um menningarmál hérlendis, kynnti fjölda höfunda, list og listastefnur og vakti máls á nýjum viðfangsefnum eins og húsagerðarlist og íslenskum arfi á því sviði. Sem rithöfundur haslaði Einar Bragi sér framan af völl sem ljóðskáld og sendi frá sér ekki færri en fimm ljóðabækur á árunum 1950-1960. Þeim fylgdi nýr tónn í íslenskri ljóðlist en tengslin við hið hefðbundna voru vel sýnileg. Þetta var fersk og tær lýrik, oft með rómantísku ívafi og víða leitað fanga um yrkisefni. Á þessum áratug íslensks nóbelskálds bar Birtingshópurinn vott um að þróttmikill nýgræðingur væri í uppvexti í skjóli stórskógarins. Ég kynntist Einari lítillega á þessum árum, minnist stunda með honum á Laugavegi 11, afstæður aldursmunur þá meiri en síðar á ævi okkar.

Seinna endurnýjuðust þessi kynni við breyttar aðstæður. Ljóðskáldið hafði þá hægar um sig en áður því að upp að hlið hans var kominn rithöfundur sem helgaði sig upprifjun á liðinni tíð og hlúði að minnum um fólk og lífsbaráttu genginna kynslóða. Eðlilega tengja menn Einar öðru fremur við fæðingarbæ sinn Eskifjörð sem hann hefur lagt ómetanlega rækt við með heimildaritinu Eskju í mörgum bindum. Ég komst hins vegar brátt að raun um að rætur hans lágu víða, ekki síst um Suðausturland frá Suðursveit til Djúpavogs. "Þá var öldin önnur" endurspeglar þennan bakgrunn og hug til ættingja sem áttu ríkan þátt í mótun hans í æsku. Sléttaleiti og Kambshjáleiga eru hluti af þessari veröld sem var. Það hefur verið gott að eiga Einar Braga að förunaut við upprifjun á liðinni tíð í sögu Austurlands, heimildir hans traustar og framsetningin skýr og skemmtileg.

Síðast komst ég í huglægt ferðalag með Einari Braga á vit norðurslóða. Hann tendraðist upp af kynnum við lendur og bókmenntir Sama og hafði fyrir fáum árum forystu um stofnun vináttufélags með þeim hérlendis. Nær árlega sendi hann mér einkar þekkileg rit með ljóðaþýðingum sínum af kveðskap þessara aðkrepptu granna okkar. Þar er slegið á strengi af mýkt og festu sem einkenndu skáldið og manninn Einar Braga. Hafi hann heila þökk fyrir leiðsögn sína og stuðning við góðan málstað allt sitt líf.

Hjörleifur Guttormsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.