9. apríl 2005 | Íþróttir | 432 orð

Guðmundur til liðs við Aftureldingu

GUÐMUNDUR Hrafnkelsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður í handknattleik, hefur skrifað undir tveggja ára samning við Aftureldingu. Hyggst Guðmundur leika með liðinu auk þess að sinna þjálfun markvarða.
GUÐMUNDUR Hrafnkelsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður í handknattleik, hefur skrifað undir tveggja ára samning við Aftureldingu. Hyggst Guðmundur leika með liðinu auk þess að sinna þjálfun markvarða. "Afturelding hafði mikinn áhuga á að fá mig í sínar raðir og þar sem hugur minn stendur til að leika eitthvað áfram þá ákvað ég að slá til," sagði Guðmundur í samtali við Morgunblaðið í gær. Hann flytur heim með fjölskyldu sína í sumar eftir að hafa verið í sex ár atvinnumaður í Þýskalandi og Ítalíu, síðast hjá Kronau/Östringen í Þýskalandi.

Guðmundur sem á að baki 402 landsleiki lék með Fylki, Breiðabliki, FH og Val áður en hann hélt í atvinnumennsku. Hann stendur á fertugu og segir það leggist vel í sig að koma í hóp ungra og efnilegra leikmanna. "Ég held að þetta henti mér bara alveg ágætlega og er spenntur að koma heima á nýjan leik. Þetta er orðið gott hjá mér hérna úti," sagði Guðmundur sem leitaði hófanna í Þýskalandi eftir samningi við annað félag eftir að ljóst var að samningur hans við Kronau/Östringen yrði ekki endurnýjaður í vor. "Hér ytra gátu menn ekki svarað mér af eða á fyrr en í sumar og ég gat ekki beðið svo lengi eftir svörum. Það þarf sinn aðdraganda að flytja heim með fjölskyldu og því vildi ég ekki bíða eftir svörum langt fram á sumar. Þegar Afturelding sýndi mér áhuga þá ákvað ég að slá til," segir Guðmundur sem er einn leikreyndasti handknattleiksmaður heims.

"Það er auðvitað mikill styrkur fyrir okkar unga og efnilega lið að fá jafn reyndan leikmann til liðs við sig og Guðmundur er. Við höfum verið hér í rólegri og skynsamri uppbyggingu síðustu tvo ár og nú teljum við að tími sé kominn til að sækja fram á við og er koma Guðmundar einn liður í því," sagði Örn Franzson, stjórnarmaður í handknattleiksdeild Aftureldingar.

"Hvað varðar þjálfun markvarða þá er það þáttur sem við höfum viljað efla hjá félaginu og alveg sérstök ánægja að fá Guðmund til starfa á þeim vettvangi. Við eigum unga og efnilega markmenn sem munu án efa njóta góðs af þekkingu og reynslu hans í þeim efnum. Sérstaklega vonum við að koma Guðmundar styrki enn frekar þjálfun okkar efnilega markvarðar, Davíðs Svanssonar, sem meðal annars á sæti í 21 árs landsliðinu sem tekur þátt í HM í sumar," sagði Örn sem telur ekki útilokað að Afturelding bæti við sig einum leikmanni til viðbótar. "Annars ætlum við að treysta á okkar unga og efnilega lið sem hefur sjóast mikið á undanförnum árum," segir Örn en þess má geta að Afturelding er bæði Íslands- og bikarmeistari í 2. flokki karla.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.