Minnisvarði Hoover-stíflan í Colorado-fylki í Bandaríkjunum er álitin einn helsti minnisvarðinn um New Deal-stefnuna.
Minnisvarði Hoover-stíflan í Colorado-fylki í Bandaríkjunum er álitin einn helsti minnisvarðinn um New Deal-stefnuna. — Morgunblaðið/Ragnhildur
ÞEGAR Bandaríkjamenn eru beðnir að nefna besta forseta Bandaríkjanna eru yfirleitt þrjú nöfn ofarlega á baugi. Það eru Abraham Lincoln, John F. Kennedy og Franklin Delano Roosevelt.
ÞEGAR Bandaríkjamenn eru beðnir að nefna besta forseta Bandaríkjanna eru yfirleitt þrjú nöfn ofarlega á baugi. Það eru Abraham Lincoln, John F. Kennedy og Franklin Delano Roosevelt. Hér er ekki ætlunin að meta hver þessara manna var bestur, fróðleikshornið fjallar í dag um efnahagsstefnu þess síðastnefnda sem yfirleitt gengur undir nafninu New Deal .

Kreppan mikla

Í kjölfar efnahagslegrar óstjórnar á 3. áratug síðustu aldar, sem náði hámarki með verðbréfahruninu á Wall Street á haustdögum 1929, hófst 4. áratugurinn á mikilli efnahagskreppu sem er þekkt sem Kreppan mikla. Herbert Hoover, sem varð forseti Bandaríkjanna árið 1929, hafði engin ráð til þess að snúa efnahagsástandinu við og tapaði haustið 1932 í kosningum fyrir Franklin Delano Roosevelt, demókrata af vellauðugri fjölskyldu. Í kosningabaráttu sinni boðaði Roosevelt mjög róttækar breytingar í efnahagsstefnu Bandaríkjanna og áður en lengra er haldið er kannski rétt að líta aðeins til þeirra strauma sem ríktu í hagfræði þess tíma svo hægt sé að gera betur grein fyrir því hvað var svo byltingarkennt við stefnu Roosevelts.

Stöðugt verðlag ofar öllu

Allt fram til daga Roosevelts hafði ríkt sú hagfræðistefna sem við köllum í dag klassíska hagfræði. Hagfræðingar hins klassíska tímabils töldu það hafa lítið upp á sig að reyna að hafa áhrif á atvinnustig, til þess að halda jafnvægi í efnahagnum var að þeirra mati nauðsynlegt að stjórna magni peninga í umferð og hafa hemil á verðlaginu. Að öðru leyti áttu afskipti hins opinbera af efnahagnum ekki að vera mikil, ekki einu sinni þegar kreppa ríkti þar sem hugmyndin var sú að hagkerfið myndi rétta sig við með tíð og tíma.

Kenningar þessara manna voru eðlilega mun flóknari en svo og ekki hægt að gera grein fyrir þeim í stuttu máli en inntakið í þeim er engu að síður komið fram og er því mál að víkja aftur að Roosevelt.

Innviðirnir ekki nægilega sterkir

Roosevelt gerði sér grein fyrir því að félagsleg áhrif þess að sitja aðgerðalaus og bíða þess að efnahagurinn rétti sig við voru óviðunandi. Hann leit því á kreppuna sem vágest sem bola þyrfti burt, hvað sem það kostaði, og leit svo á að það væri hlutverk ríkisins að berjast við kreppuna.

Bandaríkin eru gífurlega stórt land að flatarmáli og það er haft fyrir satt að eigi það að vera mögulegt að halda uppi öflugum og skilvirkum iðnaði í slíku landflæmi sé nauðsynlegt að innviðir samfélagsins séu öflugir. Er þar meðal annars átt við öflugt samgöngukerfi, öflugt félagslegt kerfi, öflugt bankakerfi og svo framvegis. Roosevelt gerði sér þetta ljóst og gerði sér jafnframt ljóst að innviðir hins bandaríska samfélags voru ekki nægilega skilvirkir til þess að þjónusta hinn gífurlega iðnað sem byggst hafði upp í landinu á liðnum áratugum.

Hann lagði því út í miklar umbætur á samfélagsgerð Bandaríkjanna, umbætur sem hann kallaði New Deal (New Deal er komið úr spilamáli og þýðir ný gjöf).

Viðamiklar umbætur

Nánast um leið og Roosevelt komst til valda hófst hann handa við afar viðamikla lagasetningu svo unnt væri að gera umbæturnar að veruleika. Hann setti ný bankalög, ný efnahagslög og gerði jafnframt miklar lagalegar umbætur á félagslega kerfinu, meðal annars með því að tryggja réttarstöðu verkalýðsfélaga og tryggja atvinnulausum bætur. Enn fremur lagði Roosevelt bann við barnavinnu.

Annar liður í New Deal-stefnunni var að byggja upp samgöngukerfi Bandaríkjanna auk þess sem komið var á alls kyns atvinnubótaverkefnum til þess að tryggja atvinnulausum verkefni og tekjur. Eitt þessara verkefni var að ljúka við byggingu Hoover-stíflunnar sem í dag er orðin hálfgerð táknmynd efnahagsstefnu Roosevelts.

Það er ljóst að kreppunni miklu lauk á valdatíma Roosevelts en hins vegar eru ekki allir sammála um hver ástæðan er. Var það svo að kreppunni lauk vegna upphafs heimsstyrjaldarinnar síðari eða hefði henni lokið um svipað leyti vegna hinna umfangsmiklu umbóta Roosevelts? Hefði það kannski dugað að bíða uns hagkerfið rétti sig við eins og klassísku hagfræðingarnir töldu?

Svörin við þessum spurningum fáum við sennilega aldrei en hitt getum við verið viss um að umbætur Roosevelts urðu til þess að uppbygging bandaríska samfélagsins var gjörbreytt í stríðslok og að hagfræðistefna sú sem kennd er við John Maynard Keynes náði að ryðja sér til rúms.