Línan dregin Það er mikið af kræklingi á hverjum spotta.
Línan dregin Það er mikið af kræklingi á hverjum spotta. — Morgunblaðið/Hjörtur Gíslason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kræklingarækt er að slíta barnsskónum hér á landi. Mikið fjármagn er komið inn í fyrirtækið Norðurskel í Hrísey. Hjörtur Gíslason ræddi við frumkvöðulinn Víði Björnsson, sem stefnir ótrauður upp á við.

Sex ár eru liðin frá því Víðir Björnsson byrjaði að reyna fyrir sér í kræklingarækt hér við land. Hann byrjaði í Hamarsfirði og það fór illa. Árið 2000 byrjaði hann við Hrísey og eftir þá erfiðleika sem frumkvöðlar glíma við á flestum eða öllum sviðum hefur hann sýnt fram á að kræklingarækt er góður kostur hér inni á íslenzku fjörðunum, kostur sem skapar vel þegin störf á landsbyggðinni og skilar þjóðarbúinu tekjum. Stutt er síðan fjársterkir aðilar komu inn í reksturinn með töluvert fé og nú virðist beina brautin vera framundan.

"Ég held að mönnum sé farið að lítast vel á þetta dæmi," segir Víðir. "Það eru menn að koma að þessu sem hafa áhuga á því að byggja fyrirtækið upp. Það er algengt meðal frumkvöðla að þeir kunna ekki að fara með peninga og ég er einn af þeim. Ef ég fengi peninga í hendurnar myndi ég eyða þeim öllum á einum degi, því það er svo margt sem mig langar til að kaupa og gera. Menn eru búnir að vera sveltir svo lengi að þegar peningar koma inn í fyrirtækið, kunna menn sér ekki læti og eyða á báða bóga. Því finnst mér það mjög gott að vera kominn með alvörumenn í stjórn og fjármálastjórn, svo ég get einbeitt mér alveg að kræklingaræktinni og þarf ekki að vera að vasast í því að redda peningum til að lifa frá degi til dags. Það skiptir öllu máli að hafa góða bakhjarla. Nú er báturinn, Eyrún EA, kominn úr slipp og þá förum við á fullt. Ég er sannfærður um það að nú verði þetta ofsalega gaman."

Mikil tækifæri

Víðir er bjartsýnn á framtíðina. "Það eru mörg ónýtt tækifæri í þessari atvinnugrein víða um landið. Víðast hvar eru fiskvinnsluhús sem eru ónotuð og langir og skjólgóðir firðir eru víða. Kostnaður þarf því ekki að vera mikill og til að byrja með er nóg að setja út nokkra spotta að hausti og sjá hvernig þetta kemur út auk þess að kanna hugsanlega mengun og aðra slíka þætti. Ég er viss um að þessi grein á eftir að vaxa og dafna, ef menn leggja einhvern metnað í þetta.

Maður trúir því varla enn þá að þessum mikilvæga áfanga sé náð. En með þessari endurfjármögnun er búið að tryggja það að við getum sett út 100 kílómetra söfnunarlínu á ári í þrjú ár. Það þýðir um 800 tonna framleiðslu á ári og vinnu fyrir um 20 manns eða svo. Nú getum við farið að vinna þetta eins og menn, miklu hagkvæmar og ódýrar."

Höfum mætt gífurlegri vantrú

Þetta hefur verið brekka hjá ykkur. Hafa menn almennt ekki trú á því að þetta sé hægt?

"Okkur finnst reyndar að við höfum mætt gríðarlegri vantrú á þessu verkefni. Við höfum þurft að berjast við hana samfara því að taka á okkur þau áföll sem óhjákvæmilega fylgja frumkvöðlastarfi af hvaða tagi sem er. Draumórar og ævintýramennska eru upphrópanir sem hafa alltof oft og alltof lengi glumið í eyrum okkar. Til dæmis hefur svæðisútvarpið hreinlega fjallað illa um okkur. Það er mjög erfitt að skilja hvað liggur að baki svona hugsunarhætti, hvað mönnum gengur til.

Það var verið að ganga frá 80 milljóna króna fjármögnun í sprotafyrirtæki og það er ekkert algengt á Norðurlandi og líklega víðar. Það er eins og menn átti sig ekki á þessu. Við erum komnir með afurðina. Það er búið að prófa hana og hún hefur reynzt frábærlega. Það á reyndar eftir að koma í ljós hvort þetta verður arðbært, en allir útreikningar hingað til sýna að svo verður. Það hafa reyndar margir lagt okkur lið líka og við erum þakklátir fyrir það. Þáttur félaga minna í þessari baráttu hefur einnig verið ómetanlegur án þeirra Steinþórs, Þórarins, Hjördísar, Haraldar Inga og Guðna hefði þetta ekki náð svona langt og ekki sízt fjölskyldunnar sem hefur staðið með mér í gegnum þetta allt og bókstaflega haldið í mér lífinu.

Ég vona að þessi áfangi verði til þess að menn fari að reyna fyrir sér víðar um landið. Það eru góðir möguleikar úti um allt. Það er miklu meiri styrkur fyrir alla ef ræktendum fjölgar og menn ná að standa saman við lausn vandamála og standa saman að sölu afurðanna.

Það gekk ekkert hjá þeim á Prins Edwardseyju í Kanada fyrr en menn byrjuðu að standa saman. Sama má segja um Skotana. Það gekk hvorki né rak hjá þeim fyrr en þeir stofnuðum samtök sín Scottish Shellfish, sem eru eins konar "mjólkursamlag" þar sem framleiðendur leggja inn skelina sína til vinnslu. Þegar ég kom til þeirra fyrst fyrir fjórum til fimm árum, voru 12 ræktendur í samtökunum, en í fyrra voru þeir orðnir 32. Þeir eru með öfluga verksmiðju og eru að fá mjög gott verð. Þeir sögðu þá við mig að þeir væru tilbúnir að kaupa allt sem við gætum framleitt. Þeim leizt svona vel á þau sýnishorn sem við vorum með."

Læra af mistökunum

Eru ekki töluverðir erfiðleikar við þessa ræktun hér við land?

"Þetta hefur vissulega verið erfitt en maður lærir af mistökunum. Sumarið 1999 reyndi ég fyrir mér í Hamarsfirðinum við mjög frumstæðar aðstæður. Það fór vægast sagt illa. Síðan byrjuðum við hér við Hrísey árið 2000 og þreifuðum okkur áfram með tilheyrandi áföllum. Nú má segja að við vitum alveg hvernig á að gera þetta og nú ætlum við til dæmis að fara að sökkva línunum á veturna til að verja þær fyrir sjógangi. Við ætlum að vinna að því með Sæplasti að hanna flot fyrir íslenzkar aðstæður. Við erum ekkert að finna upp hjólið með því. Í Kanada er línunum sökkt undir ís. Í Adríahafi er línunum sökkt til draga úr áhrifum öldugangs. Menn eru alltaf að færa sig lengra og lengra frá landi til að forðast mengun og eru komnir með burðarlínuna langt út í haf á allt að 15 metra dýpi.

Danir í línurækt

Danirnir hafa lengst af verið í botnrækt en eru nú byrjaðir í línurækt líka og sökkva línunni. Þegar þeir byrjuðu lagði danska ríkið, Evrópusambandið og tvö sveitarfélög á svæðinu til um hálfan milljarð króna til að koma öllu af stað. Ég var beðinn að vinna með þeim í fyrra og var með þeim í viku. Það var mjög sérstakt, en þeir áttu við svipuð vandamál að stríða og við.

Við keyptum vélar frá Spáni til að losa kræklinginn af spottanum, en þær virkuðu ekki nógu vel því kræklingurinn var svo fastur á spottanum. Það sama gerðist hjá Dönunum svo spænski vélaframleiðandinn bað mig um að koma til Danmerkur til að leysa vandann. Ég fór í það og kynnti mér um leið hvernig þeir stæðu að málum. Þeir stofnuðu strax öflug samtök og þarna vinna 15 manns við tilraunir og rannsóknir og panta bara sérfræðinga hvaðan sem er úr heiminum og verða því ekki lengi að ná tökum á þessu.

Þeir eiga þó í alls konar vandamálum, eins og með þörungana, en hrúðurkarlarnir eru verulegt vandamál. Kræklingurinn er ekki nema 13 mánuði að vaxa upp í söluhæfa stærð í Limafirðinum vegna þess hve gríðarlega mikið af næringarefnum frá landbúnaðinum renna út í fjörðinn. Á síðustu fjórum mánuðum vaxtarskeiðsins byrjar hrúðurkarlinn að setjast á skelina og hann verður svo gríðarlegur að maður sér ekki að kræklingur sé undir hrúgunni. Við vorum að gera tilraunir með að losa hrúðurkarlinn af skelinni og það tók fjórar fimm ferðir í gegn til að það væri komið eitthvert lag á skelina, en þá er skelin orðin svo slöpp að hún lifir þessa meðferð ekki af.

Vandamál okkar hérna heima eru bara tæknilegs eðlis, sem tiltölulega auðvelt er að leysa. Náttúran eða mengun er ekkert að angra okkur. Það má segja að við búum bara við lúxusvandamál miðað við stöðuna hjá flestum öðrum löndum. Þetta er svo sannarlega hægt á Íslandi. Það verður haldin mikil ráðstefna hér í haust um kræklingarækt og á hana koma kræklingaræktendur frá öðrum löndum til skýra okkur frá gangi mála. Við gerum ráð fyrir fyrirlesurum bæði frá Kanada og Skotlandi þannig að við fáum upplýsingar bæði frá Ameríku og Evrópu. Það verður mjög spennandi dæmi til að koma greininni áfram og vekja athygli á henni."

Hvernig ætlið þið að selja skelina? Er markaður fyrir hana innan lands eða verður hún flutt úr landi?

Íslenzki markaðurinn borgar mjög vel í dag og það hefur svo sem verið ágætt að sitja einn að honum. Það er hins vegar ekki mikil framtíð í því. Það verður að auka ræktunina mikið og fjölga ræktendum. Þannig verður betur hægt að standa að lausn tæknivandamála og bæta markaðsstöðuna. Skelin hrygnir á mismunandi tíma eftir því hve norðarlega hún er. Í Skotlandi hrygnir skelin á öðrum tíma en á Hjaltlandi, sem þýðir að skozku samtökin geta boðir skel allan ársins hring, en skelin er ekki söluhæf meðan á hrygningu stendur.

Ef ræktunin yrði aukin hérna þannig alvöru ræktun væri hafin í Hvalfirði, Breiðafirði og á Vestfjörðum væri hægt að bjóða skel frá Íslandi allt árið um kring, því skelin hrygnir mánuði fyrr á suðvesturhorninu en í Eyjafirðinum. Þegar Skotarnir voru lýsa yfir vilja til samstarfs við okkur var það meðal annars til að brúa hrygningartímann hjá sér. Þar hrygnir skelin í apríl og maí, en í júlí hjá okkur. Framboðið hjá þeim fellur því í apríl og maí og þess vegna hafa þeir viljað vinna með okkur til að fá skel héðan á þeim tíma.

Markaðsmálin líta því ágætlega út. Við búum reyndar við meiri flutningskostnað á markaðina í Evrópa en til dæmis Skotarnir, en meðan Nýsjálendingar og Chilemenn geta selt inn á þennan markað úr órafjarlægð, ættum við að geta staðið okkur í samkeppninni við þá. Það þýðir ekkert að vera með einhverjar úrtölur. Við erum búnir að sanna það að við getum ræktað úrvalskrækling. Nú er bara að auka framleiðsluna og fara svo að flytja út."

Hvernig er staðan núna, er mikil framleiðsla í gangi?

"Við fáum einhverja uppskeru af því sem við eigum í sjó nú þegar, en þegar við setjum út 100 kílómetra á ári í fjögur ár, verðum við komnir með 800 til 900 tonn á ári eftir þrjú ár. Við sjáum svo sem enga ástæðu til að stoppa þar. Við höfum næg ræktunarsvæði og góðan markað. Það hefur verið gengið frá fjármögnun í þennan áfanga og ef allt gengur upp eins og við gerum ráð fyrir, er engin ástæða til að takmarka framleiðsluna. Þetta er gert um allan heim í stórum stíl og ekkert sem segir að það sé ekki líka hægt hér. Ef eitthvað er, eru aðstæður við Ísland hvað beztar."

Hvernig gengur kræklingaræktin fyrir sig, hvers vegna rækt en ekki eldi?

"Kræklingurinn hrygnir alltaf á fyrsta ári, óháð stærð, og hér gerir hann það í júlí. Það eru sjálfsagt einhverjir tugir þúsunda tonna í firðinum sem hrygna hverju sinni. Lirfurnar eru þrjár til fimm vikur á sveimi í sjónum þar til þær fara að finna sér festu á spottunum. Það getur því alveg eins verið að við séum að fá lirfur frá Siglufirði eða einhvers staðar þar fyrir vestan.

Við verðum að vera tilbúnir með lagnirnar á þessum tíma þegar lirfan er að setjast, en þá er hún 0,25 millimetrar að lengd. Við Skotland verða menn að fylgjast með stærð lirfunnar í sjónum til að setja spottana út á réttum tíma. Ef spottinn fer of snemma út sezt einhver marglytta á hann og kræklingurinn kemst ekki að. Þetta vandamál þurfum við ekki að glíma við hér á landi og því getum við einfaldlega sett spottana út með góðum fyrirvara. Setjum við spottana hins vegar út of seint sezt þaralirfan á spottann og þá fyllist allt af þara og þá er maður búinn að missa af árinu. Í ljósi þess erum við að fara í samvinnu við sæeyrnafyrirtækið Haliotis á Hauganesi í ræktun á þara, en hann er helzta fæða sæeyrna.

Ekkert gefið að éta

Það þarf svo að búa vel að kræklingnum á spottanum eftir að hann er seztur, því líki honum ekki aðstæður, getur hann einfaldlega losað sig og farið annað. Þá getur hann líka slitnað af spottanum ef veður eru slæm á veturna. En sé allt í lagi, hangir hann bara á spottanum og síar í sig næringu úr sjónum, honum er ekkert gefið að éta eins og í fiskeldinu. Hann er ekki í neinum átökum og því fer vöxturinn að langmestu leyti í holdið, en mun minna í skelina. Hann þarf ekki svo mikla og sterka hlíf við þessar kjöraðstæður. Tveggja og hálfs árs skel hjá okkur er orðin fimm til sex sentímetrar að lengd, en ef maður finnur jafnlanga skel í fjöru er hún mjög líklega orðin 6 til 7 ára. Vaxtarskeiðið hjá okkur er rúm tvö ár, 26 til 27 mánuði, en þá hefur skelin náð markaðsstærð.

Það sezt aragrúi af kræklingi á hvern spotta og við höfum haft þann háttinn á að þegar 70% á hverjum spotta hafa náð markaðsstærð, tökum við spottann upp, hirðum það sem hefur náð tilskilinni stærð, en setjum hitt út aftur í svokallaðan sokk. Þá er grisja sett utanum spottann og smá kræklingurinn settur í hana. Spottinn fer aftur í sjóinn og kræklingurinn festir sig við hann að nýju.

Kanadamennirnir segja reyndar að þetta sé ekki nógu góð aðferð. Bezt sé að taka spottann á fyrsta ári, þegar skelin er orðin eins árs. Þá er hún hreinsuð af spottanum og flokkuð í þrjá stærðarflokka og sett út aftur í sokknum, 300 skeljar á hvern lengdarmetra. Þannig hafa þeir náð vaxtarskeiðinu niður í 24 mánuði, því þá eru færri skeljar á hverjum spotta og hver skel fær þá meiri næringu. Þannig næst hraðari vöxtur og sá kostur að auki að þá er nánast öll skelin á hverjum spotta jafnstór. Það er því ætlun okkar að gera þetta eins og þeir og höfum keypt af þeim vélar í því skyni.

Kanadamennirnir hafa lagt mikla vinnu í alls konar rannsóknir og meðal annars hafa þeir komizt að því að það er alls ekki sama hvaða litur er á spottanum. Okkur hafði ekki dottið í hug að það skipti máli, en skelin vill helzt ekki nema grænan og svartan spotta. Við komumst svo að því sjálfir, að þegar við settum út hvítan spotta, settust miklu færri skeljar á hann. Svona er maður stöðugt að læra og ná betri árangri.

Við erum að setja upp sjólagnakerfi í ker upp í húsinu hjá okkur til að geta geymt skel sem er tilbúin til sölu. Við höfum stundum lent í því að komast ekki í línurnar vegna veðurs en með þessu móti getum við verið með mánaðar lager og því verið með jafnt og stöðugt framboð."

Engin mengun

Er einhver mengun í skelinni á þessu svæði?

"Grunnurinn undir þessu öllu er A-vottorðið sem við fengum á dögunum. Það er held ég fátítt í Evrópu, en það þýðir að leyfilegt er að selja skelina beint upp úr sjó, því það hefur verið vottað að svæðið og skelin séu mengunarlaus. Þetta geta Skotarnir til dæmis ekki. Þar verður hún að vera í tvo sólarhringa í geisluðum sjó áður en hún er orðin neyzluhæf. Þetta á einnig við í Kanada og á Spáni. Þetta er forskot sem við verðum að nýta okkur í framtíðinni, að við séum með skel úr mengunarlausum sjó og með einhverja mestu fyllingu sem um getur.

Markaðurinn í Evrópu er gríðarlega stór, 600 til 700 þúsund tonn á ári. 800 tonn frá okkur skipta því afar litlu máli. Við verðum líka að notfæra okkur það góða orð sem fer af íslenzkum fiskiðnaði. Þetta hvort tveggja hlýtur að greiða fyrir okkur leiðina inn á þá hluta markaðsins sem bezt borga, eins og stórmarkaði og veitingahús.

Við gerðum eina tilraun til að komast inn á danska veitingahúsamarkaðinn, þegar Grænlandsflug flaug frá Akureyri til Kaupmannahafnar. Skelin þótti alveg afbragð og Danirnir voru tilbúnir að borga mjög hátt verð, eða 600 krónur á kílóið, þó svo þeir gætu fengið skel í Danmörku fyrir 200 krónur. Þarna opnist góður möguleiki fyrir okkur, en nokkrum dögum eftir að þetta lá fyrir, hætti Grænlandsflug fluginu milli Akureyrar og Kaupmannahafnar og þar með var sá draumur úti.

Þessi möguleiki er svo sem áfram fyrir hendi með því að setja skelina í flug í Keflavík, svo fremi sem kaupendur séu tilbúnir til að borga nógu hátt verð.

Skotarnir og Írarnir hafa farið þá leið að pakka skelinni í lofttæmdar umbúðir í alls konar sósum fyrir neytendamarkað. Þá er skelinni pakkað lifandi og hún er síðan soðin í pakkningunni og þá opnar hún sig ekki vegna þess hve mikill þrýstingur er á pakkningunni. Þetta er svo ýmist frysti- eða kælivara. Í kælivörunni er geymsluþolið 18 dagar en um ár í þeirri frystu. Svo fer skelin bara beint úr pokanum í pottinn.

Írar hafa náð góðri fótfestu á markaðnum í Bandaríkjunum fyrir frystan krækling í sósu og sá möguleiki er vissulega fyrir hendi fyrir okkur líka, ekki sízt vegna þess hve miklu meiri fylling er í skelinni okkar.

Við ætlum að selja skelina ferska til að byrja með en þegar magnið fer að aukast þurfum við að taka ákvörðun um framhaldið. Það er eitt sem færir okkur forskot á keppinautana ytra, en það er að engin áseta er á skelinni hér, hvorki mosi, gróður né hrúðurkarlar. Það er því hægt að bera skelina fram, hún er falleg á diski, en fyrir þannig skel fæst alltaf hæsta verðið.

Vinnslan verður öll í Hrísey, en 25 manns munu starfa við þetta þegar allt verður komið á fullt. Þar er töluvert af vannýttu húsnæði og í Hrísey er mikil verkkunnátta í fullvinnslu sjávarafurða frá því frystihúsið hér var að vinna fyrir Marks og Spencer og fleiri kröfuharða kaupendur. Hún mun nýtast vel við fullvinnslu á kræklingi. Þá liggur Hrísey vel við ræktunarsvæðunum og því sjálfsagt að nýta aðstöðuna þar.

Við höfum haft mjög góða samverkamenn hér heima, eins og kokkana á veitingahúsunum Friðrik V og Humarhúsinu, sem eru duglegir við að kynna kræklinginn og kunna mjög vel með hann að fara. Kræklingurinn helzt lifandi í viku til 10 daga eftir að hann er tekinn upp úr sjónum. Til að geyma hann þarf ekki annað en að setja hann í grisju og geyma í kæli. Klukkutíma fyrir matreiðslu er svo spunaþráðurinn skorinn af og svo fer skelin bara í pottinn."

Olnbogabarn

Það er ekki annað að heyra á þér en framtíðin sé björt.

"Það er alveg ljóst að kræklingarækt á framtíð fyrir sér á Íslandi. Hún hefur alla burði til að vaxa og dafna. Við erum búnir í gegnum súrt og sætt að sýna fram á að þetta gengur og að skelin sé einhver sú bezta sem völ er á í heiminum. Kræklingarækt er mikilvæg atvinnugrein víða um heim, Á Írlandi, Skotlandi, Spáni, Danmörku, í Kanada og Nýja-Sjálandi svo dæmi séu tekin. Í öllum þessum löndum hefur verið lögð mikil vinna í rannsóknir og veitt til þess miklum fjárhæðum. Hér hefur kræklingaræktin verið eins konar olnbogabarn sem ekki hefur náð athygli stjórnmálamanna og fyrir vikið hafa opinber framlög til rannsókna aðeins verið í mýflugumynd. Á hinn bóginn hafa farið fram miklar rannsóknir á þorskeldi, sem er góðra gjalda vert, en við erum líka að byggja upp atvinnu og skapa gjaldeyristekjur og viljum því sitja við sama borð og aðrir.

Einhverra hluta vegna hafa menn litla trú á því að svona einföld aðferð geti gengið og orðið að "stóriðju". Menn trúa því ekki að það sé nóg að henda út spotta með engu á og hífa hann svo upp eftir tvö ár hlaðinn af kræklingi án þess að gefa honum nokkuð að éta. En svona einfalt er þetta nú," segir Víðir Björnsson.