Það er Jón Baldvin Hannibalsson sem var gerður að heiðursborgara í Vilníus, ekki Uffe Ellemann Jensen.

Það eimir greinilega enn eftir af þeim metingi sem á sínum tíma einkenndi samband og samskipti þeirra Jóns Baldvins Hannibalssonar og Uffe Ellemanns Jensen.

Jón Baldvin, sem nú er sendiherra Íslands í Finnlandi, var sem kunnugt er utanríkisráðherra 1988-1995 og Uffe Ellemann gegndi sama embætti í dönsku ríkisstjórninni um ellefu ára skeið, 1982-1993. Milli þeirra ríkti og ríkir enn náin vinátta - en það kom líka upp samkeppni á milli þeirra varðandi málefni Eystrasaltsríkjanna 1991. Og ekki virðast þeir alveg sammála um það enn í dag hvor hafi spilað stærri rullu í þeirri atburðarás er varð til þess að Eistland, Lettland og Litháen fengu sjálfstæði sitt viðurkennt á alþjóðavettvangi og sögðu skilið við Sovétríkin, sem þá voru og hétu.

Ástæða þess að ég rifja þessi mál upp hér er grein sem Uffe Ellemann hefur ritað og birtist nýverið á vef hinnar áhrifamiklu bandarísku hugveitu, Council on Foreign Relations (sjá: http://www.cfr.org/publication.php?id=7781). Greininni fylgir auk þess viðtal við Uffe Ellemann, þar sem hann færir frekari rök fyrir máli sínu.

Í stuttu máli sagt gerir Uffe mikið úr hlut Dana, þ.e. eigin hlut, en heldur lítið úr hlut Íslendinga og Jóns Baldvins Hannibalssonar.

En skv. frásögn Uffes Ellemann urðu Danir fyrstir til að taka upp stjórnmálasamband við Eystrasaltsþjóðirnar þrjár; ekki Ísland og Jón Baldvin Hannibalsson. "Þannig hljómar þessi saga," segir Uffe Ellemann í viðtalinu. "Danmörk gat ekki viðurkennt sjálfstæði þessara ríkja því að við höfðum þegar gert það, 1921, og höfðum staðfest þá viðurkenningu í febrúar 1991, viðurkenndum semsé aldrei hernám Sovétríkjanna. Staða Íslands var allt önnur. Ísland var hluti af danska konungdæminu 1921 og hafði því aldrei [út af fyrir sig] viðurkennt sjálfstæði þjóðanna. Þetta veitti íslenskum stjórnvöldum alveg sérstakt tækifæri, sem þau gripu."

Jón Baldvin hefur ýmislegt við útleggingar vinar síns að athuga. Hann sagði í samtali sem ég átti við hann að hann hefði ítrekað leiðrétt Uffe hvað þessi mál varðar. "Ég hélt að við hefðum útkljáð þetta endanlega í mars 2000," segir Jón Baldvin og rifjar upp að bæði hann og Uffe hafi verið viðstaddir hátíðahöld til minningar þess, að tíu ár voru liðin frá því að Litháen lýsti yfir sjálfstæði sínu. Þar segist Jón Baldvin hafa verið kynntur til sögunnar sem sá maður sem fyrstur viðurkenndi það sem Litháar kalla endurupptöku sjálfstæðis, Uffe talaði síðar og viðurkenndi að hann hefði farið með rangt mál, lofaði að hætta því.

Annað hefur þó komið á daginn, eins og hér hefur verið rakið. Segir Jón Baldvin að það sé beinlínis rangt hjá Uffe að halda því fram að Ísland hafi ekki verið búið að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna, það hafi íslensk stjórnvöld gert 1922. Danmörk hafi vissulega farið með framkvæmd íslenskra utanríkismála á þeim árum, Íslendingar hafi hins vegar mótað sína stefnu sjálfir eftir 1918.

Og eins og fram kemur og í MA-ritgerð Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings um hlut Íslands í sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna 1990-1991 komu utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna fyrst hingað til lands til að skrifa undir samkomulag þess efnis að stjórnmálasamband væri tekið upp milli Íslands og þessara þjóða - fundurinn í Höfða fór fram 26. ágúst 1991 - en héðan fóru þremenningarnir svo til Kaupmannahafnar í sömu erindagjörðum. Í kjölfarið fylgdi hópur ríkja, Jón Baldvin segir að þegar þarna var komið sögu hafi dunið yfir ráðherrana þrjá beiðnir um að koma til Óslóar, Stokkhólms, Brussel o.s.frv., til að hægt væri að taka upp stjórnmálasamband við Eystrasaltsþjóðirnar.

Skriðan var semsé farin af stað. Íslendingar höfðu tekið af skarið (ekki í fyrsta sinn) og Danir fylgt í kjölfarið; afskipti þjóðanna skiptu sköpum, upplausnarástand í Moskvu í ágúst 1991 hafði þó einnig breytt aðstæðum mikið.

Jón Baldvin telur einnig að Uffe Ellemann geri of mikið úr stuðningi Bandaríkjamanna á bakvið tjöldin. Staðreyndin hafi verið sú að mikil tregða hafi ríkt á Vesturlöndum til að viðurkenna rétt Eystrasaltsþjóðanna til sjálfstæðis; ráðandi sjónarmið í Washington hafi verið að ekkert mætti aðhafast eða segja sem græfi undan Míkhaíl Gorbatsjov, þáverandi leiðtoga Sovétríkjanna, og skapaði hættu á að harðlínumenn gætu aftur náð völdum í Moskvu.

Guðni Th. Jóhannesson víkur að "kapphlaupi" Uffes Ellemanns og Jóns Baldvins í Eystrasaltsmálunum í ritgerð sinni, niðurstaða hans er ekki fyllilega afgerandi en ljóst má vera af umfjöllun hans að frumkvæði Íslendinga skipti miklu máli, ef ekki mestu. Mér gefst ekki rými hér til að rifja upp för Jóns Baldvins til höfuðborga Eystrasaltsþjóðanna í janúar 1991 þegar blóðbað vofði yfir, Sovétmenn höfðu gert sig líklega til að berja sjálfstæðishreyfingu þjóðanna niður; hún væri þó sannarlega upprifjunar virði, líklega dramatískasti þátturinn í þessari sögu allri hvað okkar þætti viðkemur. Landsbergis, forseti Litháens, hafði hringt um miðja nótt og sagt Jóni Baldvini að ef hann meinaði nokkurn skapaðan hlut með því sem hann hefði verið að segja um rétt Eystrasaltsþjóðanna til sjálfstæðis yrði hann að mæta á staðinn. Sagði Landsbergis að það skipti máli að utanríkisráðherra NATO-ríkis sýndi samstöðu í verki. Mun Landsbergis hafa hringt í fleiri erlenda áhrifamenn til að biðja þá um að koma en Jón Baldvin var sá eini sem brást við.

Afleiðingin er sú að í Vilníus, höfuðborg Litháens, er að finna götu sem ber nafn Íslands og torgið þar sem utanríkisráðuneytið eistneska stendur í Tallinn er líka nefnt eftir Íslandi. Það er Jón Baldvin Hannibalsson sem var gerður að heiðursborgara í Vilníus, ekki Uffe Ellemann Jensen.

Davíð Logi Sigurðsson