Sigurður H. Þórólfsson: Öll silfur- og gullsmíði er erfið.
Sigurður H. Þórólfsson: Öll silfur- og gullsmíði er erfið. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur ingamaria@mbl.is SÝNING á málmgripum úr smiðju Sigurðar H. Þórólfssonar gull- og silfursmiðs stendur yfir í anddyri Norræna hússins um þessar mundir. Vorvindar er yfirskrift sýningarinnar, sem var opnuð 2.
Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur ingamaria@mbl.is

SÝNING á málmgripum úr smiðju Sigurðar H. Þórólfssonar gull- og silfursmiðs stendur yfir í anddyri Norræna hússins um þessar mundir. Vorvindar er yfirskrift sýningarinnar, sem var opnuð 2. apríl og verður opin út þessa viku.

Málmurinn hefur verið hluti af störfum Sigurðar síðan snemma á áttunda áratugnum, í fyrstu einungis sem áhugamál sem síðan átti eftir að vinda upp á sig, og varð til þess að Sigurður lauk prófi í gull- og silfursmíði árið 1992. "Ég átti gamalt iðnskólapróf, síðan ég var ungur, sem ég bætti síðan við," segir hann. "Í fyrstu voru það skartgripir sem ég fékkst mest við, en þegar ég var orðinn leiður á þeim sneri ég mér að litlu skipunum. Silfurskúlptúrarnir, eins og eru í meirihluta hér á sýningunni, fóru svo að koma uppúr 1990, og eru núna allsráðandi í því sem ég geri."

Silfurskúlptúrarnir á sýningu Sigurðar eru 25 talsins, og eru sumir abstrakt, en aðrir fígúratívari. Nöfnin á mununum bera með sér fjölbreytni; Tangó heitir einn og kom nafnið til vegna þess að gestur á vinnustofu Sigurðar benti honum á líkindin milli forms skúlptúrsins og tangódansara, Svanur heitir annar og er listræn útfærsla á svani.

Sigurður segist vinna gripina mun hægar núna en hann gerði í upphafi skúlptúrasmíðinnar. "Þegar ég var að byrja teiknaði ég hlut, sem mér fannst svo fallegur að ég smíðaði hann strax, sem er auðvitað tóm vitleysa. Í dag er ég stundum að velta fyrir mér mótívi í einn eða tvo mánuði," segir hann. "Ég er farinn að læra að geyma hlutina svolítið, og sjá hvort þeir standist. En einhvern veginn verður maður að byrja, ekki satt?"

En það eru ekki bara skúlptúrar sem Sigurður sýnir í Norræna húsinu nú; meðal gripanna á sýningunni eru þrjú lítil skipamódel úr eðalmálmum; hollensk snekkja, enskt seglskip og síðan varðskipið Týr, sem er nákvæm eftirlíking af hinu eiginlega varðskipi í skalanum 1:300.

Það lá í raun beint við Sigurður sneri sér að smíði skipa úr málmi, því hann segist lengi hafa fengist við smíði skipamódela, þá oftast úr tré. "Ég hef alltaf verið mjög hrifinn af skipamódelum. Slík "kitt", eins og það er kallað, voru flutt fyrir mig hingað til landsins víða að, frá Danmörku og Þýskalandi, enda var lítið að fá hér á landi," segir Sigurður. "Tréskipin sem ég var að fást við voru auðvitað miklu stærri og tóku miklu meira pláss en málmskipin gera, en það má segja að módel sé því meira módel því minna sem það er. Það sem mér fannst örsmátt í tréskipunum hér áður var tröllaukið við hliðina á málmskipunum. Þau þarf að vinna gegn um stækkunargler."

Í minningu Súðavíkurslyssins

Varðskipið Týr er síðasta skipið sem Sigurður hefur smíðað. Það gerði hann kring um aldamótin 2000 og segir kveikjuna hafa verið fregnir af því nokkrum árum áður, að Týr var sendur í vitlausu veðri vestur í Súðavík þegar snjóflóðið hafði fallið þar. "Þetta sat í mér og ég ákvað að smíða Tý af því tilefni," segir Sigurður, og segir skipasmíðakaflanum á ferli sínum hafa lokið þar með. "Það er mikið taugastríð að fást við smíði skipa af þessu tagi. Það má ekki muna um brot úr millimetra neins staðar, því þá skekkist öll myndin. Og ég hef notað allt niður í mannshár, í sum af skipunum, svo mikil er fínvinnan. En annars er öll silfursmíði og gullsmíði erfið. Ég prófaði einu sinni að smíða hlut úr tré sem ég hafði verið fimm daga að smíða úr silfri. Ég var korter að því. Þetta er gjörólíkt."

Sigurður segir engan sem hann viti um vera að fást við smíði skipamódela úr þessu efni, hvorki hér á landi né annars staðar. "Hér eru margir flottir gullsmiðir, mikil ósköp, en þeir eru langflestir í skartgripum, og einn og einn í skúlptúrum. En ég er nokkuð viss um að ég er einsdæmi í litlu skipunum, jafnvel í heiminum," segir hann sem hefur tekið þátt í stórum módelsýningum í London með skipin sín. Þar hafi allir hlutir verið ýmist úr tré, eða pappa.

Hann segist ánægður með útkomuna á sýningunni enda vart annað hægt; þar standa silfurmunirnir á stöplum, og hver og einn lýstur upp, og málmskipin eru í fallegum glerkössum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann sýnir gripina sína, því hann hefur áður sýnt í anddyri Norræna hússins og sýndi meðal annars í Gerðarsafni árið 1996. "Ég veit ekki af hverju, en ég hef alltaf fengið svo fína aðsókn," segir hann. "Og það gleður mig að sjálfsögðu mikið."

Aftan á sýningarskránni að sýningu Sigurðar í Norræna húsinu er að finna tilvitnun í silfursmiðinn fræga, hinn danska Georg Jensen. Sigurður segist taka heils hugar undir orð hans þar sem hann segir: "Silfrið er besti og fallegasti málmur sem við eigum" - enda bera gripir hans vitni djúpri virðingu fyrir málminum fagra.