Guðrún Árnadóttir fæddist á Miðgili í Langadal í A-Húnavatnssýslu 10. ágúst 1921. Hún lést 7. apríl síðastliðinn. Guðrún var dóttir hjónanna Vilborgar Guðmundsdóttur, f. 29.9. 1885, d. 14.3. 1968, og Árna Ásgríms Guðmundssonar, f. 11.7. 1888, d. 25.9. 1963, bónda á Miðgili í Engihlíðarhreppi. Systur Guðrúnar eru þrjár, Ingibjörg, Elísabet og Anna.

Sambýlismaður Guðrúnar, Björgvin Th. Jónsson, lést fyrir mörgum árum. Fóstursonur þeirra er Örn Berg, kvæntur Ragnhildi Gröndal Ragnarsdóttur. Þau eignuðust þrjá syni og barnabörnin eru fimm.

Útför Guðrúnar fór fram í kyrrþey.

Elskulega systir.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Ekki átti ég von á því að það yrði síðasta kveðjan okkar þegar við mæðgurnar heimsóttum þig í mars. Þá varstu svo hress og glöð og ákveðin í að lifa lengi enn. En svona er lífið, það skiptir fljótt um svið og sem betur fer veit maður ekki hvað framundan er.

Það er svo margs að minnast þegar þú og Assi komuð í sveitina til okkar og hlupuð undir bagga þegar mikið var að gera. Mikið var þá gott að fá ykkur. Ég á örugglega eftir að sakna sumarferðanna þinna til mín, flest sumur sem ég man. Þá var nú spjallað og spaugað og spilað af hjartans lyst. Þú varst búin að reyna margt á lífsleiðinni, bæði veikindi og erfiðleika en alltaf reistu upp aftur og hristir af þér mótlætið. Þú varst alltaf hress og glöð og deildir því af örlæti til samferðafólksins og man ég vel hvað herbergisfélagarnir á Grund dáðu þig og elskuðu.

Margs er að minnast frá æskudögunum okkar í Langadal. Og gott var og glatt á hjalla þegar við sungum saman í eldhúsinu í gamla bænum okkar, og minningarnar kalla, - manstu - manstu. Og öll ljóðin þín og sögurnar sem lágu þér svo létt á tungu. Langidalurinn átti stórt rúm í hjarta þínu eins og kemur fram í ljóðinu þínu "Langidalur". Ég læt hér fylgja eitt erindi sem sýnir vel hugarþelið til hans.

Ég veit einn dal þar sem lyngið logar

um leitirnar sérhvert haust.

Og gullna strengi úr bláþræði bregður

Blanda og kveður við raust.

Þegar lagðsíðar hjarðir að húsi renna

og húmbylgjan sígur nær.

Þá lýsir smalanum ljósið heima

er ljóma á þilin slær.

Já, Gunna mín, þér var svo sannarlega margt vel gefið og gott er að muna það. Og börnunum mínum varstu alltaf jafngóð og elskuleg frænka, þó þau með ærslum sínum og uppátækjum gerðu þér lífið leitt. Alltaf var þó stutt í sættir og vilja þau færa þér innilegar þakkir fyrir allt og óska þér góðrar ferðar yfir á landið austan tungls og sunnan sólar.

Að síðustu þetta, elsku Gunna mín: Því minningin ljúf - svo ljós og hlý hún lifir og örugg nýtur.

Vissuna um að þú vaknir á ný inn í vorið sem aldrei þrýtur.

Þótt nóttin sé löng, hún líður skjótt

þá lýsir um byggðir allar.

Sofðu nú vinkona, sofðu rótt

sofðu uns Drottinn kallar.

(Kr. Hj.)

Þín Bebbý systir,

Elísabet.

Hún Gunna systir hefur verið til moldar borin eftir langan og erfiðan vinnudag. Við ólumst upp saman í glaðværum systrahópi og var þá Gunna oftast sú sem skemmti okkur mest og best. Hún var vel greind og hagmælt vel og sagði okkur sögur bæði í bundnu og óbundnu máli. Og ennþá man ég sendibréfin hennar þegar hún var farin að vinna í Reykjavík en ég var bara stelpukorn í sveitinni. Þau voru þannig að maður hló sig máttlausan, því alltaf fann hún skoplegar hliðar allra hluta.

Svona man ég hana, síkáta og skemmtilega, og svona leið bernska okkar og æska við glens og gleði. Og þá man ég hana ekki síður eftir að hún fór að búa með sínum góða manni, Björgvini Jónssyni, sem mér fannst alltaf vera fyrsti bróðirinn sem ég eignaðist enda reyndist hann mér sem slíkur. Þau ólu upp mannvænlegan dreng, Örn Berg, sem ég kynntist aðeins á hans bernskudögum. En það man ég vel hvað góður hann var við elstu dóttur mína sem þá var smábarn. Hvað hann gat endalaust leikið við hana og látið hana hlæja, þá aðeins smápatti. En lengi býr að fyrstu gerð og hann sýndi strax hvern mann hann hafði að geyma enda reyndist hann Gunnu vel alla tíð. En ský dró fyrir sólu. Hún missti heilsuna og fékk vissulega að reyna þá erfiðleika sem því fylgja. Nú seinni árin hefur hún verið undir góðri handleiðslu Grundarheimilisins, fyrst í Ási í Hveragerði og síðan á Grund, og því góða heimili ber að þakka góða og trausta umönnun.

Verði sál þín ávallt Guði falin elsku Gunna mín.

Anna systir.

Margar eru minningarnar sem leita á hugann er við kveðjum kæra móðursystur okkar, Gunnu frænku, eins og hún var ætíð kölluð í fjölskyldum okkar. Margs er að minnast og þakka fyrir. Hún var kát og glettin og engin lognmolla þar sem hún var. Gunna var með eindæmum frændrækin og var henni mjög hugleikið að fylgjast vel með fjölgun í fjölskyldum systra sinna. Hún lagði einnig mikla alúð við að senda öllum eitthvað fallegt um jólin. Allt árið vann hún að handavinnu til að eiga í pakkana og voru þeir orðnir ansi margir jólapakkarnir sem hún sendi um hver jól. Afar bókhneigð var hún og átti sjálf gott með að yrkja. Á yngri árum samdi hún fjölda ljóða og vísna.

Að leiðarlokum viljum við og fjölskyldur okkar þakka henni samfylgdina og alla ræktarsemina. Hennar verður saknað í árlegri grillhátíð fjölskyldunnar á þessu vori, en þar var hún ætíð með okkur. Við sendum Erni fóstursyni hennar og fjölskyldu hans okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Gunnu frænku.

Vilborg, Jarþrúður,

Margrét og Sonja.

Elsku Gunna mín.

Fáein þakkarorð til þín fyrir einstaka tryggð og vináttu í yfir hálfa öld. Fyrstu minningar mínar eru tengdar þér, þegar ég sem smábarn var að hlaupa yfir til þín í litlu Höfðabrekku. Þú ert eina konan sem ég hef þekkt, sem bakaðir kökur handa okkur með málsháttum innan í.

Líf þitt var ekki dans á rósum, en ekkert rauf þína ómældu tryggð og vináttu. Eins og öruggt var að jólin kæmu þá komu jólakortin frá þér, með þinni fallegu og sterklegu rithönd. Þau kölluðu alltaf fram góðar minningar um þig.

Ég kveð þig Gunna mín með erindi úr ljóði Davíðs Stefánssonar, Eftirmæli, og bið góðan guð að umvefja þig ljósi sínu og kærleika.

Og þótt þú hvíldist sjálfur undir súð,

var seint og snemma vel að öllu hlúð,

og aldrei skyggði ský né hríðarél

á skyldur þínar, tryggð og bróðurþel.

Þín

Guðrún Þórbjarnardóttir

frá Flankastöðum.