Gunnar Þorsteinsson
Gunnar Þorsteinsson
Gunnar Þorsteinsson fjallar um þýðingu á nýrri Biblíu: "Gullaldartexti ritningarinnar er ofinn í tungutak okkar. Nýja þýðingin skilur þar á milli og stefnir því í menningarsögulegt stórslys."

NÚ STENDUR fyrir dyrum að ganga frá nýrri þýðingu Biblíunnar til prentunar. Ég hef gagnrýnt þau vinnubrögð Biblíufélagsins við þýðingarvinnuna, bæði opinberlega og einnig í bréfi til stjórnar Biblíufélagsins, en það eru einvörðungu lúterskir menn sem koma þar að. Þeir starfshættir hljóta að kalla á tortryggni og varpa rýrð á þessa nýju þýðingu. Þetta segi ég í ljósi langrar reynslu af vinnubrögðum lúterskra manna við biblíuþýðingar. Það er ljóst að þær þýðingar sem við höfum búið við á síðari öldum bera sterk merki þess að lúterskir menn hafa reynt að sveigja textann að sínum sérkenningum í þýðingu enda ýmislegt í grundvallarkenningu þeirra á skjön við textann. Á meðan þekking manna og menntun í landinu var takmörkuð gátu menn náð nokkrum árangri með þessu ráðslagi, en slík vinnubrögð á tuttugustu og fyrstu öldinni þegar menntun og þekking er á háu stigi og hver og einn á beinan aðgang að frumtextunum á netinu eru beinlínis hlægileg. En samt skal reynt. Nú hefur þýðingarnefndin skilað frá sér texta til yfirlestrar sem þeir sem bera virðingu fyrir orði Guðs geta ekki litið á sem sína Biblíu. Þýðingarnefndin hefur farið út fyrir umboð sitt og í stað þess að halda trúnaði við texta hafa menn valið að setja fram sína eigin hugmyndafræði eða eigin skort á hugmyndafræði.

Í forystugrein Morgunblaðsins 13. þ.m. segir: "Hið íslenska biblíufélag stendur nú fyrir nýrri þýðingu á Biblíunni og er gert ráð fyrir því að hún komi út á næsta ári. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær verða gerðar umtalsverðar breytingar á málfari Biblíunnar í nýju þýðingunni og felast þær meðal annars í því að endurskoða niðrandi orð, sem tengd hafa verið samkynhneigð og taka í auknum mæli tillit til málfars beggja kynja."

"Endurskoða niðrandi orð...", er það hlutverk þýðingarnefndarinnar að leggja Guði orð í munn? Ef Orð Guðs fjallar með niðrandi hætti um einhverja synd, hefur þýðingarnefndin þá umboð til að "leiðrétta" Ritninguna? Geta þessir menn skrifað betra lögmál en Dottinn allsherjar? Hafa þessir menn vogarskálar sem vega hvað er synd og hvað er ekki synd í ljósi breytts tíðaranda? Er Biblían ekki heilög Ritning?

Ennfremur segir í forystugreininni: "Biblían var síðast gefin út árið 1981. Sem dæmi um breytingar má nefna eftirfarandi setningu úr 1. Kórintubréfi, sem hljóðar svo í útgáfunni frá 1981: "Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar guðs ríki erfa." Í tillögu þýðingarnefndar lítur hún svona út: "Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né þeir sem leita á drengi eða eru í slagtogi við þá, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar erfa Guðs ríki."

Það getur hver og einn séð að ekki er verið að taka út "niðrandi" orð og setja annað inn í staðinn, það er verið að breyta merkingunni án þess að það eigi sér nokkra stoð í textanum. Ég geri mér grein fyrir því að það er erfitt fyrir lúterska menn að sitja uppi með Guð sem er gamaldags og hallærislegur og seinni tíð hafa þeir ekki átt mjög mikla samleið. En menn hafa engan rétt til að afflytja sannleikann með þessum hætti, þeir verða að leita annarra leiða til að friða samvisku sína.

Í lok forystugreinarinnar segir höfundur: "Með þýðingunni er greinilega reynt að tryggja að allir hópar samfélagsins njóti sannmælis." Nú, það er bara svona, og ég sem hélt að þýðing væri gerð til að textinn nyti sannmælis - til að Guð nyti sannmælis. Leiðarahöfundurinn hefur hitt naglann á höfuðið. Þýðingin ber það mark að þeir sem hana vinna vilja verða vinir allra og ganga á heilagan texta til að ná marki sínu. En slíkt er ávallt til tjóns.

Ég undrast það yfirhöfuð að menn hafi ráðist í þessa þýðingu. Að vísu þarfnast núverandi biblíutexti lagfæringar, en þau rök að rétt um hundrað ára gamall texti sé óaðgengilegur fást ekki staðist. Hvað með Passíusálmana eða gullaldarbókmenntir okkar frá þessum tímum? Þeir textar eru í hávegum og enginn talar um að þeir séu erfiðir eða óaðgengilegir.

Margir telja að þýðing Biblíunnar á íslensku hafi verið þungt lóð á þá vogarskál að tunga okkar hefur varðveist. En nú er snúist á sveif með þeim sem vilja þynna út tunguna og gengið er í öndverða átt.

Gullaldartexti ritningarinnar er ofinn í tungutak okkar. Nýja þýðingin skilur þar á milli og stefnir því í menningarsögulegt stórslys.

Ef H.C. Andersen hefði fengið sömu útreið og Páll postuli í þýðingu yrði rekið upp ramakvein.

Biblían - Heilög ritning stendur á saurblaði Biblíunnar í útgáfu Hins íslenska Biblíufélags, því miður er því ekki að heilsa í nýrri þýðingu eins og hún hefur verið kynnt.

Latin Vulgate

6:9 an nescitis quia iniqui regnum Dei non possidebunt nolite errare neque fornicarii neque idolis servientes neque adulteri

World English Bible

6:9 Or don't you know that the unrighteous will not inherit the kingdom of God? Don't be deceived. Neither the sexually immoral, nor idolaters, nor adulterers, nor male prostitutes, nor homosexuals,

Weymouth New Testament

6:9 Do you not know that unrighteous men will not inherit God's Kingdom? Cherish no delusion here. Neither fornicators, nor idolaters, nor adulterers, nor any who are guilty of unnatural crime,

World English Bible

6:9 Or don't you know that the unrighteous will not inherit the kingdom of God? Don't be deceived. Neither the sexually immoral, nor idolaters, nor adulterers, nor male prostitutes, nor homosexuals,

Young's Literal Translation

6:9 have ye not known that the unrighteous the reign of God shall not inherit? be not led astray; neither whoremongers, nor idolaters, nor adulterers, nor effeminate, nor sodomites,

Höfundur er forstöðumaður Krossins í Kópavogi.