Margrét við prjónaskap í herbergi sínu.
Margrét við prjónaskap í herbergi sínu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Ég hef létt skap og liðugan talanda," segir Margrét Guðjónsdóttir í Dalsmynni. Hún á ellefu börn og hefur plantað fjöldanum öllum af trjám á lífsleiðinni.

"Ég hef létt skap og liðugan talanda," segir Margrét Guðjónsdóttir í Dalsmynni. Hún á ellefu börn og hefur plantað fjöldanum öllum af trjám á lífsleiðinni . Guðrún Guðlaugsdóttir heimsótti Margréti og fékk að heyra margar sögur af ræktunarstörfum og öðrum störfum, barnauppeldi og heimilishaldi á stóru sveitaheimili.

Mikil frjósemi hefur einkennt líf og starf Margrétar Guðjónsdóttur í Dalsmynni. Hún á ellefu börn, fimm dætur og sex syni, og æði margar trjáplöntur hefur hún gróðursett á sinni löngu starfsævi. Fjölmörg börn voru líka í sveit í Dalsmynni í lengri eða skemmri tíma.

Þessi kraftmikla kona er enn að. Hún tók blaðamanni tveim höndum og upplýsti hann um fjöldamargt í sambandi við skógrækt sína og lífshlaup. En hvar skyldi upphafsins vera að leita?

"Ég var byrjuð að stunda ræktunarstörf strax og ég mundi eftir mér. Amma mín Helga Magnúsdóttir var farin að rækta rófur og kartöflur fyrir aldamótin 1900. Móðir mín ræktaði líka mikið, rófur og kartöflur og allar tegundir af káli. Ég ólst upp við þetta.Ég fæddist í Ytri-Skógum í Kolbeinsstaðahreppi, þar bjuggu foreldrar mínir og ég var fyrsta barnið þeirra," segir hún þegar hún hefur boðið blaðamanni inn í herbergið sitt, þar sem úir og grúir af merkilegum gripum sem hún hefur safnað að sér, steinum og fleiru. Handavinnukona er hún mikil og m.a. gerir hún sér skinnskó að fornum sið og hefur fundið fljótlega aðferð til að líma niður borðann sem konur fyrri tíma vörpuðu efst á skónum.

"Það prjónuðu konur fyrir mig rósaleppa áður en nú eru þær dánar og ég er búin að finna upp nýja tegund af illeppum, með hnúðum sem gefa iljanudd um leið og gengið er," segir Margrét.

Hún kveðst vera orðin próventukona.

"Ég hef gefið sonarsyni mínum húsið mitt gegn því að fá að búa hjá honum og konu hans svo lengi sem ég vil og þarf, ég hef bara eitt herbergi, ég er að æfa mig, ef ég skyldi þurfa að fara á elliheimili, þar fengi ég ekki meira pláss en þetta. Sonur minn býr hér á jörðinni líka, hann byggði sér hús fyrir löngu, hér er því félagsbú," segir Margrét og býður mér sæti á rúmi sínu og heldur svo áfram að segja frá.

Var ofvirk og frek og brúkaði munn

"Mamma, Ágústa Júlíusdóttir, kom úr Skagafirði og átti litla telpu fyrir er hún giftist föður mínum, Guðjóni Jónssyni. Þau voru bæði vinnufólk í Álftaneshreppi þegar þau kynntust. Ytri-Skóga fengu þau svo til ábúðar, þetta var leigukot upp undir fjöllum og mömmu líkaði ekki vel þar. Þau fluttu því á hjáleigu í Álftaneshreppi og ég man þá flutninga fjögurra ára gömul. Ég var kotakrakki en mér leið ekki þannig. Ég var ofvirk og frek og brúkaði munn, ég var ekki siðprútt barn heldur svaraði fyrir mig," segir Margrét.

"Hefði ég verið barn í dag hefði mér verið gefið ritalín og orðið eins og þið hinar," bætir hún við.

"Ég hef alla tíð verið algerlega ofvirk, ég hef haft mikið verksvið, húsmóðir í sveit þarf að geta gert allt mögulegt, ekki síst þegar hún á ellefu börn og hafði fjölda sumarbarna að auki, en ég var alltaf útivistarmanneekja. Þegar ég var búin að þvo allar bleiurnar og koma öllum í rúmið fór ég út í garð og gleymdi mér þá kannski þar til sólin kom upp."

Kannski hefur ekki veitt af að vera svolítið ofvirk með allan þennan hóp?

"Ég er bráðlynd eins og faðir minn, hann reiddist fljótt og sagði þá eitt og annað sem hann sá eftir, móðir mín var langrækin og hefnigjörn, þau áttu því illa saman. Ég ákvað að giftast ekki þegar ég var níu ára. En svo þegar ég var sautján ára og komin í samband ákvað ég að það yrði ekki rifrildishjónaband hjá okkur. Það var hins vegar bónda mínum, Guðmundi Guðmundssyni, mest að þakka að svo varð ekki, hann gat ekki rifist, hann hummaði bara, seinþreyttur til vandræða."

Fékk nýfædda stúlku þegar hún trúlofaði sig

En hvernig kynntist þetta fólk sem átti svo vel saman?

"Ég átti eldri systur sem var komin til Reykjavíkur 1940, herinn var kominn og ástandið byrjað og kominn losarabragur á fólk. Hún vildi fá mig suður í vist. Mamma var á móti því, ég var ekki prúðasta barnið og hún óttaðist um mig í sollinum í Reykjavík. Kunningjakona úr sveitinni hafði verið í Kolviðarnesi, húsmóðirin þar var á áttræðisaldri, hálfblind, sonur hennar Guðmundur, sem var yngstur af mörgum systkinum og bóndinn á bænum, var ógiftur og gat ekki mjólkað eða matreitt og því þurfti hjálp á heimilið. Mér bauðst þessi vist eftir áramót þegar ég var 17 ára. Ég vildi vinna eitthvað og fá kaup svo ég gæti farið á húsmæðraskóla eins og þá þótti fínt og mamma vildi heldur að ég færi í Kolviðarnes en til Reykjavíkur. Ég sló til, í húsmæðraskólann komst ég aldrei og samanlögð skólavist mín varð aldrei lengri en tuttugu vikur.

Sumarið áður hafði verið kaupakona í Kolviðarnesi, hún varð ófrísk eftir bóndann en átti ungt barn fyrir og vildi taka saman við fyrri kærastann sinn. Bóndinn bauðst til að taka nýfætt barn sitt og hugðist fá systur sína til að fóstra það. En þegar ég frétti um barnið vildi ég að við tækjum það og myndum ala það upp, við opinberuðum trúlofun okkar á sumardaginn fyrsta, þá var barnið mánaðargamalt. Ég fékk að ráða þessu og fór suður til Reykjavíkur til að sækja barnið og lét taka mynd af mér og litlu stúlkunni, sem þá var orðin mín.

Maðurinn minn var að verða fertugur þegar við tókum saman og hafði aldrei verið við kvenmann kenndur þegar kaupakonan fyrrnefnda varð ófrísk. Það þóttu því tíðindi þegar hann var skyndilega kominn með sautján ára kærustu og nýfætt barn.

Maðurinn minn var ákaflega ófríður, orðinn þetta gamall og kunni lítt að umgangast konur, en maður tók bara ekki eftir því, hann hafði svo mikla útgeislun. Móðir hans vildi fá mig sem tengdadóttur og bar honum sérlega vel söguna, það hjálpaði til. Ég hef alltaf verið fljótfær og lifað í núinu, en ég eyði ekki tímanum í að sjá eftir því sem orðið er. Ég sé aldrei eftir því sem ég gerði í gær og kvíði aldrei því sem verður á morgun.

Ég fékk mjög heppilegan mann, hann var eins og bjarg, sagði ekki margt en var mér góður og sá um að alltaf væri til nóg að bíta og brenna.

Það er mikið lán að hafa barnalán

Ég fæddi fyrsta barnið mitt átján ára og var svo til skiptis ólétt og með barn á brjósti. Mér gekk vel að fæða, öll börnin mín fæddust heima, - en einu sinni kom upp svolítið vandamál. Manninum mínum var mjög illa við mánudaga og vildi ekki að neitt sem máli skipti byrjaði þá. Þegar ég átti fjórða barnið og fór að átta mig eftir fæðinguna heyrði ég að hann og ljósmóðirin voru að þrátta.

"Getur þú ekki bara látið mína klukku gilda, hún er eitt, þá er kominn þriðjudagur," sagði maðurinn minn við ljósmóðurina. Hann var með búmannsklukku sem var einni klukkustund á undan hinum viðurkennda tíma.

"Nei, það kemur ekki til mála, stúlkan er fædd akkúrat klukkan 12 á mánudegi samkvæmt minni símaklukku," svaraði ljósmóðirin og þar við sat.

Við Guðmundur eignuðumst saman tíu börn, þá komu getnaðarvarnir, ég nennti ekki að standa í þessu lengur og tók þær í notkun. Maðurinn minn hefði viljað eiga fleiri börn, hann var svo hrifinn af litlum börnum, honum fannst þau skemmtilegust þegar hann gat róið með þau og kveðið fyrir þau vísur. Hann sinnti börnunum okkar alla tíð vel og mikið, leiddi þau úti og hafði þau með sér til ýmissa verka. Hann viðhafði aldrei stærri orð við börnin en: "óttalegt er á þér", það fannst þeim svo skelfilegt að þau hlýddu undir eins. Það var aldrei slegið til barna á mínu heimili. Kæmi upp ágreiningur var hann ræddur. Ég gerði mikið af því að fara með ljóð og þulur fyrir krakkana mína, ég varð snemma ljóðelsk og kunni mikið af slíku, einkum eftir gömlu skáldin. Þetta gafst vel, ég var aldrei í vandræðum með börnin mín, öll hafa þau komist vel til manns og eru búsett á Íslandi utan eitt, það er glataði sonurinn, hann starfar á Nýja-Sjálandi en kom í heimsókn til Íslands í fyrrasumar. Ég er eins og fuglarnir, þeir verpa og svo verða ungarnir fleygir og þá skipta foreldrarnir sér ekki af þeim meir. Börnin mín hafa sjálf fundið sér leiðir í lífinu en þau eru ótrúlega góð við mig og heimsækja mig oft.

Ég öfunda ekki einbirni nútímans eða foreldra þeirra. Ef það er gott lag á heimilinu og nóg til þá verður allt auðveldara í hópnum, það er hollt fyrir börn að alast upp í hóp. Það er mikið lán að hafa barnalán.

Vandi bóndann á að eta salat út í skyrið meðan hann var ástfanginn

Í Kolviðarnesi var veiddur silungur og dregið að í stórum pakkningum mjölmatur og fleira einu sinni á ári og svo ræktaði ég kartöflur og grænmeti. Ég vandi bóndann á að eta salat út í skyrið meðan hann var ástfanginn og mjög meðfærilegur. Hann borðaði alla okkar búskapartíð skyr á morgnana og hafði salat út í það á sumrin en bláber á veturna sem við tíndum á sumrin og frystum. Ég passaði alla tíð að hann borðaði hollan mat svo hann héldi heilsu og kröftum. Hann varð líka níræður. En eitt kvöldið kallaði hann til mín og sagði að það væri að líða yfir sig. Og það leið yfir hann. Hann var fluttur á sjúkrahús á Akranesi og lá þar í nokkra daga. Snemma morguns bað hann um að fá að fara í sturtu og fékk það. Hann sagði við hjúkrunarkonuna "það er að líða yfir mig", í sturtunni dó hann. Ég er þakklát fyrir að hann þurfti ekki að líða, mér finnst ákaflega huggulegt að fá að deyja í sturtu með góða hjúkrunarkonu við hliðina á sér."

Það á ekki að taka fallegustu blettina undir skógrækt

Þau Margrét og Guðmundur fluttu búferlum úr Kolviðarnesi í Dalsmynni árið 1948.

"Ég byrjaði í skógræktinni strax og ég kom hingað," segir Margrét.

"Hákon Bjarnason skógræktarstjóri kom hingað þegar stofnað var Skógræktarfélag Heiðsynninga. Þórður á Ölkeldu í Staðarsveit var formaður. Við fengum plöntur frá Daníel á Hreðavatni og gróðursettum með skóflu og haka. Maðurinn minn girti fyrir mig landspildu í brekkunni hér fyrir ofan og þar fór ég að setja niður plöntur. Ég sé svolítið eftir því að hafa valið svona fallegan stað, maður á aðplanta trjám og sá lúpínu í auðnir og örfoka land. Það á ekki að taka fallegustu blettina undir skógrækt.

Mest plantaði ég af birki og greni. Það fór illa þarna í brekkunni, ég þarf að koma því í verk áður en ég verð öll að láta saga niður það sem ég plantaði fyrst í brekkuna. Maður á að tíma því að saga niður tré sem maður er ekki ánægður með. Það á að grisja og láta fallegustu trén verða eftir. Sum af gömlu trjánum í brekkunni liggja flöt undan snjónum.

Ég var ekki virk í starfi Skógræktarfélags Heiðsynninga fyrst, var í barneignum og látum, en þegar Þórður á Ölkeldu hætti skógræktinni í Staðarsveit og girt var nýtt land við Laugargerðisskóla úr landi Hrossholts fór ég að taka til hendinni. Nú á að fara að opna Hofstaðaskóg, skógræktarsvæðið í Staðarsveit, sem útivistarsvæði. Jón Geir Pétursson frá Skógræktarfélagi Íslands kom um daginn og við stikuðum um allt svæðið, ég dáðist að sjálfri mér að fá ekki harðsperrur, ég er nú orðin 82 ára."

Hirðskáld Skógræktarfélags Íslands

Fimmtán er eru síðan Margrét varð formaður Skógræktarfélagsins Heiðsynninga.

"Ég hef alltaf sótt fundi fyrir félagið fyrir sunnan. Þá fer ég í leiðinni í Blómaval og Kolaportið. Ég er nú svo léttúðug að ég hef jafnan með mér í farteskinu vísur til að grípa til, ef ég skyldi þurfa að tala á fundum, - svona ef ég yrði kjaftstopp. Það kemur nú raunar ekki oft fyrir.

Ég kom því þannig á að verða nokkurs konar hirðskáld Skógræktarfélags Íslands, þar líta menn auk þess á mig sem einhvers konar ömmu sína. Þeir ætlast til að ég berji saman vísur af ýmsum tilefnum, að öðru leyti geri ég ekki mikið af því að yrkja. Bónda mínum líkaði vísnagerðin mín vel, hann kvað stundum kveðskap minn, t.d. afmælisvísur, til sveitunganna. Meira að segja voru sumar ritaðar á kálfskinn.

Maðurinn minn sýndi skógræktaráhuga mínum mikinn skilning, hann vildi að ég ætti mér áhugamál og gerði mér allt til geðs í þeim efnum - en sjálfur sinnti hann þessu lítið. Þegar ég var t.d. í skógræktinni á vorin að planta var hann að sinna sauðburðinum, það tók allan hans tíma. Ég plantaði mikið á nóttunni. Börnin og eiginmaðurinn voru öll kvöldsvæf. Hann sinnti því börnunum og var inni meðan ég plantaði. Nágrannakona okkar á Stóra-Hrauni, gegnt Kolviðarnesi, bara áin skilur á milli, sagðist ekkert skilja í öllum þessum barneignum því þegar ég færi inn úr garðinum þá kæmi maðurinn minn út til að slá."

Fyrstu árin fékk Margrét plöntur hjá Daníel á Hreðavatni, sem fyrr sagði, en síðari árin kveðst hún hafa fengið landgræðsluplöntur og plantað niður í girðingu.

"Birkið er mín uppáhaldsplanta, það er íslenskast en við fáum nú bara ekki nógu fallegt birki, hér svo mikill rokrass að það vill kala og leggjast. Öspin er glæsileg og svo er ég líka mjög hrifin af blágreni og fjallaþini. Ég er með hér heima hrímu og gúrpu, það eru víðitegundir, og svo strandavíði, sem og viðju. Ég klippi þetta niður og fæ þannig plöntur til að setja niður. Kærasta Atla Sveins Svanssonar sonarsonar míns hefur nú tekið við að planta. Hjalta Júlíusdóttir heitir hún og skrifar skýrslur fyrir landgræðsluplönturnar núna, hún er mín hægri hönd í skógræktinni. Þeim bregður við sem fá skýrslurnar, hjá mér var þetta tómt krabb en nú fá þeir skýrar og skilmerkilegar skýrslur.

Þótt ég sé ekki mikil skýrslugerðarmanneskja þá hef ég ýmsa kosti, þá helsta að ég hef létt skap og liðugan talanda, fæddist full og er alveg sama hvað aðrir gera og segja ef þeir æla og slefa ekki utan í mig. Mér er ekki vel við fyllirafta."

Með þessum tilkomumiklu orðum kveður mig sú mæta skógræktarkona Margrét í Dalsmynni. Þegar ég ek í burtu hef ég í töskunni minni fáeinar vísur eftir Margréti, þær hljóða svo:

Mér finnst ég vorsins fögnuð finni

fyllist hjartað ljúfri þrá.

Ef við geymum sól í sinni

sorg og kvíði víkja frá.

Við skulum tengjast bræðrabandi

breyta urð í vænan skóg,

græna vin á gráum sandi

af gróðurleysi er meira en nóg.

Sterk og frjáls við stöndum saman

styðjum lífsins undramátt.

Að planta trjám er gleði og gaman

- gerum slíkt að þjóðarsátt.