Anna Líndal "Í bakgarðinum" (2003). "Mynd eyðileggingarinnar kemur í veg fyrir að myndgrunnurinn eyði sjálfum sér."
Anna Líndal "Í bakgarðinum" (2003). "Mynd eyðileggingarinnar kemur í veg fyrir að myndgrunnurinn eyði sjálfum sér."
Seyðisfirði, Skaftfelli, Austurvegi 42. Landslagsmálverkið er sú grein innan myndlistarinnar sem stöðugt tekst á við samband manns og náttúru.

Seyðisfirði, Skaftfelli, Austurvegi 42.

Landslagsmálverkið er sú grein innan myndlistarinnar sem stöðugt tekst á við samband manns og náttúru. Í rómantíkinni var áherslan lögð á smæð og varnarleysi mannsins andspænis ægirömmum öflum náttúrunnar, en þegar við upphaf 20. aldar tekur viðfangsefnið nokkrum breytingum. Nú var það náttúran sem var orðin berskjölduð en maðurinn sem þjarmaði að henni með vélum sínum. Verkið "Í bakgarðinum" (2003) eftir Önnu Líndal (*1957), listakonu sem býr í Reykjavík, sýnir landslagsmálverk sem stendur innan þessarar hefðar, en á formi myndbands. Með nístandi hávaða í bakgrunni sér áhorfandinn þær vélar sem mennirnir nota til að herja á náttúruna. Þegar má sjá djúp sár í fjallinu af þeirra völdum. Það er lýsandi að myndbandið skuli renna áfram sem skjáhvíla á fartölvu. Skjáhvílan verndar tölvuskjáinn með myndum á hreyfingu, þar sem kyrrmynd myndi fljótt brenna sig fasta í skjáinn. Mynd eyðileggingarinnar kemur í veg fyrir að myndgrunnurinn eyði sjálfum sér. Áhorfandinn situr með tebollann sinn við tölvuna. Bollinn, efnið og tvinninn, virðist á formrænan hátt drekka í sig vatnsniðinn á skjánum, en hann gæti um leið verið tákn okkar eigin aðgerðaleysis. Úr verður sérkennileg og óútskýranleg spenna á milli þessa vinalega en um leið uggvænlega bolla og atburðarásarinnar á skjánum. "Ég held," fullyrðir Anna Líndal, "að einhvers staðar á milli tilfinninganna og tækninnar búi óbeisluð orka og stór hluti listsköpunar minnar fæst við að tjá þessa orku með viðeigandi, sjónrænum hætti."

Árið 1997 tók Anna í fyrsta sinn þátt í leiðangri Jöklarannsóknafélagsins á Vatnajökul. Þar safnaði hún efni í myndbandsskúlptúrinn "Borders" (1999-2000), sem hún síðan nýtti í vinnu sinni með því að sýna það á mörgum skjám. Á hillu, sem gæti staðið í hvaða stofu sem er, standa fjögur venjuleg sjónvarpstæki innan um lampa, stofublóm og litlar ljósmyndir. Á einum skjánum gefur að líta unga stúlku sem les upp forna sagnatexta í saklausri fegurð sinni. Á hinum þremur má sjá náttúrufyrirbæri á borð við eldvirkni, vatn eða ís. Þeir sýna vísindarannsóknirnar á jöklinum. Anna skapar þannig myndverk sem stillir upp myndum af fróðleiksþorsta mannsins, voldugri og óskiljanlegri náttúrunni andspænis heimilislegri veröld stofunnar. "Ég held að hver einasti einstaklingur hafi að geyma náttúru og tíma og standi þar af leiðandi í þeirri trú að náttúran tilheyri honum. Í raun er þessu öfugt farið: Við tilheyrum náttúrunni." Verk Önnu Líndal snúast ekki um að segja sögu. Hún vinnur með opin, frjáls rými og einstaklingsbundin hugrenningatengsl áhorfandans.