Í kór Akureyrarkirkju Miðrúðan er úr dómkirkjunni í Coventry. Henni var ásamt fleiri helgimyndarúðum komið fyrir í örugga geymslu árið 1939 en hafði ekki komið í leitirnar eftir heimsstyrjöldina.
Í kór Akureyrarkirkju Miðrúðan er úr dómkirkjunni í Coventry. Henni var ásamt fleiri helgimyndarúðum komið fyrir í örugga geymslu árið 1939 en hafði ekki komið í leitirnar eftir heimsstyrjöldina. — Morgunblaðið/Kristján
Miðrúðan í kór Akureyrarkirkju er komin þangað úr dómkirkju heilags Mikjáls í borginni Coventry á Englandi. Rúður úr dómkirkjunni eru einnig í Áskirkju og á einkaheimili við Dyngjuveg í Reykjavík. Lengi hefur verið óvíst hvernig og hvers vegna þessar rúður bárust til Íslands. Hér er sagan sögð.
Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar ráku tvíburabræðurnir Helgi H. og Kristján Zoëga, forn- og listmunaverslun við Aðalstræti í Reykjavík. Helgi hafði margvísleg viðskiptatengsl við fyrirtæki á Englandi á stríðsárunum, m.a. verslun með kol og salt og stundaði kaupskipaleigu. Árið 1942 eða 1943 var hann í innkaupaferð í Englandi þegar hann rakst á myndarúður úr dómkirkju heilags Mikjáls í borginni Coventry á Englandi. Þessar myndarúður voru í fornmuna- og listaverkaverslun í Lundúnum. Ákvað Helgi að kaupa rúðurnar ásamt mörgum öðrum fornmunum og hafði síðan til sölu í verslun þeirra bræðra í Reykjavík. Myndarúðurnar voru að sögn Helga úr þremur gluggum en höfðu þó verið teknar í sundur í nokkra parta. Sagði Helgi að myndarúðunum hefðu fylgt þær upplýsingar að þær hefðu verið það eina heillega sem fundist hefði í rústum dómkirkju heilags Mikjáls eftir loftárásir Þjóðverja á borgina Coventry aðfaranótt 15. nóvember 1940.

Akureyrarkirkja fær glermálverk

Hinn 17. nóvember 1940, þegar enn rauk úr rústum dómkirkju heilags Mikjáls var hin nýja og glæsilega sóknarkirkja á Akureyri vígð að viðstöddu miklu fjölmenni. Akureyrarkirkja var þá stærsta og veglegasta guðshús á Íslandi teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins. Við vígsluathöfnina hélt Guðjón tölu og sagði m.a. í lýsingu á kirkjunni: ,,Gert var ráð fyrir, að allar rúður væru úr lituðu antik-gleri, en ekki var unnt að fá það vegna stríðsins, og varð því að neyta þess ráðs að úða rúðurnar úr mislitu lakki. Í miðglugga kórsins, sem er fyrir miðju altari, eru stafirnir JHS og eru það upphafsstafirnir í latnesku orðunum (Jesus Hominum Salvator), sem þýða á íslensku, Jesús, mannanna frelsari. Einnig er þar krossmark. Í þessum glugga verður síðar sett upp glermálverk." 1

Skömmu eftir að myndarúðurnar frá Coventry höfðu verið fluttar til Íslands var Jakob Frímannsson, kaupfélagsstjóri á Akureyri og sóknarnefndarmaður Akureyrarkirkju, staddur í Reykjavík. Hann frétti af myndarúðunum og við athugun kom í ljós að ein myndarúðan passaði í kórglugga Akureyrarkirkju. Jakob keypti myndarúðuna og þau hjónin, Borghildur Jónsdóttir og hann, gáfu Akureyrarkirkju þetta glermálverk. Jakob vann mikið að undirbúningi að byggingu Akureyrarkirkju ásamt Guðjóni Samúelssyni húsameistara. Hann var í sóknarnefnd kirkjunnar í rúm 20 ár eða frá 1939-1960. 2

Altarisrúðan frá Coventry í Akureyrarkirkju er myndarúða úr kórgluggum Sankti Mikjáls-dómkirkjunnar, ein hinna svokölluðu Adelaide-myndarúða. Þrjár austustu myndarúðurnar í kór dómkirkju heilags Mikjáls voru gefnar dómkirkjunni árið 1853 og komið þar fyrir til minningar um Adelaide (Aðalheiði) ekkjudrottningu (1792-1849), ekkju Vilhjálms IV Englandskonungs. 3

Sumarið 1943 var síðan Adelaide-myndarúðunni komið fyrir í miðglugga kórs Akureyrarkirkju, en í kórnum eru 5 allháir glergluggar sem mynda til samans altaris- eða kórglugga kirkjunnar. Breidd myndarúðunnar frá Coventry samsvaraði alveg breidd kórglugga Akureyrarkirkju en bæta varð lituðu gleri neðan við myndarúðuna til að hafa lengdina rétta. Þessi rúða var síðan eina myndarúða kirkjunnar og jafnframt altaristafla kirkjunnar ásamt tveimur málverkum fram til ársins 1960. 4

Myndarúðan send á ný til Englands

Árið 1959 hafði sóknarnefnd Akureyrarkirkju samband við Guðmund frá Miðdal um þá hugmynd að fá helgimyndarúður í alla kórglugga kirkjunnar. Guðmundur vann þá að myndarúðum fyrir Bessastaðakirkju. Hann leitaði tilboða hjá bresku fyrirtæki, J. Wippel & Co. Ltd. í Exeter um að útvega þessar fjórar myndarúður. Í nóvember 1959 fór Guðmundur síðan ásamt breskum sérfræðingi frá glerverkstæðinu, Fredric Cole, til Akureyrar til að undirbúa verkið. Guðmundur gerði síðan frumteikningar að hinum fjórum myndarúðunum í kór kirkjunnar. Breska glerverkstæðið óskaði eftir því að fá altarismyndarúðuna frá Coventry til Bretlands til hliðsjónar við gerð hinna myndarúðanna. En það var nauðsynlegt til að heildarmyndin yrði sú sama á öllum myndarúðunum. Coventry-myndarúðan var síðan tekin niður og send utan. Í flutningunum varð hún fyrir hnjaski og skemmdist en J. Wippel & Co. sáu um viðgerðina og einnig um þær viðbætur sem gerðar voru til að lengd myndarúðunnar væri til samræmis við heildarlengd kórgluggans. Myndarúðan sem bætt var neðan við Coventry-rúðuna sýnir guðslambið, tákn Krists, (Angus Dei). Jakob Frímannsson og Borghildur Jónsdóttir, kona hans, borguðu fyrir þessar viðbætur á myndarúðunni.

Haustið 1960 voru síðan allar myndarúðurnar fullgerðar og settar upp í kór kirkjunnar. Umsjón með verkinu hafði Guðmundur frá Miðdal og vann við uppsetninguna ásamt heimamönnum. Myndefni kórglugganna fimm er ef talið er frá vinstri; 1. Boðun Maríu, 2. Fæðing Jesú, 3. miðrúðan (Coventry-myndarúðan), Jesúbarnið í fangi Símeons, 4. Jesús 12 ára í Musterinu, 5. Skírn Jesú. Á neðsta hluta allra myndarúðanna er einnig stök mynd, líkt og guðslambið er á Coventry-myndarúðunni. Þessar myndir eru táknmyndir guðspjallamannanna, talið frá vinstri; engill; tákn Mattheusar, ljón; tákn Markúsar, uxi; tákn Lúkasar og örn; tákn Jóhannesar. 5

Myndarúður frá Coventry í Áskirkju

Aðrar myndarúður frá Coventry sem höfðu verið fluttar til Íslands keypti Unnur Ólafsdóttir, listakona í Reykjavík, og maður hennar, Óli M. Ísaksson, lengi kenndur við bílaumboðið Heklu. Unnur féll frá árið 1983 og ári síðar afhenti Óli M. Ísaksson Áskirkju að gjöf þessar myndarúður að undanskilinni einni myndarúðu sem prýddi heimili þeirra hjóna á Dyngjuvegi 4 í Reykjavík. Alls voru það fimm myndarúður úr dómkirkjunni í Coventry sem Áskirkja eignaðist. Þessar myndarúður voru allar afhentar Áskirkju í sérsmíðuðum trérömmum. Árið 1989 var fjórum myndarúðum komið fyrir í vegg sem aðskilur safnaðarheimilið frá fordyri kirkjunnar. Það eru allt postulamyndir. 6 Ein myndarúðanna sýnir postulana Pétur og Pál. David McGrory, blaðamaður í Coventry, sem skrifað hefur mikið um dómkirkju heilags Mikjáls telur að þessi myndarúða hafi verið staðsett í svokallaðri Dyers-kapellu í suðvesturhluta Sankti Mikjáls-dómkirkjunnar. Einnig er myndarúða fyrir ofan lítið altari í kapellu og fundaherbergi kirkjunnar. Sú myndarúða sýnir þegar Kristur reisir dóttur Jaírusar upp frá dauðum og mælir þessi orð: ,,Stúlka litla, ég segi þér, rís upp!" (Mark. 5:39.) Þessi forkunnarfagra myndarúða er ein hinna svokölluðu Adelaide-myndarúða eins og altarismyndarúðan í Akureyrarkirkju. 7

Undrandi breskir ferðamenn

Það fór aldrei svo að ómetanlegir dýrgripir, helgimyndarúður úr einni þekktustu miðaldadómkirkju á Englandi, hyrfu án þess að um frekari eftirmál yrði að ræða. Breskir ferðamenn sem átt höfðu leið um Akureyri höfðu þau tíðindi að segja forráðamönnum dómkirkjunnar í Coventry að í kirkju í fámennum bæ norður undir heimskautsbaug væri að öllum líkindum að finna eina af þeim helgimyndarúðum sem komið var í örugga geymslu árið 1939 en höfðu ekki komið í leitirnar eftir heimsstyrjöldina. Þessar fréttir vöktu mikla athygli og hinn 14. maí 1981 hafði blaðamaður frá dagblaðinu Coventry Evening Telegraph samband við séra Pétur Sigurgeirsson, annan tveggja sóknarpresta við Akureyrarkirkju, og spurði hvort þær sögusagnir væru réttar að ein myndarúðan í Akureyrarkirkju væri frá Coventry. Sr. Pétur gat staðfest það. Einnig spurði blaðamaðurinn að því hvort myndarúðunni yrði skilað til Englands ef þess yrði óskað. Sr. Pétur sagði að hann gæti engu svarað til um það, slík beiðni hefði ekki komið fram. ,,Hinsvegar teldi hann sjálfur það harla ólíklegt að sóknarnefnd yrði við þeirri beiðni, þó að hún yrði fram borin. ldquo 8 Sr. Pétur Sigurgeirsson hafði þá verið prestur við Akureyrarkirkju frá árinu 1947 og jafnframt vígslubiskup frá 1969. Síðar þetta sama ár, eða frá 1. október 1981, var hann skipaður biskup Íslands.

Er áratuga gömul gáta leyst?

Laugardaginn 16. maí 1981 birtist grein eftir Elaine Gear í dagblaðinu Coventry Evening Telegraph , sem gefið er út í Coventry, með fyrirsögninni: ,,Fjörutíu ára gáta týndu dómkirkjurúðanna leyst." Þar kemur fram að ferðamenn frá Englandi hafi borið þær fréttir með sér til dr. Williams, sem þá var dómprófastur í Coventry, að myndarúðu úr hinni gömlu dómkirkju þar væri að finna í Akureyrarkirkju. Dr. Williams sagði að ítrekuðum fyrirspurnum til kirkjuyfirvalda á Íslandi og íslenska sendiráðsins í London um þetta mál hefði ekki verið svarað. En í greininni segir að nýju ljósi hafi verið varpað á þetta dularfulla mál. Dr.Williams segir einnig að ekki séu öll kurl komin til grafar um það hvers vegna myndarúðurnar skiluðu sér ekki eftir stríð. Hann kannaðist ekki við að myndarúður úr dómkirkjunni hefðu verið gefnar eða seldar. Þessi grein vakti mikla athygli í Bretlandi. Einnig birtust fleiri greinar um sama efni í öðrum dagblöðum í Bretlandi, m.a. Manchester Guardian .

Þar með var sá misskilningur leiðréttur að myndarúðurnar sem fluttar voru til Íslands hefðu fundist í rústum dómkirkjunnar eftir loftárás Þjóðverja í nóvember 1939 eins og Helga H. Zoëga var talið trú um þegar hann keypti þær, ,,sem var reyndar afar ósennilegt og hefði þurft eigi lítið kraftaverk til", bætir Sverrir Pálsson við í bók sinni um Akureyrarkirkju. 9

Sendinefnd frá Coventry ráðgerir heimsókn til Akureyrar

Stuttu eftir að greinin birtist í Coventry Evening Telegraph barst sóknarprestinum á Akureyri bréf frá kirkjustjórninni í Coventry undirritað af Kenyon E. Wright kórbróður þar sem þeir óskuðu eftir að koma á "sambandi vináttu og kærleika" milli þessara tveggja kirkna og mæltu með því að sendinefnd frá Coventry kæmi til Akureyrar í því skyni. Myndi hún færa Akureyrarkirkju að gjöf kross, smíðaðan úr nöglum, sem fundust í grunni hinnar brunnu dómkirkju.

Með "sambandi vináttu og kærleika" eins og það er orðað í bréfinu er átt við það hlutverk sem dómkirkjan í Coventry hefur haft og verið leiðandi í eftir loftárásirnar miklu og sérstök samtök eru starfandi sem nefnd eru eftir þessum fræga "naglakrossi" (The Community of the Cross of Nails). Tákn þessa friðar- og sáttasamstarfs er krossinn frægi en hann hefur farið víða um heim sem tákn um friðar- og sáttavilja. Tilgangur sendimannanna með að færa Akureyrarkirkju "naglakrossinn" átti því að vera táknrænn.

Akureyringar lofuðu fyrirgreiðslu við væntanlega sendinefnd frá Coventry, m.a. ætluðu þeir að sjá um gistingu og fæði á hótel KEA ef sendimennirnir kæmu ekki á háannatíma hótelsins. En einhverra hluta vegna varð þó ekkert úr því að sendinefndin frá Coventry kæmi til Akureyrar. 1 0

Myndarúðanna er enn leitað

Í desember árið 2003 birtist á ný grein í dagblaðinu Coventry Evening Telegraph undir fyrirsögninni: "Litskrúðug saga steindu dómkirkjurúðanna. Myndarúður voru fjarlægðar til að bjarga þeim frá eyðileggingu - en hvar eru þær núna?" Frásögnin er svipuð þeirri sem birtist í grein í sama blaði árið 1981, þó er fjallað nokkru ítarlegar um hvarf myndarúðanna úr dómkirkjunni í Coventry og hugsanleg afdrif þeirra. Nefndir eru þrír menn og birt mynd af þeim þar sem þeir standa í rústum dómkirkjunnar fornfrægu. Þeir unnu mánuðum saman við að taka niður verðmætustu myndarúðurnar árið 1939 og koma þeim fyrir í öruggt skjól. Farið var með myndarúðurnar á prestssetrið Hampton Lucy í sunnanverðu Warwickskíri þar sem þær voru geymdar í allnokkur ár. Í greininni var talið að þremur myndarúðum úr austasta hluta kórs dómkirkjunnar hefði einhverra hluta vegna verið komið fyrir á öðrum stað, líklega í Charlecote og þaðan hefði þeim að öllum líkindum verið stolið því árið 1942 komu þær fram á listmuna- og fornsölu í London og Helgi H. Zoëga keypti þær og flutti til Íslands. Þetta eru einmitt myndarúðurnar sem kenndar eru við Adelaide ekkjudrottningu. 1 1

Flestum myndarúðunum var líklega stolið

Talið er að um þrem fjórðu hlutum myndarúðanna, sem teknar voru úr dómkirkju heilags Mikjáls í Coventry árið 1939 og komið fyrir á öruggum stað, hafi verið stolið eða þær horfið með öðrum hætti. 1 2 Enn eru að berast fréttir af myndarúðum og myndarúðubrotum, t.d. kom í leitirnar hluti helgimyndar á verkstæði í borginni Norfolk í byrjun janúar á þessu ári. Flestar þær myndarúður eða úr um 20 gluggum kirkjunnar sem teknar voru niður fyrir loftárásirnar voru gefnar kirkjunni í minningu þekktra borgara í sögu Coventry og komið fyrir í kirkjunni á árunum 1853 til 1871. Aðeins fáar myndarúður dómkirkjunnar voru eldri en þó voru nokkrir gluggar kirkjunnar skreyttir myndarúðum og myndarúðubrotum frá 15. öld. 1 3

Tilvísanir

1Sverrir Pálsson. Saga Akureyrarkirkju . Útg. Sóknarnefnd Akureyrarsóknar. Akureyri 1990. Bls. 252.

2Sama heimild. Bls. 289.

3David McGrory. Colourful story of cathedral's stained glass. Coventry Evening Telegraph . Laugardaginn, 6. desember, 2003.

4Sverrir Pálsson. Saga Akureyrarkirkju . Bls. 289.

5Sama heimild. Bls. 290-291.Sr. Árni Bergur Sigurbjörnsson, sóknarprestur í Áskirkju. Viðtal, 9.2. 2005.

6David McGrory. Bréf til greinarhöfundar, 15.3. 2005.

7Sverrir Pálsson. Saga Akureyrarkirkju . Bls. 295-297.

8Elaine Gear. Solved-40-years Mystery of Lost Cathedral Glass. Coventry Evening Telegraph. Laugardagur, 16. maí, 1980.

9Í bók sinni vitnar Sverrir Pálsson líklega í grein um sama efni sem birtist í blaðinu Manchester Guardian og nefndist; ,,Icelandic stained glass saga. Höfundur þeirrar greinar var Martyn Halsall.

10Sverrir Pálsson. Saga Akureyrarkirkju. Bls. 288.

11Sama heimild. Bls. 289.

12David McGrory. Bréf til greinarhöfundar, 12.1. 2005.

13Sama heimild.

Höfundur er leiðsögumaður og kennari við Marylandháskóla.