Ísleifur Jónsson
Ísleifur Jónsson
Ísleifur Jónsson fjallar um jarðgangagerð til Vestmannaeyja: "Þær áætlanir sem ekki gera ráð fyrir leku bergi eru ekki pappírsins virði."

ÞAÐ ER von að spurt sé. Lægstu áætlanir um kostnað við Vestmannaeyjagöng virðast því miður miðast við bestu aðstæður sem þekkjast í útlöndum í alveg óskyldu bergi við það sem við vitum að er undir Eyjasundi, þar er við sunnlenska grágrýtið að eiga.

Við verðum að gera okkur grein fyrir að öll jarðgöng á Íslandi eru grafin í norðlenska blágrýtið, þar með talin Hvalfjarðargöngin. Sunnlenska grágrýtið er okkar besta náma fyrir vatnsból vegna þess hve ungt það er og galopið fyrir vatnsrennsli. Það nægir að benda á Svartsengi, Straumsvík og ekki síst Gvendarbrunna. Samkvæmt nýjustu rannsóknum hefur komið í ljós að vatnið í Gvendarbrunnum er komið frá Bláfjallasvæðinu þvert á sprungustefnuna, sem er norðaustur upp í Hengilssvæðið. Mér virðist að í öllu umtali um jarðgöng til Vestmannaeyja frá Landeyjum sé aldrei minnst á aðalatriðið: Er hægt að grafa göngin?

Í starfi mínu við stjórn Jarðborana ríkisins í aldarfjórðung hef ég ekki komist hjá því að læra dálítið um íslenska bergið.

Sunnlenska grágrýtið hefur reynst okkur alls staðar hið besta vatnsból, sem ég þekki. Það hefur sýnt sig, að hvar sem við borum í hraunið fáum við vatn. Á mótum hraunlaganna. Þegar hraun rennur frá gígnum má segja að það sé eins og belti á jarðýtu. Efsti hluti hraunsins kólnar hratt og storknar í mjög grófu og sprungnu lagi, en miðja hraunsins rennur sem vökvi og fleytir storknuðu yfirborðinu áfram þar til það hrynur fram af brúninni og leggst undir hraunið og myndar gróft lag, sem bráðið hraunið leggst svo yfir. Þetta sást mjög vel í Heimaeyjargosinu.

Þannig myndast á milli hraunsins alltaf gróft lag sem hleypir auðveldlega vatni í gegn þótt miðja hraunsins sé mjög þétt og hleypi litlu eða engu vatni í gegn. Með tímanum, milljónum ára, þéttast þessi hraunamót.

Þessi þétting hefur gerst í basaltlögunum á Norður- og Austurlandi en ekki ennþá í sunnlenska berginu. Hér er um að ræða aldursmun sem nemur milljónum ára. Öll jarðgöng á Íslandi eru í norðlenska gamla blágrýtinu en samt hefur vatnsleki í berginu oft valdið töfum og erfiðleikum, nú síðast í göngunum fyrir nýjustu virkjunina fyrir austan.

Vatnsleysuströnd er ekki lengur réttnefni, þar fæst alls staðar vatn ef borað er niður að sjávarmáli.

Við skulum gera okkur grein fyrir að Vestmannaeyjar og allt Suðurland austur að Vatnajökli er á sunnlenska basaltsvæðinu, boranir á Heimaey sýna það. Það er því engin ástæða til annars en gera ráð fyrir að á milli lands og Eyja séu öll hraunamót hriplek. Ég leyfi mér því að efast um að hægt sé að grafa göngin. Hér þýðir engin óskhyggja, þótt bergið væri ekki sprungið lóðrétt er það galopið á öllum hraunamótum og mundi kosta offjár að reyna að þétta þann leka. Munum að vinnan færi fram á nærri 100 metra dýpi undir opnu hafi allt að tíu km frá þurru landi.

Ég trúi því ekki að nokkur verktaki, sem þekkir aðstæður, geri bindandi tilboð á sama verði og fyrir jarðgöng í eldgömlu bergi í útlöndum í gegnum fjöll á þurru landi. Þær áætlanir sem ekki gera ráð fyrir leku bergi eru ekki pappírsins virði.

Það hlýtur að vera algjör nauðsyn að gera sér strax grein fyrir hvernig á að halda göngunum þurrum á meðan á verkinu stendur, bæði vegna leka úr berginu og vegna sprungu, sem gæti opnast í jarðskjálfta, þetta er virkt jarðskjálftasvæði. Þarna gæti orðið stórslys. Hvernig á að koma í veg fyrir að göngin fyllist af sjó á stuttum tíma?

Einhverjum gamansömum náunga datt í hug að best væri að bora göngin í gegnum eitthvert hentugt fjall fyrir norðan og flytja þau svo til Eyja. Lægstu áætlanir um kostnað virðast því miður vera miðaðar við þessa aðferð við borun, en flutningskostnaður er ekki innifalinn í verðinu!

Í alvöru talað. Hættum að hugsa um jarðgöng til Eyja næstu milljón árin að minnsta kosti. Það tekur milljónir ára að þétta bergið og það gæti þá verið minni hætta á jarðskjálftum eða eldgosi. Hver veit?

Höfundur er verkfræðingur.