4. maí 2005 | Daglegt líf | 698 orð | 1 mynd

* ÁHUGAMÁL | Boltinn tekur mesta plássið í frítíma þriggja frænda í Fram

Sumir segja að við séum með Fram á heilanum

Alltaf liprir með boltann þó að komnir séu í jakkafötin. Kjartan, Ragnar og Steinar bregða á leik.
Alltaf liprir með boltann þó að komnir séu í jakkafötin. Kjartan, Ragnar og Steinar bregða á leik. — Morgunblaðið/Sverrir
Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur khk@mbl.is Knattspyrnufélagið Fram á aðeins þrjú ár í að verða hundrað ára og ófáir karlar og konur hafa lagt sitt á vogarskálarnar á einn eða annan hátt á þeim tíma til að gera veg félagsins sem mestan.
Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur khk@mbl.is
Knattspyrnufélagið Fram á aðeins þrjú ár í að verða hundrað ára og ófáir karlar og konur hafa lagt sitt á vogarskálarnar á einn eða annan hátt á þeim tíma til að gera veg félagsins sem mestan. Heilu fjölskyldurnar hafa kynslóð eftir kynslóð bæði sparkað bolta í nafni félagsins og eytt mestum frítíma sínum í störf fyrir Fram. Svo er einmitt um þá frændur, Steinar Þór Guðgeirsson, Kjartan Þór Ragnarsson og Ragnar Lárus Kristjánsson, sem allir ólust upp í boltanum hjá Fram en gegna nú ábyrgðarstörfum fyrir félagið. Steinar er formaður Fram Fótboltafélags Reykjavíkur hf, Kjartan er formaður handknattleiksdeildarinnar og Ragnar er stjórnarmaður sömu deildar.

Liggur í ættinni

Þeir feta heldur betur í fótspor forfeðranna sem margir hafa helgað sig Knattspyrnufélaginu Fram. Ragnar Lárusson, langafi Kjartans og Steinars og afi Ragnars, var á sínum tíma formaður Fram og sat auk þess í stjórn Knattspyrnusambands Íslands. Sveinn sonur hans og frændi þeirra Kjartans og Steinars og frændi Ragnars, var bæði leikmaður og þjálfari í handboltadeild Fram og sat lengi í aðalstjórn félagsins og var formaður knattspyrnudeildar. Andrea Steinarsdóttir móðir Steinars, lék handknattleik með Fram og hefur verið í áratugi í stjórn Framkvenna. Eins hefur Ástríður Gísladóttir eiginkona Steinars, einnig verið í áraraðir í stjórn Framkvenna. Ragnar Ó. Steinarsson faðir Kjartans var varaformaður Knattspyrnufélags Fram og forráðamaður handknattleiksdeildarinnar um tíma. Ragna Lára móðir Ragnars, spilaði handknattleik með Fram og var virk í félagsstarfinu þar á meðal í Framkonum. Af þessu má glögglega sjá að þeim frændum er í blóð borið að sinna sínu íþróttafélagi. "Við áttum engra annarra kosta völ en að spila með þegar við vorum yngri og gerðum það með glöðu geði. Skyldan til að vinna fyrir félagið kom svo seinna."

En þeir eru allir í fullu starfi utan þess starfs sem þeir sinna fyrir Fram. Steinar starfar sem hæstaréttarlögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur, Kjartan er tannlæknir og Ragnar er viðskiptafræðingur. Þegar þeir voru yngri voru þeir sjálfir úti á vellinum að spila. Steinar lék með öllum yngri flokkum félagsins og er einn leikjahæsti leikmaður Fram í meistaraflokki en jafnframt lék hann með öllum landsliðum Íslands í knattspyrnu. Steinar þjálfaði yngri flokka félagsins og síðan meistaraflokk félagsins árið 2003 en hann hefur í raun sinnt flestum störfum fyrir félagið ásamt því að sitja í nefndum á vegum félagsins hjá KSÍ. Kjartan lék með yngri flokkum Fram í handbolta og knattspyrnu og einnig með Hetti, Egilsstöðum þar sem hann bjó og Ragnar spilaði með meistaraflokki Fram í handbolta.

Í bumbubolta

"Nú erum við bara í bumbubolta, til að halda niðri aukakílóunum," segja þeir boltafrændur sem mæta á flesta leiki hjá Fram, bæði í fótbolta og handbolta. Í enska boltanum heldur Steinar með sama liði og afinn, sem er Liverpool, en Kjartan og Ragnar halda með Arsenal, en sá stuðningur liggur líka í ættinni.

Liðhlaupar finnast þó í fjölskyldunni, því afi Steinars og Kjartans, Steinar Þorsteinsson var margfaldur Íslandsmeistari með KR í knattspyrnu. "Hann er einangrað dæmi og okkur tókst að lokum að vinna hann á okkar band og í dag er hann gallharður Framari." Þeir segjast fá þá spurningu oft á dag, hvernig þeir nenni að standa í því að sinna þessum störfum í sjálfboðavinnu fyrir félagið. "Við lítum á þetta sem sjálfsagða skyldu. Þegar við vorum yngri og stunduðum okkar bolta hér, þá voru aðrir menn á fullu í því að starfa fyrir félagið. Þessir menn gerðu allt fyrir okkur og nú er komið að okkur að leggja eitthvað af mörkum." En þeir segja vissulega mikinn tíma fara í þessi störf og þeir mæti heilmikilli neikvæðni. "Þetta eru ekki sérstaklega þakklát störf, þetta er eilíft kvabb og við þurfum að taka út alla greiða hjá öllum mögulegum aðilum. Við reynum líka að véla alla vini okkar til að hjálpa okkur, vatnsberastörf og skýrsluvinna eru mjög vinsæl störf," segja þeir og hlæja.

En eru fjölskyldur þeirra ekkert þreyttar á því að mest allur frítími þeirra fari í störf fyrir Fram?

"Þetta mundi aldrei ganga hjá neinum okkar nema af því að við mætum skilningi heima fyrir. Fjölskyldur okkar eru allar heilaþvegnar," segir Steinar og bætir við að börnin þeirra séu öll og munu öll taka þátt í íþróttastarfinu í Fram, svo keðjan slitnar ekkert í bráð.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.