Paul Watson vísað úr landi PAUL Watson var í gær vísað úr landi og fór hann í gærkvöldi í fylgd tveggja lögreglumanna um borð í þotu Flugleiða, sem flutti hann til New York. Þaðan fer hann áleiðis til síns heimalands, Kanada.

Paul Watson vísað úr landi

PAUL Watson var í gær vísað úr landi og fór hann í gærkvöldi í fylgd tveggja lögreglumanna um borð í þotu Flugleiða, sem flutti hann til New York. Þaðan fer hann áleiðis til síns heimalands, Kanada. Watsons var vandlega gætt meðan beðið var eftir því að flugvélin sem flutti hann væri búin til brottferðar. Úr Síðumúlafangelsi var hann fluttur með hraði suður á Keflavíkurflugvöll þegar tæpar 2 stundir voru til áætlaðs brottfarartíma flugvélarinnar. Á flugvallarsvæðinu var þess vandlega gætt að engir aðrir en löggæslumenn kæmust nærri honum. Þó leyfðu yfirvöld unnustu Watsons, Jo-Anna Forwell, að hitta hann á lögreglustöðinni. Á 40 mínútna fundi þeirra skrifaði Watson yfirlýsinguna sem birtist hér annarsstaðar á síðunni en að sögn Jo-Anna notuðu þau einnig tækifærið tilað drekka úr kampavínsflösku sem þau höfðu með sér hingað til lands. Samkvæmt upplýsingum dómsmálaráðuneytisins hélt Watson því fram við yfirheyrslur hjá rannsóknarlögreglu ríkisins að hann hafi hvorki átt þátt í undirbúningi né framkvæmd skemmdarverkanna á hvalbátunum tveimur og hvalstöðinni. Honum var vísað úr landi með tilliti til fyrra framferðis hans í íslenskri lögsögu og margítrekaðra yfirlýsinga hans sem beinst hafa gegn íslenskum hagsmunum, að því er segir í fréttatilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.

Snemma í gær var ljóst að ákæruvaldið taldi ekki tilefni til opinberrar ákæru á hendur Watson. Þegar hann var til yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglunni barst kæra á hendur honum fyrir útgáfu á inni stæðulausri ávísun. Ávísun þessa gaf Watson út þegar hann var hér við land með skip sitt og keypti á það olíu. Þegar olíufyrirtækið ætlaði að leysa út ávísunina kom í ljós að engin innistæða var fyrir henni á reikningi Sea Shepherd samtakanna í First Interstate Bank í Kaliforníu. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins greiddi Watson skuld sína, 1100 dollara, eða um 40 þúsund krónur, um hádegið í gær .

Í fréttatilkynningu sem dómsmálaráðuneytið sendi frá sér síðdegis í gær segir meðal annars: "Hvað sem fyrri yfirlýsingum Paul Watson í fjölmiðlum og víðar líður hefur athugun ríkissaksóknara á skýrslu um yfirheyrsluna og áður sendum rannsóknargögnum ekki gefið tilefni til útgáfa opinberrar ákæru á hendur honum."

Ráðuneytið ákvað, vegna fyrra framferðis Watson og yfirlýsinga hans, að vísa honum úr landi og meina honum jafnframt endurkomu til landsins. Þorsteinn Geirsson, ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneytinu, sagði að með vísan til fyrra framferðis Watson væri átt við það þegar hann var hér við land árið 1985 á skipi Sea Shepherd samtakanna. Þá reyndi hann að hindra hvalveiðar og var færður til hafnar af Landhelgisgæslunni. Þorsteinn sagði að brottvísun Watson yrði tilkynnt yfirvöldum í öðrum ríkjum Norðurlandanna. "Brottvísun er hægt að miða við ákveðinn tíma, til dæmis 5 ár, en í þessu tilviki gildir hún ótakmarkað," sagði Þorsteinn. "Önnur ríki Norðurlandanna geta hleypt honum inn í lönd sín, en þá verða þau að láta Íslendinga vita af þeirri ákvörðun."

Paul Watson var leiddur út úr Síðumúlafangelsinu kl. 16.30. Fyrir utan beið hvít Volvo lögreglubifreið, sem flutti hann í fylgd fjögurra lögreglumanna til Keflavíkur. Um leið og Watson steig upp í bifreiðina sagði hann við fréttamenn að hann fengi ekki að tala um málið við almenning, allt sem frá honum færi væri ritskoðað. Þá kvaðst hann ekki hafa dregið yfirlýsingar sínar um aðild að skemmdarverkunum tilbaka og sagði að lokum að Sea Shepherd samtökin bæru ábyrgð á þeim.