Forsætisráðherrahjón á Harðangursfirði. F.v.: Björg Bondevik og Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og eiginkona hans, Sigurjóna Sigurðardóttir.
Forsætisráðherrahjón á Harðangursfirði. F.v.: Björg Bondevik og Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og eiginkona hans, Sigurjóna Sigurðardóttir. — Ljósmynd/Steingrímur S. Ólafsson
HALLDÓR Ásgrímsson forsætisráðherra afhendir í dag Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, gjöf Íslendinga til norsku þjóðarinnar í tilefni þess að 100 ár eru frá því að Norðmenn öðluðust sjálfstæði og norska konungdæmið var endurreist.

HALLDÓR Ásgrímsson forsætisráðherra afhendir í dag Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, gjöf Íslendinga til norsku þjóðarinnar í tilefni þess að 100 ár eru frá því að Norðmenn öðluðust sjálfstæði og norska konungdæmið var endurreist.

Opinber heimsókn Halldórs forsætisráðherra og Sigurjónu Sigurðardóttur, eiginkonu hans, til Noregs hófst í gær. Þá voru þau m.a. viðstödd opnun tónlistarhátíðarinnar í Harðangri. Einnig áttu Halldór og Bondevik fund með Noregsdrottningu. Á dagskrá heimsóknarinnar í dag er m.a. fundur forsætisráðherranna tveggja og blaðamannafundur. Heimsókninni lýkur á morgun.

Í frétt frá forsætisráðuneytinu segir að Norðmenn hafi ætíð fært Íslendingum gjafir þegar íslenska þjóðin hefur fagnað merkum tímamótum í sögu sinni. Því ákvað ríkisstjórn Íslands á fundi sínum á þriðjudag að færa Norðmönnum veglega gjöf við þessi tímamót.

Þjóðargjöfin til Norðmanna er 500 eintök af vandaðri útgáfu af Konungasögum í fjórum bindum með norskum inngangi. Meginefni bindanna er Morkinskinna, Sverris saga, Böglunga saga og Hákonar saga Hákonarsonar. Þessar sögur skipa stóran sess í vitund Norðmanna og léku þær lykilhlutverk í sjálfstæðisbaráttu þeirra, líkt og fornritin hér.

Áætlað er að fyrsta bindið komi út á næsta ári og hið síðasta árið 2009. Kostnaður við verkið er áætlaður 14-16 milljónir króna og mun ríkisstjórnin beita sér fyrir jafnri fjárveitingu til verksins í fjárlögum áranna 2006-2009.