15. maí 2005 | Innlent - greinar | 3507 orð | 3 myndir

Bretar hótuðu Evrópustyrjöld út af ásókn Frakka í Dýrafjörð

Þingeyri í Dýrafirði skömmu fyrir 1880. Stóra verzlunarhúsið á miðri mynd var reist á árunum 1873-75, en timburhúsin þrjú sem næst því standa voru byggð á árunum 1757-78 og stóðu hér 1856. Skipið lengst til hægri er franskt herskip.
Þingeyri í Dýrafirði skömmu fyrir 1880. Stóra verzlunarhúsið á miðri mynd var reist á árunum 1873-75, en timburhúsin þrjú sem næst því standa voru byggð á árunum 1757-78 og stóðu hér 1856. Skipið lengst til hægri er franskt herskip. — Ljósmynd/Frederik Löwe, myndin er í eigu Þjóðminjasafns Íslands
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Upp úr miðri 19. öld sóttu Frakkar hart að fá að koma upp nýlendu í Dýrafirði. Fyrir ákall íslenzks manns í Kaupmannahöfn vöknuðu Bretar upp við þann vonda draum að slík nýlenda yrði stílbrot í Atlantshafi, þar sem þeir voru einráðir.
Upp úr miðri 19. öld sóttu Frakkar hart að fá að koma upp nýlendu í Dýrafirði. Fyrir ákall íslenzks manns í Kaupmannahöfn vöknuðu Bretar upp við þann vonda draum að slík nýlenda yrði stílbrot í Atlantshafi, þar sem þeir voru einráðir. Það gátu Bretar ekki fallizt á og hótuðu Evrópustyrjöld. Freysteinn Jóhannsson fór í smiðju til Kjartans Ólafssonar.

Frakkar horfðu mjög til Íslands á 18ndu og 19ndu öld. Langstærsti draumurinn var hugmyndin um skipti við Dani á Íslandi og Louisiana í Norður-Ameríku til þess m.a. að byggja franska flotastöð hér á landi. Lengst sóttu þeir eftir því að fá að stofna nýlendu í Dýrafirði. Það strandaði á Bretum, sem eftir ákall frá Íslendingi í Kaupmannahöfn brugðu við hart og fólu sendiherra sínum í Kaupmannahöfn að hóta undanbragðalaust Evrópustyrjöld, ef Danir féllust á óskir Frakka. Undir slíkri ógn hörfuðu Frakkar frá málinu.

Anna Agnarsdóttir, dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands, hefur skoðað skjal í skjalasafni franska varnarmálaráðuneytisins, þar sem fjallað er um að Frakkar nái fram hefndum á Bretum fyrir tapið í Sjö ára stríðinu með því að ógna þeim frá flotastöð á Íslandi bæði til vesturs; Kanada, og til austurs; Skotlands.

Ekki verður séð, að Frakkar hafi gert alvöru úr því að bjóða Dönum framangreind skipti, en fjórum árum eftir lok Sjö ára stríðsins, 1767, sendu Frakkar leiðangur til Íslands undir stjórn Tremarecs og var það fyrsti leiðangurinn, sem frönsk stjórnvöld sendu í Norðurhöf.

Einar Hreinsson segir í ritgerð sinni í Sögnum 1994; Frakkar á Fróni. Samskipti Frakka og Íslendinga 1600-1800, að yfirlýstur tilgangur leiðangursins 1767 hafi verið að verja franskar fiskiduggur á Íslandsmiðum fyrir Dönum, en Tremarecs gerði ýmsar athyglisverðar mælingar við Ísland, m.a. dýptarmælingar á Vestfjörðum. Tremarecs kom aftur til Íslands 1767 og þremur árum síðar kom þriðji franski leiðangurinn; vísindaleiðangur undir stjórn haffræðingsins Verdun de la Grennes.

Frönsk herskip fylgdu svo vaxandi frönskum fiskiskipaflota á Íslandsmið á 19ndu öld og þegar fram sótti veltu Frakkar því fyrir sér að fá aðstöðu til fiskverkunar í landi. Elín Pálmadóttir nefnir í bók sinni Fransí biskví - Frönsku Íslandssjómennirnir, að á síðari helmingi 19ndu aldar hafi allt að og jafnvel yfir 300 frönsk fiskiskip sótt á Íslandsmið. Þeim fylgdu fleiri. Virtir franskir vísindamenn komu til rannsókna, kirkjan sendi klerka og ríkið hjúkrunarfólk. Þessa gætti auðvitað mjög í landi, eins og lesa má í bók Elínar, en í þessari grein verður horft fram hjá því mannlífi öllu og fylgjandi framkvæmdum. Elín rekur einnig sögu franskrar fiskverkunar í Grundarfirði og tilraunar til að ná fótfestu með fiskverkun í Norðfirði, en lengst mál um slíka hluti er frásögn hennar um fiskþurrkunarstöð á Dýrafirði.

Hér verður Dýrafjarðarmálinu fylgt eftir og þar stuðzt að meginmáli við þrjár ritgerðir Kjartans Ólafssonar; í Sögu 1986 og '87 og í Vestanglæðum, afmælisriti tileinkuðu Jóni Páli Halldórssyni 75 ára 2. október 2004.

Alþingi "varpar allri sinni áhyggju upp á Dani"

Þetta byrjaði allt með bréfi frá yfirmanni frönsku freigátunnar La Bayonnaise, sem 20. júlí 1855 lá á Reykjavíkurhöfn. Lögin um frelsi Íslendinga til að verzla við allar þjóðir höfðu gengið í gildi 1. apríl og í bréfi B. Demas flotaforingja til Alþingis kemur fram að kaupmenn í Dunkerque hafa beðið þess með óþreyju og tilbúnar áætlanir um fiskverkunarstöð við Dýrafjörð í Ísafjarðarsýslu.

B. Demas upplýsir að áætlanir frönsku kaupmannanna gangi út á 400 til 500 manna stöð með tilheyrandi íbúðarhúsum, geymsluhúsum, fiskþurrkunarpöllum og staurum.

Frakkar vilja skjót svör og verði þau í vil geti stjórn Frakka farið að semja við stjórn Dana og framkvæmdir byrjað vorið 1856.

Með fiskverkunarstöð á Dýrafirði hyggjast Frakkar fjölga í fiskiskipaflota sínum við Ísland, þannig að reikna má með að við þennan útveg hafi átt að starfa að minnsta kosti um 5.000 manns á sjó og landi. 1. október 1855 voru íbúar Reykjavíkur 1353 og í Dýrafirði var mannfjöldinn 735.

Bréf franska flotaforingjans kom til umræðu á Alþingi 25. júlí 1855 og veitti Ólafur Sívertsen, prófastur í Flatey og þingmaður Barðstrendinga, því brautargengi inn í þingið, en franski flotaforinginn gat ekki sjálfur borið upp mál á Alþingi með formlegum hætti. Litlar umræður urðu um málið og var því vísað frá með tuttugu samhljóða atkvæðum, þar sem málið var sagt snerta innbyrðis þjóðaviðskipti og utan verksviðs löggjafa var beiðendum því vísað með málið til dönsku stjórnarinnar.

Tveimur dögum eftir slit Alþingis skrifa Trampe stiftamtmaður og Páll Melsted, amtmaður og konungsfulltrúi á Alþingi, danska innanríkisráðuneytinu og voru báðir mótfallnir því að Frakkar fengju aðstöðu í Dýrafirði. Þeir leggja m.a. áherzlu á að sókn fiskiskipaflota Frakka muni draga úr afla Íslendinga og það sem verra kann að vera þá muni Frakkar bægja Íslendingum út af Spánarmarkaðinum. Þessi rök voru svo notuð aftur og aftur gegn málaleitan Frakka. Í lok bréfs síns bendir Trampe aukinheldur á, að illgerlegt verði að halda uppi lögum og reglu í svo fjölmennri erlendri nýlendu án aðstoðar erlends hervalds.

Innanríkisráðuneytið danska sendi utanríkisráðuneytinu afrit af bréfunum og beiðni franska flotaforingjans, en málið lagðist kyrrt um hríð.

Í janúarlok 1856 ritaði franski sendiherrann í Kaupmannahöfn, Dotézac að nafni, danska utanríkisráðherranum, Ludvig Nikolaus Scheele, bréf þess efnis að hin keisaralega franska ríkisstjórn leggi þunga áherzlu á að málaleitanin varðandi aðstöðu í Dýrafirði nái fram að ganga.

Danir reyndu að þæfa málið með því að láta það ganga milli ráðuneyta, en innanríkisráðuneytið benti sérstaklega á að svo virtist sem hvorki Alþingi né Íslendingar yfir höfuð hefðu áhuga á slíkri franskri fiskverkunarstöð. Málið var Dönum erfitt, þar sem þeir vildu halda sjó bæði fyrir Frökkum og Bretum, sem myndu vafalaust taka það óstinnt upp ef Frakkar fengju slíka fótfestu í Norðurhöfum.

Danski utanríkisráðherrann brá á það ráð að slá úr og í. Hann sendi í maí 1856 Frökkum gögn málsins og segir, að ýtarlegri upplýsingar verði að berast frá París áður en hægt verði að taka afstöðu til beiðni Frakka um nýlendu í Dýrafirði.

Alþingi kom ekki saman sumarið 1856, en 16. árgangur Nýrra félagsrita barst með vorskipum. Þar í er grein um verzlunarmálin eftir ónafngreindan kaupmann í Noregi, sem heldur því fram, að frönsk fiskverkunarstöð á Íslandi geti ekki verið Íslendingum nema til góðs. Þar er því hreyft að fá Frakka til að lækka tolla á innfluttum fiski til Frakklands og fella niður ríkisstyrki til útgerðar skipa á Íslandsmið. Þessi grein hefur efalaust opnað augu margra Íslendinga fyrir þeim möguleika að semja við Frakka um land gegn tollalækkun. Sjálfur er Jón Sigurðsson fáorður um málið, en ávítar Alþingi fyrir að vísa málinu til dönsku stjórnarinnar og "varpa allri sinni áhyggju upp á Dani".

Franskur prins á Fróni

Meðan Íslendingar deila um Dýrafjarðarmálið siglir að sumarströndum landsins franskur prins, Jerome Napóleon, frændi Napóleons þriðja og þegar þetta var til skamms tíma ríkisarfi í Frakklandi. Hann lagði vorið 1856 upp í mikinn leiðangur um Norðurhöf og kom að sjálfsögðu við á Íslandi og fór í Dýrafjörð vestur, þar sem hugur frænda hans stóð til nýlendustofnunar. Prinsinn og fylgdarlið hans vöktu mikla athygli í höfuðstaðnum og er þess getið, að prinsinn hafi á gildaskála í bænum borgað sem nam heilu kýrverði fyrir tvö ölglös!

Menn veltu því fyrir sér, hvort tilgangurinn með Íslandsheimsókn prinsins væri ekki bara vísindarannsóknir og að sýna sjálfan sig og sjá aðra, heldur lægi undir niðri tvímælalaus tilvísun til franskra óska um íslenzkt land.

Síðla dags 13. júlí 1856 sigldi gufuskipið Reine Hortense með prinsinn inn á Dýrafjörð. Meðal þeirra, sem prinsinn býður um borð, er kaupmaðurinn á Þingeyri Hans Edvard Thomsen og kona hans Kristjana Knudsen. Lætur prinsinn m.a. taka ljósmynd af kaupmannsfrúnni, sem þá er fyrsta ljósmynd af nafngreindum einstaklingi, sem tekin er hér á landi. Í fortíð kaupmannsfrúarinnar leynist íslenzk ástar- og örlagasaga, því ungur fógetaskrifari í Reykjavík hafði fest á henni ástir en beðið lægri hlut í baráttunni um hjarta hennar fyrir Thomsen. Þessi fógetaskrifari var Jónas Hallgrímsson og má Kristjana þá vera sú sem hann "harmaði alla daga".

Að lokinni Íslandsheimsókn lagði franski prinsinn aftur í haf og setti stefnuna á Danmörku, en raddir voru uppi um það, að Dýrafjarðarmálið væri þá svo langt komið milli Dana og Frakka að prinsinn ætlaði að ganga frá málinu í Kaupmannahöfn.

Það verður þó að segjast eins og er, að hvorki fríðleiki Napóleons prins né framganga hans náði að lina Íslendinga í andstöðunni við franska nýlendu í Dýrafirði. Má hins vegar vera að hann hafi ekki aukið mótstöðuna heldur. Það gerðu hins vegar þeir landar hans, sem efndu til óspekta í Dýrafirði þetta sumar, þar sem hæst bar bardagann á Alviðrubót, er Bjarni Þórlaugarson barðist einn við átján og komst lifandi til lands aftur.

Repp grípur til sinna ráða

Á Íslandi virtust Íslendingar mjög á einu máli í andstöðu við beiðni Frakka um Dýrafjörð, en Íslendingar í Kaupmannahöfn skiptust frekar í fylkingar með og á móti.

Þegar Napoleón prins var í hafi boðaði Þorleifur Guðmundsson Repp til fundar Íslendinga í Kaupmannahöfn um málið. Þar leggur hann fram greinargerð, m.a. um hætturnar fyrir íslenzkan sjávarútveg og á því að nái Frakkar fótfestu á Íslandi verði þeir fljótir til að færa út kvíarnar, og tillögu um bænaskrá til Danakonungs, að hann láti ekki sitt erfðaland af hendi við frönsku keisaarastjórnina, hvað sem í boði sé. Tillagan ber með sér að vera hugsuð sem áskorun til Íslendinga um að rísa allir sem einn upp gegn óskum og áformum Frakka. Andstæðingar Repps, m.a. Jón Sigurðsson og Grímur Thomsen, héldu því fram, að Íslendingar ættu sjálfir að eiga um málið við Frakka og kanna hvaða viðskiptahagsmunir leyndust í því. Þá gengi það gegn meginreglum nýfengins verzlunarfrelsis að leggja bann við sölu á landi. Fundurinn stóð lengi en að lokum var umræðum frestað að tillögu Repps.

En Repp reri ekki einni ár í Dýrafjarðarmálinu. Má vera að hann hafi lesið í stöðu málsins meðal Íslendinga í Kaupmannahöfn og vitað að hann yrði að sækja á önnur mið eftir afdráttarlausum viðbrögðum. Hann hafði nefnilega 11. september skrifað brezka sendiherranum í Kaupmannahöfn bréf, þar sem hann rakti Dýrafjarðarmálið og að nú væri von á Napóleon Frakkaprins frá Íslandi til Kaupmannahafnar, þar sem land lægi til þess að hann fengi Dýrafjörð. Brezki sendiherrann sendi skýrslu Repps til London 17. september og hafði þá rætt við utanríkisráðherra Dana, L.N. Scheele, sem telji að Frakkar ætli að reisa allstórt þorp í Dýrafirði og koma þar upp höfn í eigu franska ríkisins.

Brezka ljónið bregður við hart

Undarlegt má telja að það skyldi þurfa ákall Íslendings til þess að ýta við Bretum, en fram að skýrslu Repps höfðu Bretar sofið á verðinum og var þó liðið hálft ár frá því franska stjórnin bar málið formlega upp við þá dönsku. En þegar brezka ljónið var loksins vaknað beið það ekki boðanna. Brezki utanríkisráðherrann, G.W.F. Villiers, brá við hart og sendi sendiherra sínum í Kaupmannahöfn þegar í stað orðsendingu, þar sem hann skipaði honum að gera danska utanríkisráðherranum tæpitungulaust grein fyrir andstöðu Breta við áform Frakka um að eignast nýlendu á Íslandi. Í svarbréfi sendiherrans kemur fram, að hann greip fyrsta tækifæri til þess að koma danska utanríkisráðherranum í skilning um afstöðu Breta. "Í samtali mínu við ráðherrann lét ég þess getið að tækist Dönum svo hrapallega til að þeir leyfðu uppbyggingu slíkrar stöðvar yrðu afleiðingar svo augljósar að minnar milligöngu yrði vart þörf til að útskýra þær. Einnig kvaðst ég gera ráð fyrir að hans æruverðugheit gerðu sér ljóst að afleiðingar slíkrar ákvörðunar næðu ekki aðeins til Danmerkur heldur allrar Evrópu - því að næðu Frakkar að eignast nýlendu á Íslandi... kynni svo að fara að friðnum í Evrópu yrði ógnað á mjög alvarlegan hátt. Af þessum ástæðum hvíldi sú augljósa skylda á ríkisstjórn Dana að gera enga þá samninga við Frakka er síðar kynnu að koma Dönum sjálfum og vinum þeirra í koll."

Danir voru nú milli steins og sleggju. Frakkar létu í veðri vaka, að ef þeir fengju ekki aðstöðu á Íslandi myndu þeir taka höndum saman við Þjóðverja í deilum þeirra og Dana um Holtsetaland og Slésvík. Á hinn bóginn hafa Danir vafalaust rennt í grun, að Bretar myndu ekki láta það óátalið, ef Frakkar fengju aðstöðu á Íslandi. Þarna fengu þeir það svart á hvítu, að það myndi hvorki meira né minna en kosta stórveldastyrjöld milli Breta og Frakka. Það myndi þá væntanlega fara um smærri ríki í slíkum hildarleik.

Þegar Napóleon prins kom til Kaupmannahafnar 23. september 1856 höfðu Bretar sett honum stólinn fyrir dyrnar þannig að það var borin von að hann gæti haldið heim með ábyrgt loforð eða samkomulag um franska nýlendu á Íslandi upp á vasann. Blöð í Danmörku, Þýzkalandi og Frakklandi birtu greinar um Dýrafjarðarmálið og danska blaðið Fædrelandet birti m.a. forsíðugrein um málið og hvatti mjög til þess að Frakkar fengju aðstöðu í Dýrafirði. Eftir Kaupmannahafnardvöl franska prinsins voru blöð uppfull af fréttum um að samkomulag hefði verið gert um aðstöðu Frakka á Íslandi. Svo var þó ekki. Prinsinn fór tómhentur heim.

Frakkar halda fast við nýlendustofnun

Reyndar hafði brezka ríkisstjórnin ekkert á móti því að franskir útgerðarmenn fengju að kaupa landspildu á Íslandi og verka þar fisk. Þeir yrðu hins vegar að lúta þar í einu og öllu dönskum lögum og íslenzkri lögreglustjórn og yrði hvergi hvikað frá fullveldisrétti Danakonungs yfir landinu öllu. Bretar höfðu sjálfir samið við Frakka um réttindi þeirra síðarnefndu til fiskþurrkunar á Nýfundnalandi, en þar urðu Frakkar að fara í einu og öllu að brezkum lögum og una yfirstjórn Breta.

Nú tóku við viðræður sendiherra Breta í París, Cowleys baróns, og franska utanríkisráðherrans, Walewski greifa, þar sem sendiherrann andmælti ráðagerðum Frakka um stofnun franskrar nýlendu á Íslandi, en gerði síðar eins konar gagntilboð um að Frakkar gætu fengið fiskverkunaraðstöðu upp á sömu býti og á Nýfundnalandi. Þessu tilboði fylgdu ströng skilyrði um aðeins tvö frönsk herskip á Íslandsmiðum og engin varnarvirki eða önnur hermannvirki yrðu reist á athafnasvæði Frakka. Franski utanríkisráðherrann hélt fast við það, að Frakkar vildu fara með æðstu stjórn allra mála í Dýrafirði.

Þessi staðfesta Frakka sannfærði Breta um það, að fleira vekti fyrir Frökkum í Dýrafirði en fiskverkun. Þeir ætluðu að ná þar fótfestu til að koma síðar upp flotastöð og ná síðan yfirráðum yfir Íslandi öllu.

Meðan á þessum viðræðum stóð höfðu Frakkar látið dönsku ríkisstjórnina í friði, en í marz 1857 er franski sendiherrann í Kaupmannahöfn enn og aftur farinn að ganga eftir svari Dana um Dýrafjörð, en Frakkar höfðu mánuði fyrr sent dönsku ríkisstjórninni svör við spurningum þeim, sem Danir höfðu beint til Frakka til þess fyrst og fremst að vinna tíma. En nú gerði franski sendiherrann Dönum ljóst, að þeir væru að falla á tíma og minnti í leiðinni á áhrif svars Dana á afstöðu frönsku keisarastjórnarinnar til deilna Dana og Þjóðverja. Frakkar tóku og af öll tvímæli um það, að þeir myndu ekki una að nýlenda þeirra í Dýrafirði yrði undir dönskum lögum.

Bretar fengu að fylgjast með þessu og ítrekuðu það álit sitt, að slíkt samkomulag myndi jafngilda því að færa Frökkum eignarráð yfir Íslandi.

Dönsku stjórninni var því mikill vandi á höndum vorið 1857. En hún nældi sér í gálgafrest með því að vísa málinu til Alþingis Íslendinga og spyrja það álits á því, hvort breyta skyldi lögum svo unnt yrði að semja við Frakka.

Íslenzkt nei - en með gagntilboði

Þar með jókst hitinn í Dýrafjarðarmálinu á Íslandi til muna og gerðu menn austan og vestan þar um bænaskrár til Alþingis; Ísfirðingar og Sunnmýlingar á móti, en Dýrfirðingar á móti en með skilyrðum til vara. Almennt munu menn hafa verið á einu máli um það, að Alþingi ætti að fjalla um málið. En um hitt greindi menn á, hvernig ætti að afgreiða það.

Þegar Dýrafjarðarmálið var tekið fyrir á Alþingi 8. júlí urðu um það engar umræður, en fimm manna nefnd kosin til að fjalla um málið. Hún skilaði af sér 21. júlí tillögum um að beiðni Frakka "eins og hún nú liggur fyrir" yrði hafnað "að svo komnu", en í greinargerð nefndarinnar felst gagntilboð til Frakka um að vilji þeir afnema toll af íslenzkum fiski, þá komi til greina að semja um málið.

Lyktir málsins urðu þær, að 28. júlí felldi þingið með ellefu atkvæðum gegn níu breytingartillögu um að hafna beiðni Frakka afdráttarlaust, en samþykkti tillögur nefndarinnar, sem urðu álitsgerð alþingis til konungs.

Þessa stefnu gerði danska stjórnin að sinni, þegar hún svaraði beiðni Frakka vorið 1859, fjórum árum eftir að B. Demas flotaforingi skrifaði béf sitt á Reykjavíkuhöfn og þremur árum eftir að óskin var formlega fram borin við dönsk stjórnvöld.

Í raun má segja að lokasvarið hafi ekkert haft upp á sig, en hins vegar hafi Danir unnið málið á tíma, þar sem Frökkum var orðið ljóst, að þeir gætu ekki haldið kröfum sínum til streitu vegna hótana Breta um Evrópustyrjöld.

Fimm árum síðar urðu Danir að láta Holtsetaland og Slésvík af hendi við Prússa.

Repp kom honum á sporið

"Það var fyrir langa löngu, að ég fékk áhuga fyrir Þorleifi Repp, sérstaklega þegar ég las frásagnir af honum í dagbók Gísla Brynjólfssonar í Kaupmannahöfn frá 1848," segir Kjartan Ólafsson, þegar hann segir frá því hvernig áhugi hans á Dýrafjarðarmálinu vaknaði. "Þessi dagbók Gísla var gefin út hér heima á sjötta áratug síðustu aldar. Þar var margt skemmtilegt um Repp og ég var svona að spekúlera í karlinum. Haustið 1983 fékk ég íbúð í húsi Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn og þá komst ég á snoðir um eitt og annað um Repp. Allt varð þetta til þess að ég hugðist hafa upp á niðjum hans. Rósa Anna dóttir hans giftist brezkum manni, Henry Powlett Orde, og bjuggu þau á Norðimbralandi. Ég þekkti konu, sem átti vinkonu á Norðimbralandi og hún var beðin að kanna, hvort hún hefði upp á einhverju Orde-fólki á sínum slóðum. Páll Eggert Ólafsson skrifaði í Skírni 1916, að Anna hefði fluzt til Englands og væri ekkert um hana vitað þar. Við það hafði setið síðan.

En eftir mínum leiðum fékk ég upplýsingar um mann nokkurn, sem sýndist vera niðji Repps. Ég skrifaði honum bréf, en þegar það barst á heimili hans, var hann látinn, en ekkja hans fékk bróður hans bréfið og þannig komst ég í samband við Orde-fólkið.

1986 hitti ég svo þrjú barnabörn Rósu Önnu og Henry Powlett; konu og tvo karla. Þau voru meðvituð um sinn íslenzka uppruna, annar maðurinn hét meira að segja Egill og átti Egilssögu, en þau höfðu aldrei hitt Íslending. Hjá þeim og sérstaklega Agli fékk ég safn af alls kyns dóti og þar í bréfið, sem Þorleifur Repp skrifaði dóttur sinni 20. september 1856, þar sem hann segir berum orðum að hann hafi snúið sér til brezku ríkisstjórnarinnar út af Dýrafjarðarmálinu.

Ég skrifaði tvær ritgerðir í Sögu um Dýrafjarðarmálið, 1986 og 87, en hafði þá aðeins kannað heimildir í Reykjavík og Kaupmannahöfn. Bréf Repps leiddi hugann að því, að í skjalasafni brezka utanríkisráðuneytisins kynni ég að finna eitthvað; kannski finn ég þessa skýrslu Repps, hugsaði ég.

Nokkrum árum síðar fór ég svo á söfn í London og París og komst þar heldur betur í feitt um afskipti Breta eins og ég skýrði frá í þriðju ritgerð minni um Dýrafjarðarmálið, sem kom út í fyrra."

Um Þorleif Repp segir Kjartan:

"Hann fór tvítugur til Kaupmannahafnar, þar sem hann lagði stund á ýmsar fræðigreinar við Kaupmannahafnarháskóla. Hann var bókavörður í Edinborg í ellefu ár, en annars bjó hann í Kaupmannahöfn og fékkst mest við ritstörf.

Hann var strax ungur maður ákafur blaðalesandi og með hugann við stórveldapólitíkina alla tíð og meira en nokkur annar Íslendingur hygg ég á þessum tíma. Hann var líka ákafur aðdáandi brezkra stjórnarhátta og fannst þeir vera öðrum fyrirmynd meðan hann taldi Frakka vera um of upp á miðstýringuna.

En hann var alltaf fyrst og fremst Íslendingur. Hann var manna kröfuharðastur í baráttunni fyrir auknu sjálfsforræði Íslendinga og Árnesingar kusu hann á þjóðfundinn 1851. Hann mætti þó ekki, vegna veikinda var sagt, en mér býður í grun, að tillitssemi við Jón forseta hafi verið ástæðan. Þeir voru mátar og Þorleifur vissi að hann gæti átt erfitt með að fylgja Jóni, þegar á þjóðfund kæmi, því hann var ákafamaður gagnvart Dönum og ekki eins mikill samningamaður og Jón. Ég ímynda mér, að Þorleifur hafi ekki viljað láta skerast í odda með þeim Jóni.

Það var svo Jón forseti, sem var ekkju Þorleifs innan handar, þegar hún flutti til Englands og hann sá til þess að lík Þorleifs var flutt heim til Íslands. Þorleifur mátti ekki til þess hugsa að hvíla í danskri mold og tók loforð af Jóni forseta og reyndar fleirum um að lík hans yrði flutt til Íslands. Hann var svo balsameraður og beið í Holmenskirkju allan veturinn, þar til ferð gafst til Íslands.

Þetta var í fyrsta skipti, sem Íslendingur, sem dó í Danmörku, var fluttur til greftrunar á Íslandi. Útför hans var gerð með viðhöfn eins og frásögn í Þjóðólfi ber með sér."

Eitt barnabarnabarn Þorleifs Repps, sem Kjartan hitti í Englandi, kom til Íslands og dvaldi hér nokkurn tíma.

"Við fórum meðal annars í Suðurgötukirkjugarðinn og þótt leiði Þorleifs væri ómerkt, var það auðfundið eftir lýsingunni í Þjóðólfi. Ég nefndi þá við hana hugmynd mína um að reisa langalangafa hennar bautastein og henni fannst það falleg hugmynd.

Ég fékk svo góða menn í lið með mér og yngsta systkinið kom og var viðstaddur afhjúpun hans. En Egill kom aldrei til Íslands. Þegar þau systkini dóu slitnaði samband mitt við afkomendur Þorleifs Repps í Englandi."

freysteinn@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.