Því miður virðist það oft vera afstaðan þegar kemur að geðrænum vandamálum, ólíkt öðrum sjúkdómum, að ekkert sé gert í málum fyrr en sjúklingurinn er langt leiddur af sjúkdómi sínum. Þetta er mat þeirra Sigurðar Hólms Gunnarssonar, Ástu Gunnarsdóttur, Margrétar Daggar Hrannardóttur, Maríu Gísladóttur, Helenu Kolbeinsdóttur og Dagnýjar Karlsdóttur.
Því miður virðist það oft vera afstaðan þegar kemur að geðrænum vandamálum, ólíkt öðrum sjúkdómum, að ekkert sé gert í málum fyrr en sjúklingurinn er langt leiddur af sjúkdómi sínum. Þetta er mat þeirra Sigurðar Hólms Gunnarssonar, Ástu Gunnarsdóttur, Margrétar Daggar Hrannardóttur, Maríu Gísladóttur, Helenu Kolbeinsdóttur og Dagnýjar Karlsdóttur. — Morgunblaðið/Jim Smart
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Af hverju einblína menn á þá örfáu öryrkja sem hugsanlega misnota kerfið, í stað þess að beina sjónum að því hvað veldur fjölgun öryrkja og hvaða úrræði þau hafi til að byggja sig upp og komast aftur út á vinnumarkaðinn?

Af hverju einblína menn á þá örfáu öryrkja sem hugsanlega misnota kerfið, í stað þess að beina sjónum að því hvað veldur fjölgun öryrkja og hvaða úrræði þau hafi til að byggja sig upp og komast aftur út á vinnumarkaðinn? Þetta voru meðal þeirra spurninga sem brunnu á viðmælendum Silju Bjarkar Huldudóttur , sem allir eru í starfsendurhæfingu í iðjuþjálfun geðsviðs LSH.

Umræðan um fjölgun öryrkja að undanförnu, og sú ofuráhersla sem verið hefur á þá örfáu einstaklinga sem hugsanlega misnota kerfið, hefur vakið hörð viðbrögð hjá okkur sem sækjum endurhæfingu í iðjuþjálfun geðsviðs LSH. Við erum öll á örorku vegna veikinda okkar, en við erum öll einstaklingar sem erum að vinna í okkar málum, að reyna að byggja okkur upp til þess að geta farið aftur í skóla eða út á vinnumarkaðinn," segir Margrét Dögg Hrannardóttir, sem ásamt sex öðrum skjólstæðingum iðjuþjálfunar og starfsmanni, settist niður með blaðakonu til að ræða þessi mál.

Eftir því sem samtalinu vindur fram má ljóst vera að viðmælendur undirritaðrar eru ósáttir við að ekki sé meira rætt um þau úrræði sem öryrkjum standa til boða við að komast aftur út á vinnumarkað, sem að þeirra mati virðast oft af skornum skammti og jafnvel ekki nægilega vel kynnt skjólstæðingunum. Lýsti einn í hópnum því sem svo að í raun væri kerfið að svíkjast um að hjálpa fólki aftur út í lífið og nefndi í því samhengi langa biðlista og skort á upplýsingum um úrræði. Eins velti hópurinn upp þeirri spurningu af hverju sjónum yfirvalda væri ekki í meira mæli beint að því hvers vegna fólk verður öryrkjar. "Getur hugsast að fjölgun öryrkja þýði ekki sjálfkrafa að vandinn sé að aukast heldur fremur að fólk sé orðið betur upplýst um þau úrræði sem þó séu fyrir hendi og leiti sér fremur aðstoðar en áður? Og er það ekki góðs viti?" spyr Dagný Karlsdóttir og bendir á að ef yfirvöld hafi grun um að fólk sé að komast á örorku sem ekki eigi þar heima þá hljóti ábyrgðin að miklu leyti að liggja hjá læknunum sem ávísa örorkunni.

Talið berst að starfsendurhæfingunni í iðjuþjálfuninni, en ljóst má vera að hún tekur mislangan tíma eftir einstaklingum. Af samræðum við blaðakonu verður ljóst að mikilvægt er að einstaklingar fái ráðrúm til að undirbúa sig vel og fari ekki of snemma aftur út á vinnumarkað. Margir í hópnum segjast hins vegar finna fyrir töluverðri pressu um það að drífa sig nú aftur út á vinnumarkaðinn og einnig fái þau ósjaldan að heyra það að þau séu nú bara letingjar sem nenni ekki að vinna.

"Síðast þegar ég veiktist þá fór ég á lyf og mánuði seinna fékk ég vinnu, en ég hafði verið óvinnufær í 8-9 mánuði þar áður. Ég entist í nýju vinnunni í þrjá mánuði, en þá var ég orðinn úttaugaður, þjakaður af þunglyndi og varð fyrir vikið mun veikari en ég hafði verið áður. Ég var hreinlega alls ekki nægilega vel undirbúinn til þess að takast á við vinnuna. Ég hefði þurft miklu lengri tíma og betri undirbúning til þess að vera andlega tilbúinn til að þola álagið sem fylgir því að vera aftur á vinnumarkaði. Ég hafði svo lítið sjálfstraust að ég var sífellt stressaður yfir því að ég gerði ekki hlutina nógu vel," segir Gunnar Ólafsson.

Í framhaldinu berst talið að því hvaða úrræði myndi auðvelda mönnum í hans stöðu það að fara aftur út á vinnumarkaðinn. Allir eru sammála um að lykilatriðið sé að hjálpa fólki við að byggja upp sjálfstraustið til að takast aftur á við vinnuumhverfið og þar gegni endurhæfingin í iðjuþjálfuninni gríðarstóru hlutverki. Annað sem hefur sýnt sig virka vel er að veita fólki handleiðslu þegar það snýr aftur út á vinnumarkað og benda þeir á að nú um stundir sé einn iðjuþjálfi starfandi hjá Heilsugæslunni í Reykjavík sem sinnir því hlutverki á vegum Hugarafls. Allir eru viðmælendurnir á einu máli um að slíkur stuðningur sé ómetanlegur, en benda á að einn einstaklingur ráði auðvitað ekki við að sinna öllum sem á stuðningi þurfi að halda. Einnig nefna þau vinnusamninga öryrkja sem afar jákvætt úrræði.

Litið á geðræn vandamál sem aumingjaskap

Umræðan berst næst að fordómum í garð öryrkja. Þegar blaðakona varpar fram þeirri spurningu hvort viðmælendur hennar finni fyrir fordómum í sinn garð, svara þau öll játandi um hæl. "Það eru klárlega margir sem líta á geðræn vandamál sem leti og aumingjaskap sem fólk eigi einfaldlega að rífa sig upp úr," segir Helena Kolbeinsdóttir. Hrönn Helga Indriðadóttir tekur undir með Helenu og segist oft upplifa það að fólk líti á sig sem aumingja þegar hún segist vera öryrki. "Ég hef líka oft fengið að heyra það að ég hreinlega nenni ekki að vinna. Mig langar hins vegar ekkert frekar en að komast aftur annaðhvort í skóla eða vinnu," segir Hrönn. "Það sést náttúrlega ekki utan á okkur að við eigum við einhvern bagga að stríða þar sem við erum ekki með hækjur eða í hjólastól. Fordómarnir og skömmin sem fylgir þessum sjúkdómi kemur ofan á allt annað og veldur enn meira álagi," segir Margrét. "Það þarf hins vegar að draga það fram að geðræn vandamál eru lífshættuleg. Ég jafna þessu oft við krabbamein og spyr fólk gjarnan hvort það myndi tala við mig á sama hátt ef ég væri að glíma við t.d. krabbamein í stað geðsjúkdóms," segir Ásta Gunnarsdóttir.

Lengri meðferð ódýrari þegar til lengri tíma er litið

Það er mat hópsins að því miður virðist það oft vera afstaðan þegar kemur að geðrænum vandamálum, ólíkt öðrum sjúkdómum, að ekkert sé gert í málum fyrr en sjúklingurinn er langt leiddur af sjúkdómi sínum og nánast bugaður af honum. "Ef við notum samlíkinguna við krabbameinið þá er þetta sambærilegt við það að ekkert væri að gert fyrr en sjúklingurinn væri kominn með krabbamein á lokastigi. Með alla aðra sjúkdóma er ávallt reynt að grípa inn í eins fljótt og mögulegt er til þess að inngripið sé sem minnst og fólk geti verið fljótara að jafna sig, enda batahorfur þá mestar. Auðvitað kostar það peninga, en það kostar líka peninga að skima fyrir krabbameini. Þegar upp er staðið er það þó miklu ódýrara en að hafa alla á veika á gjörgæslu síðar meir. Nákvæmlega það sama á við um geðsjúka," segir Sigurður Hólm Gunnarsson, sem er aðstoðarmaður iðjuþjálfa, og hópurinn tekur undir með honum.

"Það hlýtur að liggja í augum uppi að það er hagkvæmara fyrir bæði einstaklingana og samfélagið allt að bjóða t.d. upp á aðstöðu og endurhæfingu, líkt og hér er gert, til þess að búa fólk aftur undir þátttöku í samfélaginu," segir María Gísladóttir. Talið berst að peningum, enda staðreynd að þeir eru ráðandi afl í heiminum. "Sé litið til kostnaðar er staðreynd að lengri og dýrari meðferð getur oft reynst ódýrari þegar til lengri tíma er litið sökum þess að hún er áhrifaríkari og virkar til frambúðar," segir Margrét.

Fólk enn í dag rekið úr vinnu vegna geðsjúkdóma

Áður en blaðakona hverfur á braut veltir hún upp þeirri spurningu hvað megi gera til þess að eyða fordómum og gera umræðuna um öryrkja jákvæðari. "Við þurfum auðvitað að láta í okkur heyra, en okkur hefur hingað til tilfinnanlega skort rödd í umræðunni. Fram að þessu hefur fyrst og fremst heyrst í fjármálamönnunum sem einblína því miður fremur á þá örfáu einstaklinga sem hugsanlega misnota kerfið í stað þess að skoða hvernig megi bæta hlutina, auka þjónustuna svo einstaklingarnir skili sér fyrr út á vinnumarkaðinn," segir Dagný. Margrét tekur undir með henni og bendir einnig á að sér finnist of oft rætt við fólk í fjölmiðlum sem sé hreinlega alls ekki nógu vel að sér varðandi málefni öryrkja.

"Það er ljóst að enn þann dag í dag er fólk rekið úr vinnu vegna geðsjúkdóma og jafnvel lagt í einelti af samstarfsfólki sínu, vegna þess að almenningur er ekki nægilega vel upplýstur," segir Ásta og veltir upp þeirri spurningu hvort ekki megi bjóða upp á námskeið á vinnustöðum um þunglyndi og geðræn vandamál á sama hátt og boðið sé upp á námskeið um einelti á vinnustöðum og kynferðislegt áreiti. Hópurinn tekur undir þetta en bendir á að ekki sé nóg að fræða bara um einkenni geðsjúkdóma. Það þurfi ekki síður að upplýsa samstarfsmenn og yfirmenn um það á hvern hátt hægt sé að vinna með styrkleika geðsjúkra, kenna mönnum hvers konar aðstoð henti best hverjum og einum og auka skilning manna á hvað það þýði að vera með geðsjúkdóm í samhengi við atvinnulífið.

Vildum geta tekið við fleirum

"VIÐ vildum gjarnan geta tekið fólk strax inn því við vitum að tíminn er lykilatriði, enda sýna rannsóknir að hver vika sem fólk bíður minnkar möguleikann á því að það skili sér aftur út á vinnumarkaðinn," segir Elín Ebba Ásmundsdóttir, forstöðuiðjuþjálfi geðsviðs Landspítala - háskólasjúkrahúss.

Að sögn Elínar Ebbu eru nú um 25 manns á biðlista og þar af eru tólf undir 25 ára aldri. "Um er að ræða ungt fólk sem virkilega þarf aðstoð til að koma fótunum undir sig til að komast aftur út í lífið," segir Elín Ebba og bendir á að nýbúið sé að taka inn einstaklinga af biðlista sem sóttu um í janúar sl. þó ekki hafi verið hægt að taka inn alla sem þá sóttu um. "Við sjáum fram á að þeir sem sóttu um núna í apríl og maí komist ekki að fyrr en um jólin, sem er auðvitað afar bagalegt."

Að meðaltali mæta daglega um 55 manns í iðjuþjálfun LSH, þar af eru 40 í starfsendurhæfingu. Að sögn Elínar Ebbu er aldrei fyrirfram hægt að segja til um hversu langan tíma hver einstaklingur þarf í starfsendurhæfingu. Segir hún meðaltíma einstaklinga vera um tvö ár, en ef gripið sé fljótt inn í þurfi fólk oft ekki nema 3-6 mánuði. "Margir detta hins vegar út af því þeir eru að fást við of mikið í einu og geta ekki einbeitt sér að eigin endurhæfingu."

Að sögn Elínar Ebbu ræðst lengd endurhæfingarinnar af því hvernig einstaklingarnir eru á sig komnir þegar hún hefst. "Sumir koma svo seint að sjálfmyndin er alveg brotin og það tekur langan tíma að byggja hana upp og fá þau til að endurheimta trúna á sjálfa sig. Því miður er kerfið okkar þannig upp byggt að sjaldnast er gripið inn í fyrr en fólk er orðið bráðveikt og þá tekur bataferlið auðvitað mun lengri tíma en ella."

silja@mbl.is