— Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hraðfleygum ferðalöngum nútímans þykir langur aksturinn gegnum Húnavatnssýslur.

Hraðfleygum ferðalöngum nútímans þykir langur aksturinn gegnum Húnavatnssýslur. Um það bil á miðri leið er skilti við veginn, sem upplýsir á nokkrum tungumálum að þar liggi stígur að Þrístöpum kippkorn norðar, en þar var árið 1830 framkvæmd síðasta aftaka á Íslandi. Þá voru hálshöggvin þau Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson fyrir morð og morðbrennu á Illugastöðum á Vatnsnesi tæpum tveim árum fyrr. Hinir myrtu voru Natan Ketilsson, húsbóndi á Illugastöðum, og Pétur Jónsson sem þar var næturgestur.

Morðin og aftaka þeirra Agnesar og Friðriks höfðu á sínum tíma áhrif um allt land, en eðlilega hvergi meir en í Húnavatnssýslum. Morðið var hroðalegt, framið á sofandi og varnarlausum mönnum og bærinn brenndur. Allt málið var rekið heima í héraði, þar sátu fangarnir í haldi á sveitabæjum, deildu kjörum með heimafólki og gengu til verka með því. Loksins var svo sjálf aftakan, með hætti sem okkur nútímafólki finnst hrein villimennska: sakamennirnir hálshöggnir opinberlega og afhöggvin höfuðin síðan fest upp á stengur og andlitin látin snúa að alfaraleið. Auk þess voru allir bændur sýslunnar skikkaðir til að vera viðstaddir eða senda fullgildan karlmann í sinn stað. Um 150 manns voru á Þrístöpum 12. janúar 1830.

Slíkir atburðir verða ekki án eftirmála. Sumir þeirra eru geymdir á bókum embættismanna: hvað var gert við öxina, hver borgaði hverjum hvað og fyrir hvað, rétt eins og alltaf hefur þurft að skrá og skrifa. Um önnur atriði ríkir þjóðsagan ein.

Morðin á Illugastöðum

Aðfaranótt 14. mars árið 1828 var vakið upp á bænum Stapakoti á Vatnsnesi. Þar var komin Agnes Magnúsdóttir, 33 ára vinnukona á Illugastöðum, næsta bæ, og sagði þau válegu tíðindi að bærinn á Illugastöðum stæði í ljósum logum, og að húsbóndinn þar, Natan Ketilsson, myndi inni brunninn, og ásamt honum Pétur Jónsson sem þar var næturgestur. Er slökkt hafði verið í bænum og líkin fundin vöknuðu fljótt grunsemdir um að ekki væri allt með felldu. Nánari skoðun leiddi í ljós fjölda stungusára á báðum hinum illa brunnu líkömum, auk þess sem sjá mátti blóð í fötum þeirra, sem eldurinn hafði ekki náð að granda. Það lá ljóst fyrir að ekki gat verið um slys að ræða. Agnes og Sigríður Guðmundsdóttir, 16 ára vinnukona á Illugastöðum, voru nú leiddar fyrir sýslumann, Björn Blöndal, og var réttur settur yfir þeim 22. mars. Ekki leið á löngu uns þær meðgengu að hafa átt þátt í dauða mannanna tveggja, en sjálfan verknaðinn hefði framið ungur bóndasonur í Katadal á Vatnsnesi, Friðrik Sigurðsson, sem þá var tæpra 18 ára. Friðrik var nú tekinn höndum. Hann neitaði lengi vel öllu, en eftir fortölur prestsins á Tjörn játaði hann að hafa orðið mönnunum að bana. Réttarhöldin voru gífurlega umfangsmikil og stóðu fram í júlí sama ár. 25. júní 1829 var lokadómur felldur í Hæstarétti: Friðrik og Agnes skyldu hálshöggvin og höfuðin sett á stengur. Sigríður, sem áður hafði verið dæmd til dauða, var "náðuð" af kónginum og dæmd til ævilangrar þrælkunarvinnu.

En hver var bakgrunnur þessara voðaverka?

Það er vel þekkt í glæpasögum að sjálft morðið er aldrei upphaf sögu, heldur fremur ákveðinn endapunktur, þótt nauðsynlegt sé að skipa því framarlega til að gleðja blóðþyrsta lesendur. Önnur algeng kennisetning glæpasagna er, að til að skilja morðið þurfi að kynnast hinum myrta. Hér á það vel við. Natan Ketilsson, húsbóndi Agnesar, var óvenjulegur maður og umtalaður, bæði til góðs og ills. Hann var gáfaður hæfileikamaður, stundaði lækningar og hafði tekist að afla sér nokkurrar þekkingar á því sviði. En hann var líka óprúttinn í viðskiptum og brögðóttur, og til voru þeir sem grunuðu hann um glæpsamlegt athæfi. Víst er að hann var dæmdur til hýðingar fyrir aðild að þjófnaði. Natan var djarftækur til kvenna og eignaðist börn hér og hvar. Frægast er samband hans við Vatnsenda-Rósu, en þau lifðu ástalífi án allra feluleikja á heimili hennar og Ólafs, eiginmanns hennar. Sambandi þeirra var að mestu lokið þegar hann kynntist Agnesi Magnúsdóttur, sem þá var vinnukona á Geitaskarði þar sem hann var gestkomandi. Þau löðuðust strax hvort að öðru, og er hann fór af bænum var Agnes vistráðin hjá honum um næstu fardaga sem bústýra hans. Líklegt er að hún hafi litið svo á að það væri einungis upphaf að öðru og meira, þ.e. að hún yrði framtíðarhúsfreyja á Illugastöðum. Agnes, sem þá var liðlega þrítug, var góðum gáfum gædd, skáldmælt og hæfileikarík á ýmsan hátt. Mönnum ber ekki saman um útlit hennar, ein heimild segir hana "ekki sjálega", önnur lýsir henni sem gjörvulegri og skemmtilegri í viðmóti. En ástamál hennar höfðu ekki gengið sem skyldi, þótt hún hefði átt í nokkrum ástasamböndum höfðu þau öll tekið enda áður en svo mikið sem hillti undir hjónaband. Ekki tók betra við þegar hún kom að Illugastöðum. Natan var orðinn henni fráhverfur en sóttist hins vegar eftir ástum Sigríðar og varð vel ágengt, enda húsbóndi hennar og auk þess reyndur kvennamaður, en hún hálfgert barn og samkvæmt málsskjölum fremur einföld. Nú kom Friðrik í Katadal til sögunnar. Hann sóttist eftir Sigríði - óljóst er hvort það var upphaflega hans frumkvæði eða að tilstuðlan Agnesar. Sigríður tók honum vel, en þó hélt hún áfram sambandi við Natan. Ekki varð þetta heldur til að Natan sneri ást sinni aftur til Agnesar eins og hún hafði vonað. Þvert á móti gerðist með þeim fullur fjandskapur og gekk á ýmsu á Illugastöðum þennan vetur. Ekki er með öllu ljóst hver átti uppástunguna að því að drepa Natan. Friðrik játaði sjálfur fyrir réttinum að hugmyndin hefði þróast með honum smátt og smátt. Það er þó nokkuð víst að a.m.k. er á leið var Agnes mjög hvetjandi um morðið.

En - eins og líka greinir frá í mörgum glæpasögum - virðist sem morðáformin hafi fljótlega tekið að lifa sjálfstæðu lífi og náð algeru valdi á hugum þessa ógæfusama fólks uns ekki varð aftur snúið, þótt allir með óbrjálaða skynsemi sjái að þessar áætlanir gátu einungis leitt til glötunar þeirra.

Aftakan á Þrístöpum

Þegar Agnes og Friðrik voru dæmd frá lífi var réttarfar í landi orðið töluvert annað en verið hafði á 17. og 18. öld þegar aftökur voru svo algengar að jafnvel voru hengdir þrír þjófar sama daginn á Þingvöllum. Hengingum þjófa var hætt fyrir 1760. Um svipað leyti var einnig hætt að refsa fyrir brot á kynlífssviðinu með lífláti, en aftökur fyrir slíkar sakir voru algengar meðan hinn illræmdi Stóridómur gilti. Galdrabrennuöldin var sömuleiðis gengin hjá, og almennt má segja að hin mildandi áhrif upplýsingarinnar hafi verið farin að hafa áhrif á löggjöf og framkvæmd réttarfars. Á Íslandi hafði ekki farið fram aftaka síðan árið 1790. Einn sakamaður var fluttur til Noregs og höggvinn þar árið 1805.

Björn Blöndal, sýslumaður Húnvetninga, var líka vel meðvitandi um hve óvenjuleg þessi athöfn var orðin og að hún myndi orka óhugnanlega á íbúa sýslunnar. Bréf hans sýna ástæður fyrir þessarri ákvörðun, en þær voru einkum tvær:

Í fyrsta lagi almenn viðvörun, en Blöndal leit svo á að í héraðinu ríkti óöld glæpa og yfirgangs.

Hin ástæðan er kunn á öllum öldum, einkum meðal embættismanna ríkisins: sparnaður. Það var einfaldlega ódýrara að höggva fólk heima í héraði en að kosta upp á flutning og höggningu í Danmörku eða Noregi.

Að þessu sögðu verður að geta þess að Björn Blöndal vildi hvorki til spara fjármuni né vinnu að aftakan færi sem "sómasamlegast" fram.

Þannig var öxi fengin frá Kaupmannahöfn og höggstokkurinn sömuleiðis, eikarstokkur með tilhöggnu grópi fyrir höku sakamannsins að hvíla í á hinstu stund. Erfiðlegar gekk að finna böðul. Til þess verks valdist Guðmundur Ketilsson, bróðir hins myrta Natans, og skýra flestar heimildir svo frá, að hann hafi boðist til að höggva þau Friðrik og Agnesi. En ættingjar Guðmundar hafa til þessa dags mótmælt því og segja hann hafa verið margbeðinn um verkið af sýslumanni. Til þess benda líka eftirfarandi orð í bréfi til amtmanns í des. 1828:

"...og hefur Guðmundur Ketilsson, bóndi á Illugastöðum, bróðir hins myrta manns, Natans Ketilssonar, loksins lofað (leturbr. mín SHÞ) að framkvæma hana fyrir 60 Rbd. silfurs greiðslu, hvort sem ein eða fleiri persónur verða líflátnar að því tilskildu að honum verði útveguð nothæf exi til þess."

Guðmundur gaf verklaunin í fátækrakassa heimahrepps síns og kallaði blóðpeninga.

Aftökupallur úr torfi og grjóti var hlaðinn á Þrístöpum og sést hann vel enn. Útvegað var rautt klæði til að breiða yfir pallinn og höggstokkinn meðan á athöfninni stóð og klambrað upp grindverki úr tré utan um pallinn. Timbrið var fengið að láni og skilað aftur eftir á, annað þótti bruðl.

Báðir dauðamenn fengu prestsþjónustu svo vikum skipti og fylgdu prestarnir þeim til síðustu stundar. Þau þóttu bæði fá góða iðran, og segir sýslumaður þau hafa gengið "að því er virtist ánægð móti örlögum sínum". Aðrar heimildir segja þó Agnesi hafa verið "dapra". Hún var 34 ára og Friðrik 19 ára.

Er höfuð höfðu verið skilin frá bol voru þau sett upp á "tvende dertil paa Retterstedet opsatte Stager", þ.e. stengur úr tré sem reknar voru upp í strjúpana. Andlitin voru látin snúa að alfaraleið, hinum ólöghlýðnu og yfirgangssömu Húnvetningum til viðvörunar.

Hvergi er þess getið hve lengi sýslumaður hafði hugsað sér að höfuð þessi stæðu uppi. Um það voru engar fastar reglur, en þó mun það yfirleitt fremur hafa verið til lengri tíma. Svo fór þó ekki hér. Skömmu eftir aftökuna voru þau horfin. Í skjölum hins röggsama yfirvalds í Hvammi, Björns Blöndals, er hvergi stafur um þetta, eða að hann hafi eitthvað aðhafst í því máli.

Þjóðsagan er á þessa leið: Guðrún Runólfsdóttir, húsfreyja á Þingeyrum, var landskunn að hjartagæsku. Nóttina eftir aftökuna sendi hún vinnumann sinn með leynd til að taka höfuðin af stöngunum og flytja þau í Þingeyrakirkjugarð og jarða þau þar, vísast þá í einhverri nýtekinni gröf. Hundrað árum eftir aftökurnar var þessi saga staðreynd í hugum allra sem til þekktu.

Í annálum tímabilsins segir stutt og laggott:

"Skömmu síðar hurfu höfuðin af stöngunum".

Ein undantekning er þó á. Gísli Konráðsson, alþýðufræðimaður og samtímamaður, skýrir svo frá:

"Nokkru síðar hurfu höfuð þeirra Friðriks og Agnesar af stöngunum og var margrætt um áður smalasveinn frá Sveinsstöðum gekk í Hvamm að finna sýslumann og kvaðst hafa grafið þau í dys þeirra af hræðslu. Var honum boðið að grafa þau upp aftur og setja á stjakana."

Allt er þetta hausamál hið einkennilegasta og mun ég víkja nánar að því síðar. Fyrst skal þó sagt frá atburðum sem gerðust meir en 100 árum síðar.

Agnes gerir vart við sig að handan

Árið 1932 bjó við Bergþórugötu í Reykjavík kona að nafni Sesselja Guðmundsdóttir. Hún hafði búið um tíma á Vatnsnesi, en maður hennar var þaðan.

Sesselja hafði dulræna hæfileika sem hún fór leynt með. Nú gerist það að til hennar er leitað að handan, að sögn með ósjálfráðri skrift. Bréfritarinn var Agnes Magnúsdóttir og skilaboðin öll á eina leið: Hún fór þess á leit að bein hennar og Friðriks yrðu grafin upp og jörðuð í vígðri mold í kirkjugarðinum á Tjörn á Vatnsnesi, og jafnframt að haldin yrði bænastund á morðstaðnum á Illugastöðum. Henni gekk að sögn fyrst og fremst það til að milda hug manna í garð þeirra Friðriks.

Sesselja var lengi treg til að aðhafast nokkuð, en svo fór að henni fannst ekki unnt að daufheyrast við þessum bænum. Árið 1934 sneri hún sér til reykvískra spíritista og bað um aðstoð við að uppfylla óskir þessara framliðnu syndabarna.

Guðmundur Sigurjónsson Hofdal hét sá maður sem tók að sér að fara norður í Húnavatnssýslu til að annast uppgröft þennan og hafa milligöngu um hina kirkjulegu athöfn. Áður var fengið leyfi hjá biskupi, Jóni Helgasyni, til að grafa mætti þau Friðrik og Agnesi í vígða jörð.

Agnes hafði lýst staðsetningu dysjarinnar nákvæmlega: "í hásumar-sól-setursátt, séð frá aftökupallinum og skammt frá honum." Hún sagði jafnframt að höfuð þeirra væru alls ekki grafin á Þingeyrum, eins og allir höfðu talið. Hún sagði að vinnumaðurinn hefði dysjað þau á staðnum, og lýsti staðsetningunni nákvæmlega. Vinnumaðurinn hafði flýtt sér svo, að hennar sögn, að í stað þess að taka höfuð hennar upp af stönginni, hafði hann brotið stöngina og sæti brotið enn í kúpunni. Hún benti Guðmundi á mann sem hann skyldi snúa sér til þá norður kæmi. Það var Magnús, bóndi á Sveinsstöðum, en Þrístapar eru í landi hans. Magnús var líka hreppstjóri í sveitinni, svo að eðlilegt var að leita til hans.

Magnús brást vel við beiðni Guðmundar, en var þó vantrúaður á söguna, einkum vegna hausasögunnar.

Þeir fóru á staðinn ásamt syni Magnúsar, Ólafi, sem þá var tæplega tvítugur. Þeir fundu brátt kistur Friðriks og Agnesar og síðan höfuðkúpurnar skammt frá, eins og til hafði verið vísað, og einnig um tíu cm langt spýtubrot. Hauskúpurnar voru mun betur varðveittar en beinin, líklega vegna þess að jarðvegur var þar mun malarbornari, en það hafði miðillinn líka upplýst.

Þeir skjalfestu þennan fund allir þrír, og einnig að Guðmundur hefði sagt fyrir um hann áður en byrjað var að grafa.

Beinin voru nú sett í kassa og flutt að Tjörn á Vatnsnesi þar sem þau voru grafin. Nokkrum dögum síðar var haldin bænastund á Illugastöðum. Þetta fór allt fremur leynt, og féll mörgum það illa. Það var þó raunar krafa Jóns biskups að jarðað yrði í kyrrþey.

Töluvert var rætt um þessa atburði og sýndist sitt hverjum eins og gengur. Það var þó mál flestra að hér væri komin merkileg sönnun um framhaldslíf. Mikið var spurt um hver skrifmiðillinn væri, en Sesselja lagði blátt bann við að nafn hennar yrði nefnt fyrr en hún væri öll, og var það haldið.

Ýmsir smáhlutir fundust í dysinni eftir uppgröftinn, m.a. millur úr upphlut Agnesar, sem sýndi að hún hafði klæðst sinni bestu flík. - Maður á Blönduósi fann kjálka í dysinni ári síðar og taldi hann úr Friðriki. Hann geymdi hann árum saman í svefnherbergi sínu, ýmist í skúffu eða undir koddanum!

Þessir gripir eru nú á Þjóðminjasafni og þar er einnig höggstokkurinn og öxin til sýnis.

"Hvat hausa?"

Þegar reynt er að skyggnast inn í horfna tíð er oft meira um spurningar en svör. Svo fór mér þegar ég fór að forvitnast um hvað gæti hafa gerst á Þrístöpum fyrir 174 árum að lokinni aftöku þeirra Friðriks og Agnesar.

Sagan um "gæðakonuna góðu" eins og Guðrún á Þingeyrum var jafnan nefnd, hefur á sér öll einkenni góðrar þjóðsögu. Þegar farið er að hugsa nánar út í hana er hún þó tæpast mjög sennileg. Guðrún var gift Birni Ólsen, umboðsmanni Þingeyraklausturs og náins samstarfsmanns Björns Blöndals sýslumanns. Að vísu var hún þekkt að góðverkum í trássi við mann sinn, og því gæti vel verið að Guðrún hafi viljað láta grafa höfuðin, enda hafði Friðrik verið í haldi á heimili hennar og vitað er að hún tók örlög hans nærri sér. En það stendur verulega í mér að hún hafi gengist fyrir því að grafa höfuðin í vígðri mold, þvert ofan í lög guðs og manna á þessum tíma.

Það er einnig ótrúlegt ef maður - smalasveinn á Sveinsstöðum eða einhver annar - kemur til sýslumanns og játar verknað sem þennan að hann aðhafist ekkert í slíku máli. Þá hlyti að finnast eitthvað skráð um það, líklegast í dómabók sýslumanns, en svo er ekki. Það verður því að telja líklegt að Gísli Konráðsson byggi hér á sögusögn sem gekk milli manna á þessum tíma. Viðbót hans um að það hafi átt að grafa höfuðin upp aftur er þó illskiljanleg, en sýnir e.t.v. fjarlægð hans frá atburðum. Frásögn hans um málið er raunar víða ónákvæm.

En þögn Björns Blöndals um hina horfnu hausa er athyglisverð. Hann virðist beinlínis hafa kosið að láta sem ekkert væri, en útilokað er að hann hafi ekki fengið að vita um þetta strax. Tvær skýringar koma mér helst til hugar.

Önnur er sú að Björn hafi vitað eða talið sig vita hver hér var að verki og að þá hafi verið um að ræða persónu sem hann vildi hlífa. Sú skýring rímar vel við söguna af Þingeyrahúsfreyju, þótt það segi ekkert um kirkjugarðsgreftrunina, en hana tel ég vera hreina seinni tíma viðbót.

Hin skýringin er sú að Björn Blöndal hafi einfaldlega verið búinn að fá nóg. Málið hafði gengið nærri honum, hann vissi að aftakan hafði orkað illa á fólk og lagði ekki í meiri átök eða aðgerðir sem hlutu að vekja sársauka og gremju.

Líklegt má telja að þjóðsagan um Þingeyrahúsfreyju hafi einungis verið ein af nokkrum sögum sem voru á kreiki í Húnavatnssýslum um hvarf hausanna. Það er vissulega maklegt að hún skuli hafa orðið ofan á og vera 100 árum seinna "sannleikur sem allir vissu" - þetta er einfaldlega góð saga með sterka dramatíska drætti.

En hún var samt ekki eina útgáfan sem lifði til okkar tíma þó hún sé þekktust. Þegar ég var að vinna að þessari grein frétti ég af húnversku fólki sem taldi sig vita hver hefði grafið höfuð þessi. Annar bændanna á Sveinsstöðum árið 1830 hét Erlendur Árnason. Ættingjar Erlendar telja að hann og vinnumaður hans, Gísli að nafni, hafi farið til og grafið höfuðin - og að sjálfsögðu á aftökustaðnum, annað hlýtur að teljast heldur langsótt. Þessi sögn hefur lifað meðal a.m.k. sumra Húnvetninga og getur því ekki talist útilokað að hún hafi verið þekkt í tengdafjölskyldu Sesselju Guðmundsdóttur sem eins og fyrr segir voru Húnvetningar.

Í tengslum við greinaskrif þessi fór ég við aðra konu pílagrímsför til Norðurlands að skoða helstu sögustaði og hitti þá fólk á bæjunum sem mest tengjast sögunni. Á Illugastöðum hittum við Auðbjörgu Guðmundsdóttur, en hún er afkomandi Guðmundar Ketilssonar. Á Sveinsstöðum hittum við Magnús Ólafsson, son Ólafs og sonarson Magnúsar sem aðstoðuðu við beinagröftinn árið 1934. Þessu fólki kann ég hinar bestu þakkir fyrir tíma og áhuga. Einnig þakka ég afkomendum Sesselju Guðmundsdóttur, sem góðfúslega gáfu mér allar upplýsingar sem þau gátu, svo og öðrum þeim sem hafa veitt mér aðstoð og upplýsingar.

Sérstakar þakkir fær vinkona mín, Hallgerður Gísladóttir sagnfræðingur, fyrir sína hjálp og einkum þó skemmtilega samfylgd til Norðurlands.

Heimildir:

Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi: Saga Natans Ketilssonar og Skáld-Rósu. Rv. 1912.

Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga 2. og 3. bindi. Ritstjóri Jón Torfason. Rv. 1998.

Guðlaugur Guðmundsson: Enginn má undan líta. Rv. 1974.

Hulda Á. Stefánsdóttir: Æviminningar. Húsfreyja í Húnaþingi. 3. bindi. Rv. 1987.

Jón Auðuns: "Konan sem varð miðill Agnesar". Morgunn (Rv. 1954), 74-79.

Jón Espólín: Íslands árbækur í sögu-formi. 12. bindi. Kbh. 1821-1855

Oddgeir Stephensen, Jón Sigurðsson: Lovsamling for Island. III. bindi. Kbh. 1853-1889.

Páll Sigurðsson: Brot úr réttarsögu. Rv. 1971.

Páll Sigurðsson: Svipmyndir úr réttarsögu. Rv. 1992.

Pétur Guðmundsson: Annáll 19. aldar, I. bindi. Akureyri 1912.

Þjóðskjalasafn Íslands:

Biskupsskjalasafn 1994 16/18

Sálnaregistur Þingeyrasókn 1784-1839. Filma.

Skjalasafn Hún. V. 18. Dóma- og þingbók 1827-1830.

Skjalasafn Hún. VII. 1. Fógetabók 1823-93.

Skjalasafn Hún. III. 5. Bréfabók 1825-1829.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur.