Ingibjörg Sólrún Gísladóttir afhenti fulltrúum Hugarafls hvatningarverðlaunin í gær.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir afhenti fulltrúum Hugarafls hvatningarverðlaunin í gær. — Morgunblaðið/Árni Torfason
Eftir Kristján Geir Pétursson kristjan@mbl.is HÓPURINN Hugarafl hlaut hvatningarverðlaun Samfylkingarinnar sem afhent voru á landsfundi flokksins í gær.
Eftir Kristján Geir Pétursson kristjan@mbl.is

HÓPURINN Hugarafl hlaut hvatningarverðlaun Samfylkingarinnar sem afhent voru á landsfundi flokksins í gær. Í skjali sem undirritað var af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, segir að Hugarafl hljóti verðlaunin fyrir áhrifaríkt framtak við að ryðja nýjar brautir í geðheilbrigðismálum.

Verðlaunin eru jafnan veitt einstaklingi eða félagsskap sem skarað hefur fram úr á einhverju tilteknu sviði þjóðlífsins, eins og Bryndís Hlöðversdóttir, fráfarandi þingmaður flokksins, sagði í kynningu á starfi hópsins í gær.

Unnið út frá hugmyndum um valdeflingu

Hugarafl var stofnað af Auði Axelsdóttur iðjuþjálfa og fjórum notendum með langa reynslu af geðrænum vandamálum, Garðari Jónassyni, Jóni Ara Arasyni, Hallgrími Björgvinssyni og Ragnhildi Bragadóttur. Erla Björnsdóttir iðjuþjálfi starfaði með hópnum í fyrstu en Elín Ebba Ásmundsdóttir, forstöðuiðjuþjálfi Landspítala - háskólasjúkrahúss, gekk fljótlega til liðs við hópinn og hefur starfað með Hugarafli síðan, ásamt Auði.

Markmið Hugarafls er að skapa hlutverk, auka ábyrgð notenda geðheilbrigðisþjónustu, vinna gegn fordómum og efla atvinnusköpun fyrir geðsjúka. Bryndís rakti í kynningu sinni á hópnum að í honum ynnu notendur heilbrigðisþjónustunnar og iðjuþjálfar á jafningjagrundvelli út frá sjónarhóli þeirra sem hefðu reynslu af geðrænum vandamálum en væru í bata. Unnið væri út frá hugmyndinni valdefling sem gengur út að fela vald í heldur skjólstæðingi, gera hann færan um eitthvað sem eykur sjálfstæði hans sem um leið veitir honum viðurkenningu á því að vera jafngildur öðrum í samfélaginu.

Hugarafl starfar á heilsugæslunni í Drápuhlíð þar sem hópurinn fundar tvisvar í viku. Starf hópsins er m.a. að halda úti útgáfu, fræðslu, kynningu og heimasíðu um málefni geðsjúkra auk þess sem hópurinn er í samstarfi við ýmsa aðra hópa.

Að lokinni kynningu veitti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fulltrúum hópsins verðlaunin. Margrét Guttormsdóttir, meðlimur í Hugarafli, þakkaði í stuttu ávarpi fyrir viðurkenningu Samfylkingarinnar og sagði að markmið meðlima Hugarafls væri að sjá það jákvæða í þeim vágesti sem geðsjúkdómar væru.