(Magnea) Katrín Helgadóttir, fyrrverandi skólastjóri Húsmæðraskóla Reykjavíkur, fæddist í Bankastræti 6 í Reykjavík 13. júní 1906. Hún lést 6. maí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Helgi Magnússon, járnsmiður og kaupmaður í Reykjavík, f. 8. maí 1872 í Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi í Árnessýslu, og kona hans Oddrún Sigurðardóttir húsmóðir, f. 19. september 1878 að Esjubergi á Kjalarnesi. Helgi starfaði frá tvítugsaldri í Reykjavík; rak þar fyrirtæki sitt Helga Magnússon & Co í áratugi. Þau Oddrún og Helgi eignuðust 12 börn sem öll eru látin.
Fjölskyldan flutti úr Bankastræti 6 yfir götuna í húsið Bankastræti 7 árið 1932, þar sem hún bjó til ársins 1961.
Katrín stundaði nám við Verzlunarskóla Íslands 1923-1924. Hún var í London við tungumálanám 1925-1926 og í Kaupmannahöfn við hannyrðanám 1936-1937. Á árunum 1946-1948 dvaldi hún í Noregi og stundaði nám við Hússtjórnarkennaraskólann á Stabekk. Að loknu námi gerðist hún kennari við Húsmæðraskóla Reykjavíkur og kenndi þar 1949-1953 og tók þá við skólastjórastöðu skólans og gegndi því embætti til ársins 1975 er hún lét af störfum.
Síðustu tvö árin dvaldi Katrín á Hjúkrunarheimilinu Eir.
Katrín verður jarðsungin frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 15.
Látin er í hárri elli mágkona mín, Katrín Helgadóttir, fyrrverandi skólastjóri Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Hún náði tæplega 99 ára aldri og hélt andlegri reisn og heilsu til dauðadags. Katrín hafði ákaflega gott minni, svo gott að þeir sem yngri voru undruðust oft skarpar athugasemdir hennar um fortíðina. Margt af því sem hún rifjaði upp tengdist gamla tímanum og æskustöðvum hennar í miðbæ Reykjavíkur þar sem hún ólst upp, enda var hún ekta Reykvíkingur - sönn Reykjavíkurmær.
Sem ung stúlka vann Katrín á Símstöðinni í Reykjavík, áður en sjálfvirka stöðin var tekin í notkun. Stúlkurnar sem unnu á stöðinni voru almennt kallaðar "símapíurnar á Stöðinni" og ég undraðist oft hvað hún mundi vel símanúmer bæjarbúa. Skýringin var auðvitað sú að í starfinu þurftu hún og starfssystur hennar að þjálfa minni sitt og miðla símanúmerum allan sólarhringinn.
Árið 1946 urðu mikil þáttaskil í lífi Katrínar. Hún hélt þá til náms í Noregi á hússtjórnarkennaraskólann í Stabekk, þá orðin 41 árs gömul, en á yngri árum hafði hún bæði dvalið í Danmörku og á Englandi við nám. Ég hygg að þetta skref hafi reynt verulega á þrek mágkonu minnar vegna aldurs hennar og undirbúnings en það átti eftir að reynast henni mikið gæfuspor. Hún sneri til Íslands full af áhuga fyrir efldri húsmæðrafræðslu og lánið lék við hana þegar hún fékk strax starf sem kennari við Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Þar kenndi hún frá 1949 til 1953 en þá tók hún við skólastjórastöðu skólans og gegndi því starfi til ársins 1975, eða í rúm tuttugu ár.
Í skólanum fannst mér Katrín blómstra. Það var augljóst öllum sem þekktu hana að hún naut starfsins til hins ítrasta, gekkst upp í því og lagði sig fram við að sinna því af krafti og ákafa. Öruggt má telja að árvekni og áhugi hennar hafi snert fjölmarga sem urðu á vegi hennar á þessu tímabili - bæði kennara og nemendur.
Þegar starfi hennar lauk við skólann flutti hún á ný heim til móður sinnar og systra og tók þátt í að annast hana til dauðadags. Miklabraut 50 í Reykjavík var þeirra heimili og þaðan flutti Katrín, þegar hún var ein eftir af þessum stóra systkinahópi fyrir tæpum tveimur árum, á hjúkrunarheimilið Eir. Þar naut hún góðrar aðhlynningar og umönnunar þar til yfir lauk.
Katrín var um margt sérstök kona sem hafði mikinn áhuga og löngun til að hafa áhrif til góðs á fólkið í kringum sig. Hún fylgdist vel með systkinabörnum sínum, hvað væri á döfinni hjá þeim, hvernig þeim vegnaði og var jafnan tilbúin til að leggja eitthvað til málanna um velferð þeirra. Áhugi hennar var drifinn áfram af meðfæddri greiðvikni en um leið var hún bæði kröfuhörð á sjálfa sig og aðra. Hún vildi að hlutirnir væru gerðir rétt og að það væri vel að þeim staðið. Hjálparhönd Katrínar var aldrei langt undan.
Ég á ekkert nema góðar minningar um Katrínu mágkonu mína. Frá fyrsta degi varð hún góð vinkona mín enda ætíð mjög kært með henni og Magnúsi eiginmanni mínum. Hún mátti, rétt eins og allt hennar fólk, ekki vamm sitt vita. Hún átti erfitt með að sætta sig við óheiðarleika og óréttlæti - fyrirleit ósiðsemi af hvaða tagi sem var. Rétt eins og aðrir þurfti hún að ganga í gegnum margvíslegar raunir lífsins en vegna heiðarleika hennar og lífssýnar komst hún í gegnum þau svipugöng eins og heilsteyptri manneskju sæmir.
Seinni árin þegar hún þurfti á mikilli aðstoð að halda voru ýmsir sem voru tilbúnir til að rétta henni hjálparhönd. Mörg systkinabörn hennar og þeirra börn sýndu Katrínu mikla ræktarsemi og voru boðin og búin að styðja hana og styrkja. Vin- og samstarfskonur hennar úr Húsmæðraskólanum voru jafnan stór hluti af lífi Katrínar og tengdust henni með margvíslegum hætti eftir að hún lauk starfsferli sínum. Sérstök vinátta ríkti milli Katrínar og Steinunnar Ingimundardóttur og Pálínu Kjartansdóttur en þessar tvær heiðurskonur reyndust henni ómetanlegar stuðningshellur. Síðast en ekki síst má nefna Svövu Jóhannsdóttur, fyrrverandi tengdadóttur Jóhönnu, systur Katrínar, en segja má að hún hafi verið henni stoð og stytta hin síðari ár ásamt sonum sínum þeim Jóhanni Má og Sigurði Torfa. Allt þetta fólk létti Katrínu lífið - þessari miklu félagsveru sem þoldi illa kyrrsetu og hið rólega líf elliáranna. Katrín átti því láni að fagna að vera heilsuhraust og dugnaður hennar var aðdáunarverður allt fram í andlátið.
Ég kveð þessa góðu mágkonu mína með þökk fyrir allt hið gefandi samneyti síðustu sextíu árin.
Blessuð sé minning hennar.
Katrín Sigurðardóttir.
Ég uppgötvaði það ekki fyrr en um fermingaraldur hversu merkileg þú og fjölskyldan þín voruð. Þið systurnar eruð allar menntaðar sem var ekki mjög algengt þegar þið voruð að alast upp, þú hefur komið að svo mörgu og gert svo margt sem þú mátt vera stolt af. Þetta uppgötvaði ég fyrir allnokkrum árum þegar ég var að róta í kössum og fann viðtal við þig í gamla Tímanum. Viðtalið var heilar þrjár síður, og eftir að hafa lesið það sá ég hversu stórkostlegt starf þú vannst sem skólastjóri Húsmæðraskólans og hversu mikillar virðingar og gæsku þú naust í samfélaginu.
Ég vil líka þakka þér, Kata mín, fyrir að hafa verið okkur svo mikill klettur á erfiðum tímum og þá sérstaklega móður minni. Samband ykkar mömmu hefur gefið ykkur báðum svo mikið. Mamma mín varð nefnilega fyrir þeirri skelfilegu lífsreynslu að missa móður sína aðeins fjögurra ára gömul og þegar mamma hitti ykkur systurnar þá mynduðust strax mjög sterk tengsl, og síðan núna seinustu árin þegar Kata var flutt á Eir þá sá mamma um allt fyrir hana, sama hvað það var, að þvo þvottinn hennar eða kaupa eitthvað fyrir hana þá gerði mamma það, ekki af því henni fannst hún þurfa að gera það af einhverju þakklæti heldur vegna þess að henni þótti svo vænt um hana og þær nutu þess að eyða tíma sínum saman og vegna þess að Kata treysti mömmu best af öllum. Það var í raun bara hún mamma mín ásamt pabba sem heimsóttu hana reglulega. Þess vegna finnst mér núna að mamma mín hafi verið að missa sína móðurmynd því þær voru í raun eins og mæðgur.
Það er því sem ég kveð þig með miklum söknuði í hjarta mínu, elsku Kata mín, þú hefur gefið mér svo margt í lífinu og það er í raun þér að þakka og systrum þínum að ég get látið drauma mína rætast. Það að hafa þekkt þig hefur gert mig að betri manni og ég er svo þakklátur fyrir allt sem þú hefur gefið mér og fjölskyldu minni. Það mun taka mig langan tíma að venjast því að hafa þig ekki til að gefa góð ráð eða segja mér hvernig hlutirnir eiga að vera. Sofðu rótt og Guð blessi þig. Þín verður sárt saknað og lengi minnst því betri konu er ekki hægt að finna.
Jóhann M. Helgason.
Kata frænka, eins og hún var ávallt kölluð, og systur hennar, Balla, Vala, Dúsa og Toffa, skipuðu stóran sess í lífi okkar allra og skipti þar engu hvort um er að ræða mömmu eða ömmubörnin, því öll upplifðum við þá sælu sem fylgdi því að hitta þær systur sem allar létu sig börnin máli skipta. Eigum við öll yndislegar minningar með þeim frá Miklubraut og Trínukoti.
Nýju sumri var ávallt heilsað með morgunkaffi, bollum og glænýjum bolta handa yngstu kynslóðinni. Ávallt ríkti mikil eftirvænting hjá okkur hvernig bolta Balla frænka myndi afhenda okkur þetta árið. Gamlárskvöld hafði alltaf sinn sjarma þegar haldið var til veislu á Miklubraut 50. Stóðu þær systur í ströngu við að galdra fram veislurétti og hina fullkomnu hátíðarstemmningu fyrir fjórar kynslóðir og alltaf tókst það, beikonvafðar smápylsur og sirkus Billy Smart voru partur af prógramminu.
Leikur og gleði ríktu í Trínukoti, litla aldingarðinum þeirra í Mosfellsdal. Lyktin og bragðið af tómötunum hennar Toffu frænku var alveg einstök og hafa engir tómatar smakkast eins og þeir. Kata frænka hafði lag á því að hafa ofan af yngstu kynslóðinni þegar Trínukot var heimsótt, tók jafnvel upp á því að bregða sér í gervi prests og halda skírnarveislu með rjómatertum og tilheyrandi fyrir ekki ómerkilegri hlut en uppáhaldsdúkkuna hennar Dirru sinnar.
Þegar Kata frænka var skólastýra Húsmæðraskólans fengum við skotturnar að heimsækja hana í skólann á jólunum, þessi árlega ferð var í huga okkar á við utanlandsferð, rauð epli og þetta ótrúlega ævintýralega hús gerðu Kötu að besta vini jólasveinsins.
Í hvert skipti sem að við töluðum við Kötu frænku innti hún frétta af öllum fjölskyldumeðlimum og bað sérstaklega um skemmtisögur af þeim yngstu. Það voru alltaf börnin sem áttu hug hennar allan og styttu henni stundir í myrkrinu sem fylgdi því að missa sjónina. Þrátt fyrir háan aldur sýndi Kata frænka engin merki þess að ellikerling hefði haft áhrif á hjartalag hennar eða andlega heilsu, en hún var orðin þreytt og södd lífdaga, tilbúin til þess að halda heim í faðm foreldra og systkina. Kötu frænku kveðjum við í dag með söknuði, virðingu og guðs blessun og þá trú í hjarta að vinir hafa beðið í varpa er von var á gesti.
Þóra Bjarnadóttir.
Katrín Helgadóttir var kona sem ég leit alla tíð mjög upp til enda ekki að ástæðulausu. Hún var aðsópsmikil kona sem afrekaði margt á löngum og farsælum starfsferli.
Jafnframt var hún mér frá barnæsku jafnt móðir sem amma og var það í raun alla tíð þrátt fyrir að vera orðin tæplega 99 ára gömul. Þetta er vissulega hár aldur og einungis fáir ná slíkum aldri en einhvern veginn fannst mér Kata eins og við kölluðum hana aldrei neitt gömul þótt árin færðust yfir hvert af öðru. Þrátt fyrir að líkaminn og sjónin væru farin að gefa sig þá var heyrnin góð og andlegi þátturinn slíkur að manni þótti oft með ólíkindum. Var þá sama hvort rætt var um daginn í dag eða fyrri tíma, alltaf var sama stálminnið til staðar og ég oft leiðréttur ef ég fór ekki með rétt mál. Vissulega er það mikil gjöf og gæfa að halda slíkri andlegri reisn út svona langa ævi.
En Kata var einnig ætíð ferðafær og lét sig aldrei vanta í veislur og boð sem haldin voru.
Þegar kallið kom þá var það óvænt því hún hafði verið óvenjuhress vikurnar á undan, hafði nýlokið við að lesa ævisögu Halldórs Laxness og var byrjuð á ævisögu Jóns Sigurðssonar.
Ég var alla tíð í nánu sambandi við Katrínu, ekki síst þegar hún var orðin ein eftir af systrunum og flutt af Miklubraut 50 á Hjúkrunarheimilið Eir. Þar fann maður best hvað styrkleiki, staðfesta og jákvæðni eru mikilvægir þættir í lífi hvers einstaklings. Það hafði hún í ríkum mæli og það eru örugglega ekki margir sem átt hafa trúnaðarvin og ráðgjafa nálægt tíræðu. Það hafði ég.
Ég rek ekki æviferil Katrínar Helgadóttur, læt öðrum það eftir, en vil þakka henni samveruna sem var óslitin í 46 ár og velvildina og áhugann sem hún sýndi mér og mínum alla tíð. Sérstakar þakkir eru færðar starfsfólki Hjúkrunarheimilisins Eir fyrir umhyggju og góðvild í garð Katrínar undanfarin ár.
Helgi Rúnar Magnússon.
Katrín Helgadóttir, fyrrum skólastjóri Húsmæðraskóla Reykjavíkur, er fallin frá nærri 99 ára að aldri.
Hún var föðursystir mín, ein 12 barna Oddrúnar Sigurðardóttur og Helga Magnússonar kaupmanns í Reykjavík. Katrín er sú síðasta þeirra sem kveður þennan heim. Afi og amma misstu þrjú barna sinna ung en hin níu náðu fullorðinsárum og sum þeirra urðu afar langlíf.
Katrín vann ýmis störf sem ung kona, m.a. hjá Landssímanum en um fertugt fór hún utan og lærði að verða hússtjórnarkennari. Árið 1949 réð hún sig til kennarastarfa í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og tók þar svo við sem skólastjóri fjórum árum síðar og gegndi þeirri stöðu til ársins 1974 þegar hún hætti fyrir aldurssakir.
Í starfi skólastjóra naut Katrín sín afar vel. Hún hafði forystu um að efla skólann og virtist áhugi hennar og metnaður fyrir skólans hönd vera nánast ótakmarkaður. Hún bjó í skólabyggingunni á Sólvallagötu 12 og manni virtist hún alltaf vera vinnandi enda dugleg og drífandi. Þess má geta að Katrín var sæmd Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að skólamálum.
Katrín var ógift og barnlaus. Hún bjó með systrum sínum fjórum á Miklubraut 50 eftir að hún lét af starfi. Þegar hún var orðin ein eftir hin síðari ár og hinar systurnar fallnar frá, bjó hún á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Eir þar sem hún naut góðrar umönnunar og þjónustu sem hún mat mikils. Fyrir það færum við ættingjarnir starfsfólkinu þakkir og góðar kveðjur.
Katrín Helgadóttir var sterk manneskja. Kraftur hennar og vilji til góðra verka hafði jákvæð áhrif á umhverfið. Hún vildi fólki ákaflega vel og fundum við systkinabörnin ekki síst fyrir því alla tíð. Hún var afar frændrækin og fylgdist vel með sínu fólki og var ávallt tilbúin að leiðbeina og aðstoða.
Eins og öll systkinin var hún fædd í Bankastræti, í hjarta bæjarins, og var alla tíð mikill Reykvíkingur. Henni var tamt að tala um "gömlu Reykjavík" þar sem allir þekktu alla enda þarf ekki að fjölyrða um þá miklu þjóðlífsbyltingu sem fólk eins og hún, sem fyllti nær öldina, hefur upplifað.
Nú kveðjum við hana með söknuði og hlýhug og biðjum góðan Guð að geyma Katrínu með öllu hennar fólki sem þegar hefur safnast yfir móðuna miklu. Minningin um sterka og góða frænku lifir.
Helgi Magnússon.
Kata mín, nú ertu farin en samt ekki farin, þú verður alltaf hjá mér í hjarta mínu.
Sigurður Torfi Helgason.
Katrín var tæpum 20 árum eldri en ég en sá aldursmunur hafði aldrei áhrif á vináttu okkar, hvorki þessi tvö ár á Stabekk né heldur eftir að heim kom og báðar hófu kennslustörf við húsmæðraskóla, hún við Húsmæðraskóla Reykjavíkur frá 1949 til 1953 er hún tók við stjórn skólans af frú Huldu Stefánsdóttur. Katrín sinnti því starfi með reisn og höfðingsskap allt til 1975.
Katrín var glaðlynd og hafði mjög næmt skopskyn. Hún var listfeng, kunni öll ósköp af ljóðum og hafði góða frásagnargáfu. Hún var glæsileg kona, bæði í fasi og útliti og höfðingi í lund. Hún var alla tíð mjög félagslynd og naut þess að vera með fólki og deila með því gleði. Nokkrum dögum fyrir andlátið sat ég hjá henni og þá hlakkaði hún mikið til að vera í brúðkaupi eins af frændum sínum og hafði þegar keypt glæsilegan selskapsjakka í tilefni þess. Einnig hafði frænka Katrínar boðið henni að halda upp á 99 afmæli hennar 13. júní næstkomandi og bauð hún mér hátíðlega til veislunnar. Löngun til að eiga gleðistundir með ættingjum og vinum fylgdi henni allt til hinstu stundar.
Góð vinkona er horfin og ég kveð hana með þakklæti og söknuði.
Steinunn Ingimundardóttir.
Katrín var listelsk, enda komin frá glæsilegu heimili þar sem hver hlutur virtist valinn af einstakri alúð og smekkvísi. Hússtjórnarskólinn á dágott safn af málverkum eftir íslenska listamenn. Það er að mestu leyti verk Katrínar sem beindi gjarnan gjöfum eldri nemenda sem heimsóttu skólann sinn í Listaverkasjóð, sem er við skólann. Síðan valdi hún fallega mynd þegar safnast hafði nægilegt fé í sjóðinn, en hann var stofnaður til minningar um Ragnhildi Pétursdóttur í Háteigi vegna margra og merkra starfa hennar.
Þrátt fyrir að Katrín kenndi aðallega hússtjórnarfög hafði hún mikinn áhuga á handavinnukennslunni. Henni varð það metnaðarmál að árlegar vorsýningar skólans væru fallegar og hlutunum vel fyrir komið og hjálpaði oftast til við frágang sýninganna með sínum alkunna dugnaði og smekkvísi. Hún hafði sjálf lært ýmislegt sem tengdist litum og formum t.d. postulínsmálningu.
Katrín var fróð og mikil sagnakona, sem er oft einkenni á góðum kennurum. Þessum eiginleika hélt hún alla tíð. Það var aðdáunar- og þakkarvert hvað þessi háaldraða kona hafði gott minni og gat talað um löngu liðna atburði.
Á kveðjustund sem þessari er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa átt því láni að fagna að kynnast og starfa um árabil með Katrínu og þótt nú séu mörg ár síðan við hættum störfum þá var það sama hlýjan og góðvildin sem mætti mér í hvert skipti sem fundum okkar bar saman.
Í sálarþroska svanna
býr sigur kynslóðanna,
því hvað er menning manna,
ef menntun vantar snót.
(M. Joch.)
Fjölskyldu Katrínar sendi ég innilegar samúðarkveðjur.
Jakobína Guðmundsdóttir.
Þú kemur mikið til með að vera í huga mínum heima þegar ég er að sinna mínu stóra heimili og halda mínar stóru veislur, elsku frænka, eins og þú gerðir iðulega.
Þar sem við vorum AL-nöfnur (eins og pabbi sagði alltaf) þá áttir þú mjög svo sérstakan stað í hjarta mínu. Kenndu foreldrar mínir mér að bera mikla virðingu fyrir þér sem var nú ekki lítið mál þar sem ég var mikill ólátabelgur og prakkari með meiru. Ég get rétt ímyndað mér magapínuna sem móðir mín hlýtur að hafa verið með þegar mér var boðið fyrst á jólaball í Húsmæðraskólanum. Í minningunni voru þetta skemmtileg jólaböll en mest man ég þó eftir að hafa verið látin sitja á bekk og hlusta á Heims um ból (mér hefur væntanlega þótt það erfiðast).
Þú hefur allaf sýnt mér mikinn áhuga og viljað heyra hvað ég væri að gera eins og það skipti þig miklu máli að mér vegnaði vel. Það var þín leið til að sýna ást og umhyggju og gott var að fá að halda í hönd þína sem þú varst alltaf fljót að rétta út til mín. Það var svo ekki fyrr en að þú fórst upp á Eir að ég gerði í því að halda utanum þig, elsku Kata mín, og mikið fannst okkur það gott að halla saman höfði. Ég á eftir að hugsa oft til þessara stunda okkar, elsku frænka eins blíð og yndisleg sem þú varst.
Fjölskylduböndin voru þér mjög mikilvæg og voru veislurnar ykkar á Miklubrautinni fastur punktur í tilveru okkar. Þar má nefna gamlárskvöld og á sumardaginn fyrsta (sem jafnframt var mín uppáhalds veisla). Í þessum veislum hittumst við krakkarnir og kynntumst þar með. Það er eindregin ósk mín að geta haldið þessum siðum áfram til þess að börnin mín þekki ættingja sína eins og ég þekki mína.
Mig langar svo til að segja ótal margt um þína yndislegu persónu og hversu opin og meðvituð þú varst um allt og alla hluti allt til síðasta dags 98 ára gömul. Ég vona að ég eigi einhvern tímann eftir að komast með tærnar þar sem þú hafðir hælana, elsku frænka, og veit ég að þú stendur þar við bakið á mér þegar á reynir.
Elsku nafna, takk fyrir yndislega hlýju. Guð veri með þér og fjölskyldunni.
Katrín Helgadóttir.