Segir fátt Warren Buffett lætur skoðanir sínar um fjárfestingar í raun sjaldan í ljós.
Segir fátt Warren Buffett lætur skoðanir sínar um fjárfestingar í raun sjaldan í ljós.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
F jöldi bóka hefur verið skrifaður um Warren Buffett, einn þekktasta fjárfesti sögunnar. Eitt af því sem skapar Warren Buffett sérstöðu er sú staðreynd að hann hefur sjálfur aldrei skrifað bók um fjárfestingar né ritað ævisögu sína.
F jöldi bóka hefur verið skrifaður um Warren Buffett, einn þekktasta fjárfesti sögunnar. Eitt af því sem skapar Warren Buffett sérstöðu er sú staðreynd að hann hefur sjálfur aldrei skrifað bók um fjárfestingar né ritað ævisögu sína. Í raun lætur hann skoðanir sínar um fjárfestingar sjaldan í ljós og hefur því síður séð ástæðu til að aðstoða þá menn sem hafa lagt það á sig að skrifa um hann. Buffett hefur, aftur á móti, skrifað árlegar skýrslur fyrir eigendur þeirra fjárfestingarsjóða sem hann hefur stýrt í gegnum tíðina. Frá árinu 1969 hefur skýrslan verið afmörkuð við fjárfestingarfyrirtæki hans, Berkshire Hathaway , sem hann skóp frá tekjustreymi frá vefnaðarfyrirtæki sínu og sinna fjárfesta í Pennsylvaníu. Buffett álítur sjálfur að flest allt það sem máli skipti varðandi skoðanir hans á fjárfestingum komi fram í ávarpi hans í þessum skýrslum. 30. apríl síðastliðinn var aðalfundur félagsins og kemur ýmislegt forvitnilegt fram í nýjustu ársskýrslunni. Hér verður sjónum beint að ávöxtun Berkshire Hathaway og almennri umfjöllun Buffett um fjárfestingar í skýrslunni.

Buffett hefur í gegnum tíðina kryddað ársskýrslur sínar með skemmtilegum samlíkingum á fjárfestingum og daglegu lífi og sinni þurru kímni. Auk þess hefur hann með hæverskum hætti (tekst misjafnlega til í þeim efnum) fjallað um árangur fjárfestinga sinna. Lítil hógværð er á fyrstu síðu skýrslunnar í ár samkvæmt venju en þar ber Buffett ávöxtun bókfærðs virðis á hlutabréfum Berkshire Hathaway saman við ávöxtun á S&P 500 hlutabréfavísitölunni síðustu 40 ár. Árleg meðaltalsávöxtun Berkshire Hathaway á tímabilinu er tæplega 22%, sem er meira en tvöfalt betri ávöxtun en á hlutabréfavísitölunni. Fram kemur að bókfært virði félagsins hafi á tímabilinu hækkað úr $19 í $55,824.

Buffett bendir einnig á að virði félagsins sé nú orðið meira en bókfært virði þess og því hafi ávöxtunin á tímabilinu verið töluvert betri. Bæði er raunvirði sumra eigna hærra en bókfært virði og auk þess er virði rekstrar með góð vörumerki jafnan hærra en bókfært virði þess (jafnvel margfalt virði þess). Því má bæta við að markaðsvirði hlutabréfanna er rúmlega helmingi hærra en bókfært virði félagsins í dag. Buffett bendir þó á að samanburðurinn sé ekki eins áreiðanlegur í dag og hann var áður því eignir félagsins í hlutabréfum séu komnar undir helming af heildareignum félagsins en voru til að mynda í byrjun níunda áratugarins meiri en heildareignir þess. Þetta þýðir að lán voru tekin til að fjárfesta í hlutabréfum umfram eigið fé félagsins. Þetta skal þó ekki túlka sem svo að samanburður á ávöxtun Berkshire Hathaway og S&P 500 hlutabréfavísitölunni sé ekki lengur raunhæfur. Ef fjárfest væri í vísitölusjóði sem endurspeglar S&P 500 hlutabréfavísitöluna sem veitti betri ávöxtun í framtíðinni væri lítið vit í því að eiga bréf í Berkshire Hathaway.

Buffett bendir á að fjárfestar hafi með einfaldri fjárfestingu í slíkum vísitölusjóði getað auðveldlega ávaxtað fé sitt með góðum hætti undanfarin 35 ár, þó svo að sú ávöxtun hefði verið töluvert lakari en hjá Berkshire Hathaway . Hins vegar hafi ávöxtun margra fjárfesta verið aðeins í meðallagi og jafnvel skelfilega lág á tímabilinu. Helstu þrjár ástæður þess telur Buffett vera: (1) kostnaður vegna tíðra kaupa og sala á hlutabréfum eða fjárfestingarráðgjafar; (2) tíðrar ákvörðunartöku varðandi fjárfestingar sem hættir til að fylgja tíðarandanum hverju sinni fremur en að skilgreina rökrænt hvort rekstur fyrirtækja komi til með að skila viðunandi hagnaði; og (3) tilhneigingu fjárfesta að fjárfesta í hlutabréfum eftir að hækkun á gengi þeirra hefur átt sér stað og jafnvel að selja bréf þegar ávöxtun hlutabréfa hefur um skeið verið slök og jafnvel neikvæð. Buffett minnir fjárfesta á að spenna og kostnaður séu óvinir þeirra. Séu fjárfestar staðráðnir í að tímasetja kaup og sölur þeirra í hlutabréfum eigi þeir að vera óttaslegnir þegar aðrir eru gráðugir og eingöngu gráðugir þegar að aðrir eru óttaslegnir (tvö slík skeið, árin 1999-2000 og síðan 2002-2003 eru góð dæmi).

Tvísaga um hlutabréf

Buffett er að vissu leyti tvísaga um skoðun sína á hlutabréfum. Hann telur þau hafa litla möguleika á því að veita jafngóða ávöxtun í framtíðinni og þau hafa veitt síðustu þrjá til fjóra áratugina. Slíkt er rökrænt í dag því ávöxtunarkrafa á tryggum skuldabréfum er langt undir meðaltali á sama tímabili. Hækkandi krafa skuldabréfa í átt að meðaltali síðustu áratugi kemur niður á ávöxtun hlutabréfa. Aftur á móti situr Buffett á haug af seðlum sem veita afar slaka ávöxtun. Hann sá fá tækifæri á síðasta ári til fjárfestinga sem hann taldi vera áhugaverð (ætti ef til vill að koma sér í samband við Íslendinga) en segist vera að vinna í því að finna arðvænlega fjárfestingakosti.

Í fyrradag var tilkynnt að eitt af dótturfélögum Berkshire Hathaway, MidAmerican Energy , hefði náð samkomulagi um kaup á PacifiCorp , sem er eitt af stærstu orkufyrirtækjum Bandaríkjanna. Kaupverðið er tæpir 10 milljarðar dala (um 650 milljarðar íslenskra króna), sem vissulega er há fjárhæð, en er þó ekki nema rúmlega 20% af þeim lausu fjármunum sem Berkshire Hathaway hefur nú til umráða. Buffett sagðist á fréttamannafundi stefna að fleiri kaupum í orkufyrirtækjum á næstu árum. Þess má geta að eitt af dótturfélögum Berkshire Hathaway seldi hlut sinn í orkufyrirtækinu Duke Energy fyrir tveimur árum og hefur gengi hlutabréfa fyrirtækisins hækkað um meira en helming í virði síðan þá.

Síðar í skýrslunni játar Buffett að hann hafi opinberlega sagt að gengi hlutabréfa væri komið fram úr raunvirði þeirra mitt í netbólunni en í raun gert lítið í því að selja þá hluti. Hann telur sig ekki hafinn yfir gagnrýni að hafa vanmetið ofmat hlutabréfanna sem þá átti sér stað. Ávöxtun hlutabréfa Coca-Cola hefur verið neikvæð síðustu fimm ár og hafa hlutabréf American Express ekki sýnt mikið betri ávöxtun á sama tímabili. Hlutabréf í þessum félögum mynda ein sér um 40% af eign Berkshire Hathaway í skráðum hlutabréfum. Í ljósi þess að Buffett staðhæfir að sú mikla bjartsýni sem þá ríkti hafi snúist í andhverfu sína við hjöðnun netbólunnar er áhugavert að hann hafi á þeim tíma ekki fjárfest meira í hlutabréfum (til að mynda bætt við bréfum í American Express í safn sitt). Mörg fyrirtæki voru þá verðlögð langt undir þeim tölfræðilegu stöðlum sem lærifaðir hans, Benjamin Graham, lagði mikla áherslu á og voru að auki leiðandi á sínu sviði (má þar nefna stór fyrirtæki eins og Citigroup og HomeDepot ). Hann fjárfesti þó töluvert í olíufyrirtækinu PetroChina á ofangreindu tímabili sem hefur veitt afbragðs ávöxtun. Sú ávöxtun hefur aftur á móti lítið með almenna hækkun hlutabréfamarkaða að gera.

Þó svo að ofangreind fjárfestingarstefna sé hugsanlega gagnrýnisverð er stefnan augljóslega í samræmi við væntingar Buffett að hlutabréf séu almennt dýru verði keypt í dag samanborið við undanfarna áratugi. Buffett er einnig í þeirri erfiðu aðstöðu að eiga mikla fjármuni til fjárfestinga sem gerir það illmögulegt að fjárfesta í fyrirtækjum nema með yfirtöku eða hækka gengi bréfa þeirra vegna hans eigin kaupþrýstings.

Berkshire-strákarnir

Oft er rætt í fjölmiðlum um að Buffett sé að kaupa og selja hin og þessi hlutabréf því að Berkshire Hathaway skráir slík viðskipti hjá bandaríska fjármálaeftirlitinu. Oftar en ekki eru hlutabréfaviðskipti hins vegar gerð af Lou Simpson hjá tryggingarfélagi í eigu Berkshire Hathaway , GEICO. Því telur Buffett að fjölmiðlar eigi að segja að Berkshire-"strákarnir" séu að fjárfesta en ekki hann einn. Fjárfestingar Simpson eru oftast af minni stærðargráðu en hjá Buffett og þó svo að Simpson hafi ekki sýnt jafngóða ávöxtun og Buffett kemst hann oft með tærnar þar sem Buffett hefur hælana. Buffett, með sinni þurru kímni, segir í skýrslunni að hann frétti almennt um fjárfestingar Simpson eftir að þær hafi átt sér stað og að stundum sé hann ósammála ákvörðunum hans en hafi hljótt um það. Buffett bætir við með agnarsmáu letri: "En Simpson hefur oftast rétt fyrir sér."

marmixa@yahoo.com