— Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson
Hildur Ingveldardóttir Guðnadóttir, 24 ára, lauk í gær fyrst allra námi af brautinni tónsmíðar/nýmiðlar við LHÍ.

Hildur Ingveldardóttir Guðnadóttir, 24 ára, lauk í gær fyrst allra námi af brautinni tónsmíðar/nýmiðlar við LHÍ. Útskriftarverk hennar, Merry Go Round, var flutt í Klink og Bank í apríl en þar liðu fjórtán hljóðfæraleikarar á pöllum í kringum sellóleikara í margslunginni kviðu hljóðs og lýsingar. "Mörg element spiluðu saman; lifandi tónlistarflutningur, sjónræn útfærsla og fleira," segir Hildur, trú þeirri sannfæringu sinni að tónlist, og listgreinar almennt, þurfi ekki að flokka niður. Á okkar tímum sé fólk óhræddara að leita í senn á mið tón- og myndlistar. "Ég vil heldur ekki stimpla tónlist sem rokk, popp, klassísk - skilgreiningin klassík er til dæmis orðin svo úrelt að það er ekki einu sinni hægt að tala um það," segir hún. "Sjálf stríði ég við það vandamál að geta ekki fest mig við neitt eitt, ég leita víða til þess að fullnægja mínum tónlistarþörfum. Það er hamlandi að hugsa: ég er sko ekki að semja neitt popp, þetta er alvarleg tónlist! Maður á bara að kasta sér útí og gera það sem maður þarf að gera."

Hvað lærir fólk á braut með téðu nafni? "Þetta er tónsmíðanám með áherslu á raftónsmíðar. Vinnslan fer mikið fram á tölvur en þær eru helsta verkfærið í hinum nýju miðlum." Erfitt nám? "Ja, það er afstætt. Ef áhuginn er mikill skiptir erfiðleikastigið engu. Forvitnin drífur mann áfram." Hún hlær. "Ég hef bara aldrei pælt í því hvort þetta sé erfitt." Og tónlist kom snemma við sögu. "Báðir foreldrar mínir eru tónlistarmenn og margir í fjölskyldunni. Tónlist hefur verið í kringum mig síðan áður en ég fæddist. Ég held ég hafi farið í fyrsta sellótímann fimm ára." Á önnur hljóðfæri leikur hún, og syngur; er m.a. í Stórsveit Nicks Nolte - sem leikur búlgarska þjóðlagatónlist og gefur senn út plötu - og Hljómsveit Sigríðar Níelsdóttur, sem hélt tónleika í Íslensku óperunni í vetur. "Ég var í unglingahljómsveitinni Woofer forðum daga og samdi með þeim," segir Hildur um upphaf tónsköpunarinnar. "En fyrstu skráðu heimildir um mig að syngja eru með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég var í kór Öldutúnsskóla og söng einsöng í Bjart er yfir Betlehem." Bjart er yfir Hildi sjálfri á þeim tímamótum sem fara í hönd. "Ég ætla að ákveða sem minnst og elta forlögin," segir hún, en í sumar vinnur hún sem tæknimaður á Ríkisútvarpinu. "Öll mín orka fer í tónlistina, það er svo margt þar sem mig langar að gera. Aðgengi að alls konar tónlist er líka orðið svo gott, til dæmis með tilkomu Netsins, að fólk er að hlusta á alþjóðlega, nýja og óhefðbundna tónlist sem það hefði kannski ekki annars heyrt. Mér finnst það rosalega jákvætt, alveg frábært." | sith@mbl.is