30. maí 2005 | Minningargreinar | 2592 orð | 1 mynd

SIGURJÓN JÓNSSON

Sigurjón Jónsson járnsmíðameistari fæddist í Reykjavík 26. apríl 1909. Hann lést 15. maí 2005. Foreldrar Sigurjóns voru Jón Jónsson afgreiðslumaður, f. 20.11. 1881, d. 10.4. 1963, og kona hans, Þórunn Helga Eyjólfsdóttir húsmóðir, f. 20.6. 1884, d. 12.12. 1954. Systkini Sigurjóns eru: Hákon Ísfeld fyrrv. málarameistari, f. 1.11. 1912, d. 19.11. 2002; Valgerður, f. 17.7. 1914, d. 23.3. 1929; Soffía Eygló húsmóðir í Kópavogi, f. 3.11. 1916, d. 3.1. 1999; Óli Björgvin fyrrv. fulltrúi hjá Vegagerð ríkisins og knattspyrnuþjálfari, f. 15.11. 1918, d. 8.2. 2005; Guðbjörn fyrrv. klæðskerameistari og knattspyrnuþjálfari, f. 19.3. 1921.

Sigurjón kvæntist Rigmor Hanson, dans- og tungumálakennara, f. 31.5. 1913. Þau slitu samvistum. Dóttir Sigurjóns og Rigmor er Svava, húsmóðir í Reykjavík, f. 5.9.1933, gift Sigurjóni Sigurðssyni rafvirkja og eiga þau tvö börn. Þau eru Hannes, rafmagnstæknifræðingur og kennari, f. 16.8. 1954, búsettur í Reykjavík, sambýliskona Guðrún R. Guðjónsdóttir, synir Hannesar eru Trausti, f. 7.7. 1983, og Sigurjón Davíð, f. 23.7. 1998; og Sigrún, f. 16.8. 1957.

Sigurjón kvæntist Ragnheiði Magnúsdóttur, f. 28.12. 1924. Hún er dóttir Magnúsar Sigmundssonar og Önnu Jóhannesdóttur. Synir Ragnheiðar frá fyrra hjónabandi eru Magnús Pétursson, forstjóri Landspítala Háskólasjúkrahúss, f. 26.5. 1947, og Pétur Óli Pétursson, framkvæmdastjóri í Rússlandi, f. 29.3. 1949.

Sigurjón fæddist í Reykjavík og ólst upp í foreldrahúsum í Stóra-Skipholti á Bráðræðisholtinu. Hann stundaði nám við Iðnskólann í Reykjavík og lærði vélvirkjun í Vélsmiðju Kristjáns Gíslasonar 1927-31. Þá lauk hann vélskólaprófi 1933.

Sigurjón starfaði við járnsmíði í Landssmiðjunni 1934-42. Hann hóf síðan störf í Vélsmiðjunni Sindra þar sem hann starfaði þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir, tæplega áttræður, 1989.

Sigurjón var um skeið prófdómari við verknám í járnsmíði. Hann sat í stjórn Félags járniðnaðarmanna í Reykjavík um árabil og var formaður þess í fimm ár. Sigurjón er heiðursfélagi Félags járniðnaðarmanna og hefur verið sæmdur gullmerki þess. Hann sat í miðstjórn ASÍ 1948-54. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum á vegum Sjálfstæðisflokksins, var einn af stofnendum verkalýðsráðs flokksins, sat í stjórn þess til 1963 og var erindreki flokksins um skeið.

Sigurjón og bræður hans eru öllum KR-ingum að góðu kunnir en hann lék með meistaraflokki KR í fjölda ára og varð sjö sinnum Íslandsmeistari með félaginu. Árið 1941 urðu þeir bræður, Sigurjón, Óli B. og Guðbjörn, allir Íslandsmeistarar í meistaraflokki. Þá þjálfaði hann meistaraflokk KR í knattspyrnu og í handbolta.

Sigurjón hefur löngum unnið ötullega að félagsmálum fyrir KR. Hann sat í stjórn félagsins og var m.a. ritari hennar. Þá sat hann í stjórn knattspyrnuráðs Reykjavíkur og var formaður þess um skeið. Hann var einn af stofnendum KSÍ og var formaður þess í tvö ár. Hann var sæmdur gullmerki og heiðursstjörnu KSÍ og gullmerki KR.

Útför Sigurjóns Jónssonar verður gerð frá Bústaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Sigurjón, eða afi frændi eins og hann var kallaður, hefur skilið við þessa jörð og skilið mig og fleiri eftir með fullt af góðum minningum.

Afi frændi var einstaklega góður afi, ljúfur, hnyttinn og alltaf tilbúinn með góða sögu. Það var stutt í grínið hjá honum og mér hefur alltaf þótt vænt um að kíkja í heimsókn til hans og ömmu Rögnu í kaffi og sögustund. Ég man þegar ég var lítill gat maður alltaf átt von á einni kúlu eða svo úr skápnum og ef svo óheppilega vildi til að birgðirnar voru búnar fékk ég ávallt nokkrar krónur í staðinn svo ég gæti keypt mér sjálfur.

Afi lumaði alltaf á góðri sögu úr til dæmis fótboltanum, sveitinni eða frá deilum hans við kommúnistana og hann var einstaklega góður sögumaður sem lifði sig vel inn í sögurnar sem hann sagði.

Þegar ég hugsa til baka um hann afa frænda er mér ofarlega í huga þau skipti sem hann tók mig með á knattspyrnulandsleiki og í KR-heimilið. Það var alltaf gaman að koma með afa í heiðursstúkuna og þar fann ég virkilega að hann var vel liðinn og hversu mikillar virðingar hann naut. Afi kveikti áhuga minn á knattspyrnu og mér eru mjög minnisstæð öll þau skipti sem hann fór með mig niður í KR-heimili að sparka á milli og þegar hann kenndi mér að skalla þrátt fyrir háan aldur.

Afi frændi var, er og mun halda áfram að vera fyrirmynd fyrir mig í lífinu og hans verður sárt saknað.

Ég þakka þér fyrir allt, elsku afi, megir þú hvíla í friði.

Trausti Hannesson.

Elsku besti afi Sigurjón.

Okkur systkinin langar að kveðja þig með fáeinum orðum og þakka þér fyrir allar ógleymanlegu stundirnar sem við fengum að eiga með þér.

Það er margs að minnast þegar við hugsum til baka, minningar um góðan og skemmtilegan afa gleymast aldrei. Það var alltaf gaman að koma heim til ykkar ömmu, hvort sem það var í Rauðalækinn, í Gautlandið eða í Furugerðið, og ætíð var vel tekið á móti okkur. Skemmtilegast var að fá að skoða í skrifborðið þitt, en þar leyndist margt spennandi. Stóð þar auraveskið uppúr en fjörið var að fá að telja krónurnar og fara svo útí ísbúð að kaupa ís. Sögurnar sem þú sagðir okkur, hvort sem það voru ævintýrasögur, fótboltasögur eða sögur frá því þú varst lítill í sveitinni, gleymast seint. Þú sagðir alveg einstaklega skemmtilega frá þó svo frásagnirnar ættu það til að breytast aðeins milli sögustunda. Einnig voru ófáar ferðirnar niður á tjörn að gefa öndunum, þú talaðir við þær og kenndir okkur að þekkja þær í sundur. Fuglar voru tíðir gestir á svalirnar ykkar ömmu enda veisla þar á hverjum degi. Já, þú varst góður við menn sem og dýr.

Það er ótrúlegt hversu heilsuhraustur og hress þú ætíð varst. Það telst án efa einstakt að maður á þínum aldri hafi keyrt um götur bæjarins. Þú labbaðir með okkur á Úlfarsfell farinn að nálgast áttrætt. Myndavélin var ósjaldan höfð með í göngutúrana og tókst þú myndir af okkur krökkunum við hin ýmsu tilefni. Á jólunum var svo sett upp tjald og slides-myndir af fjölskyldunni skoðaðar við mikinn hlátur og fögnuð viðstaddra. Afi, við munum svo sannarlega sakna sögustundanna, ljúfa brossins og hlýjunnar frá þér.

Með söknuði kveðjum við þig, elsku afi, og þökkum þér fyrir allar góðu stundirnar sem við munum ávallt geyma í hjarta okkar.

Ragnheiður, Hörður og Sólveig.

Í dag verður til moldar borinn Sigurjón Jónsson járnsmíðameistari en hann lést 15. maí sl. Fyrir þremur mánuðum andaðist Óli B. bróðir Sigurjóns og tengdafaðir minn. Má segja að skammt sé stórra högga á milli og nú eru fimm af sex kröftugum systkinum frá Stóra-Skipholti við Grandaveg fallin frá. Ég kynntist Sigurjóni fljótlega eftir að ég kom í þessa mögnuðu KR-fjölskyldu því jafnframt íþróttaumræðunni var rætt um pólitík. Ég hafði heyrt af Sigurjóni í verkalýðsbaráttunni þar sem hann fór fram af eldmóði í anda sjálfstæðisstefnunnar, stétt með stétt, einn af stofnendum verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins, og náði kjöri í miðstjórn ASÍ 1948. Jafnframt sat hann í stjórn Félags járniðnaðarmanna í Reykjavík og var formaður þess félags í fimm ár. Það var óvænt og nýir straumar sem fylgdu Sigurjóni; að vinna félagsmönnum og félaginu heilt, pólitíkin kom svo þar á eftir.

Á þessum tímum var harkalega og óvægið tekist á í verkalýðshreyfingunni, kommúnistar gegn lýðræðisöflunum, og töldu sjálfstæðismenn af hinu illa innan hreyfingarinnar. Landssmiðjan var á þessum tíma stórt og vaxandi ríkisfyrirtæki hvar mikill hópur vélvirkja og nema vann.

Í samtali mínu við mann sem hafði verið nemi í Landssmiðjunni í járnsmíði minntist hann þess að í upphafi vinnudags hefðu menn safnast saman á hinum ýmsu deildum og hafði þá einn úr hópnum tekið að sér að lesa fyrir hina upp úr Þjóðviljanum. Þegar sú frétt var upp lesin að Sigurjón Jónsson, sjálfstæðismaðurinn, hefði verið kosinn formaður Félags járniðnaðarmanna hefðu undrun og ónot sest að mönnum í marga daga.

Sigurjón var drengur góður í orðsins fyllstu merkingu, var barngóður og hvatti ungt fólk til dáða í íþróttum. Þannig minnist dóttir hans Svava hvatningar og stuðnings föður síns við skauta- og skíðaiðkanir ungdómsáranna, sem og börn innan fjölskyldunnar, enda aldrei vart kynslóðabils í návist Sigurjóns. Ég kynntist einstakri samheldni þeirra systkina í Stóra-Skipholti og hve KR var þeim allt. Hann stundaði sundlaugarnar í Laugardal um langt árabil og fram á sl. vetur og mætti á þing Knattspyrnusambands Íslands í mars sl. og fylgdist vel með íþróttaviðburðum til þess síðasta.

Um leið og góður samherji er kvaddur vil ég þakka Sigurjóni fyrir góðan stuðning á undanförnum árum, ég og Mæja þökkum góða samfylgd, vottum eiginkonu hans Rögnu og dóttur Svövu, svo og öðrum ástvinum, okkar dýpstu samúð.

Blessuð sé minning Sigurjóns Jónssonar.

Guðmundur Hallvarðsson.

Látinn er sá háaldraði heiðursmaður Sigurjón Jónsson. Hann varð níutíu og sex ára. Geri aðrir betur. Það er langur tími, enda liggur það ekki fyrir öllum að eldast og njóta elliáranna. Elli kerling ber alla jafna með sér hrörnun og krankleika. En það átti ekki við um Sigurjón. Hann entist vel og eltist vel og naut til síðustu stundar nærri aldar langrar lífsgöngu sinnar, hress og hraustur. Með fjaðurmagn í spori, með brosandi blik í augum, góðlegur en traustvekjandi maður, sem fylgdist vel með og naut lífsins fram í andlátið.

Kannski var þetta í genunum. Sigurjón er einn þeirra Stóraskipholtsbræðra, sem allir hafa náð háum aldri. Óli bróðir hans lést fyrr á þessu ári á níræðisaldri, sömuleiðis naut Hákon, sá næst elsti, langra lífdaga og nú er Guðbjörn, yngsti bróðurinn, einn eftirlifandi á níræðisaldri.

Ég er nógu gamall til að muna eftir Sigurjóni fyrir fjörutíu, fimmtíu árum. Þá var hann sjálfsagt upp á sitt besta, enda þótt hann breyttist lítið eftir því sem árin liðu. Í allan þann tíma naut ég vináttu Sigurjóns. Jón faðir hans reri til sjós með Ellert afa mínum á skútu. Þannig tengdust fjölskyldurnar og við hvor öðrum.

Sigurjón var auðvitað vesturbæingur og KR-ingur, eins og þeir gerast bestir, lék lengi með meistaraflokki félagsins og stundaði aðrar íþróttir, var einn af fyrstu formönnum Knattspyrnusambands Íslands og fastagestur á kappleikjum og í getraunahópnum í félagsheimilinu vestur við Meistaravelli. Íþróttir voru honum mikið áhugamál.

Að ævistarfi stundaði Sigurjón járnsmíði og var fyrr á árum formaður Járnsmíðafélagsins og stóð í kjarabaráttu fyrir þá stétt. Hann var Sjálfstæðismaður með stórum staf og segir það sína sögu um það traust sem menn báru til hans, að þegar átökin voru hvað harðvítugust um völd og áhrif í verkalýðshreyfingunni og vinstri menn höfðu flest spilin á sinni hendi, naut Sigurjón slíks trausts, þrátt fyrir flokkspólitíska afstöðu sína, að hann var í fararbroddi þeirrar stéttar, sem þurfti hvað harðast að berjast fyrir kjörum sínum gegn atvinnurekendum.

Þannig kom hann mér líka fyrir sjónir, traustur, hæglátur en staðfastur maður. Talaði lágt en fast, gleymdi aldrei kímninni, hógvær og lítillátur. En með stálslegið skap. Vel til fara, kurteis og hjartahlýr. Herramaður og heiðursmaður.

Sigurjón var gæfumaður í einkalífi. Fyrri kona hans var frú Rigmor Hanson, þekktur danskennari og undurfögur kona. Með henni átti Sigurjón eina barn sitt, Svövu, sem hefur verið föður sínum tryggur förunautur, þegar íþróttirnar voru annars vegar. Seinni kona Sigurjóns heitir Ragnheiður Magnúsdóttir. Henni hef ég því miður ekki kynnst.

Það er ástæðulaust að syrgja mann á tíræðisaldri. En við munum sakna hans, samferðarmennirnir, fyrir góða nærveru og návist, fyrir framlag hans til margra góðra mála, fyrir trygglyndi og jákvæða strauma. Ég sendi hans góðu dóttur og vinkonu minni, Svövu, innilegar samúðarkveðjur sem og Ragnheiði og fjölskyldu Sigurjóns allri. Blessuð sé minning Sigurjóns Jónssonar.

Ellert B. Schram.

Kveðja frá KSÍ

Látinn er í Reykjavík í hárri elli Sigurjón Jónsson, fyrrverandi formaður KSÍ og mætur félagi í íslenskri knattspyrnuhreyfingu.

Sigurjón var mikill KR-ingur. Hann lék með meistaraflokki KR á árunum 1927-1943, eða í 17 ár alls, lengst af sem bakvörður. Hann átti glæstum sigrum að fagna með félaginu, og varð til að mynda Íslandsmeistari sex sinnum. Hann lék þar með bræðrum sínum Hákoni, Óla B. og Guðbirni og voru þeir bræður mjög áberandi í íslenskri knattspyrnusögu um miðbik síðustu aldar.

Eftir að ferli Sigurjóns lauk sem leikmanns með KR sinnti hann knattspyrnudómgæslu og ýmsum stjórnarstörfum fyrir félag sitt og síðar innan hreyfingarinnar. Hann var kjörinn formaður KSÍ fyrir árin 1953-1954. Þá var hann línuvörður í fyrsta landsleik Íslands, gegn Dönum árið 1946.

Sigurjón var alla tíð mikill stuðningsmaður íslenskrar knattspyrnu og mætti alltaf á völlinn þegar landsliðið lék í Laugardalnum. Hann var góður félagi og hvers manns hugljúfi. Hans verður saknað í komandi landsleikjum en minningin um hann mun lifa meðal knattspyrnuáhugamanna og í sögu íslenskrar knattspyrnu.

Fjölskyldu Sigurjóns sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Eggert Magnússon, formaður.

Kveðja frá KR

Sigurjón Jónsson, einn af sigursælustu knattspyrnumönnum í sögu KR, er látinn. Sigurjón lék í meistaraflokki félagsins í 17 ár og varð sex sinnum Íslandsmeistari, fyrst árið 1927 og síðast árið 1934. Hákon bróðir hans var Íslandsmeistari með honum árin 1931 og 1932. Þegar þeir Sigurjón og Hákon voru hættir að spila tóku Óli B. og Guðbjörn, yngri bræður þeirra við og voru 6 sinnum í Íslandsmeistaraliði KR á árunum 1941 til 1952, Guðbjörn í öll skiptin en Óli B. þrisvar. Sigurjón varð síðar formaður Knattspyrnusambands Íslands.

Það má því segja að Sigurjón og bræður hans úr Stóra Skipholti í Bráðræðisholtinu hafi lagt mikinn skerf til KR og eigi sennilega stærri sess en nokkur önnur fjölskylda í að gera sögu KR jafnglæsilega og raun ber vitni.

Sigurjón hefur alla tíð verið einn af ötulustu stuðningsmönnum KR. Hann tók virkan þátt í uppbyggingu KR í Skálafelli og hefur látið sig allt starf í félaginu miklu skipta. Aldrei vantaði Sigurjón á völlinn þegar KR keppti í efstu deild í fótbolta og seinni árin hafði hann sérstakan áhuga á að fylgjast með kvennaliði félagsins.

Það er mikill sjónarsviptir að Sigurjóni. KR hefur misst einn af sínum bestu sonum. Við erum þakklátir og stoltir að hafa átt jafnmikinn afreksmann og Sigurjón var.

Sigurjón átti eina dóttur, Svövu, sem má segja að hafi verið uppalin í KR og starfað mikið fyrir félagið. Hennar börn, Hannes og Sigrún, fengu líka sannkallað KR-uppeldi frá bæði mömmu og afa og hafa alla tíð verið dyggir stuðningsmenn félagsins. KR sendir þeim öllum samúðarkveðjur.

F.h. Knattspyrnufélags Reykjavíkur

Guðjón Guðmundsson, formaður.

Kveðja frá Félagi járniðnaðarmanna

Fallinn er frá góður og gegn félags- og forystumaður í Félagi járniðnaðarmanna, Sigurjón Jónsson, vélvirki.

Sigurjón starfaði mestan hluta starfsævinnar í Landssmiðjunni og í Sindra þar sem margir ungir menn nutu góðrar leiðsagnar hans á fagsviðinu, en einnig hvatningar til íþróttaiðkunar.

Sigurjón tók snemma þátt í félagsstörfum fyrir járniðnaðarmenn. Hann var fyrst kjörinn í stjórn félagsins árið 1937 og var formaður þess á árunum 1948-52 og aftur árið 1953. Sigurjón átti einnig sæti í stjórn Alþýðusambands Íslands 1948-1952 og var starfsmaður þess um skeið. Hann var einn fulltrúa félagsins á fyrstu ráðstefnu norrænna málmiðnaðarmanna hér á landi árið 1954.

Á þessum tímum var oft harður slagur fyrir því sem nú þykja sjálfsögð réttindi og Sigurjón var virkur í þeirri baráttu allri.

Í viðtali í tilefni af 50 ára afmæli félagsins 1970 minnist Sigurjón sérstaklega á baráttuna fyrir einnar viku orlofi og aðspurður hvort hann sjái ekki eftir þeim mikla tíma sem fór til starfa fyrir félagið svaraði hann: Nei, síður en svo, ég hef alltaf litið svo á, að afkoma heimilisins byggðist á því, hve mikið við unnum í okkar félagi. Það kom því ekki á óvart að Sigurjón sinnti félaginu svo lengi sem heilsan leyfði, fylgdist vel með öllum málefnum þess og var okkur hollur ráðgjafi. Á félagsfundum brýndi hann sífellt fyrir ungu félagsmönnunum mikilvægi þess að auka faglega þekkingu með þátttöku í símenntunarnámskeiðum.

Það mátti einnig bóka það að Sigurjón kæmi með í árlega skemmtiferð eldri félagsmanna þar sem tækifæri gáfust til að rifja upp gömul og góð kynni.

Sigurjón Jónsson var kjörinn heiðursfélagi í Félagi járniðnaðarmanna fyrir störf sín að málefnum járniðnaðarmanna og félagsins.

Við brottför Sigurjóns er myndin af dugmiklum félags- og forystumanni skýr en einnig af einstaklega hlýjum manni og góðum félaga.

Örn Friðriksson, formaður.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.