Vigdís Björnsdóttir fæddist á Kletti í Reykholtsdal í Borgarfirði 14. apríl 1921. Hún lést 28. maí síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Fossvogskirkju 7. júní.

Kveðja frá Þjóðskjalasafni

Vigdís Björnsdóttir var einn áhrifamesti brautryðjandi á sviði varðveislu íslenskrar menningar. Hún hafði forgöngu um viðgerðir á handritum og stofnun sérstakrar viðgerðarstofu til að annast forvörslu í Þjóðskjalasafni, Landsbókasafni og Árnastofnun. Með starfi sínu lagði Vigdís grunn að árangursríku starfi á sviði forvörslu sem þjóðin getur seint fullþakkað.

Vigdís Björnsdóttir lauk almennu kennaraprófi 1941 og hóf þá kennslu við Laugarnesskólann. Hún lét ekki þar staðar numið, fór á nokkur kennaranámskeið til Svíþjóðar og Þýskalands, og 1955 lauk hún handavinnukennaraprófi frá Håndarbejdes Fremmes skole í Kaupmannahöfn. Það má segja að allt sitt líf hafi Vigdís verið að læra og bæta við kunnáttu sína. Í kringum 1960 var mikil þjóðfélagsumræða um afhendingu handritanna frá Danmörku. Þörf á viðgerðum á handritum og sérmenntun á því sviði kom þá í ljós. Við þessa umræðu kviknaði áhugi á viðgerðum handrita hjá Vigdísi. Það var mjög erfitt að komast í nám á þessum árum, sérskólar í viðgerðum voru ekki til, helst var að komast að hjá stórum söfnum. Með aðstoð opinberra aðila og styrk frá Kvenstúdentafélaginu komst Vigdís í nám hjá Roger Powell og Peter Waters sem ráku einkastofu í Suður-Englandi.

Það er ekki hægt að segja annað en Vigdís hafi verið einstaklega heppin með kennara. Powell og Waters voru í röð fremstu viðgerðamanna og bókbindara á þessum árum. Powell hafði kennt til margra ára í Royal College of Arts, Waters hafði verið nemandi Powells þar og síðan samstarfsmaður hans. Þeir höfðu fengið marga fræga dýrgripi til viðgerða og bókbands, t.d. Book of Kells, frá Trinity College Library í Dublin, svo eitthvað sé nefnt. Einnig má benda á hvað þeir hafa verið framarlega í sínu fagi, að eftir flóðin í Flórens 1966 voru þeir fengnir til þess að koma á fót stofu í viðgerðum og bókbandi í Biblioteca Nazionale Centrale í Flórens. Ítölum hafði borist hjálp víða að úr Evrópu og Bandaríkjunum en í ljós kom að aðferðir voru mismunandi, það vantaði aðila til þess að samræma aðgerðir við þetta stóra verkefni sem framundan var. Seinna var Peter Waters fenginn til þess að stofna viðgerðastofu við Library of Congress, þar sem hann starfaði síðan. Eftir flóðin í Flórens kom í ljós nauðsyn á að koma á fót forvörsluskólum.

Það var í byrjun maí 1963, sem Vigdís fór sína fyrstu námsferð í handritaviðgerðum. Þá var ekki enn búið að taka ákvörðun um stofnun viðgerðastofu, en hún lét það ekki aftra sér frá að hefja nám. Árið 1964 er tekin ákvörðun um stofnun "Handritastofu" 1. sept. það ár er Vigdís Björnsdóttir sett til eins árs til þess að gegna starfi við handritaviðgerðir fyrir Þjóðskjalasafn, Landsbókasafn og Handritastofnun (Stofnun Árna Magnússonar).

Hvernig voru svo aðstæður á væntanlegum vinnustað í Safnahúsinu þar sem söfnin voru til húsa? Í handritadeild Landsbókasafns voru nokkur þúsund handrit sem þörfnuðust viðgerða, fyrir utan bækur og blöð. Í Þjóðskjalasafni eru skjölin mæld í kílómetrum. Flest skjölin voru í krossbandi, þ.e.a.s. pökkuð í pappír og bundið með snæri í kross utan um. Mörg skjöl voru fúin og mygluð, stundum vart læsileg fyrir óhreinindum og jafnvel í sneplum. Frágangur á skjölum var nánast óbreyttur frá því Landsskjalasafnið var stofnað 1882, með fáum undantekningum. Það er ekki fyrr en rýma þurfti fyrir viðgerðastofu og stálskápar voru settir í geymslur á tvær neðstu hæðir Þjóðskjalasafnsins að byrjað er að setja skjöl í skjalaöskjur. Þetta var mikið verkefni fyrir eina manneskju að byrja á, enda sagði bókavörður (Haraldur Sigurðsson), sem þekkti vel til í söfnunum, við Vigdísi, "Það er eins og þú sért að ausa úthafið með teskeið".

Þegar Vigdís var í námi í Englandi, velti hún fyrir sér innréttingum og fyrirkomulagi á væntanlegri vinnustofu. Hún fór yfir þessar skissur með Powell og Waters, og í sameiningu gerðu þau drög að innréttingum. Arkitekt var fenginn til þess að útfæra þessar hugmyndir, og sjá um smíði og uppsetningu. Tókst það vel og var stofan mjög falleg. Vigdís setti mjög persónulegan svip á stofuna, með gardínum, blómum og myndum, sem sást varla á þessum árum á vinnustöðum. Hún var ljúf í viðkynningu við okkur samstarfsmenn sína og var mjög hlýlegt andrúmsloft á gömlu viðgerðastofunni í Safnahúsinu. Við, sem unnum með henni, höfum alltaf dáðst að kjarki hennar, áræði og seiglu, að fara í forvörslunámið og láta sig ekki fyrr en viðgerðastofan var stofnuð. Vigdís hætti aldrei að mennta sig, hún fór í ótal námsferðir og á ráðstefnur þegar hún var starfandi forvörður, hún sat í ýmsum nefndum á vegum norrænna forvarða, t.d. í undirbúningsnefnd fyrir samnorrænan forvörsluskóla, Konservatörskolen, Det Kongelige Danske Kunstakademi í Kaupmannahöfn. Vigdís þjálfaði og kenndi fyrstu forvörðunum. Þegar hún lét af störfum 1979 voru starfsmenn fjórir í þrem stöðugildum á viðgerðastofunni.

Frá Þjóðskjalasafni eru færðar þakkir fyrir frábært starf og bestu kveðjur til eftirlifandi eiginmanns, Tómásar Helgasonar.

Það er vor í lofti og sumarið í nánd. Við hjónin sitjum í stofunni á Grandaveginum og röbbum við húsbóndann Tómás Helgason frá Hnífsdal. Við erum að kveðja vegna væntanlegrar dvalar erlendis. Eins og svo oft er umræðuefnið Hvanneyri og svo um bókasafnið þeirra á Hvanneyri "Tómásar og Vigdísarsafn". Húsmóðirin er fjarri, svo hafði verið um nokkurt skeið. Sjúkdómur hennar veldur því. Nær mánuði síðar fagran sumardag fáum við símhringingu með skilaboðunum, að hún Vigdís sé látin. Myndir og minningarnar liðinna samverustunda leita á hugann. Þó samferðin hafi ekki varað nema hluta ævinnar eru þær bæði margar og kærar. Kynni okkar við Vigdísi urðu í kjölfar þess að á hundrað ára afmæli Bændaskólans gáfu þau Tómás og Vigdís einkabókasafn sitt til skólans. Smám saman og einkum eftir að við urðum aftur húsbændur á Hvanneyri og Steinunn forstöðumaður bókasafns skólans jókst sambandið, kynnin breyttust og urðu að vináttu sem aldrei bar skugga á. Þau hjón voru tíðir gesti á Hvanneyri sívakandi yfir hag og framtíð skólans. Margar stundir áttum við á Hvanneyri og heima hjá þeim á Grandaveginum og þá barst talið oft að Borgarfirðinum og margar og ljúfar minningar þaðan urðu okkur ljóslifandi í frásögn Vigdísar. Frásögnin myndræn og skýr en þó látlaus og laus við prjál. Vigdís hafði afar hógværa og hlýja nærveru. Hún átti viðburðaríka ævi, skapaði sér sérstöðu með starfsvali og naut virðingar samferðafólksins. Þá var hún vakin og sofin yfir hugðarefnum þeirra hjóna, söfnun og varðveisla gamalla gersema. Alls þessa fengum við að njóta í ríkum mæli árin sem við áttum samvistir með henni. Í dag er hún lögð til hinstu hvílu og við minnumst hennar með söknuði í huga. Langri ævi er lokið, friður er fenginn og handan móðunnar miklu eilífa lífið. Kæri Tómás við sendum þér innilegar samúðarkveðjur á sorgarstund. Megi algóður Guð vera þér og fjölskyldunni styrkur á erfiðri stund. Blessuð sé minning Vigdísar Björnsdóttur.

Steinunn og Magnús Hvanneyri.