Risaskjár 102" rafgassjónvarp frá Samsung er stærsta sjónvarp heims, en það verður ekki fjöldaframleitt fyrr en á næsta ári. Þangað til verða menn að sætta sig við 80" tæki frá sama aðila.
Risaskjár 102" rafgassjónvarp frá Samsung er stærsta sjónvarp heims, en það verður ekki fjöldaframleitt fyrr en á næsta ári. Þangað til verða menn að sætta sig við 80" tæki frá sama aðila.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stafræn tækni er orðin svo almenn að varla er ástæða til að ræða hana sérstaklega að mati Árna Matthíassonar.

Stafræn tækni er orðin svo almenn að varla er ástæða til að ræða hana sérstaklega að mati Árna Matthíassonar. Honum þykir aftur á móti fróðlegt að skoða hvernig fólk notar tæknina, ekki síst í ljósi þess hvernig upplýsingatæknin leiðir okkur jafnan í allt aðra átt en menn ætluðu þegar lagt var upp.

M eðal þess helsta sem sett hefur svip sinn á síðustu áratugi er stafræn tækni og þá ekki bara sem tölvutækni heldur sem snar þáttur í nánast öllu í daglegu lífi - tölvurnar eru nefnilega alls staðar og þær eru ekki alltaf tölvur, eða í það minnsta ekki það sem við myndum almennt kalla tölvur. Þannig hefur tölvutæknin, sem er snar þáttur í stafrænni tækni, gerbreytt lífi okkar hvort sem litið er til viðskiptalífs eða heimilislífs almennt, bætt hag okkar, lengt lífslíkur, aukið okkur leti og gengið stórlega á frítíma.

Tölvur einar og sér eru ekki merkilegt fyrirbæri, þær eru bara verkfæri, en það sem fólk gerir með aðstoð tölvunnar, upplýsingatæknin, er aftur á móti merkilegt, ekki síst í ljósi þess hvernig upplýsingatæknin leiðir okkur jafnan í allt aðra átt en menn ætluðu þegar lagt var upp. Því mætti halda fram að ekki væri meiri ástæða til að skrifa langt mál um tæknina sjálfa frekar en sífellt er verið að fjalla um rafmagn og vatn og nýjustu tækni á því sviði - stafræn tækni er orðin svo samofin daglegu lífi og upplýsingatæknin svo veigamikill þáttur í daglegum störfum.

Fyrir nokkrum dögum héldu íslenskir æðaskurðlæknar æðaskurðlækningadeildar Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi alþjóðlegt námskeið í æðaskurðlækningum fyrir lækna víða um Evrópu. Þetta var unnt með gagnvirkri háskerpu sjónvarpssendingu til ýmissa landa og voru kennarar í samskiptum við nemendur á meðan á aðgerðinni stóð. Þó nokkuð sé síðan menn tóku að nýta sér upplýsingatækni í sjúkrahúsum, og þá ekki bara til myndsendinga, er þetta gott dæmi um það hvernig menn hafa nýtt sér stafræna tækni í heilbrigðiskerfinu.

Sannkölluð rót-tækni

Stafræn tækni er grunnurinn að ýmsu því sem menn kalla disruptive technology upp á ensku, en það heiti er sótt í bókina The Innovator's Dilemma eftir Clayton M. Christensen sem kom út 1997. Á wikipeida.org er fín samantekt á fyrirbærinu en Netið er einmitt gott dæmi um slíka tækni, má kannski kalla hana rusktækni, sannkallaða rót-tækni. Í sem stystu máli má segja að rusktækni sé ný tækni sem veltir úr sessi ríkjandi tækni og viðhorfum og það þó hún sé gjörólík því sem fyrir er, oft dýr og óhagkvæmari. Sem dæmi um slíka tækni nefna menn gjarnan stafræna ljósmyndatækni sem ýmsir ljósmyndarar hafa bölvað hátt og í hljóði fyrir að vera tæknilega ófullkomin, dýr og óáreiðanleg en hefur þó þegar gert út af við filmuna að mestu leyti.

Ekki er bara að stafræn tækni hafi komið róti á og spillt filmumarkaði fyrir þeim sem þangað sóttu sér viðurværi heldur er álíka í gangi víða í viðskiptalífinu, til að mynda á tónlistarmarkaði, þar sem útgáfufyrirtæki hafa flotið sofandi að feigðarósi og eru varla vöknuð enn, og svo kvikmynda- og sjónvarpsiðnaði, en á fyrrnefnda sviðinu virðast menn ætla að endurtaka flest það sem tónlistarútgáfur hafa gert vitlaust í gegnum árin - það er helst að menn í sjónvarpsheiminum, þar sem samkeppni hefur verið harðari, átti sig á hvað sé framundan - stafræn tækni er ekki ógnun heldur mikið tækifæri, kannski eitt það stærsta sem menn hafa staðið frammi fyrir frá því sjónvarpsútsendingar hófust fyrir fjörutíu árum.

IP-tækni

Nettæknin, IP-tækni, er annað gott dæmi um tækni sem gerbreytir ríkjandi markaði, gerir viðtekin sannindi og reglur að engu. Netið er fyrir stafrænar upplýsingar, hvort sem það eru ljósmyndir, tónlist, kvikmyndir, hugbúnaður eða tal. Þegar gögnin eru komin á stafrænt snið á annað borð, búið að varpa talinu í talnarunu, er ótalmargt hægt að gera við þau gögn og þau þurfa ekki endilega að fara um hendur símafyrirtækja eins og þau hafa fengið að kenna á þegar fólk hefur sem óðast skipt yfir í netsíma.

Símafyrirtækin fara þó ekki á hausinn, þau ráða enn leiðslunum, koparnum, og leita nú leiða til að nýta sér þá möguleika sem hann gefur. Þau starfa væntanlega flest til áfram, eigas örugglega mörg eftir að vera rekin með góðum hagnaði áfram, en þá kannski í öðrum viðskiptum en þau ætluðu sér.

Það sem gerst hefur í tónlistarheiminum er líka að mörgu leyti lýsandi fyrir það hvernig ný tækni getur breytt öllum viðmiðum, raskað öllum þekktum aðferðum til vinnslu, framleiðslu og dreifingar og um leið fært vald frá framleiðendum til neytenda.

Umbúðirnar björguðu innihaldinu

Þegar geisladiskurinn kom á markað fyrir rétt um tuttugu árum voru ýmis merki þess að tónlist væri að láta undan síga í glímunni við aðra afþreyingu. Geisladiskurinn varð aftur á móti fljótt gríðarlega vinsæll fyrir formið, þ.e. hversu handhægur hann var, minni um sig og þægilegri í allri notkun og að auki endingarbetri. Formið kallaði líka á ýmsar nýjungar eins og til að mynda þá að ferðaspilarar urðu minni og handhægari, svo litlir reyndar með tímanum að hægt var að hafa þá í vasanum.

Eftir á að hyggja var þó aðalbreytingin sem geisladiskurinn hafði í för með sér sú að tónlistin var vistuð á honum í stafrænu sniði, í stað þess að steyptar væru ójöfnur í rásir á vínylplötu og titringur í nál sem dregin var eftir rásunum túlkaður sem tónlist var tónlistin nú vistuð á stafrænu formi, sem raðir af 0 og 1, semsagt tölvutæk. Þegar geisladrif fóru síðan að rata í tölvur leið ekki á löngu þar til menn voru búnir að skrifa forrit sem spilað gat tónlistardiska í þeim drifum og síðan afritað tónlistina inn á harðan disk tölvunnar. Til þess að gera allt meðfærilegra urðu til forrit sem þjappa tónlistinni saman. Þegar búið er að þjappa henni í hæfilega stærð, setja hana á MP3-snið til dæmis, er ekki svo mikið mál að setja hana á MP3-spilara, nú eða senda hana á milli manna með tölvupósti eða á annan hátt og þá er fjandinn laus.

Lítið samhengi milli verðs og gæða/kostnaðar

Þegar tónlist og kvikmyndir eru annars vegar veit kaupandinn í raun lítið um gæði vörunnar og hann á oft lítinn kost á að kanna þau nema með því að kaupa vöruna (sjá bíómyndina). Að auki á hann erfitt með að meta hversu góð kaup hann gerir, þ.e. hann hefur engar forsendur til að meta hvort upptökur kostuðu mikið eða lítið, hve mikið rennur í vasa útgefenda og hve mikið listamaðurinn fær, hvort umslagið var dýrt eða ekki og svo má áfram telja. Hann verður að treysta á að verð vörunnar gefi góða mynd af raunverulegu framleiðsluverðmæti og gæðum og að útgáfan/kvikmyndaverið sé að selja honum gæðavöru, en ekki bara eitt gott lag og ellefu léleg, svo dæmi séu tekin.

Með stafrænni tækni og Netinu hefur þetta samband milli plötuútgefenda og tónlistarunnenda aftur á móti gjörbreyst því notandinn er ekki lengur háður útgáfunni þegar tónlist er annars vegar, hann getur sótt sér lög á Netinu til að hlusta á áður en tekin er ákvörðun um að kaupa vöruna, geisladiskinn, keypt stök lög, eða leitað beint til listamannsins ef vill og keypt beint af honum eða beint af smáfyrirtæki sem er kannski ekki með nema einn eða tvo listamenn og ekkert fjármagn til að standa í dreifingu.

Undanfarin ár hafa útgefendur og sumir tónlistarmenn barmað sér mjög yfir því hver miklu sé stolið af tónlist með aðstoð Netsins og fyrirtækin sótt hart fram gegn þeim sem dreifa tónlist ólöglega; hafa reynt að fá hrundið dómum sem kveða á um að ekki sé hægt að lögsækja fyrirtæki þó varningur þeirra sé notaður í ólöglegt athæfi, vélað yfirvöld til að leggja sérstakt gjald á tóma diska til að fá bætur vegna afritunar og síðan breytt geisladiskasniðinu til að koma í veg fyrir að hægt sé að spila þá í tölvum (og afrita - þó greitt sé sérstaklega fyrir þann rétt).

iPod-kynslóðin

Þrátt fyrir þessar aðgerðir hefur útgáfufyrirtækjunum og samtökum rétthafa þó ekki tekist að bregða fæti fyrir framtíðina og ýmislegt bendir til þess að þau hafi í raun verið á villigötum alla tíð því plötusala hefur í aukist vestan hafs (og hér á landi líka), sem bendir til þess að þó meiru sé "stolið" nú en áður þá sé markaðurinn líka að stækka, þ.e. þó fleiri verði sér úti um tónlist án þess að kaupa hana þá fái æ fleiri áhuga á tónlist vegna þess hve auðvelt er orðið að nálgast hana.

Vinsælasti MP3-spilari heims er iPod frá Apple og óhætt að segja að hann hafi hleypt nýju lífi í fyrirtækið og komið því í hóp arðbærustu fyrirtækja vestan hafs að nýju, en svo miklar eru vinsældir iPodsins að heiti hans er nánast samheiti fyrir MP3-spilara. Áhrif iPodsins eru mikil og fara vaxandi, hann er einn lykilþátturinn í því hvernig stafræn tækni, sem átti að styðja og styrkja útgáfustarfsemi með geisladiskinum, hefur orðið til þess að gerbreyta öllu, enda kemur æ betur í ljós að iPod-kynslóðin lítur tónlist öðrum augum en plötusafnararnir - lög skipta meira máli en plötur og frægð og útlit flytjandans aukaatriði. Plötusala verður lagasala og salan mun dreifðari.

Það að tónlist sé orðið stafrænt fyrirbæri, ef svo má segja, þó upplifunin hljóti alltaf að vera hliðræn, hefur það einnig haft í för með sér að hún er notuð víðar, ekki bara í geislaspilurum og MP3-spilurum, heldur líka í farsímum - segir sitt að vinsælasta lag Bretlands undanfarið er farsímahringitónn.

Aukinn áhugi og aukin dreifing hefur líka orðið til að skapa fleiri tónlistarmenn, það er auðveldara og ódýrara að gera tónlist nú en hefur áður verið, og þeir sem á annað borð eru á Netinu þurfa í raun aldrei að kaupa sér tónlist framar - framboðið af ókeypis tónlist er svo gríðarlega mikið að ævin endist ekki til að hlusta á nema brot af því. Í hlutverki hliðvarðarins, þess sem hlustar og hleypir áfram aðeins því besta, hlutverki sem plötufyrirtæki hafa gegnt með misjöfnum árangri, eru svo tónlistarbloggarar, grúi áhugamanna um tónlist, sem safna saman því helsta og birta á vefjum sínum nokkur lög á dag. Ekki þarf mikla kunnáttu til að setja upp lítið forrit sem les lögin inn á tölvuna daglega og safnar í skrá sem skilar sér á iPodinn eða álíka spilara - alltaf með nýja ókeypis músík og hvað verður þá um plötufyrirtækin?

Kvikmyndaframleiðendur standa frammi fyrir álíka breytingum í dag og plötufyrirtækin fyrir áratug og virðast ætla að bregðast eins við - reyna að hægja á þróuninni. Þannig hafa þau eytt talsverðri orku í að koma í veg fyrir dreifingu á kvikmyndum með því að höfða mál á hendur framleiðendum hugbúnaðar sem nota má til að dreifa stafrænu efni, þar með töldum kvikmyndum. Fyrir hæstarétti Bandaríkjanna er nú eitt slíkt mál gegn höfundum deilihugbúnaðar sem tuttugu og átta helstu fyrirtæki í skemmtanaiðnaðinum vestan hafs höfðuðu. Fyrirtækin vonast til þess að hæstiréttur hnekki fyrri niðurstöðu sinni frá 1984 sem kölluð hefur verið Betamax-dómurinn, en hann var á þá leið að ekki mætti leggja bann við löglegri notkun á búnaði, Betamax myndbandtækjum í þessu sambandi, vegna þess að hann væri líka notaður ólöglega. Það er svo grágrettni örlaganna að Betamax-dómurinn hefur skilað kvikmyndafyrirtækjum gríðarlegum tekjum af sölu á myndböndum með kvikmyndum, nokkuð sem endurtekur sig nú með mikilli sölu á DVD-diskum.

Í kvikmyndaheiminum hefur þjöppunartæknin líka haft mikið að segja því með henni er kleift að þjappa mynd sem lesin hefur verið af DVD-diski niður í stærð sem hægt er að dreifa um Netið. Þannig er mynd sem er jafnvel á þriðja gígabæti þjappað niður í eina um 700 MB skrá eða jafnvel tvær slíkar skrár til að ná sem mestum gæðum, en ef síðan á að horfa á myndina í sjónvarpi þurfa gæðin ekki að vera svo mikil - upplausn í sjónvarpsskjá er almennt frekar léleg.

Stafræn tækni hefur þó ekki bara skapað vandræði fyrir kvikmyndafyrirtæki - tölvutæknin hefur gert alla framleiðslu á kvikmyndum mun hagkvæmari, ekki síst í svonefndum stórmyndum þar sem tölvur geta stækkað sviðsmyndina, búið til aukaleikara og ófreskjur og svo má áfram telja. Það er líka talsverður sparnaður að því að taka myndir upp stafrænt í stað þess að taka þær á filmu, þó ekki séu allir leikstjórar sammála um ágæti þess, og þegar skrefið verður stigið til fulls verða kvikmyndir teknar upp stafrænt og dreift þannig líka, sendar með dulritaðri sendingu beint í kvikmyndahús. (Þarf væntanlega ekki að taka fram að ekkert kostar að fjölfalda kvikmynd sem send er stafrænt um heim allan.)

Ekki hafa öll kvikmyndafyrirtæki fyllst örvæntingu og setið með hendur í skauti - fjölmörg fyrirtæki horfa til þess að nýta Netið til að dreifa kvikmyndum og þeir eru líka að spá í fleiri dreifileiðir því ýmsir horfa hýru auga til farsíma. Þeir verða sífellt öflugri og flestir farsímaframleiðendur stefna ótrauðir að því að búa símana svo að hægt verið að taka við hreyfimyndum og horfa á þær. Margt er þó í veginum, til að mynda er gagnaflutningshraði í helstu farsímakerfum, GSM þar meðtalið, ekki nógur sem stendur, en horfir til bóta með þriðju kynslóð farsímatækni sem margfaldar flutningsgetuna.

Sjónvarp í síma

Nú finnst kannski einhverjum það tóm della að fólk vilji horfa á hreyfimyndir í farsímanum sínum er það er þó svo að fyrirtæki víða um heim eru tekin að búa til efni sérstaklega fyrir farsíma og eitt fyrirtæki að minnsta kosti, suður-kóreskt, sendir út sjónvarpsefni sem sérsniðið er fyrir farsíma, en þeir símar eru með innbyggðum sjónvarpsmóttakara. Sjónvarpsefni fyrir farsíma lýtur eðlilega öðrum lögmálum en fyrir sjónvarpstæki, til að mynda verður að byggja meira á nærmyndum svo áhorfandinn sjái hvað fer fram, aukinheldur sem þættirnir eru styttri, hvort sem það eru fréttaþættir, upplýsingar um umferð eða sápuóperur.

Ekki er bara að í Kóreu séu menn að spá í slíkt; Fox-sjónvarpsstöðin framleiðir 24 þætti af þáttaröðinni 24: Conspiracy sem er sérætluð fyrir farsíma, um mínúta hver þáttur með sömu leikurum og í sjónvarpsþáttaröðinni. Nokkuð er þó í land áður en slíkt sjónvarpsefni verður almennt fáanlegt - símatæknin á eitthvað eftir hvað þetta varðar og líklegt að áður en þriðju kynslóðar farsímakerfi verða svo öflug að geta dreift hreyfimyndum í síma verði það algengt að menn hafi einfaldlega sjónvarpsmóttakara í símanum sem vistar þætti eftir áskrift.

Það sem veldur mönnum mestum áhyggjum á þessu sviði, þ.e. framleiðendum sjónvarpsefnis og kvikmynda, er að þeir óttast að þegar þeir taka til við að miðla efni stafrænt komi ekkert í veg fyrir að notendur dreifi efninu án þess að rétthafar fái greitt fyrir. Legíó er til af lausnum á þessu en eins og dæmin hafa sannað dugir dulritun og lásar ekki nema skamma hríð - það sem hægt er að læsa geta aðrir upp lokið, eða svo hefur það verið undanfarin ár í það minnsta.

Áður er þess getið hvernig stafræn tækni hefur auðveldað tónlistarmönnum að taka upp tónlist sína og dreifa til almennings, hvort sem það er til sölu eða ókeypis, og álíka er að gerast í kvikmyndatækninni - milljónir stafrænna tökuvéla hafa selst á undanförnum árum og gera má ráð fyrir að talsverður fjöldi þeirra sem slíkar vélar eiga muni taka upp á því að framleiða eigið efni, allt frá klámi í létta gamanþætti.

Vísast verður megnið af því lélegt, kannski næstum allt, en gera má því skóna að magnið verði það mikið að þó það sé ekki nema lítið brot sem sé þess virði að horfa á það muni vel gerðar og forvitnilegar myndir og þættir eiga eftir að skipta tugþúsundum þegar fram líða stundir. Víða á Netinu má finna einstaklinga sem eru að selja myndskeið sem þeir hafa sjálfir gert, algengt er að menn kvikmyndi hrakfarir sínar og selji eða gefi aðgang að þeim á Netinu, og ekki er annað að sjá að einhverjir af þeim komist bærilega af með þá sölu. Einokun Hollywood verður kannski rofin af áhugamönnum með lófavélar.

Bylting í sjónvarpstækni

Mikil bylting er framundan í sjónvarpstækninni sjálfri, ekki bara efnisveitunni, en sýnilegust eflaust sú tækni sem kalla má flatskjái, þ.e. sjónvarpstæki með þunnum skjám sem eru eiginlega ekkert nema skjárinn. Ekki er svo ýkja langt síðan þau fóru að fást á verði sem meðalfjölskylda gat ráðið við en á síðustu mánuðum hefur verð hrunið á slíkum tækjum, hvort sem það er með kristalsskjá, LCD, eða rafgasskjá, plasma, og á eftir lækka enn. Að sama skapi hafa tækin stækkað - fyrir stuttu kynnti Samsung stærsta sjónvarpstæki heims að því er fyrirtækið sagði: 102" rafgastæki (2,2 x 1,3 m, tæpir þrír fermetrar).

Framleiðsla flatskjáa fer að mestu fram austur í Asíu og fyrirtæki þar njóta ákveðins markaðsforskots vegna þess orðs sem fer af þeim, til að mynda Sony sem er frægt fyrir gæðasjóvörp, og japönsk fyrirtæki hafa líka náð langt fyrir djarfa hönnun. Það forskot á þó ekki eftir að duga fyrirtækjunum lengi því fast er sótt að þeim af bandarískum fyrirtækjum sem kaupa skjái og búnað í Asíu og setja sjónvörp saman í eigin verksmiðjum víða um heim.

Þróunin hefur ekki síst orðið sú að tölvuframleiðendur sækja inn á sjónvarpsmarkaðinn, þar fremst í flokki Dell og Hewlett-Packard. Bæði njóta stærðar sinnar enda eru þau helstu kaupendur LCD-skjáa í heimi og einnig hálfleiðara og ýmissar tækni sem tengist sjónvarpssmíðinni. Dell hefur náð langt með vel skipulögðu markaðsstarfi, var með fyrstu fyrirtækjum sem áttuðu sig á möguleikum Netsins og nýtti sér þá til hins ýtrasta. HP er stærsta tölvufyrirtæki heims og ætlar sér greinilega að nota stærðina til að gera hagkvæm kaup á skjám, en fyrirtækið nýtur einnig mikillar þekkingar á tölvubúnaði og búnaði til myndvinnslu, er enda helsti prentaraframleiðandi heims og sækir sífellt í sig veðrið í stafrænum myndavélum.

Rafgas og kristallar

Þessi sókn tölvufyrirtækjanna inn á sjónvarpsmarkaðinn á vísast eftir að hafa viðlíka áhrif á verð á sjónvarpstækjum og gerst hefur á tölvumarkaði - segir sitt þegar maður rekst á stæðu af flatskjám fyrir tölvur á bretti inni í Bónus. Ekki hafa umboðsaðilar þessara fyrirtækja hér á landi, EJS fyrir Dell og Opin Kerfi fyrir Hewlett-Packard, hafið sölu á sjónvarpstækjum en þess er varla langt að bíða og nægir að benda á að HP kynnti fyrir skemmstu sjónvarpslínu sína.

Ýmisleg tækni er í deiglunni önnur er rafgasskjáir eða fljótandi kristall því sífellt verður algengara vestan hafs að menn fá sér það sem sumir hafa kallað tímahliðrunarbúnað, time shifting device, en það er stafrænt upptökutæki sem tengt er við loftnetstengi og síðan liggur leiðsla úr því í sjónvarpið. Með því móti er notandinn í raun alltaf að taka upp sjónvarpsefni og getur því hvenær sem er stoppað myndina eða þáttinn til að horfa á hann síðar, til að taka símann eða kíkja í ísskápinn.

Þessi tækni hefur valdið auglýsendum miklu hugarangri en tækin gera mönnum kleift að hlaupa yfir auglýsingar - með því að byrja að horfa á sjónvarpsþátt aðeins seinna en útsending á honum hefst er hægt að sleppa við allar auglýsingar því tækið nemur auglýsingahlé og hleypur yfir þau. Þessi tækni á eflaust eftir að ryðja sér enn frekar til rúms og mál manna vestan hafs að auglýsingasjónvarp eins og við þekkjum það í dag sé að ganga sér til húðar.

Úr tímahliðrun er skammt í staðarhliðrun, space shifting, eins og menn kalla það vestan hafs. Þá tekur notandinn upp það sem hann hefur hug á að horfa á og sendir sjálfum sér það í síma eða les það inn á lófatölvu eða MP3-spilara sem spilað getur myndskeið (sjá til að mynda Cowon iAudio X5). Slíkt á eftir að verða mun algengara eftir því sem fram líður og óhætt að spá því að sjónvarpsáhorf eigi eftir að færast enn lengra frá því að vera sameiginleg athöfn í framtíðinni en raun er í dag - fólk mun einfaldlega horfa á það sjónvarpsefni sem það kýs þegar það kýs og þar sem það kýs. Austur í Japan bjóða ýmis fyrirtæki upp á IP-sjónvarpssendingar, en þá getur fólk einfaldlega keypt aðgang að þáttum eftir því sem andinn blæs því í brjóst og horft á þá í fartölvunni þegar því hentar - skráning kostar um 150 kr. og hver þáttur um 150 kr.

Sjónvarpsstöðvar vestan hafs horfa fram á dapra daga því allt útlit er fyrir að tímahliðrunarbúnaðurinn og síðan IP yfir sjónvarp eigi enn eftir að draga úr auglýsingatekjum þeirra, en undanfarið ár hafa tekjur sjónvarpsstöðvanna af auglýsingum dregist saman á meðan auglýsingamagn hefur margfaldast á Netinu og á eftir að margfaldast enn.

Stafrænar sjónvarpsútsendingar eiga líka eftir að hafa mikið áhrif á markaðinn, bjóða upp á mun meiri möguleika í útsendingum, hægt að senda út fleiri rásir í meiri gæðum og samþætta ýmislegt efni saman við sjónvarpsútsendinguna. Eftir því sem stafrænni sjónvarpstækni hefur vaxið fiskur um hrygg hefur og fjölgað sjónvarpsfyrirtækjum sem senda út ólæsta ókeypis dagskrá, enda tiltölulega ódýrt að fara inn á þann markað eftir að stafræn tækni kom til sögunnar, hvort sem litið er til útsendinga um loftnet eða um símalínur. Það á og eftir að verða enn auðveldara - stjórnvöld í flestum Vestur-Evrópuríkjum hafa tekið ákvörðun um að leggja af hliðrænar sjónvarpsútsendingar, til að mynda eiga allar útsendingar um loftnet að verða stafrænar í Bretlandi fyrir árslok 2012.

Helsti framleiðandi á tímahliðrunarbúnaði vestan hafs er TiVo en fleiri sækja inn á þann markað. Microsoft hefur eytt þónokkru púðri í að kynna sérstaka útgáfu af XP stýrikerfi sínu sem kallast Media Center, en fyrirtækið sér fyrir sér að í stofunni verði tölva tengd við sjónvarpsskjáinn, stereogræjurnar, símkerfið og svo má áfram telja - ein allsherjar stjórnstöð sem stýrt getur allri afþreyingu heimilisins á einum stað, aukinheldur sem hægt er að skjótast á Netið ef sá gállinn er á mönnum.

Andinn sigrar efnið

Sagan hefur þó sýnt að takmarkaður áhugi er fyrir því hjá notendum að komast á Netið í sjónvarpinu - ótal fyrirtæki hafa markaðssett slík tæki en ekki haft erindi sem erfiði. Sumir framleiðendur veðja einmitt á það að besta leiðin sé að auka tölvuaflið í sjónvarpinu sjálfu í stað þess að notendur þurfi að hafa sérstaka tölvu til að stýra því - þeir hafi ekki áhuga á að vafra um Netið en vilji geta gert einföldustu hluti eins og að panta sér efni fram í tímann, stilla tækið á upptöku og þar fram eftir götunum. Ýmsir framleiðendur hafa til að mynda sýnt flatskjásjónvarp með innbyggðum upptökubúnaði, með rauf fyrir minniskort úr myndavélum, þráðlausum netbúnaði svo hægt sé að sækja efni á tölvur í húsinu og svo framvegis.

Eftir því sem tæknin verður almennari og ódýrari verður auðveldara fyrir nýja aðila að hasla sér völl í dreifinu á efni samhliða því sem einstaklingar geta farið að dreifa sínu efni sjálfir, rekið "sjónvarpsstöð" þar sem þeir dreifa eigin framleiðslu til áskrifenda eða gefa hana. Mikilvægi innihaldsins, andinn, verður því meira sem umbúðirnar, efnið, verða almennari og ódýrari.

Sjónvarp yfir Netið

Mikið er skrafað um sjónvarpssendingar yfir Netið nú um stundir, enda hafa ýmis fyrirtæki lýst því yfir að þau hyggist taka upp slíkar sendingar. Þar á meðal er Síminn sem ætlar að senda enska boltann út yfir Netið í haust á Skjá einum, en enska úrvalsdeildin hefst í ágúst. Einnig hefur Hive lýst því yfir að það hyggist senda út sjónvarpsefni yfir Netið.

Lengi vel einblíndu menn á ljósleiðaratæknina sem vænlegustu leiðina til að miðla sjónvarpsefni til almennings og undanfarin ár hafa reglulega komið fréttir af því að nú sé það loks í vændum, útsendingar hefjist fljótlega og þar fram eftir götunum. Það var þó flestum ljóst nema þeim sem þjáðust af netbólusótt að kostnaður við að ljósleiðaravæða öll heimili væri svo hrikalegur að það myndi taka mjög langan tíma, jafnvel einhverja áratugi. Síðan hefur komið á daginn að koparinn gamli, símkerfið, fer býsna langt með að uppfylla þarfir fólks þegar sjónvarp fyrir Netið er annars vegar.

Miðað við núverandi tækni getur flutningsgeta símalína náð 6 Mb á sek., en VHS gæði nást við um 2 Mbita á sek. og full útsendingargæði við ríflega 6 Mbita á sek. og jafnvel neðar. ADSL hentar vel til útsendinga á sjónvarspefni vegna þess að bandvíddin er nánast öll nýtt til að senda efni til notandans (download), aðeins hluti hennar er nýttur til að senda boð til þjónustunnar um hvað viðkomandi vill sjá eða aðrar þjónustuóskir (upload). Sjónvarpsendingar yfir Netið eru mjög sveigjanlegt fyrirbæri og handhægt fyrir neytendur, en í raun mætti segja að þeir væru að sækja gögnin, hala niður gögnum sem sjónvarpið, eða tölva, síðan sýnir sem sjónvarpsmynd. Í kynningu Símans á fyrirhuguðum útsendingum kemur fram að nánast alllir leikir enska boltans verði sendir út og fyrir vikið geta menn hoft á uppáhaldsliðið keppa. Eins má gera ráð fyrir að með tímanum verði hægt að kaupa eldra efni, sígilda leiki kannski, eða þá annað sjónvarpsefni - fer eftir áhuga fyrirtækjanna sem senda efnið út og samningum þeirra við rétthafa.

Þjappað í MP3

Tónlist er vistuð á geisladiskum sem raðir af 0 og 1 sem skipað er niður eftir ákveðnum stöðlum. Á geisladiskum almennt er sniðið á tónlist 16 bita sampl við 44,1 KHz sem gefur 705.600 bita á sekúndu eða um 10 MB fyrir hverja mínútu af stereohljómi (705.600*60/8*2). 60 mínútna geisladiskur er þannig í kringum 600 MB. Til þess að auðvelda mönnum að sýsla með tónlist á tölvum sínum og einnig að senda hana á milli tölva og sækja, beita menn þjöppunaraðferðum, þ.e. þjappa tónlistinni með reiknialgrím að vopni líkt og í MP3 sniðinu, sem er algengasta gagnasnið tónlistar.

MP3-algrímið er upp runnið hjá Fraunhofer félagsskapnum sem síðar varð Fraunhofer stofnunin og er nú í eigu Thomson raftækjarisans. Evrópusambandið kostaði vinnuna að hluta, en MP3 stendur fyrir þriðja lags þjöppun (MP er stytting á MPEG, eða Moving Picture Experts Group, sem er hluti af ISO staðlaráðinu). Fyrstu skrárnar sem nýttu þessa þjöppun og komust í almenna dreifingu voru MP2 skrár, 1993, en 1995 náði MP3 yfirhöndinni.

Gæði MP3 laga er eðlilega mismunandi eftir því hve þjöppunin er mikil, en MP3 er svonefnd lossy þjöppun, þ.e. gæði tónlistarinnar minnka við þjöppunina. Framan af var 128 kbita á sek. þjöppun algeng, en eftir því sem nettengingar batna hefur þjöppunin minnkað og nú er einna algengast að notuð sé þjöppunin 192 kbitar á sek.

Fleiri þjöppunaraðferðir eru til en MP3 en engin hefur náð viðlíka vinsældum. Microsoft er með eigin þjöppun sem kallast WMA eða Windows Media Audio, Sony hefur haldið að fólki ATRAC3 þjöppun sem er talsvert betri en MP3 þjöppun, en þó fengið dræmar undirtektir, OggVorbis er þjöppun sem öllum er frjálst að nota án leyfisgjalda og hefur hlotið nokkra útbreiðslu og svo má telja. Ekkert hefur þó náð að ógna MP3 sem helsta gagnasniði tónlistar í dag - líklega eru um 80-90% tónlistar sem hægt er að finna á netinu í MP3-sniði.

Rafgasskjáir og kristallar

Sjónvarpstæknin nálgast sjötugt og hefur í raun lítið breyst frá upphafi, kannski kominn tími til að setja hana á eftirlaun. Fyrstu sjónvarpsútsendingar til almennings voru á vegum breska ríkisútvarpsins 1936 og við þær sendingar var notaður túbuskjár, lofttæmdur glerlampi. Enn í dag er sú tækni algengust í sjónvarpstækjum þó skjáirnir hafi stækkað, gæðin aukist talsvert og allt sé nú í lit.

Helsta tækni sem notuð er við sjónvarpsframleiðslu í dag:

CRT-sjónvarp : Hefðbundin gerð af sjónvarpi sem notar stóran lofttæmdan glerlampa (CRT), en aftast í lampanum er einskonar geislabyssa sem beinir geislanum á ljósnæma húð innan á lampanum.

LCD-sjónvarp : Lag af fljótandi kristal er sett á milli tveggja glerplatna. Vægur rafstraumur er sendur um kristalsupplausnina sem gerir kristallana ýmist gagnsæa eða ekki. Baklýsingin gefur svo myndina með litasíum.

Plasmasjónvarp : Rafgas, plasma, er sett á milli tveggja glerplatna. Rafboð fá viðeigandi hluta af gasinu til að lýsa og mynda þannig mynd. Ekki þarf baklýsingu.

arnih@mbl.is