Vala Flosadóttir, eftir að hafa tryggt sér bronsverðlaunin á ÓL í Sydney.
Vala Flosadóttir, eftir að hafa tryggt sér bronsverðlaunin á ÓL í Sydney. — Morgunblaðið/Sverrir
"ÉG hef ákveðið að hætta keppni í stangarstökki fyrir fullt og fast," segir Vala Flosadóttir, bronsverðlaunahafi í stangarstökki kvenna á Ólympíuleikunum í Sydney fyrir fimm árum, í samtali við Morgunblaðið í gær.

"ÉG hef ákveðið að hætta keppni í stangarstökki fyrir fullt og fast," segir Vala Flosadóttir, bronsverðlaunahafi í stangarstökki kvenna á Ólympíuleikunum í Sydney fyrir fimm árum, í samtali við Morgunblaðið í gær. "Það hefur tekið mig langan tíma að stíga þetta skref, en nú þegar það hefur verið stigið finnst mér það ekki hafa verið erfitt. Það er einfaldlega nóg komið, ég hef gert mitt í stangarstökkinu, lengra verður ekki náð," sagði Vala sem á að baki einn glæsilegasta feril íslensks íþróttamanns á síðari árum og í raun má segja að með ákvörðun sinni sé lokið ákveðnum ævintýrakafla íslenskrar frjálsíþróttasögu.

Eftir Ívar Benediktsson iben@mbl.is

Rúmur áratugur er liðinn frá því Völu skaut upp í íþróttalífi Íslendinga. Þá bárust fregnir til landsins frá Svíþjóð af íslenskri táningsstúlku sem væri öðrum fremri í nýlegri keppnisgrein í kvennaflokki frjálsíþrótta; stangarstökki. Áhuginn á Völu og afrekum hennar jókst til muna þegar hún vann gullverðlaun á Evrópumeistaramótinu í frjálsíþróttum í Gautaborg 1996 og fylgdi þar með í kjölfar "víkinganna" Hreins Halldórssonar og Gunnars Huseby sem einir Íslendingar höfðu unnið gullverðlaun Evrópumeistaramóti í frjálsíþróttum ásamt Torfa Bryngeirssyni langstökkvara. Í kjölfarið varð Vala nánast þjóðareign sem hápunkti náði þegar íslenskt atvinnulíf lamaðist um skeið að morgni 25. september árið 2000 þegar hún keppti til úrslita í stangarstökki á Ólympíuleikunum í Sydney í Ástralíu. Eftir að hafa haft forystu um tíma í keppninni fór svo að Vala vann bronsverðlaun, þriðju verðlaun Íslendinga á Ólympíuleikum. Íslenska þjóðin réði sér vart fyrir kæti, fátt var um annað rætt í þjóðfélaginu en árangur hins ljósa mans í Sydney-borg. Forsætisráðherra ákvað að draga fána að húni á stjórnarráðinu og menntamálaráðuneytinu í tilefni af bronsstökkinu upp á 4,50 metra, sagðist hafa lagt til að flaggað yrði í 4 klukkutíma og 50 mínútur hið minnsta.

Hef ekki lengur sömu ánægju

"Mér finnst ég vera búin að gera mitt í stangarstökki. Á síðustu árum ég hef vonast til að geta stokkið hærra og á stundum þykir mér ég hefði getað gert betur. Það getur vel verið að sú sé raunin og ég ætti meira inni. Sú hugsun eða tilfinning er samt ekki næg til þess að halda áfram þegar maður finnur ekki lengur þá ánægju af íþróttinni sem áður var," segir Vala og bætir við:

"Ég veit ekki hvort ég var að leggja stund á stangarstökk fyrir aðra síðustu ár, en því miður þá er ljóst að ég var ekki að æfa og keppa fyrir sjálfan mig og þegar svo er komið er sennilega best að hætta," Vala segir að keppnin á Ólympíuleikunum í Sydney og bronsverðlaunin standi upp úr mörgum ánægjulegum minningum síðustu ára í stangarstökkinu. "Ég var ekki nema 22 ára þegar ég vann bronsið í Sydney. Hefði ég verið fjórum eða fimm árum eldri á þeim tíma þá hefði ég verið í öðrum sporum og tekist á annan hátt á við þá staðreynd sem verðlaunum fylgdi. Þá var hugsunin sú að ég væri svo ung að ég gæti mikið meira en ég gleymdi því ef til vill um leið að þá hafði ég átt nokkuð langan og afar árangursríkan feril," segir Vala sem er fullkomlega sátt við ákvörðun sína sem hún segist hafa verið að bræða með sér frá lokum síðasta árs. Hún býr í Árósum í Danmörku ásamt Magnúsi Aroni Hallgrímssyni kringlukastara og vinnur hjá borginni við heimilisaðstoð við fatlaða.

Gullverðlaunin á Evrópumeistaramótinu innanhúss í Gautaborg 1996, þegar fyrst var keppt í stangarstökki kvenna á stórmóti, segir Vala að sé tvímælalaust annar hápunktur ferilsins. "Ég var svo ung og kom ekki aðeins öðrum í opna skjöldu með sigrinum heldur einnig sjálfri mér."

Fljótlega eftir Ólympíuleikana í Sydney hætti Vala samstarfi sínu við þjálfarann Stanislav Szczyrba sem hafði unnið með henni í Malmö frá 1994. Til eru þeir sem líta á þau samstarfsslit sem mistök af hálfu Völu. Vala er því ekki sammála. "Það var engin framtíð í að halda áfram á sama stað, sá tími var liðinn. Eftir þetta fór ég víða til þess að skoða málin, fór meðal annars til Bandaríkjanna, fékk ráð og leiðbeiningar hjá mörgum. Upp úr því varð að ég fór til Gautaborgar og var við æfingar þar til síðasta haust. Tíminn í Gautaborg var að mörgu leyti góður, þar lærði ég margt. En því miður þá finnst mér hjartað alltof sjaldan hafa ráðið för á síðustu misserum."

Öll viðmið breyttust eftir ÓL

Eftir að hafa unnið bronsverðlaun á Ólympíuleikum varð viðmiðunin önnur en áður. Ég leit aldrei á það sem bagga að hafa unnið bronsið í Sydney, en óhætt er að segja að margt hafi breyst. Þegar ég lít til baka þá gerði ég mér ekki alveg grein fyrir þá hvað myndi breytast. Það var eins og ég týndi sjálfri mér aðeins í því að bæta mig, ég naut þess ekki sem skyldi að æfa og keppa eins og áður. Því miður þá þróaðist það þannig þótt ég væri um leið að reyna að komast hjá því.

Ég nýt þess betur nú en áður að líta til baka til skemmtilegra stunda á íþróttavellinum, þær voru margar en ég hefði kosið að þær hefði verið enn fleiri og það er ein ástæða þess að ég hef tekið þessa ákvörðun að leggja frá mér stöngina," segir Vala sem vill þakka þjóðinni fyrir sig.

"Í gegnum tíðina hef ég notið gríðarlegs stuðnings íslensku þjóðarinnar, félaga og nokkurra fyrirtækja. Fyrir allan þennan ómetanlega stuðning er ég afar þakklát og vil nú nota tækifærið til þess að þakka kærlega fyrir mig. Án stuðningsins hefði ég aldrei náð eins langt og raun ber vitni," segir Vala sem segist þó alls ekki vera hætt að stunda íþróttir þótt ekki komi stangarstökkið þar lengur við sögu.

"Að sjálfsögðu held ég áfram að stunda íþróttir og það skyldi enginn vera undrandi á því að sjá mig keppa á einhverjum mótum í margvíslegum greinum, en það verður aldrei í svipuðum gæðaflokki og ég var í þegar ég var upp á mitt besta í stangarstökkinu. Ég hætti aldrei að æfa íþróttir," segir Vala Flosadóttir, bronsverðlaunahafi í stangarstökki kvenna á Ólympíuleikunum í Sydney og fyrrverandi heims- og Norðurlandamethafi.

Hápunktar á ferli Völu

*8. mars 1996, Evrópumeistaramótið í frjálsíþróttum innanhúss haldið í Globen-höllinni í Stokkhólmi, varð Evrópumeistari, stökk 4,16 metra.

*6. febrúar 1998, setur heimsmet í stangarstökki innanhúss í Bielefeld í Þýskalandi, stekkur 4,42 metra.

*14. febrúar 1998, setur heimsmet í stangarstökki innanhúss, að þessu sinni í Eskilstuna í Svíþjóð, stekkur 4,44 metra.

*1. mars 1998, hafnar í þriðja sæti í stangarstökkskeppni Evrópumótsins í frjálsíþróttum innanhúss sem fram fór í Valencia á Spáni, stekkur 4,40 metra. Sér á bak heimsmetinu í hendur Anzhelu Balakhonovu, Úkraínu, sem verður Evrópumeistari með heimsmetsstökki 4,45 metra.

*5. mars 1999, vinnur silfurverðlaun í stangarstökki á heimsmeistaramótinu innanhúss sem fram fór í Maebashi í Japan, stekkur 4,45 metra og bætir eigið Norðurlandamet.

*30. júlí 1999, verður Evrópumeistari 22 ára og yngri á Evrópumeistaramótinu í þessum aldursflokki sem fram fór í Gautaborg í Svíþjóð, stekkur 4,30 metra.

*25. september 2000, vinnur bronsverðlaun í stangarstökkskeppni Ólympíuleikanna í Sydney í Ástralíu, stekkur 4,50 metra og setur Norðurlandamet.

*28. desember 2000, kjörin með yfirburðum íþróttamaður ársins 2000 hjá Samtökum íþróttafréttamanna.