— Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fuglar í garðinum eru til yndis og gott er að gera vel við þá. Erna Björk Antonsdóttir býr til fuglabað úr mósaík og ýmislegt annað.

Erna Björk Antonsdóttir hefur í tómstundum sínum hafið framleiðslu á ýmsum hlutum úr mósaík. Eitt af því sem hún er að búa til er mósaíklagt fuglabað.

"Við erum tvær mæðgur sem erum saman í þessu. Við höldum úti heimasíðu um verk okkar, www.mosaic.is, og þar má sjá nánar um fuglabaðið og fleira," segir Erna.

En hvers vegna fuglabað?

"Það kom til fyrir staka tilviljun og á sér enga fyrirmynd. Ég er að leika mér svolítið að því að vinna með grjót, einkum fjörugrjót, og þessi hugmynd þróaðist upp úr því. Þessi verk okkar mæðgna eru ekki fjöldaframleiðsla, aðalatriðið er að við leitum nýrra hugmynda og úr efniviði náttúrunnar. Smíðajárnið undir fuglaskálinni er eftir Svein Stefánsson, smið í Hafnarfirði."