Minning: Frímann Á. Jónasson fv. skólastjóri Fæddur 30. nóvember 1901 Dáinn 16. janúar 1988 Frímann Ágúst Jónasson, einsog hann hét fullu nafni, var fæddur

30. nóvember 1901 að Fremrikotum í Norðurárdal í Skagafirði, sonur Jónasar Hallgrímssonar og Þóreyjar Magnúsdóttur sem þar bjuggu.

Hann nam bókband á Akureyri 1916-17; það mun hafa verið hjá Oddi Björnssyni. Hann gekk í Kennaraskóla Íslands og lauk þaðan prófi 1923. Síðan kenndi hann tvo vetur á Melgraseyri við Ísafjarðardjúp og var kennari við barnaskólann á Akranesi átta ár. Árið 1933 tók hann við nýreistum heimavistarskóla á Strönd á Rangárvöllum og stýrði honum í sextán ár, en 1949 gerðist hann skólastjóri við Kópavogsskóla (barnaskóla) og gegndi því starfi til 1964. Síðan fékkst hann við bókband um hríð, hafði fengið sveinspróf í iðninni 1947.

Frímann fór tvívegis utan til að afla sér aukinnar menntunar, var í lýðháskólanum í Askov sumarið 1936 og fór námsferðir til Noregs og Danmerkur 1947-48.

Auk kennslu sinnti hann ýmsum félagsmálum, sat í stjórnum kennarafélaga og ungmennafélaga þarsem hann var kennari, einnig í stjórn Norræna félagsins í Kópavogi og Rotaryklúbbs Kópavogs. Lengi starfaði hann í Góðtemplarareglunni, var einn aðalstofnandi stúkunnar á Rangárvöllum og lengi æðstitemplari hennar. Hann var á Akranesárum sínum í stjórn bókasafnsins þar, en á Rangárvöllum sá hann um bækur lestrarfélagsins og í Kópavogi var hann í stjórn bókasafnsins. Hann var lengi í stjórn Sambands íslenskra barnakennara og mun hafa verið einn þremenninganna sem á sínum tíma stofnuðu Kennarafélag Rangæinga. Hinir voru Sigfús Sigurðsson í Hvolsskóla og Halldór Sölvason í Fljótshlíðarskóla. Félagið átti lítinn fjölrita (sprittfjölrita) sem gekk milli manna því að vitanlega höfðu skólarnir ekki ráð á slíku tæki, en félaginu mun hafa verið ætlað að styrkja skólastarfið.

Frímann skrifaði nokkrar bækur handa börnum og unglingum: Hve glöð er vor æska (1944). Þegar sól vermir jörð (1950). Valdi villist í Reykjavík (1980). Landið okkar, lesbók um landafræði Íslands (1969). Auk þess skrifaði hann nokkrar frásagnir og minningargreinar í blöð og flutti útvarpserindi.

Kona hans var Málfríður Björnsdóttir kennari frá Innstavogi við Akranes, fædd 1893, dáin 1977. Börn þeirra eru þrjú, Ragnheiður Þórey hjúkrunarfræðingur, gift Ove Krebs verkfræðingi í Philadelphiu í Bandaríkjunum, þau eiga tvö börn. Birna Sesselja kennari í Hveragerði, gift Trúmanni Kristiansen skólastjóra, eiga fjögur börn og fimm barnabörn. Jónas byggingaverkfræðingur í Kópavogi, kvæntur Margréti Loftsdóttur bóksafns fræðingi, eiga þrjú börn.

Allt þetta og miklu fleira er auðfundið í skrám og heimildarritum. En hér er skylt að heyrist rödd úr hópi þeirra sem áttu í bernsku at hvarf hjá Frímanni og Málfríði á Strönd. Mörgu barninu fannst þau koma næst foreldrunum. Um það vorum við stundum ófeimin að tala hvert við annað. Frá mörgum bæjum var löng leið í skólann, og það tók meginhluta dagsins að fara með barnið í heimavistina þar sem það skyldi vera fjórar vikur í einu, en hinn mánuðinn átti það að lesa heima. Vitanlega var farið ríðandi, skólabækur, rúmföt og föt til skiptanna í einn mánuði haft með í poka eða tösku. Þá voru börn skólaskyld 10-13 ára. Þá var kreppa í landi og víða var litið svo á að vorverk og haustverk á bæjum væru þarf legri en skólavist. Það þótti slæmt hversu snemma hálfvaxin börn voru tekin frá haustverkum og sluppu seint heim í vorverk. Slík viðhorf voru þó að mildast, ekki síst fyrir starfsemi manna eins og Frímanns. Börnin fluttu áhrifin heim á af skekktustu bæi.

Það voru mikil umskipti fyrir þann sem hafði alltaf verið í foreldrahúsum, þekkti fáa jafnaldra og ekki önnur húsakynni en gamaldags baðstofu, að koma í heimavist með heilum tug annarra krakka í tveggja hæða steinhúsi með rennandi vatni í krönum. Sumir voru illa læsir þegar þeir komu tíu áraí skólann, en aðrir höfðu lesið mikið, svo sem Íslendingasögur, Almanak Þjóðvinafélagsins og blöðin sem komu út vikulega, jafnvel oftar. Á fæstum bæjum var þá út varpsviðtæki, en þau voru að breiðast út, enda hafði Ríkisútvarpið tekið til starfa 1930. Með því lögðust niður kvöldvökur með gamla sniðinu, þar sem einn las fyrir alla eða kvað rímur. En á Strönd var útvarp, að vísu í eigu hjónanna inni í íbúð þeirra. Þar voru nemendur skólans velkomnir til að hlusta á barnatímann á sunnudögum og sitthvað fleira, fræðsluerindi, fréttir og þvílíkt eftir því sem hugurinn girntist. Dagskráin hófst að vísu yfirleitt ekki fyrr en klukkan átta á kvöldin og henni lauk með þjóðsöngnum upp úr klukkan tíu. Svo varð að kaupa rafhlöðu; hún entist kannski árið. Það varð líka að fara af bæ til að komast í rafmagn og láta hlaða sýrugeyminn með nokkurra vikna millibili. Á Stórahofi var rafstöð og þangað var stutt frá Strönd.

Það er augljóst að við slík skilyrði reynir mikið á þá sem standa fyrir heimavist barna, jafnvel þótt ekki væru fleiri en átta til tólf nemendur samtímis, tveir árgangar saman, tíu og ellefu ára í yngri deild, en tólf og þrettán ára í eldri deild. En þannig var fyrirkomulagið á Strönd. Foreldrar töluðu lítið um áhyggjur sínar, en eflaust hafa margir kviðið því undir niðri að senda barnið sitt margar bæjarleiðir burtu. Í farskólann hafði verið styttra því að hann var til skiptis á bæjum eftir húsakynnum.

Ekki höfðu Málfríður og Frímann verið lengi á Strönd þegar það orðvar komið á að þar væri fólk sem betur en öðrum vandalausum mætti trúa fyrir börnum, hjá þeim liði bæði tápmiklum og pasturslitlum vel. Að sjálfsögðu reyndi mest á kennarann, en Málfríður fylgdist vel með öllu og var til hjálpar eftir þörfum, kenndi til dæmis stelpunum handavinnu. Ráðskona sá um mötuneytið, og lengst man ég þar eftir Ágústu Sigurðardóttur frá Skammbeinsstöðum. Fleira fólk var þar til hjálpar á þeim árum. Elín Þorleifsdóttir frá Árbæjarhjáleigu var Málfríði til aðstoðar, en Eiríkur Magnússon móðurbróðir Frímanns hugsaði um nokkrar kindur og tvær kýr í fjósi. Hann kunni frá mörgu að segja. Nútímaþægindi voru ekki nein fyrst í stað í þessu nýja skólahúsi, það var stórt, hitað með kolakyntri miðstöð og lýst með olíu lömpum. Síðar kom vindrafstöð. Til matseldar í mötuneytinu var koks vél, AGA, en hjónin höfðu litla eldavél í sinni íbúð.

Í heimavistarskóla með einum kennara verður hann vitanlega að sinna starfi sínu allan sólarhringinn. Það þykir ókunnugum ekki tiltökumál. En þrátt fyrir þetta álag mun Frímann hafi talið árin á Strönd bestu ár ævi sinnar. Hann bar hag nemenda sinna fyrir brjósti alla ævi og fann til með þeim í gæfu og ógæfu þó að sambandið vildi dofna. Einhvern tíma á efri árum sagði hann mér frá ógæfu manni sem hann hitti úti á götu í Reykjavík. Það var gamall nemandi hans sem áfengið hafði leikið grátt. Þegar hann hafði sagt mér fráþessu þagnaði hann um stund og bætti við: "Ég vildi ég hefði ekki séð hann þarna; hann var þó mannsefni." Síðan fórum við að tala um annað.

Börn og unglingar finna sér alltaf eitthvað til að eyða tómstundunum við, óholla iðju ef ekki finnst farvegur af öðru tagi. En á Strönd virtist holl tómstundaiðja koma af sjálfri sér, lestur til fróðleiks og skemmtunar, einhvers konar handavinna eða föndur. Stundum voru nemendur látnir lesa hver fyrir annan. Ekki man ég eftir að okkur þætti það neitt sérstakt, en hins vegar var almennur fögnuður ef það vitnaðist að Frímann ætlaði að segja okkur frá einhverju á kvöldvökunni lesa eitthvað sem hann hafði skrifað. Sumt af því voru bernskuminningar, ekki allar bjartar, og sumt þekktu gamlir nemendur hans aftur þegar bækur hans komu út. Tvo vetur að minnstakosti var "Vorboðinn" gefinn út, fjölritað blað innan skólans. Því fylgdi sköpunargleði nemenda þó að öll vinnan lenti vitanlega á kennaranum.

Frímann var kröfuharður um vandvirkni í hvívetna en þar varað sjálfsögðu miðað við getu og þroska nemandans. Tiltrúnaði skyldi ekki brugðist. Lítið atvik sýnir hvernig kennarinn tók stundum á málum. Þegar Gunnarshólmi Jónasar hafði verið lesinn (og flestir lært eitthvað í kvæðinu) í tengslum við samsvarandi kafla í Íslandssögu Jónasar Jónssonar, og allir fylltust aðdáun á ættjarðarást Gunnars að vilja ekki fara utan þrátt fyrir dóminn, sneri kennarinn allt í einu við blaðinu og benti á hugsunarháttinn að baki ummælum Kolskeggs: "Hvorki skal ég á þessu níðast og engu öðru, því er mér er til trúað."

Ekkert erlent mál var námsgrein í barnaskólum á þessum árum. En þeim sem vilja höfðu og getu kenndi Frímann dönsku, og nokkrum sinnum skrifuðumst við á á því máli. Það var fjarkennsla. Eftir að skyldunámi lauk lærði ég auk þess hjá honum byrjunaratriði þýsku og hjá Málfríði frumatriði ensku. Það var góð byrjun. Í bókum Frímanns sá ég líka fyrst kennslubók í esperanto, vissi að vísu áður að það var til. Nokkra kafla í þeirri bók las ég einhverja illviðrissunnudaga og lærði þannig að greina milli sumra málfræðiatriða. En það er önnur saga. Málfræði kenndi Frímann lítið nema það sem tengdist stafsetningu. Hins vegar var sama krafa um vandvirkni í málnotkun og öðru. Móðurmálið skyldi vera hreint og vandað.

Hér skal staðar numið. Það var gott að banalega Frímanns var stutt og þjáningalaus. Hann var nokkur síðustu árin á Ási í Hveragerði, síðan á Grund í nokkrr vikur, en lagðist inn á Landakot í desemberbyrjun og átti ekki afturkvæmt þaðan. Sama milda skapið fylgdi honum til síðasta dags þrátt fyrir lífsþreytuna sem fór að gera vart við sig eftir að Málfr´ður dó. Og fimm dögum fyrir andlátið var hannað skopast að því við mig að hann væri orðinn svo gleyminn að hannmyndi ekki lengur hvað hann væri gamall.

En minningarnar hrannast að, minningar um gott fólk og góða bernsku í skjóli þess. Fyrir það er ég þakklátur, og svo mun um fleirisem nutu samvista við Frímann og Málfríði.

Árni Böðvarsson