15. júní 2005 | Innlendar fréttir | 637 orð | 2 myndir

Metaðsókn að Versló og MH

Ætla má að rúmlega 4.000 nýnemar setjist í framhaldsskóla í haust.
Ætla má að rúmlega 4.000 nýnemar setjist í framhaldsskóla í haust. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is ALLT stefnir í metaðsókn í Verzlunarskóla Íslands í ár, en í gærmorgun höfðu skólanum borist samtals 510 rafrænar umsóknir, samanborið við 460 umsóknir í fyrra.
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is
ALLT stefnir í metaðsókn í Verzlunarskóla Íslands í ár, en í gærmorgun höfðu skólanum borist samtals 510 rafrænar umsóknir, samanborið við 460 umsóknir í fyrra. Næstvinsælastur í ár virðist síðan vera Menntaskólinn við Hamrahlíð en þar höfðu síðdegis í gær borist rúmlega 450 umsóknir. Þess ber að geta að þetta eru ekki lokatölur þar sem umsóknarfrestur rann fyrst út á miðnætti.

Samkvæmt upplýsingum frá menntamálaráðuneytinu útskrifuðust samtals 4.456 nemendur úr 10. bekk í vor og síðdegis í gær voru 90% þeirra búnir að sækja um framhaldsskólavist. Til samanburðar má þess geta að samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands var skólasókn 16 ára ungmenna hérlendis haustið 2004 um 93%. Aðspurður segir Steingrímur Sigurgeirsson, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, tryggt að allir nemendur, sem komi upp úr 10. bekk og sæki um í framhaldsskóla, komist inn.

Miklu fleiri umsóknir en við getum annað

Hjá Sölva Sveinssyni, rektor Verzlunarskóla Íslands, fengust þær upplýsingar að auk þeirra 510 rafrænu umsókna sem borist hefðu skólanum væru á bilinu 30-40 pappírsumsóknir fyrirliggjandi og rétt tæpir 500 nemar höfðu valið skólann til vara.

"Það hefur aldrei verið svona mikil aðsókn í skólann," segir Sölvi og bætir við: "Okkur þykir auðvitað afar ánægjulegt að svona margir skuli sækja um skólavist hér, sem skýrist vafalítið af góðu námi og góðum kennurum. En að sama skapi er ákaflega leiðinlegt að neyðast til að hafna ungmennum sem hafa til þess fulla burði að setjast hér á skólabekk."

Aðspurður segir Sölvi skólann geta tekið inn 336 nemendur í haust og gerir hann ráð fyrir að rúmlega 300 þeirra verði nemendur sem nýlokið hafi grunnskóla.

"Við erum nú þegar komin með miklu fleiri umsóknir en við getum annað," sagði Sigurborg Matthíasdóttir, konrektor Menntaskólans við Hamrahlíð. Sagði hún ívíð fleiri umsóknir hafa borist í ár samanborið við í fyrra. Alls höfðu skólanum borist 360 umsóknir frá nemendum sem voru að klára grunnskólann í vor, en samtals höfðu borist eitthvað um 450 umsóknir.

Aðspurð sagði Sigurborg ráðgert að taka inn 200 nemendur. Verður mest tekið inn í hópi nýnema eða um 90-95%.

Ánægð með aðsóknina í FB

Um miðjan dag í gær hafði Fjölbrautaskólanum í Breiðholti borist í kringum 150 umsóknir, auk þess sem 200 höfðu sótt um skólavist þar til vara. "En þess ber að geta að enn eiga um 600 nemendur, sem eru að klára 10. bekk í vor, eftir að velja sér skóla," sagði Stefán Benediktsson, aðstoðarskólastjóri FB.

Aðspurður sagði hann aðsóknina svipaða og í fyrra og að þar á bæ séu menn afar ánægðir með góða aðsókn í skólann. Spurður hvort líklegt sé að allir umsækjendur fái pláss við skólann svarar Stefán því neitandi. "Ætlum við reynum ekki að taka inn um 250 nýnema auk í kringum 360 eldri nema."

Á Sigurlaugu Önnu Gunnarsdóttur, aðstoðarskólameistara Menntaskólans á Akureyri, var það að heyra að allt stefndi í að fjöldi umsókna milli ára yrði svipaður, þ.e. í kringum 200. Aðspurð sagði hún skólann yfirleitt ná að anna öllum þeim sem uppfylli skilyrði skólans.

Frá og með haustinu býður MA í fyrsta sinn upp á almenna bóknámsbraut fyrir nemendur sem koma beint úr 9. bekk. Alls verður pláss fyrir 15 nemendur, en nú þegar hafa borist á bilinu 30-40 umsóknir. Segir Sigurlaug þær viðtökur framar öllum vonum og leggjast vel í stjórnendur.

Von á metárgangi á næsta ári

Mikil fjölgun nýnema milli ára í fyrra kallaði á markvissar aðgerðir til þess að tryggja öllum skólavist. Samtals skráðu 4.566 nýnemar sig í framhaldsskóla síðasta ár og höfðu þeir þá aldrei verið fleiri, en fjölgun milli ára nam 600 nemendum.

Nærri lætur að allir sem luku grunnskóla í fyrravor hafi farið í framhaldsskóla en í árganginum sem fæddur er 1988 eru 4.673 ungmenni. Árgangurinn sem fæddur er 1989 er samtals 4.498.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands er von á enn stærri árgangi 16 ára unglinga á næsta ári, því hann telur 4.810 einstaklinga.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.