[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ELDFJALLAFRÆÐINGARNIR Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarson segja að miðað við þeirra fræði væri einkennilegt ef ekki hefði orðið gusthlaup við Öræfajökulsgosið mikla 1362.

ELDFJALLAFRÆÐINGARNIR Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarson segja að miðað við þeirra fræði væri einkennilegt ef ekki hefði orðið gusthlaup við Öræfajökulsgosið mikla 1362. Hingað til hafi menn aðallega talað um hið mikla gjóskufall og jökulhlaup sem fylgdu því. Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur skrifaði talsvert um þetta gos 1958 og fjallaði m.a. um jökulhlaupin. Því vakti það forvitni þeirra félaga þegar Bjarni Einarsson fornleifafræðingur hóf uppgröft á Bæ í Öræfum. Þeim lék forvitni á að skoða nánar hvað kunni að hafa gerst þegar bærinn grófst í ösku á 14. öld og hvort einhver ummerki sæjust sem gæfu nánari upplýsingar um atburðarásina. Fram að því að Bær var grafinn upp hafði aðeins verið gerður fornleifagröftur á einum öðrum bæ í Öræfunum sem fór undir í gosinu 1362. Það var þegar dr. Kristján Eldjárn gróf upp bæinn Gröf og fylgdist Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur með þeim uppgreftri.

Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofu, hefur unnið að uppgreftri bæjarhúsanna á Bæ, sem eru skammt vestan við Salthöfða í Öræfum. Bjarni sagði í samtali við Morgunblaðið 14. júní í fyrra að sennilega hafi það sem þar gerðist gerst skyndilega. "Bærinn hefur ekki brunnið en strax orðið sneisafullur af vikri og ekki nokkur sála hafst við í húsinu eftir það." Þá sagði Bjarni að svæðið sé "nokkurs konar Pompei Íslands". Hann sagði bæinn ótrúlega vel varðveittan, hafi fljótlega eftir að gosið hófst væntanlega verið hulinn vikri og því ekkert skemmst. Bær sé mun betur varðveittur en Stöng í Þjórsárdal, sem hingað til hefur verið kölluð Pompei Íslands.

Martinique, Pompei og Öræfin

Sambærilegt gusthlaup við það sem merki fundust um austur í Öræfum varð á eynni Martinique í Karíbahafi árið 1902. Þar kom skyndilegt gusthlaup úr eldfjallinu Mt. Pelée og deyddi nærri 28 þúsund íbúa borgarinnar Saint-Pierre að morgni 8. maí 1902. Eftir að hlaupið hafði eytt öllum borgarbúum, utan einum sem bjargaðist úr dýflissu bæjarins, og brennt öll hús voru einu merkin um hlaupið þunnt lag af öskudufti sem lá yfir öllu. Svipað gerðist í Pompei á Ítalíu. Þar deyddi gusthlaup flesta íbúa borgarinnar, en aðrir fórust þegar húsin hrundu yfir þá sem eftir lifðu.

Öræfajökulsgosið 1362 er eitt mesta sprengigos hér á landi á sögulegum tíma. Þetta var súrt sprengigos á heimsmælikvarða og eitt af þeim stærri á 14. öld. Það sem líklega kemst næst Öræfajökulsgosinu 1362, af íslenskum gosum á sögulegum tíma, er Heklugosið 1104 og þar næst gosið í Öskju 1875 sem þó var einni stærðargráðu minna. Gosið í Pinatubo á Filippseyjum 1991, sem olli ýmislegum veðurfarsáhrifum víða um heim, kemst sennilega nálægt því að vera svipaðrar stærðar og Öræfajökulsgosið 1362, að sögn þeirra Ármanns og Þorvaldar.

Greinileg merki um gusthlaup

Gusthlaup eru mun hættulegri en önnur gjóskuflóð, að sögn Ármanns, því þau yfirstíga landfræðilegar hindranir. Fjall stendur ekki í vegi gusthlaups heldur fer það upp fjallið og niður hinum megin. Sú varð raunin í Saint-Pierre á Martinique 1902. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði gusthlaupið þar átt að fara í þveröfuga átt. En af því það var gusthlaup fór það yfir hæðir og yfir borgina. Þorvaldur segir að gusthlaupin séu svo eðlislétt, næstum því hægt að kalla þau ský, að þau fara auðveldlega yfir hæðir og hóla. Í svona hlaupum er mikið iðuflæði og fara þau hratt yfir.

Gusthlaup draga allt súrefni úr andrúmsloftinu í sig. Þótt einhver myndi lifa af hitann í gusthlaupinu myndi hann kafna, því það er ekkert súrefni. Hitinn og súrefnisleysið valda bráðum bana hverjum manni og skepnu sem fyrir gusthlaupi verður. Ármann og Þorvaldur rifja upp svipleg örlög kvikmyndagerðarfólksins og eldfjallafræðinganna Maurice og Katiu Kraft sem voru að taka myndir á Unzen eldfjallinu í Japan í júní 1991. Skyndilega kom gusthlaup niður fjallið og yfir hæð sem þau voru á. Þau fórust bæði af hitanum og súrefnisskortinum, en þegar líkin fundust voru þau aðeins hulin þunnri gjóskuhulu.

Eyðing Litla-Héraðs

Þorvaldur segir að menn hafi velt fyrir sér hvort jökulhlaup hafi eytt Litla-Héraði, en þessi fundur bendi til annars. Þeir Ármann leituðu víðar að ummerkjum gusthlaupa í Öræfunum og sáu að gusthlaup hafði einnig farið niður vesturhlíðar Öræfajökuls. Eitt af þessum hlaupum var sennilega mjög heitt. Telja þeir Ármann og Þorvaldur mjög líklegt að þessi gusthlaup hafi eytt öllu lífi í Litla-Héraði á einu augabragði. Áætlað hefur verið, samkvæmt gömlum máldögum um byggð á Íslandi sem ritaðir voru skömmu fyrir gosið 1362, að í Litla-Héraði hafi verið að minnsta kosti fjörutíu bæir fyrir Öræfajökulsgosið. Talið er að a.m.k. 30 bæi hafi tekið af í gosinu. Miðað við það gætu milli 200 og 300 manns hafa farist í gosinu. Elsta heimild sem getur um þessar hamfarir er er Oddverjaannáll sem var ritaður árið 1580. Í honum segir um örlög Litla-Héraðs: "Lifði engin kvik kind eftir utan ein öldruð kona og kapall."

Þorvaldur segist ekki verða hissa ef frekari rannsóknir staðfesti að gusthlaup hafi eytt mannlífi í Litla-Héraði. Þetta gerist ákaflega hratt og engum vörnum verði við komið. Gjóskulögin úr Öræfajökulsgosinu 1362 sýna þunnt gjóskulag neðst. Þeir félagar geta sér þess til að fólkið í sveitinni hafi orðið vart öskufalls og farið út að aðgæta hvað væri á seyði. Síðan eru merki um þrjú gusthlaup sem koma hvert á fætur öðru. Þau hafi drepið allt kvikt sem á vegi þeirra varð. Gusthlaupin eru það umfangsmikil að þau hafa náð yfir Litla-Hérað á örfáum sekúndum. Menn hafa ekki haft tíma nema rétt til að líta upp. Engin leið að forða sér.

Fylgja háum gosmökkum

Búast má við gusthlaupum úr eldfjöllum sem mynda háan gosmökk, að sögn Ármanns. Um leið og gosmökkur nær 10-20 km hæð má búast við þessu fyrirbæri. Það þarf þó ekki að gerast. Gusthlaup er einnig háð tætingu kvikunnar. Ármann segir að erlendis gerist þetta í öllum súrum sprengigosum. Þorvaldur segir að þetta geti gerst við beina sprengingu, eða þegar hluti af háum gosmekki fellur til jarðar og fer eftir yfirborðinu. Margar tegundir eru til af svona straumum, sem eru kallaðir gjóskuhlaup og gusthlaup.

Þorvaldur segir að sig gruni, án þess að það sé vitað með vissu né að merki hafi fundist um það, að súr sprengigos hér á landi séu með fasa sem er svona. Íslensk sprengigos séu ekkert öðruvísi í eðli sínu en erlend sprengigos. Þetta er samt í fyrsta sinn sem óvéfengjanleg ummerki finnast um gusthlaup.

Ármann og Þorvaldur segja að það mikilvægasta sem þessi uppgötvun segi okkur sé að gusthlaup hafi fylgt súru sprengigosi á Íslandi. Síðari tíma athuganir hafa leitt í ljós að gjóskuhlaup hafi fylgt Heklugosum. Ummerki um þau sjáist á ljósmyndum frá Heklugosinu 1947, en það hafi upphaflega verið túlkað sem jökulhlaup. Einnig hafi þetta gerst í Heklugosinu 1980. Eftir Heklugosið árið 2000 hafi þeir gengið fram á set eftir gjóskuhlaup.

Mikilvægasti lærdómurinn sem menn geti dregið af þessu sé að gjósku- og gusthlaup geti myndast í sprengigosum hér á landi. Nú orðið sé farið að segja fyrir um eldgos, jafnvel með nokkrum fyrirvara. Ef fólk heyri eldgosaspá eigi það ekki að flýta sér að eldfjallinu heldur halda sig í hæfilegri fjarlægð. Í Öræfajökulsgosinu 1362 hafi fólki ekki verið óhætt í 12 km fjarlægð. Undan svona hlaupi sé hvorki hægt að forða sér á hlaupum eða á bíl. Gjóskuhlaupið úr Mt. St. Helens steikti bílana svo þeir bráðnuðu. Þeir segja einnig að þetta hljóti að vekja Öræfinga og ferðaþjónustuna í nágrenni Öræfajökuls til umhugsunar um mögulegan viðbúnað, ef jökullinn bærir á sér. Sama megi segja um Snæfellsjökul og Eyjafjallajökul sem báðir geti sýnt svipaða goshegðun og Öræfajökull.

Næsta skref hjá þeim Ármanni og Þorvaldi verður að sækja um í rannsóknasjóði til að rannsaka betur gusthlaupin úr Öræfajökli 1362. Þeir vita að útbreiðsla hlaupanna var til vesturs frá jöklinum, en óvíst um hvort þau hlupu einnig til austurs. Bráðabirgðagögn benda til að gusthlaupin úr Öræfajökli hafi verið mjög umfangsmikil.

gudni@mbl.is