Frá vígslu Grafarvogskirkju fyrir fimm árum.
Frá vígslu Grafarvogskirkju fyrir fimm árum.
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is "ÞETTA var afar söguleg helgi," segir sr. Vigfús Þór Árnason, sóknarprestur Grafarvogskirkju, þegar hann minnist vígslu Grafarvogskirkju fyrir fimm árum, en kirkjan var vígð sunnudaginn 18.
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is
"ÞETTA var afar söguleg helgi," segir sr. Vigfús Þór Árnason, sóknarprestur Grafarvogskirkju, þegar hann minnist vígslu Grafarvogskirkju fyrir fimm árum, en kirkjan var vígð sunnudaginn 18. júní árið 2000. "Hér var að íslenskum sið allt á síðustu stundu þannig að biskup Íslands, hr. Karl Sigurbjörnsson, neyddist til að seinka vígsluæfingunni sem fara átti fram á föstudeginum fyrir vígslu þar sem enn voru rúmlega hundrað iðnaðarmenn að störfum í kirkjunni að leggja lokahönd á verkið."

Vigfús rifjar upp að ekki hafi öllum litist á kirkjubygginguna meðan hún var í byggingu. "En eftir að kirkjan var vígð og tekin í notkun hefur verið gífurleg ánægja með hana," segir Vigfús og bendir á að fjallað hafi verið um kirkjuna í arkitektatímaritum á borð við Design from Scandinavia. "Og nýverið voru arkitektarnir Finnur Björgvinsson og Hilmar Þór Björnsson tilnefndir til arkitektaverðlauna sem samsvara "nóbelsverðlaunum" í arkítektúr fyrir hönnun sína almennt. Hvað starfið varðar nýtist kirkjan einstaklega vel," segir Vigfús og bendir á að hver krókur og kimi af kirkjunni, sem rúmar fimm hæðir, sé að vetrarlagi að jafnaði í notkun frá því klukkan átta á morgnana þar til langt gengið ellefu á kvöldin. "Kirkjan er þannig bæði falleg og nýtist vel. En þá fyrst verður hún virkilega falleg þegar hún er þétt skipuð af fólki í safnaðarstarfi og guðþjónustu," segir Vigfús og bætir við að það eigi raunar við um allar kirkjur.

Þakklátur fyrir jákvæðan byr

Vigfús hefur sinnt starfi sóknarprests síðan Grafarvogssókn var stofnuð fyrir 16 árum og hefur á þeim tíma séð sóknina margfaldast og verða að fjölmennustu sókn landsins. "Þegar sóknin var stofnuð voru sóknarbörnin 3.200, en í dag eru þau hins vegar um 20 þúsund. Þannig hefur sóknarbörnum fjölgað um 3,3 á hverjum einasta degi í 16 ár," segir Vigfús og segir sóknina með þeim yngstu í tvennum skilningi því um 8 þúsund sóknarbarnanna eru 16 ára og yngri. Þessi gríðarlega fjölgun sóknarbarna hefur eðlilega kallað eftir fleiri prestum til starfa, bæði presta og leikmenn. Í dag eru fjórir fastráðnir prestar að starfi við kirkjuna, en nýmæli er að svo margir prestar starfi saman í einu prestakalli.

Aðspurður segir Vigfús blómlegt safnaðarstarf að finna í kirkjunni. "Við höfum alltaf fundið fyrir gríðarlega miklum áhuga sóknarbarnanna á starfinu og erum við auðvitað afar þakklát fyrir þann jákvæða byr sem hefur fylgt okkur," segir Vigfús og telur að skýra megi það með því hversu fjölbreytt safnaðarstarfið í raun er. Nefnir hann í því samhengi messur af ýmsum toga, s.s. æskulýðsmessur, poppmessur, barnamessur, auk hefðbundinna guðþjónusta. Nefnir hann einnig öflugt safnaðarfélag, fermingarstarf, bænahópa, fjölbreytt æskulýðsstarf, barnastarf og starf eldri borgara, svo ekki sé minnst á kórstarfið, en við kirkjuna eru starfræktir þrír kórar, þ.e. kirkjukór auk barna- og unglingakórs. "Í raun má segja að kirkjan iði hér af lífi," segir Vigfús og bætir við að í sínum huga eigi kirkjan að vera félagslega miðlæg á sama tíma og hún sé hús guðs og allt starfið þar sé unnið guði til dýrðar og manninum til heilla.

Þess má að lokum geta að sérstök hátíðarguðsþjónusta fer fram í Grafarvogskirkju í dag kl. 11 í tilefni vígsluafmælisins. Þar munu prestar safnaðarins þjóna fyrir altari og biskup Íslands, hr. Karl Sigurbjörnsson, prédika.