MARGT verður um að vera í Grasagarðinum í dag en þar er nú í fimmta sinn boðið upp á skipulagða sumardagskrá.
MARGT verður um að vera í Grasagarðinum í dag en þar er nú í fimmta sinn boðið upp á skipulagða sumardagskrá. Haldið verður upp á dag hinna villtu blóma og í kvöld verða Páll Óskar Hjálmtýsson söngvari og Monika Abendroth hörpuleikari með tónleika í garðskálanum.

Dagur villtra blóma hefur lengi verið haldinn hátíðlegur á hinum Norðurlöndunum en markmiðið með honum er að vekja áhuga almennings á plöntum og verndun þeirra, skv. upplýsingum forsvarsmanna Grasagarðsins.

Svonefndir Flóruvinir eru hvatamenn að þessum viðburði hér á landi. Á höfuðborgarsvæðinu er boðið til plöntuskoðunar kl. 13 á Laugarási í Reykjavík (mæting við Áskirkju) og kl. 13 á Borgarholti í Kópavogi (mæting við Kópavogskirkju). Að lokinni plöntuskoðun kl. 15 verður leiðsögn um safndeildina Flóru Íslands í Grasagarðinum. Þar hafa merkispjöld plantnanna verið fjarlægð og fær fólk þá tækifæri til að merkja þær tegundir sem skoðaðar voru fyrr um daginn. Að lokum verður boðið upp á te af íslenskum jurtum. Leiðsögumenn eru grasafræðingarnir Eva G. Þorvaldsdóttir, Guðmundur Guðjónsson og Kristbjörn Egilsson. Dagurinn er skipulagður í samstarfi við Flóruvini, Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrufræðistofu Kópavogs.

Sólstöðutónleikar verða svo haldnir í garðskála Grasagarðsins kl. 22 um kvöldið þar sem Páll Óskar og Monika munu fagna sumarsólstöðum með söng og hörpuslætti. Miðapantanir eru í síma 866 3516, en miðar eru einnig seldir í kaffihúsinu Café Flóra.