Víkverji sigldi á dögunum með Norrænu frá Seyðisfirði til Danmerkur með viðkomu í Þórshöfn í Færeyjum, Leirvík á Hjaltlandi og Björgvin í Noregi. Í maga Norrænu voru mótorhjól Víkverja og tveggja félaga hans.
Víkverji sigldi á dögunum með Norrænu frá Seyðisfirði til Danmerkur með viðkomu í Þórshöfn í Færeyjum, Leirvík á Hjaltlandi og Björgvin í Noregi. Í maga Norrænu voru mótorhjól Víkverja og tveggja félaga hans. Fámennt var á leiðinni frá Seyðisfirði til Færeyja en þá fjölgaði farþegum umtalsvert og líf og fjör var í skipinu.

Á meðal þeirra sem komu um borð var færeyska kúrekafélagið. Meðlimir þess voru klæddir að hætti villta vestursins og settu m.a. upp litla verslun með slíkum fatnaði um borð og komu fyrir ótömdu óðu nauti á efsta þilfari. Það gekk að vísu fyrir rafmagni en var óárennilegt engu að síður. Um kvöldið var síðan mikil skemmtan og dansaður línudans út í eitt. Færeyingarnir kunnu sannarlega að skemmta sér, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, og kögrið sveiflaðist í allar áttir. Þeir tóku nokkuð hressilega á því, eins og sagt er, og voru hinir hressustu en allt fór það þó vel fram. Víkverja varð þó ljóst morguninn eftir að það getur verið hægara sagt en gert að finna káetu sína í endalausum ranghölum Norrænu á tíunda glasi enda sváfu margir Færeyinganna fastasvefni í stólum, hornum og skúmaskotum víða um skipið. Sá sem síðastur kom sér í koju var sofandi á stól þétt við útgöngudyrnar á útsýnisþilfari töluvert fram yfir hádegi þrátt fyrir mikinn umgang. Engin vandræði og óþægindi voru þó vegna þessarar veislu og svefnvenja Færeyinganna en upp í huga Víkverja komu minningar um sveitaböll fyrri áratuga heima á Íslandi.

Og rétt eins og Færeyingarnir voru fjörugir þá ber Þórshöfn fjörleikanum vitni í allri sinni litadýrð og fjölbreytileika, með alla vega húsum og götum. Allt öðru var aftur á móti að heilsa þegar lent var í Leirvík á Hjaltlandi í þungskýjuðu veðri og mistri, hvert einasta hús hlaðið úr brúngráleitum múrsteini svo þunglyndislegt var yfir að horfa.