Séra Þórhallur Heimisson er fæddur 30. júlí árið 1961. Hann er stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni og guðfræðingur frá Háskóla Íslands. Þórhallur er prestur við Hafnarfjarðarkirkju, giftur og þriggja barna faðir.
Séra Þórhallur Heimisson er fæddur 30. júlí árið 1961. Hann er stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni og guðfræðingur frá Háskóla Íslands. Þórhallur er prestur við Hafnarfjarðarkirkju, giftur og þriggja barna faðir.

Séra Þórhallur Heimisson hefur undanfarin tíu ár haldið hjónanámskeið á vegum Hafnarfjarðarkirkju og hafa þau einnig verið haldin víða um land undir handleiðslu Þórhalls, sem og fyrir íslenska söfnuðinn í Osló. Námskeið þessi hafa notið mikilla vinsælda og samtals hafa 6.500 manns sótt námskeiðin frá upphafi. Á hjónanámskeiðinu er talað um þær leiðir sem hægt er að fara til að sleppa út úr vítahring deilna og átaka í sambúð og hvernig styrkja má innviði fjölskyldunnar.

Þó sumarið sé yndislegur tími þá hafa margir á tilfinningunni að mikið sé um skilnaði á vorin og sumrin. Þórhallur segist ekki vilja tengja eina árstíð frekar en aðra við skilnaði, en sagði að sín reynsla væri að haustin væru frekar sá tími sem fólk fer í sundur. "Margir gera því miður þau mistök að ætla sér að leysa vandamálin með því að fara saman í sumarfrí með börnin í þeirri von að þá verði allt gott. En þetta er í raun skyndilausn sem virkar ekki og oftar en ekki fer allt upp í loft um sumarið, einmitt vegna þess að ekki hefur verið tekið á rótum vandans. Og fyrir vikið verða særindin og vonbrigðin svo mikil þegar hlutirnir ganga ekki upp og sumarfríið verður ekki eins frábært og vonir stóðu til og þá gefst fólk oft upp. Ég ráðlegg fólki eindregið að forðast allar skyndilausnir og taka frekar af alvöru á málunum og leita sér hjálpar ef brestir eru í hjónabandinu, áður en sumarið gengur í garð, einmitt til að sumarið og fríið verði sá yndislegi tími fyrir alla fjölskylduna sem það á að vera. Ég hef útskrifað mörg hjón fyrir sumarið og gef þeim þá

ráð um hvernig gott er að fara inn í sumarið. Ég tek það fram að á svona námskeiði kem ég ekki eins og bjargvættur, heldur byggist þetta mikið á sjálfsábyrgð og heimavinnu fólksins og margir koma í viðtöl eftir að námskeiði lýkur. Hjónaband þarf að rækta á hverjum degi og þar hvílir ábyrgðin hjá báðum aðilum sambandsins."

Hjónanámskeið Þórhalls eru vetrarnámskeið sem haldin eru frá byrjun september til loka maí. Á þessum tíu árum sem Þórhallur hefur haldið námskeiðin hefur safnast saman mikið efni sem hann ætlar að draga saman í bók sem hann vinnur að þessi misserin en hún byggist ekki síður á þeirri miklu reynslu sem skapast hefur með námskeiðahaldinu.