Baltasar Samper myndlistarmaður, 1992.
Baltasar Samper myndlistarmaður, 1992.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skuggaföll, sýning á svarthvítum portrettum Kristins Ingvarssonar ljósmyndara Morgunblaðsins, var opnuð í Þjóðminjasafninu í vikunni. Þar eru myndir af misfrægu fólki, lávarðar jafnt sem listamenn.
Kristinn Ingvarsson hlaut B.A. gráðu í ljósmyndun frá Harrow College of Higher Education í London árið 1989 og eru elstu myndirnar frá þeim tíma, af bresku aðalsfólki. Hann starfaði sem ljósmyndari á Þjóðviljanum á árunum 1989 til 1992, og hefur verið ljósmyndari á Morgunblaðinu síðan.

Í grein um ljósmyndarann í sýningarskránni segir Gunnar Hersveinn, blaðamaður og heimspekingur: "Hver mynd er á einhvern hátt samvinna milli ljósmyndarans og myndefnis. Það er líkt og áhorfendur komist örlítið nær þessum persónum. Margir þekkja stakar ljósmyndir Kristins en með því að safna úrvali af þeim saman birtist ný og óvænt mynd. Þessar ljósmyndir af samtíðarmönnum eru fjársjóður fyrir framtíðina. Þær hafa sögulegt gildi en standa einnig hver fyrir sig sem sjálfstætt verk.

Höfundur

Kristinn er höfundur, hann starfar sem höfundur, en ekki aðeins sem miðill. Kristinn er ljósmyndari, hann semur myndir. Hann er ekki aðeins speglun eða samsafn sjónarmiða. Hann er ekki endurmyndun á túlkun annarra, heldur leggur hann eitthvað til, bætir við, endurtúlkar, varpar á öðru ljósi.

Fullyrða má að Kristinn býr yfir næmu auga og frjóum huga. Iðulega kemur hann bæði samstarfsmönnum sínum og myndefnum á óvart, vegna þess að myndirnar fanga sýn sem aðeins hann kom auga á. Kristinn semur myndir úr ljósi, fólki, pappír og aðstæðum, og býr til myndir úr höfuðskepnum, tilfinningum og skuggum, myndir af eigin hugmyndum og túlkun. Hann gerir sér þó engar grillur um að hann geti sýnt heiminn eins og hann er, sú hugmynd er blekking ...

Persónurnar sem eru myndaðar þurfa að taka áhættu, því þær fá það sem ljósmyndarinn sér. Portrettið getur jafnvel gefið myndefninu nýja hugmynd um sjálft sig."