18. júní 1995 : "Erfitt hefur reynzt að kanna og meta svo óyggjandi sé, hve stórum hluta sjávaraflans er kastað fyrir borð á fiskiskipum okkar.
18. júní 1995 : "Erfitt hefur reynzt að kanna og meta svo óyggjandi sé, hve stórum hluta sjávaraflans er kastað fyrir borð á fiskiskipum okkar. Frásagnir sjómanna og fréttaskýringar, sem birzt hafa í Morgunblaðinu síðustu daga, leiða á hinn bóginn líkur að því, að um verulegt magn sé að ræða, jafnvel tugþúsundir tonna af bolfiski, einkum þorski. Skoðanakönnun meðal sjómanna sem Kristinn Pétursson, fiskverkandi á Bakkafirði, lét gera um áramótin 1989-1990, gaf til kynna, að rúmlega fimmtíu þúsund tonnum af bolfiski hefði verið fleygt.

Á undanförnum vikum hafa þrír blaðamenn Morgunblaðsins talað við sjómenn víðs vegar um landið um þetta vandamál. Viðtöl þessi hafa verið birt hér í blaðinu undir nafnleynd. Ástæðan er sú, að sjómenn treysta sér ekki til að tala um þessi mál undir nafni, nema í undantekningartilvikum, af ótta við að missa vinnu sína. Þetta er óskemmtilegt til frásagnar en engu að síður staðreynd. Fyrir nokkrum árum gerði Morgunblaðið tilraun til að fá sjómenn til að tala um þennan vanda undir nafnleynd en þá voru þeir yfirleitt ófáanlegir til þess. Nú hefur það breytzt, sennilega vegna þess, að sjómönnum ofbýður það, sem gerist á hafi úti. Samtölin við sjómennina staðfesta frásagnir, sem gengið hafa manna á meðal um að fiski sé hent í stórum stíl. Slæmt er ástandið á Íslandsmiðum en verra á fjarlægari miðum eins og t.d. í Smugunni sl. sumar."

16. júní 1985 : "Það er fyrst og fremst þrennt, sem þjóðarvitund okkar sækir næringu til, landsins, tungunnar og sögunnar. Forsjónin hefur lagt okkur þetta land upp í hendur, gögn þess og gæði, í senn til varðveizlu og framfærslu. Við stöndum í óbættri skuld við land okkar. Við verðum að gera allt, sem í mannlegu valdi stendur, til að hefta uppblástur landsins, græða upp sár þess, varðveita sérstæða náttúru og þær auðlindir margs konar, sem byggð í landinu og lífskjör fólks hvíla á. Jafnframt þurfum við að nýta gögn landsins og gæði þann veg, að hér megi tryggja til langrar framtíðar velmegun þjóðar og efnahagslegt sjálfstæði. Við megum ekki ganga of nærri þessum gæðum."

15. júní 1975 : "Ríkisstjórnin markaði þá stefnu um leið og hún tók við völdum að við ríkjandi aðstæður í efnahagsmálum bæri fyrst og fremst að leggja áherzlu á að bæta kjör láglaunafólks. Eftir þau áföll, sem við höfum orðið fyrir, varð kjararýrnun ekki umflúin enda hefur þjóðin búið við falska kaupgetu um tíma. Geir Hallgrímsson forsætisráðherra lýsti yfir því á fyrstu dögum ríkisstjórnarinnar, að þeir sem betur væru staddir yrðu að taka á sig auknar byrðar til þess að unnt yrði að bæta hag láglaunafólksins.

Þessari stefnu hefur verið fylgt eftir með ýmiss konar ráðstöfunum af hálfu stjórnvalda eins og launajöfnunarbótum og skattalækkunum. Þetta er í fyrsta skipti, sem tekist hefur að framkvæma þessa stefnu og hefur ríkisstjórninni því orðið meira ágengt í því efni en launþegasamtökunum í frjálsum samningum. Þróun lægstu launaflokka í hlutfalli við verðlagshækkanir ber gleggst vitni um árangurinn af þessari stefnu."