— Ljósmynd/Sigurður Ægisson
Dagana 24. og 25. júní næstkomandi verður iðandi mannlíf á og við Skólavörðuholtið í Reykjavík, þangað komið fólk á öllum aldri og sumt um langan veg. Sigurður Ægisson gerir uppskeruhátíð íslensku Þjóðkirkjunnar að umtalsefni í pistli dagsins.
Á Jónsmessu árið 2001 kom íslenskt þjóðkirkjufólk af öllu landinu saman í Reykjavík og fagnaði. Samveran fékk heitið Kirkjudagar og var fljótlega ákveðið að gera þetta að föstum atburði, þó ekki árlegum, heldur með fjögurra ára millibili. Sá tími er nú liðinn, og innan skamms koma hundruð ef ekki þúsundir einstaklinga af sama tilefni á ný á Skólavörðuholtið og þar um kring.

Jónsmessa er kennd við Jóhannes skírara, og á sem hátíð rætur æði langt aftur í aldir. Samkvæmt Nýja testamentinu átti Jóhannes að hafa fæðst um hálfu ári á undan frænda sínum, Jesú frá Nasaret. Rómarkirkjan ákvað að miða fæðingardaga þeirra við sólstöður, og 24. júní varð því burðardagur Jóhannesar. Þrjár norrænar sögur hafa varðveist af Jóni baptista, eins og hann var gjarnan nefndur fyrrum, og var ein þeirra tekin saman af Grími Hólmsteinssyni presti í Kirkjubæ. Og hálfur þriðji tugur íslenskra kirkna var helgaður skíraranum, einum eða með öðrum dýrlingum, auk þess sem myndir af honum eru í gömlum ritum nefndar í um 20 kirkjum hér á landi. Af þessu má ljóst vera, að Jónsmessa var talin máttug á Íslandi sem annars staðar í kaþólskum sið, og raunar allt til 1770, en þá var hún numin úr tölu íslenskra helgidaga, ásamt með átta öðrum.

En í almanakinu er hún enn og þótt ekki sé hún formlega tekin aftur við sínu gamla hlutverki, er hún það samt í og með, við tilkomu þessara nýju kristilegu gleðidaga. Og það er vel.

En hvað er þar um að ræða nákvæmlega? Jú, svarið við því er að finna á kirkjan.is/kirkjudagar. Og þar segir orðrétt:

Markmið Kirkjudaga

*Á Kirkjudögum kemur fólk saman til að tilbiðja Guð og gleðjast í fjölbreytilegu og lifandi samfélagi kirkjunnar. Dagskrá Kirkjudaganna miðar að því að höfða til allra aldurshópa.

* Á Kirkjudögum fer fram kynning á margþættu starfi innan kirkjunnar. Áhersla er lögð á nýjungar og á það sem vel hefur tekist.

*Kirkjudagarnir eru tækifæri til að efla og hvetja fólk til þátttöku í starfi kirkjunnar.

* Kirkjudagar eru vettvangur samtals um trú og líf meðal leikmanna og lærðra, kirkjudeilda og trúarbragða. Þeir skapa líka tækifæri fyrir leikmenn og starfsfólk Þjóðkirkjunnar til þess að tjá sig um málefni hennar og starf.

Með Kirkjudögum 2005

vill Þjóðkirkjan

* hvetja til umræðu í samfélaginu um kristna trú og starf kirkjunnar.

*minna á að kirkjan er samfélag sem vekur og nærir kristna trúariðkun og andlegt líf.

* kynna og hvetja til fjölbreytni í helgihaldi.

* virkja fólk til frekara starfs í kirkjunni og efla það til þjónustu við Guð og náungann.

* ítreka mikilvægi heimilisins sem vettvangs trúaruppeldis.

Dagskrá Kirkjudaga er margþætt og fjölbreytt, og áhersla er lögð á að allir finni eitthvað við sitt hæfi, eins og lesa mátti hér að framan. Þar verða t.d. málstofur, alls konar sýningar, kvöldvökur og útimessa, að fátt eitt sé nefnt. Og allt er ókeypis.

Til að fá nánari upplýsingar er best að fara á téða vefslóð.

Upplýsingamiðstöð er staðsett við norðurhlið Hallgrímskirkju og er hún opin á meðan undirbúningur Kirkjudaga stendur yfir og einnig á hátíðinni sjálfri.

Táknmálstúlkun verður á opnunarhátíðinni, kl. 20, föstudagskvöldið 24. júní, og á nokkrum öðrum viðburðum, og jafnvel enn fleiri verði þess óskað. Einnig er hreyfihömluðum og fötluðum boðið upp á heimakstur á föstudags og laugardagskvöldinu, en óskir þar að lútandi verða að berast á áðurnefnda upplýsingamiðstöð.

Sjálfur verð ég með ljósmyndasýningu í Iðnskólanum, laugardaginn 25. júní, frá 12-18, og þar mun hanga uppi eftirfarandi texti, sem ætti að útskýra hvað verður að sjá:

Kirkja er ekkert venjulegt hús.

Nei, þar er Guð að finna

á sérstakan hátt.

Á Íslandi eru rúmlega 300 slík híbýli almættisins,

vígð og gefin því til búsetu,

á meðal okkar, kristins lýðs.

Þar snertir himinninn jörðina.

Og þessi musteri fara hvergi.

Þau eru til staðar árið um kring,

ávallt til þjónustu reiðubúin.

Alltaf vakandi,

bíðandi með opinn faðminn.

Stundum kallandi,

en þó oftast í hljóðri bæn.

Í sólskininu og blíðunni,

logninu eða hægum andvaranum,

en líka í slagviðrinu og kafaldsbylnum.

Myrkrinu og fimbulkuldanum.

Jafnvel í auðninni og tóminu.

Í þeim er lífið að finna,

birtuna, hlýjuna, kyrrðina,

friðinn, máttinn, væntumþykjuna.

Allt hið góða,

sem verður ekki lýst með orðum.

Bara upplifað, snert og fundið.

Þessi ljósmyndasýning,

með 33 fulltrúum íslenskra kirkna

úti um hinar dreifðu byggðir,

er ljóð mitt til þeirra.

Virðingar- og þakkaróður.

Hjartanlega velkomin(n) á Kirkjudaga 2005.

sigurður.aegisson@kirkjan.is