FUNDUR nemenda, kennara og starfsfólks Listaháskóla Íslands hefur lýst yfir stuðningi við ákvörðun stjórnar skólans um að leita eftir lóð fyrir framtíðarhúsnæði skólans á lóð við Austurhöfn í Reykjavík.
FUNDUR nemenda, kennara og starfsfólks Listaháskóla Íslands hefur lýst yfir stuðningi við ákvörðun stjórnar skólans um að leita eftir lóð fyrir framtíðarhúsnæði skólans á lóð við Austurhöfn í Reykjavík. Í samþykkt fundarins segir að með þessari staðsetningu gæti Listaháskólinn orðið táknmynd sköpunar og sú menntunarmiðstöð sem landsmenn gætu litið til. Nálægð við menningarstofnanir, aðra háskóla og bein samlegð með Tónlistarhúsinu sem áætlað er að rísi þarna bjóði upp á margsháttar samstarf en margir listamenn hafa ítrekað bent á gildi þess að tengja Listaháskólann við starfsemina á hafnarsvæðinu.

Jafnframt telur fundurinn að það yrði ávinningur fyrir borgina að fá nemendur skólans og fjölmennt starfslið inn á þetta svæði og myndi það gæða miðborgina auknu lífi og krafti.

Fundurinn skorar á menntamálaráðuneyti og Reykjavíkurborg að veita erindi stjórnar Listaháskóla Íslands þann stuðning sem þarf til að koma húsnæðismálum skólans endanlega í höfn.