Vinnuhópurinn sem fundað hefur í Reykjavík síðustu daga um verkefnið Úr viðjum vanans. Christiana Weidel verkefnastjóri er þriðja frá vinstri í aftari röð og Hildur Jónsdóttir jafnréttisráðgjafi er önnur frá hægri.
Vinnuhópurinn sem fundað hefur í Reykjavík síðustu daga um verkefnið Úr viðjum vanans. Christiana Weidel verkefnastjóri er þriðja frá vinstri í aftari röð og Hildur Jónsdóttir jafnréttisráðgjafi er önnur frá hægri. — Morgunblaðið/Jim Smart
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is
"ÍSLENSKIR karlmenn eru afar góð fyrirmynd fyrir alla evrópska karlmenn," segir Christiana Weidel, formaður jafnréttismálanefndar ríkisstjórnar Neðra-Austurríkis, og vísar þar til þess hversu duglegir íslenskir karlmenn hafa verið að nýta sér rétt sinn til feðraorlofs og axla þannig ábyrgð sína sem heimilisfeður.

Weidel tók fyrr í vikunni þátt í vinnufundi í tengslum við Evrópuverkefni sem nefnist Úr viðjum vanans og hefur það að markmiði að uppræta staðlaðar ímyndir um kynin og finna leiðir fyrir karlskyns stjórnendur til að samræma með árangursríkum hætti starf og einkalíf. Verkefnavinnan fór fram í Reykjavík og auk Wiedels tóku þátt jafnréttisfulltrúar og stjórnendur frá Ungverjalandi, Eistlandi, Svíþjóð og Íslandi, en fulltrúi Íslands í umræðunum var Hildur Jónsdóttir, jafnréttisráðgjafi Reykjavíkurborgar.

Að sögn Weidels er ráðgert að verkefnavinna hópsins nú skili sér í kennslu- og þjálfunarefni fyrir stjórnendaprógram sem opinberir starfsmenn í Neðra-Austurríki sækja, auk þess sem stefnt að því að halda ráðstefnu í Vín með haustinu þar sem stjórnendum gefst færi á að ræða saman. Að sögn Weidels er ráðgert að bjóða til ráðstefnunnar íslenskum karlkyns stjórnendum, sem með góðum árangri hafa náð að samþætta fjölskyldu- og vinnulíf, í því skyni að þeir geti deilt reynslu sinni með evrópskum kynbræðrum sínum.

"Fyrr í vikunni hittum við fyrir íslenska stjórnendur sem sögðu okkur frá reynslu sinni af því að samræma starf og einkalíf," segir Wieder og vísar þar m.a. til þeirra Jóns Viðars Matthíassonar, slökkviliðsstjóra Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og Ara Edwald, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. "Ég verð að segja að mér fannst afar athyglisvert og ekki síst ánægjulegt að heyra reynslusögur þeirra og fá það staðfest að karlmenn, sem tekst með góðum árangri að samþætta þessi tvö hlutverk sín, eru ekki lengur einsdæmi," segir Weider.

Að sögn Hildar vekur stefna Íslendinga um feðraorlof og sú staðreynd hversu margir íslenskir feður nýti sér það sérstaka athygli erlendu gestanna. Hérlendis nýta 80% feðra rétt sinn til feðraorlofs, á meðan aðeins 3% Austurríkismanna fari í feðraorlof og um 20% sænskra karla.

Krefjast sömu hæfileika

Spurð hvernig megi skýra þennan góða árangur hérlendis segir Hildur ljóst að skýr afstaða stjórnvalda og hin breiða samstaða sem náðist um málið sé lykilatriði. "Víða erlendis getur það reynst afar flókið fyrir feður að nýta sér þennan rétt. Þetta á sérstaklega við í löndum þar sem stjórnvöld hafa ekki sett fram neina ákveðna og færa leið sem felur í sér hvatningu til karlmanna um að fara í feðraorlof," segir Hildur og bætir við: "Íslenska kerfið er einfalt. Það felur í sér mjög skýr skilaboð og skýra hvatningu. Og það er byggt á hugmyndinni um raunverulegt jafnræði milli foreldra."

Spurð um ástæðu þess að sjónum er í verkefninu beint að stjórnendum segir Hildur ljóst að eigi breyting að geta átt sér stað í fyrirtækjum þurfi að beina sjónum að toppinum. "Með verkefninu viljum við koma þeim skilaboðum áleiðis til stjórnenda að það samrýmist vel að axla ábyrgð á heimili og gagnvart börnum og að gegna stjórnunarstöðu," segir Hildur og tekur fram að í raun krefjist foreldrahlutverkið og leiðtogahlutverkið að mörgu leyti sömu hæfileika.