"VG í Skagafirði telur að með þeim samningsdrögum um staðarval fyrir álver á Norðurlandi, sem iðnaðarráðherra ætlar Skagfirðingum að skrifa undir við Alcoa ásamt Akureyringum og Húsvíkingum, sé hagsmunum íbúa héraðsins mögulega kastað fyrir róða.
"VG í Skagafirði telur að með þeim samningsdrögum um staðarval fyrir álver á Norðurlandi, sem iðnaðarráðherra ætlar Skagfirðingum að skrifa undir við Alcoa ásamt Akureyringum og Húsvíkingum, sé hagsmunum íbúa héraðsins mögulega kastað fyrir róða. Með slíkum samningi er hætta á að Skagfirðingar afsali sér rétti sínum til að gæta með sjálfstæðum hætti hagsmuna sinna varðandi nýtingu auðlinda héraðsins og ákvarðanatöku þar að lútandi," segir í ályktun félagsfundar Vinstri grænna í Skagafirði. "Framtíðarhagsmunir héraðsins felast ekki í virkjun jökulsánna eða stóriðju og er VG í Skagafirði andvígt slíkum hugmyndum. Ef hins vegar kæmi til virkjunar jökulsánna væri með slíkum samningi stórlega búið að veikja stöðu Skagfirðinga gagnvart þeirri skýlausu kröfu að orkan yrði nýtt í héraði. Þau samningsdrög á ensku um álver á Norðurlandi, sem afgreidd voru frá sveitarstjórn, hafa ekki hlotið kynningu eða umræðu innan flokkanna sem mynda meirihluta í sveitarstjórn Skagafjarðar. Félagsfundur VG í Skagafirði telur það ekki samrýmast samstarfssamningi flokkanna ef gengið verður frá áðurnefndum samningsdrögum í þeirri mynd sem þau nú eru, án fyrirvara og án þess að málið hafi fengið eðlilega meðferð innan meirihlutaflokkanna og á þeirra samráðsvettvangi, í samræmi við þær verklagsreglur sem flokkarnir hafa samþykkt sín á milli," segir einnig í ályktuninni.