[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sparkfjelagið Hekla er ekkert venjulegt fótboltalið. Eins og nafnið gefur til kynna eru liðsmenn þess allir Íslendingar sem væri kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir það að Hekla leikur í dönsku deildarkeppninni.
Sparkfjelagið Hekla er ekkert venjulegt fótboltalið. Eins og nafnið gefur til kynna eru liðsmenn þess allir Íslendingar sem væri kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir það að Hekla leikur í dönsku deildarkeppninni. "Í augnablikinu erum við með um 30 manna hóp og nóg af varamönnum," segir fyrirliðinn og "Smiðurinn" Sigurður Davíðsson. "Það er hörð barátta um hvert sæti núna og færri komast að en vilja." Þannig hefur það þó ekki alltaf verið. "Mörg ár höfum við kannski verið átta að spila. Svo höfum við fengið Dani til að hjálpa okkur en síðustu þrjú, fjögur árin hefur þetta verið nokkuð gott, alíslenskt lið."

Aðsetur Sf Heklu er í Árósum en tólf ár eru síðan Íslendingar á skotskónum stofnuðu félagið. "Þá voru nokkrir Íslendingar sem komu saman og þegar þeir urðu nógu margir til að spila var stofnað lið. Um leið og menn fréttu af einhverjum Íslendingi sem væri að koma hingað út var hann dreginn út á völl og látinn spila, hvort sem hann kunni að sparka í bolta eða ekki," segir Sigurður.

Ekkert nýtt er við að menn komi saman til að spila fótbolta en það eru ekki mörg lið sem hella sér út í dönsku deildarkeppnina, jafnvel þótt þau hafi heimahaga í landi Bauna. "Kaupmannahöfn er líka með íslenskt lið í deildarkeppninni en fyrir utan okkur hér í Árósum hafa Íslendingar í öðrum bæjarfélögum ekki gert það sama þó þeir haldi úti liði. Við ákváðum að vera í þessu á fullu og þess vegna fórum við út í þetta. Mig minnir að það séu 22 leikir á tímabilinu auk æfingaleikja þannig að þetta er hellingur af leikjum." Þar fyrir utan er æft tvisvar í viku og þar sem leikirnir fara fram um helgar er væntanlega skilyrði að eiga þolinmóða maka og fjölskyldur eða hvað? "Eftir öll þessi ár er mín kona búin að gefa upp á bátinn að ég sé heima um helgar. Í staðinn er hún farin að koma með á leiki. Það er alltaf stór og tryggur aðdáendahópur með okkur á leikjunum sem er sjaldan undir 20 manns."

Eftir leiki er svo sest niður og "spjallað". "Þá eru upphandleggsvöðvarnir óspart þjálfaðir með því að ræða leikinn undir neyslu góðra veiga að danskra manna sið. Í raun hefur þetta verið 70% félagsskapurinn og restin er að fá að sparka í bolta líka." Því fer þó fjarri að eitthvert metnaðarleysi ríki í liðinu. "Það er mikill metnaður og við erum mjög tapsárir," segir fyrirliðinn sem stynur þungan þegar hann er minntur á að síðasti leikur vorsins hafi nú ekki farið vel, þegar Hekla tapaði fyrir FC Skjoldhøgene með fimm marka mun. "Þú hittir illa á mig núna eftir þann leik." En er þá ekki klassískt að spyrja hvort megi vænta einhverra breytinga með haustinu? "Jújú, það verða innkaup," segir hann og það má nánast heyra glottið í gegnum símasnúruna.

Annars er staða Heklu býsna fín nú þegar keppnistímabilið er hálfnað. Eftir veturinn situr félagið í áttunda sæti í fjórðu seríu dönsku deildarkeppninnar. "Ef ég ætti að útskýra hvar við værum miðað við íslenska deild þá erum við svolítið neðarlega," segir Smiðurinn hógvær. "En það er langt frá því að við séum á botninum. Eiginlega vorum við með það á stefnuskránni að fara aldrei upp úr fimmtu seríu en það klikkaði og ég get ekki lofað að það klikki ekki aftur. En ég á ekki von á að við förum upp í þriðju seríuna í ár - það er á tveggja ára prógrammi."

Starfsemi Heklu felst þó í fleiru en boltasparki og bjórlyftingum. T.d. heldur félagið úti sérlega öflugri heimasíðu þar sem lesa má allt um framgang liðsins, stöðu þess í deildinni, hver á búningaþvott þessa vikuna, nákvæma tölfræði, spjall, fréttir (títt uppfærðar), leikmannaupplýsingar, myndir frá leikjum og svo mætti lengi telja. "Það er valinn maður í hverju rúmi og ekki bara inni á vellinum heldur líka þegar kemur að heimasíðunni. Hún er mjög öflug og hefur verið það síðan að Töli tók við henni. Stundum heldur maður að hann sé með heilt dagblað á bak við sig því hann birtir greinar og fréttir svo ört," segir Sigurður stoltur en Töli þessi heitir öðru nafni Skúli Brynjólfsson. Í ljós kemur að flestir leikmenn liðsins hafa einhvers konar gælunöfn og kveður svo rammt að þeim að raunveruleg nöfn liðsmanna vilja gleymast. Smiðsnefni Sigurðar er þarna gott dæmi en eins er að finna nöfn eins og SM, Claxton, Bjórberann, Rakarann og Abba Zidane inni á heimasíðu Heklu svo eitthvað sé nefnt. "Á þessu tólf ára tímabili eru einhver hundruð manna búin að spila með Heklu þannig að maður hefur ekki undan að kynnast nýjum strákum. Nú er ég ekki mjög mannglöggur og það tekur mig svona hálft tímabil að muna nöfnin þannig að menn heita ýmislegt í byrjun tímabils." Hann segir því fyrrverandi leikmenn mynda góðan efnivið í annað Heklulið á Íslandi. "Já, og jafnvel þó það væri heil Hekludeild."

Framundan er sumarfrí og þrátt fyrir að liðið sé að missa fjóra af leikmönnum sínum fyrir fullt og fast er enginn beygur í fyrirliðanum fyrir haustið. "Markmiðið er að vinna fleiri leiki en við töpum og halda okkur fyrir ofan miðja deild," segir hann en við látum Heklusnápinn, blaðamann heimasíðunnar, um lokaorðin: "Það er ekkert því til fyrirstöðu að við mætum ferskir í ágúst og bökum þessar baunir!" | ben@mbl.is

www.sfhekla.dk