TALIÐ er að skilyrði sem samkeppnisráð setur um samruna FL Group, Bláfugls og Flugflutninga dugi til að viðhalda samkeppni á fragtflugi til og frá landinu, þrátt fyrir að sameinað félag verði með 80-85% markaðshlutdeild á þessum markaði, segir Guðmundur...
TALIÐ er að skilyrði sem samkeppnisráð setur um samruna FL Group, Bláfugls og Flugflutninga dugi til að viðhalda samkeppni á fragtflugi til og frá landinu, þrátt fyrir að sameinað félag verði með 80-85% markaðshlutdeild á þessum markaði, segir Guðmundur Sigurðsson, forstöðumaður samkeppnissviðs hjá Samkeppnisstofnun.

Eins og Morgunblaðið greindi frá á föstudag setur samkeppnisráð ítarleg skilyrði fyrir samruna félaganna, svo sem rekstrarlegan og stjórnunarlegan aðskilnað, að sömu stjórnarmenn séu ekki í félögunum og ekki sé höfð samvinna um markaðs- eða viðskiptaleg málefni milli fyrirtækjanna.

Guðmundur segir að tvennt hafi komið til greina þegar komist var að þeirri niðurstöðu að íhlutunar væri þörf, annars vegar að ógilda samrunann, og hins vegar að setja skilyrði fyrir samrunanum sem tryggi samkeppni á markaðnum þrátt fyrir samrunann.

Hugmyndir að skilyrðum

"Það er reynt að fara mildari leiðina ef hún er talin duga, og í þessu tilviki þótti vera komið í veg fyrir þann vanda sem þessi sameining myndi sýnilega valda með þessum skilyrðum," segir Guðmundur. "Ef við komumst að þeirri niðurstöðu að samruni leiði til samkeppnislegrar röskunar er málsaðilum bent á það, og þeim gefinn kostur á að koma með hugmyndir að skilyrðum sem hægt sé að setja."

Eðlilegt að sett séu ströng skilyrði

Ómar Benediktsson, framkvæmdastjóri Atlanta, segir eðlilegt að sett séu ströng skilyrði fyrir sameiningunni, en var ekki búinn að kynna sér úrskurð samkeppnisráðs þegar haft var samband við hann. "Maður hefði haldið að ef þetta er ekki bannað þá eigi í það minnsta að setja ströng skilyrði fyrir fyrirtæki sem fyrir er með yfir 50% markaðshlutdeild og fer með kaupum á fyrirtæki í yfir 80%," segir Ómar.