Signý Sigurðardóttir
Signý Sigurðardóttir
Signý Sigurðardóttir fjallar um staðlaðar karl- og kvenímyndir: "Samfélagið allt, konur og karlar líta kynin mismunandi augum: Karlar njóta virðingar. Konur ekki."
ÉG ER áhættufælin, ég er hrædd við að taka ákvarðanir, ég vinn ekki nógu lengi (takið sérstaklega eftir þessu orði lengi ), ég vil ekki ábyrgð. Ég hef áhuga á, kílóum, snyrtingu, tísku, fræga fólkinu, kjaftasögum og harmsögum annarra. Ég þarf að berjast fyrir að njóta virðingar og virðingin sú er fallvölt. Ég hef lítið sjálfstraust, fæ efasemdir um leið og einhver setur út á eitthvað sem ég geri ... ég er... kona!

Ég er snöggur að taka ákvarðanir, ég eyði tíma mínum í aðalatriði og sleppi smáatriðum, ég vinn lengi, ég sækist eftir ábyrgð. Ég hef áhuga á viðskiptum og pólitík, þá sérstaklega efnahagsmálum. Ég er frábær! Um leið og ég fór að ganga í jakkafötum á hverjum degi aðeins 25 ára gamall bugtar samfélagið sig og beygir fyrir öllu sem frá mér kemur. Ég nýt virðingar og veit það. Ég er fullur sjálfstrausts. ... ég er ... karl!

Karlar vita sannleikann - um leið og þeir eru komnir í jakkafötin.

Konur þurfa að láta segja sér allt hvort sem þær eru í drögtum eða ekki.

Þær fara á námskeið til að læra hvernig á að fá fullnægingu, hvernig á að snyrta sig, hvernig á að léttast, hvernig á að matreiða fyrir sykursjúka eiginmenn sína, hvernig á að ala upp börnin, hvernig á að leggja saman og draga frá, hvernig á að ná árangri í starfi, hvernig á að samræma vinnu og fjölskyldulíf, hvernig á að vera hamingjusamur, hvernig á að...

Karlar eru uppteknir af fótbolta, veiðiskap, horfa á fallegar konur, því að hafa gaman saman. Slaka á og njóta þess að vera til.

Konur eru uppteknar af því að láta enda ná saman, af því hvað á að hafa í matinn í kvöld, drengnum sem á eftir að læra fyrir morgundaginn, hvar þær eiga að koma líkamsræktinni fyrir, hvað yfirmaðurinn segi þegar þær skreppa úr vinnunni til að komast til sjúkraþjálfara.

Karlar eru ánægðir með umræðuna og áherslurnar. Þeir sjá ekkert athugavert við það þó einungis þeirra sjónarhorn komi fram. Þeirra sjónarhorn er hvort eð er sannleikurinn. Þeir eru margir hverjir farnir að þekkja hver annan. Þegar þeir mæta í þátt hvort sem er í útvarpi eða sjónvarpi hitta þeir félaga sína úr Versló eða KR nema hvort tveggja sé og eru góðir. Þeir skilja ekki þetta nöldur kvenna um að þeirra sjónarhorn vanti inn í umræðuna.

Konur eru óánægðar með umræðuna og áherslurnar. Á sama tíma gerast þær sérstakir málsvarar karla. Það getur ekkert hræðilegra gerst en að ein kona sé tekin fram yfir einn karl einungis vegna þess að hún er kona. Karlar eru alltaf hæfastir til að gegna þeim stöðum sem þeir fá. Það er ekki fyrr en stöðuveitingin á við konu sem það er ástæða til að hafa uppi hávaða í málinu. Já konur eru aldrei sannfærðari og öruggari með sig en þegar þær taka að sér það hlutverk að vera sérstakir málsvarar karla - þá

eru þær á heimavelli. Þá eru þær fullar sjálfstrausts - enda ekki nema von - þær eru í hlutverki sem þær þekkja í gegnum aldirnar.

Konur sem skipta um skoðun eru svikarar.

Karlar sem skipta um skoðun höfðu ekki aðra skoðun áður, a.m.k. tekur enginn eftir því að þeir skipta um skoðun.

Konur sem vilja fá titil í starfi eru spurðar hvort þær séu svona hrifnar af titlatogi.

Karlar sem vilja titil í starfi eru ekki spurðir neins.

Kona sem býr ein og slær ekki garðinn er ekki hæf til sambýlis við aðra.

Karl sem býr einn og slær ekki garðinn hefur alltaf svo mikið að gera greyið að hann bara má ekki vera að því.

Karl sem býr einn með barn er ótrúlega duglegur og vekur aðdáun samfélagsins.

Kona sem býr ein með barn er byrði á samfélaginu.

Giftur karlmaður er fyrirvinna og þarf góð laun til að framfleyta sér og sínum.

Gift kona þarf ekki há laun því hún á mann sem sér fyrir henni og börnunum.

Karlar eru fylgnir sér og ákveðnir.

Konur eru frekjur.

Konur sem gagnrýna það sem er eru neikvæðar.

Karlar sem gagnrýna það sem er eru framsýnir.

Konur sem sofa hjá mörgum körlum eru druslur.

Karlar sem sofa hjá mörgum konum eru upp á kvenhöndina.

Á undanförnum vikum hafa ýmsir velt því fyrir sér af hverju miklu færri konur eru í stjórnunarstöðum en karlar, af hverju konur fá að jafnaði lægri laun en karlar, o.s.frv., o.s.frv. Menn leita skýringa og velta upp hinum ýmsu ástæðum þess að staðan í samfélaginu er eins og hún er. Stundum hef ég reiðst, stundum hef ég lúmskt gaman að og hlæ að öllu saman, stundum fell ég í þunglyndi yfir hversu stutt á veg við erum komin. Eitt er ég sannfærð um - við getum leitað skýringa, fundið ástæður fyrir öllu. En það er ekki endilega víst að þær skýringar eða ástæður leiði sannleikann í ljós. Fyrir mér er sannleikurinn ljós. Fyrir mér er þetta svona einfalt. Samfélagið allt, konur og karlar líta kynin mismunandi augum:

Karlar njóta virðingar.

Konur ekki.

Til hamingju með daginn konur!

Höfundur er sannfærður jafnréttissinni í fjóra áratugi.